Færsluflokkur: Dægurmál

Er risinn í Torfajökli að vakna til lífsins?

Torfa­jök­ull gaus síðast árið 1480 en það sama ár fæddist landkönnuðurin Ferdinand Magellan og Domenico Ghirlandajo málaði þá heilagan Jeremías með gleraugu, (en hann hefur síðan verið verndardýrlingur gleraugnasmiða)Jökullinn er nefndur eftir Torfa Jónssyni frá Klofa á Landi í Rangárvallasýslu, sem átti í stríði við marga og vann sér það m.a. til frægðar að taka Lénharð fógeta af lífi. Vegna drepsóttar sem upp kom flutist hann búferlum frá Klofa og upp á Landmannaafrétt rétt við Tofajökul.  


Ari Trausti segir þetta um Torfajökulsvæðið:

"Ein­kenni Torfa­jök­uls­meg­in­eld­stöðv­ar­inn­ar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar mynd­anir úr kís­il­ríku (súru) bergi. Sprungu­kerfi Bárða­bungu og norð­ur­hluti öskju Torfa­jök­uls skar­ast og gliðn­un­ar­hrinur í því fyrr­nefnda kalla fram óróa og jafn­vel eld­gos í því síð­ar­nefnda. Þannig var með jarð­eldana í kringum árið 100 og 877. Einnig 1477 en þá gaus hressi­lega þar sem nú eru Veiði­vötn (í Bárð­ar­bungu­kerf­inu) og í litlum mæli á Torfa­jök­uls­svæð­inu (m.a. rann þá Lauga­hraun). All­tíðar jarð­skjálfta­hrinur ganga yfir Torfa­jök­uls­svæðið og vísa til þess að við verðum að gera þar ráð fyrir eldsum­brotum fyrr eða síð­ar."


Torfajökulseldstöðin er um margt merkileg.  Askjan, sem er stærsta askja landsins nær yfir 200 fer­kíló­metra og er miðja hennar við Hrafntinnu­sker. Merki eru um gríð­ar­lega öflug þeytigos í kerf­inu sem hafa skilað allt að 20 km3. af gos­efnum. Angi úr Bárð­ar­bungu­kerf­inu teygir sig inn í Torfa­jök­uls­kerfið og hefur valdið end­ur­teknum kvikuinn­skotum í það. Kvika getur einnig borist úr vestri, úr Vatnafjallakerfinu, sem hugsanlega tengist Heklu. Atburðarrásin virð­ist endurtaka sig nokkuð reglu­lega á 6–700 ára fresti, fyrst um árið 100, síðan árið 870 og  síð­ast árið 1480 og ætti því að vera farið að stytt­ast í nýtt gos. Hugsanlegt er, að aukinn óróleiki í Bárð­ar­bungu und­an­farna tvo áratugi geti á end­anum leitt til öflugrar gos– og rek­hrinu á þessum slóðum. Mun Torfarisinn nú vera að vakna til lífsins öllum að óvörum? Það gæti vissulega orðið sögulegt...

torfi
Skjalftar í Torfa 3. ágúst 2017

heimildir:

http://www.eldgos.is/torfajokull
http://www.vedur.is/um-vi/frettir/bigimg/2239?ListID=0
http://www.snerpa.is/net/thj

https://kjarninn.is/skodun/eldgos-og-jardskjalftar

Þeim sem hafa áhuga á jarðfræði Torfajökulssvæðinu skal bent á ítarlega skýrslu Orkustofnunar frá 2001: Í Torfajökli 


Hættum að úða garða með eitri! Verndum býflugurnar

Þegar býflugan deyr, þá deyja blómin.

Tími garðaúðunar dauðans er að hefjast. Eiturpésar ganga um með eiturkúta og gasgrímur. Eiturgufur þrengja sér inn um glugga og gættir. Krakkar og kettir kasta upp, fullorðnum verður bumbult.

Skordýraeitrið heitir "permetrín". Það er eitrað fyrir menn og spendýr en banvænt fyrir nær öll skordýr; fiðrildalifrur, blaðlýs, maura, köngulær, allar flugur jafnt bý- sem hunangsflugur. Permetrín drepur allt líf í garðinum. Það drepur fiska og það getur valdið ofnæmi hjá fólki. Það strádrepur ketti. Það brotnar þó fljótt niður en er mjög öflugt á meðan það er virkt.

Eitrið drepur öll skordýr, jafnt gagnleg sem "ógagnleg".
Garðaúðun raskar lífríki náttúrunnar.
Garðaúðun er hryðjuverk gegn lífríkinu.

Mikil vandamál hafa skapast víða t.d. á Bretlandseyjum. Þar er hunangsflugan horfin. Býflugur eru að hverfa í Bandaríkjunum. Þetta veldur því að blóm og jurtir að ýmsum toga frjóvgast ekki lengur. Lífríkinu hefur hnignað stórlega.

Til eru aðrar einfaldar leiðir til að halda skaðlegum skordýrum í skefjum en garðaúðun með banvænu eitri. T.d, með því að velja réttar tegundir gróðurs í garða. Tryggja nægilegt vatn og næringu. Úða bara með vatni á vorin þegar fiðrildalifrur kvikna.

Verndum lífríki náttúrunnar. Sláum skjaldborg um hunangsfluguna.

humla
Heilbrigð humla að störfum

 

Áhugaverðir hlekkir:


Bumbebees in Crisis
The Honey Bee Crisis 
Um garðaúðun (Árni Davíðsson)
https://Xerces.org/pesticides/


Landakotsspítali - Landspítali - Sagan sem ekki má gleymast

Árið 1901 lá fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp um byggingu Landspítala með 24 sjúkrarúmum. Þingmenn voru ekki á eitt sáttir um byggingu spítalans (gisp!). Þá buðust fátækar nunnur af reglu heilags Jósefs til að reisa og reka spítala í Reykjavík með ákveðnum skilyrðum. Ekki leist mönnun á þær hugmyndir (gisp!) og var Landspítalafrumvarpið sömuleiðis fellt. Nunnurnar lögðu þó ekki árar í bát og með söfnunarfé sem Jón Sveinsson (Nonni) safnaði í Frakklandi, Belgíu og víðar til byggingar St. Jósefsspítala í Reykjavík, viðbótarsöfnunarfé og láni erlendis frá var hafist handa við byggingu spítalans. Hornsteinn að nýrri spítalabyggingu á Landakotshæð var lagður í lok apríl 1902 og var spítalinn vígður 16. október sama ár. 

Íslenska ríkið sveik á sínum tíma þann samning, sem gerður hafði verið við nunnurnar í Landakoti fimm árum áður en samningur ríkisins við þær rann út og flæmdu þær úr landi þó svo Landakotsspítalinn hafi á sínum tíma verið eina sjúkrahúsið sem rekið var með hagnaði (gisp!) hér á landi og eina kennslusjúkrahús landsins í yfir þrjátíu ár.

Þar með hófst Der Untergang hins íslenska heilbrigðiskerfis en að öllum líkindum þarf einhvers konar karmasérfræðing til að leiðbeina íslenskum ráðamönnum um það hvernig hægt er að snúa þeirri slæmu þróun við. Það verður ekki gert með auknum fjáraustri í kerfið eingöngu. 

Keep it Simple!
BB King

Landakot_700
St:Jósefsspítalinn Landakoti

Lambakjötsfjallið - Einföld lausn

Stjórnvöld áætla að eyða 100 milljónum í markaðssetningu á íslensku lambakjöti í útlöndum, svo ekki komi til verðlækkana á kjöti hér á landi. Íslenskir neytendur skulu borga fullt gjald fyrir lambalærið, hvað sem það kostar. 
Ef 100.000.000 krónurnar skila árangri þá á eftir að flytja kjötið til útlanda með ærum viðbótarkostnaði. Íslendingar eru jú bjánar upp til hópa, það vita menn.

En það er til einföld lausn á þessari vitleysu en það er "Lambakjötspassinn", sem einungis er ætlaður erlendum ferðamönnum hér á landi. Með passanum geta útlendingar keypt lambakjöt í verslunum og á veitingastöðum hér á landi á mun lægra verði en íslenskur almúgi. Þetta eykur ánægju ferðamanna, ferðamannastraumurinn til landsins eykst, kjötfjallið minnkar, gjaldeyrisforðinn stækkar, verslanir og veitingahúsin blómstra, gengið hækkar, skortur verður á lambakjöti sem hækkar verðið enn meira til landsmanna, ríkið sparar, ríkið græðir og allir verða aftur ánægðir, nema almenningur í landinu.  En það er aukaatriði.

Keep it simple!
BB King
 

345-bakad_lambalaeri_grasker_forsida
Lambalæri og meðlæti

 

   


Kratakrísa í Evrópu

Samfylkingin er horfin. Hún hvarf fyrir horn þar sem hún bíður nú eftir því að íslenska þjóðin óski eftir því að taka upp evru og ganga í ESB. Eitthvað sem þjóðin hefur aldrei beðið um. Það er afar undarlegt að hér á landi eru enn til stjórnmálaflokkar sem byggja stefnu sína á því að ganga í ESB. Mönnum er það fyrir löngu orðið ljóst, að ESB veitir ENGAR varanlegar undanþágur. Það er tálsýn.
Jafnaðarstefnan á undir högg að sækja í Evrópu, einkum á Ítalíu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og í Frakklandi, ef marka má skoðanakannanir. Jafnaðarmannaflokkurinn er að hverfa í Hollandi og í Póllandi komst flokkur krata ekki á þing. Eðalkratinn Martin Schulz er horfinn af Evrópuþinginu.   

Hægri stefnan virðist vera í mikilli uppleið í valdamestu ríkjum Evrópu, þ.e. í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Ítalíu og á Spáni. Ef fram heldur sem horfir verða Svíar eina fjárhagslega vel stadda ríkið í Evrópu þar sem jafnaðarmenn ráða ríkjum.

Margir jafnaðarmenn í Evrópu eru óánægðir með þá þróun, sem orðið hefur í milliríkjaviðskiptum einkum í sambandi við TTIP og CETA og aðhaldsaðgerðir og niðurskurð ESB og raðir þeirra tvístrast bæði lengra til vinstri og jafnvel til hægri. Velgengni hægri flokka í Evrópu er mest þar sem menn sjá atvinnuleysi, flóttamannavandamál og alþjóðavæðingu sem sína helstu ógn. 

Á Íslandi eru menn í eðli sínu upp til hópa kristilegir demókratar. Jafnrétti, bræðralag og frelsi eru okkar boðorð, þó með áherslu á frelsið.

Martin Schulz
Martin Schulz



 


Íslenska krónan - góður kostur fyrir fjárfesta

Íslenski fjármálamarkaðurinn er orðinn einn áhugaverðasti valkosturinn í heiminum fyrir erlenda fjárfesta.  Fjárhagur íslenska ríkisins stendur nú með miklum blóma á mörgum veigamiklum sviðum. Íslenska krónan er orðinn traustur gjaldmiðill á nýjan leik. Menn treysta krónunni.   

Búast má við, sé miðað við úrslit Alþingiskosninganna þ. 29. oktober s.l. að íslensk stjórnvöld muni halda áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið mörkuð til enn meiri fjármálalegs stöðugleika og hagsældar.  

Íslenska krónan hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki í þessu sambandi ekki síst í tengslum við vaxtamunaviðskipti og er því mikilvægt að aðhaldsaðgerðir stjórnvalda t.d. í banka- og gjaldeyrismálum skerði ekki þessa hagstæðu eiginleia íslensku krónunnar sem frjáls og óháðs gjaldmiðils.

krona

ref.
http://seekingalpha.com/article/4018879-worlds-investable-currency


Sýrland - Aleppo brennur

Hvers vegna brennur Aleppo?
Stríðið í Sýrlandi hefur nú staði í um fimm ár. Það er erfitt að gera sér fyllilega grein fyrir því hvers vegna Rússar halda áfran að murka lífið úr íbúum Aleppo með aðstoð ríkisstjórnar Bashar al-Assads. Fyrir þessum atburðum eru þó margar ástæður, bæði stjórmálalegar og hernaðarlegar. 

Aleppo
Aleppo hefur í margar aldir verið stærsta borg Sýrlands og þriðja stærsta borg ríkis Ottómana. Þar búa rúmlega tvær milljónir manna og fyrir styrjöldina, sem nú geysar þar var hún mesta viðskiptaborg landsins. Saga borgarinnar nær aftur til 5000 f.Kr. og hafa mörg hverfi borgarinnar verið nær óbreytt frá 12. öld þ.e. frá þeim tíma, er Íslendingar hófu að rita Íslendingasögurnar. Íbúar borgarinnar eru flestir Súnnítar. Borgin hefur verið á valdi uppreisnarmanna í Sýrlandi og því yrði það bæði hernaðarlegur og um leið sálfræðilegur sigur fyrir stjórn Assads að ná borginni aftur á sitt vald. Hernaður Assads gengur út á það að einangra einstök svæði, sem eru á valdi uppreisnarmanna og einbeita sér að þeim fremur en að hefja allsherjarárás á þá.      

Rússar og Sýrlendingar hafa verið bandamenn frá 6. áratug síðustu aldar. Þetta samband styrktist á 8. áratugnum þegar faðir Bashar al-Assads, Hafez al-Assad komst til valda. Rússar vilja viðhalda þessu trausta sambandi þjóðanna. Vesturveldin steyptu Gaddafi af stóli í Lýbíu árið 2011 og Rússar vilja koma í veg fyrir að þeir atburðir endurtaki sig í Sýrlandi og hindra að Bandaríkjunum takist að koma stjórnum fleiri ríkja frá völdum. Þeir líta á þátttöku vesturveldanna í stríðinu eingöngu sem viðleitin þeirra til að koma stjórn landsins frá völdum fremur en hernaðaríhlutun af mannúðarástæðum.

Eina herstöð Rússa við Miðjarðarhafið er í Sýrlandi. Þar er bæði herflugvöllur og höfn fyrir herskip. Stefna Rússa er að hafa herstöðvar sem víðast í heiminum eins og í kalda stríðinu og var nýlegt hernaðarbrölt þeirra á Krímskaga liður í þeirri þróun.

Baráttan gegn hryðjuverkasamtökum. Pútín telur að ef stjórnarskipti yrðu í Sýrlandi myndi það leiða til útbreiðslu íslamskra hryðjuverkasamtaka. Þess ber þó að geta að með því að ganga til liðs við Assad þá ganga Rússar um leið til liðs við Íran og Hizbollah, sem stjórnað er af Sjíta-múslimum. Það getur aftur leitt til árása á þá frá hryðjuverasamtökum Súnníta, svo sem íslamska ríkinu. Það er því ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni.

Hvar endar þetta? 

Þáttaka Rússa í stríðinu í Sýrlandi getur haft slæm áhrif á annars gott samband þeirra við önnur ríki í miðausturlöndum svo sem Ísrael, Egyptaland og Tryrkland. Þetta, ásamt háum útgjöldum til hernaðarins svo og fall rússneskra hermanna getur haft áhrif á ákvarðanir Rússa um áframhandandi stríðsrekstur í Sýrlandi. 

Pútín heldur þó áfram að kasta sprengjum á Aleppo, þrátt fyrir ályktanir Sameinuðu þjóðanna og getur Aleppo því auðveldlega þróast í nýtt Rwanda eða Srebrenica

HI282020250

Sheraton hótelið í Aleppo

ref.
Svenska Dagbladet
The Guardian
Al Jazeera
The Independent


Öflugur sólstormur skellur á jörðinni

Öflugur sólstormur skellur á jörðinni í dag (Geomagnetic storm >700 km/s, Class G1 and G2). Helst er talið að þetta geti haft áhrif á gervihnetti og háspenukerfi standi hann lengi svo og á ferðir farfugla. Einnig hafa norðurljósin verið óvenju öflug í gær og verða það áfram í kvöld og hefur Reykjavíkurborg ákveðið að slökkva á götuljósunum að þessu tilefni, sem fer vel.

Svo er bara að vona að sólin okkar breytist ekki strax í "hvítan dverg".

Magnetosphere_rendition
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Sjá nánar hér:

 

Korka frá Miðhrauni er besti íslenski smalahundurinn 2016

Smalahundafélag Íslands stóð fyrir Landskeppni smalahunda dagana 27. og 28. ágúst að Bæ í Miðdölum. Dómari var Bevis Jordan, en hann er starfandi sauðfjárbóndi og reynslubolti þegar kemur að smalahundum og bauð hann upp á námskeið og leiðsögnfyrir dagana á undan, fyrir þá sem eru að temja fjárhunda á Snæfellsnesi.

Keppt í þremur flokkum:
– A-flokkur, opinn flokkur og fyrir þá hunda sem hafa fengið 50 stig eða meira í B-flokki.
– B-flokkur, fyrir hunda 3 ára og eldri sem ekki hafa náð 50 stigum í keppni.
– Unghundaflokkur, fyrir hunda yngri en 3 ára
.


Keppnin í A flokki var gífurlega hörð, bæði smalar og fjárhundar sýndu glæsileg tilþrif þrátt fyrir sauðfé, sem hvorki var mjög hundvant né auðvelt í meðförum (les: ekki geðgott.) Aðeins munaði 1 -2 stigum á 1. og 2. sæti. Til svona keppni geti gengið upp þarf a.m.k. 60 - 70 kindur sem ekki er svo auðvelt að útvega á þessum árstíma.   

Úrslitin urðu eftirfarandi:

- A- flokkur: 
1. sæti: Korka frá Miðhrauni (5 ára). Smali: Svanur Guðmundsson

2. sæti: Frigg frá Kýrholti (3jaára). Smali: Aðalsteinn Aðalsteinsson

3. sæti: Karvel Taff frá UK (8 ára). Smali: Gunnar Guðmundsson

- B - flokkur:
Sigurvegari: Þristur frá Daðastöðum (4 ára). Smali: Brynjar Hildibrandsson
2. sæti: Kobbi frá Húsatóftum IIa (4 ára). Smali: Brynjar Hildibrandsson.
3. sæti: Tinna frá Stokkseyri (6 ára). Smali: Björn Viggó Björnsson.

Unghundaflokkur:

Sigurvegari: Píla frá Húsatóftum II (18. mánaða). Smali: Aðalsteinn Aðalsteinsson 

2. sæti: Elsa frá Hallgilsstöðum (19 mánaða). Smali: Maríus Snær Halldórsson.
3. sæti: Mist frá U.K. 32ja mánaða. Smali: Kristinn S. Hákonarson. 
 

smali_2_2500

Korka frá Miðhrauni

 

smali_3_2500
Sigurvegarar í A flokki
 smali_4_1500
 Samvinna Korku og Svans vakti mikla athygli

 

 


Pólitískur tvískinnungur eða einelti?

Stjórnmálaumræðan á Íslandi er merkileg.

Á milli kosninga hvetja þingmenn til aukinnar samvinnu á öllum sviðum, innanlanda sem erlendis, án allra fordóma. Hin ýmsu þjóðríki samanstanda jú af fólki og þingmenn virðast ekkert hafa á móti fólki af mismunandi uppruna, jafnvel þeim sem aðhyllast hin ýmsu trúarbrögð og margvíslegar skoðanir, þó svo þær samrýmist ekki alltaf okkar eigin.
Við viljum taka á móti flóttafólki með opnum hug sama hvaðan þeir koma. Við viljum ganga í EFTA, SHENGEN, NAFTA og jafnvel ESB (og skrifa undir TISA) og ávallt vinna þar með öllum og undanskiljum ekki einstök lönd. Það væri rangt. Þetta er jú fólk. Fólk þarf að vinna saman eins og Guðni Th. benti réttilega á nýlega. 

Og þetta viðhorf selur.   

Þegar nálgast kosningar breytist tónninn. Það vekur furðu hve mörgum hinum sömu þingmönnum þykir þá sjálfsagt að lýsa því yfir í fullri alvöru að þeir munu aldrei vinna með ákveðnum stjórnmálaflokki eða flokkum þó svo þessir stjórnmálaflokkar samanstandi bara af fólki, oft með mismunandi skoðanir og lífssýn og vilji öllum vel og eru sáralík okkur hinum.

Og þetta viðhorf selur. Eða hvað? 

Einelti_bæklingur_forsida_1296975997


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband