Vetnisbíllinn - Er hann á undan sinni framtíð?

Í dag er fjallað um vetnisbílinn í vefútgáfu New York Times.  Þar er reyndar verið að fjalla um nýjan vetnisbíl frá Honda; þ.e. Honda FCX Clarity. Svo virðist sem bíllinni geti ferðast allt að 270 mílum á einum tanki eða fyllingu af vetni en vetnistankurinn, sem staðsettur er á bak við aftursætið tekur 5,000 p.s.i. af vetni. Hann er sagður vera á stærð við meðalstóra ferðatösku.
Reiknað er með, að þegar allt kemur til alls þá minnki losun gróðurhúsalofttegunda um helming við notkun vetnisbíla, sem er mun meira en við notkun t.d. rafbíla þar sem meiri hluti rafmagns í USA er framleitt með því að brenna kolum. Sagt er að vélin í þessum bíl samsvari 2400 CC bensínvél, sem er alls ekki svo slæmt. Eini gallinn við bílinn er skortur á vetnisstöðvum þar sem menn geta "tekið" vetni. Er það ekki framtíðarverkefni fyrir okkur Íslendinga? Ljóst er að vetnisbílarnir eru þegar komnir á markaðinn og í fjöldaframleiðslu og þeir bíða nú bara eftir áfyllingum af hreinu íslensku vetni!

honda

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fylgir nokkuð sögunni hvernig reiknað er með að vetnið sé framleitt? Er það gert með rafgreiningu með rafmagni frá kolaorkuverum? Eða úr gasi? Sjá um framleiðsluaðferðir hér. Þagar bornir eru saman vetnisbílar og rafmagnsbílar þarf að huga að heildarnýtninni, frá orkuveri til hjóla.

Ágúst H Bjarnason, 29.12.2007 kl. 13:18

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Ein möguleg aðferð er að mynda vetni úr jaðgasi. Fyrirtæki í USA sem nefnist  H2Gen Innovations framleiðir nú tæki sem sagt er geta framleitt vetni úr jarðgasi (natural gas) í nægjanlegu magni til að það dugi "venjulegum" vetnisstöðum fyrir nokkrar bifreiðar.  Þessi tæki eru sögð komast fyrir á venjulegum vörubíl. Þeir halda því fram, að vetnið sem þeir framleiða innihadi um 70% af orku jarðgassins, sem þeir nota til framleiðsunnar, sem byggist á því að hleypa gufu á metan sameindir svo það gefi frá sér vetni og kolmónoxið sem er síðan sameinað vatni (H2O) og tekur upp súrefnisatóm vatnsins en á þann hátt myndast enn meira vetni (H2)! Einfalt ekki satt? Þeir hafa þarna náð að sameina tvo efnaferla með hugvitsamlegum hætti.

Súrefnið sameinast síðan komónoxíði og myndar þannig kolefnisdíoxið.

Júlíus Valsson, 29.12.2007 kl. 13:34

3 Smámynd: Júlíus Valsson

afsakið stafsetninguna ("fat fingers")

Júlíus Valsson, 29.12.2007 kl. 13:39

4 identicon

Það er ótrúlegt að ekki ein frétt hefur verið um bílinn í íslenskum fjölmiðlum vegna þess að íslendingar vilja vera í fremstu röð í þessum málum, því þetta er fyrsti fjöldaframleiddi vetnisbíllinn.  Hann er mjög vel heppnaður og bílablaðamenn eru mjög ánægðir með hann.  Einfaldlega mörgum skrefum fremri en þeir tilraunabílar sem eru hér á götunum.  Hægt er að lesa um bílinn og fara á tenglasöfn með því að skoða fréttir af honum á linknum fyrir neðan.  Fyrstu alvöru fréttir af bílnum eru 15 nóvember og síðan er fjöldi tengla þann mánuð með yfirferð blaðamanna: 

http://frontpage.simnet.is/oski.a/vtec/frettir2007.html

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 15:15

5 identicon

Sæll Júlíus,

Þakka þér fyrir að halda þessari vetnis umræðu á lofti hér á blogginu. Ég er þeirrar skoðunar eins og þú að vetnissamfélagið er eitthvað sem við Íslendingar ættum að marka okkur forystu hlutverk í.

Sem dæmi þá höfum við hér jarðhita-borholur sem framleiða rafmagn og í kaupbæti þá streymir upp úr þessum borholum brennisteins-vetni (það er það sem skapar þessa skelfilegu hveralykt). Þetta brennisteins-vetni flæðir nú upp úr þessum borholum beint út í andrúmsloftið án þess að verið sé að safna því saman og geyma það. Fleiri hundruð tonn á ári geri ég ráð fyrir.

Ég skora á Orkuveituna og Íslenska-nýorku um að sameinast um að búa til verkefni þar sem þessu brennisteins-vetni verður safnað saman og því síðan skipt í brennistein og vetni, það hlítur að vera til aðferð til þess skilja þessi efni frá hvort öðru. Ef ekki þá er það verðugt verkefni fyrir vísindamenn og konur okkar íslendinga! 

Spýtum í lófana og setjum alvöru fjármagn í þetta verkefni og tökum forystu! Orkuútrásin er síðan næsti víkingaleiðangur okkar eftir það.

Kær jóla og áramóta kveðja,

Umhugsun. 

Umhugsun (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 16:04

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Já, það fygir oft böggull skamrifi, eins og þar stendur.
"Hreina" orkan virðist ekki vera alveg eins hrein og af er látið. Það vandamál þarf auðvitað að leysa og það strax.

Júlíus Valsson, 29.12.2007 kl. 16:23

7 Smámynd: Júlíus Valsson

skamrif er skammað skammrif

Júlíus Valsson, 29.12.2007 kl. 18:20

8 Smámynd: Óli Jón

Við Íslendingar hreykjum okkur hátt og gumum af því að hér skuli svo margir vetnisbílar að teljandi sé á fingrum beggja handa, þ.m.t. svo gamlir strætisvagnar að hörgull er víst á varahlutum. Ef einhver þjóð getur gert vetnisdrauminn að veruleika þá erum það við, en fádæma framtaksleysi hefur orðið til þess að við erum nú eftirbátar smæstu bæjarfélaga á Norðurlöndunum í notkun vistvænnar orku.

Auðvitað eigum við að taka afgerandi forystu í þessum efnum með því að gefa eftir öll aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af þessum bílum til að byrja með. Það þarf að reisa 20-25 vetnisstöðvar í Reykjavík og meðfram hringveginum til að gera notkun þessara bíla raunhæfa. Ef við tökum af skarið getum við orðið sjálfum okkur nóg um eldsneyti innan einhverra ára fyrir utan þá vegsemd að verða fyrsta alvöru græna þjóðfélag heimsins! Þá erum við í kjöraðstöðu til að flytja út grænasta vetni heims sem gæti orðið verðmæt söluvara þegar fram líða stundir. Nú lýsi ég eftir heildarverðmæti innflutnings okkar á hefðbundnum orkugjöfum, en ég heyrði einhvers staðar að það nemi um 30 milljörðum árlega. Það munar um minna!

Jafnhliða þessu eigum við að flytja inn rafmagnsbíla á borð við hinn norska Think! bíl, en hann sést nú víða á götum Osló-borgar. Þetta er öndvegisbíll sem hentar prýðilega í innanbæjarakstrinum. Ég er á því að við ættum að íhuga mengunartoll innan ákveðins radíuss frá miðborg Reykjavíkur þannig að það verði enn meiri hvati til þess að slíkir bílar séu teknir í notkun. Hví ætti risajeppinn að hafa sömu stöðu og vistvænn rafmagnsbíll í þessu samhengi? Þeir sem kjósa að keyra um á auðu malbiki flest alla daga ársins ættu að greiða fyrir þann munað. Rafmagnsbíll á að vera svo ódýr að þeir sem kjósa einkabíl umfram almenningssamgöngur eiga að geta leyft sér að eiga einn slíkan með bílnum sem knúinn er með hefðbundnum orkugjöfum.

Ég minni loks á að hægt er að framleiða slíkt magn metan-gass hjá Sorpu að nægi til að knýja nokkur þúsund bíla. Bruni metan-gass í bílum er kolefnisfrír, þ.e. það yrði hvort eð er til vegna bruna þegar gasinu væri fargað með öðrum hætti. Sama vandamál plagar metanbílinn og vetnisbílinn; sorgleg fæð áfyllingarstöðva hamlar innleiðingu þeirra stórkostlega. Hins vegar hef ég bent á að ökumenn í tveggja bíla fjölskyldum sem fara daglega um austur/vestur ásinn (áfyllingarstöðin er við Ártúnsbrekkuna) geta haft annan bílinn sem metan-bíl og sparað þannig töluverðar fjárhæðir árlega. Ég prófaði slíkan bíl fyrir nokkru og fann það út að metangas á stóran 7 manna VW bíl kostaði um 700 krónur fyrir hverja 100 km. Þannig kostar eldsneyti fyrir 450 km. akstur rúmlega þrjú þúsund krónur.

Bíðum ekki eftir að dalurinn styrkist og verðið á olíufatinu hækki enn meira. Tökum forystu í nýtingu vetnis og metans, börnum okkar og barnabörnum til heilla!

Óli Jón, 30.12.2007 kl. 04:05

9 identicon

Ég vil benda Óla Jóni á að það eru reyndar nokkrir Think bílar á leiðinni til landsins á næsta ári, en það er eingöngu tilraunaverkefni og litlar sem engar líkur á því að almenningi áskotnist þannig bílar.

Think bíllinn kostar 2,3 milljónir án skatts í Noregi og auk þess þarf fólk að borga um 11.500 íslenskar krónur á mánuði í leigu á rafhlöðunum.

Við höfum fylgst vel með þeim og það verður gaman að sjá hvort þetta er eitthvað sem fólk er í alvöru til í að borga fyrir.

Ég held að það sé allavega nokkuð ljóst að hinir fjölmörgu einstaklingar sem hafa gert sér sérstaklega ferð í Reva-umboðið hjá mér til að kvarta yfir "of háu verði" á Reva-rafmagnsbílnum (sem kostar 1.489.000 krónur m/ vsk og engin rafhlöðuleiga) eigi ekki eftir að vera til í að borga 2,9 milljónir fyrir Think-bílinn. En það kemur allt í ljós.

En það er allavega hið besta mál að það séu sem flestir rafmagnsbílar á götunum. Á meðan vetni er framleitt eins og eina raunhæfa leiðin er í dag (með rafmagni) sjá náttúrulega allir að sú leið er bara kjánaleg þegar hægt er að nota rafmagnið beint.  En Júlíus - það er náttúrulega mjög spennandi ef fyrirtæki á borð við það sem þú nefndir ná að koma þessari aðferð á framfæri.  Það er bara svo ótrúlega langur vegur frá hugmynd til alvöru framleiðslu og dreifingu.  Ég veit t.d. um mann mann sem er kominn ótrúlega langt með að búa til litla rafmagnsgræju sem framleiðir vetni úr kranavatni, heima í bílskúr.  Spurning hvenær Olís, Shell og N1 setja leyniskyttu"contract" á þann gaur (-:

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband