Færsluflokkur: Matur og drykkur
25.2.2007
Að fá í kjammann...
..er ekki það sama og að fá á kjammann.
Þar sem ég er sparsamur maður og gætinn í fjármálum var ég enn ekki búinn að ráðstafa Jólabónusnum mínum frá fyrra ári. Var reyndar að hugsa um að kaupa ríkisskuldabréf eða að reyna að ná í gömul bréf frá Oz, sem ég hef ávallt talið vera vænlega fjárfestingu. Vil helst ekki kaupa bréf í DeCode (segi ekki af hverju) eða í Flugleiðum Grúpp þar sem mér er illa við þá. Það er allt of þröngt í flugvélunum þeirra og þeir okra á okkur ríka og fræga fólkinu, sem velur að ferðast einungis á SagaKlass. Nóg um það í bili. Það er kannski ekki við þá að sakast, semkeppnin er orðin svo mikil.
Ákvað í staðinn að bjóða konunni og krökkunum út að borða! Ég veit að það er ekki skynsamlegt að eyða peningunum sínum í svona bruðl en lét mig hafa það í þetta skiptið. Við þekkjum vel til alls kyns matargerðar eftir ferðalög á fjarlægðar slóðir í gegn um tíðina og má segja að við höfum þróað með okkur frekar "útlenskan" smekk á mat. Við erum sjáldan sammála um nokkurn hlut en nú vorum við þó sammála um að reyna eitthvað þjóðlegt. Við söknuðum þjóðlegra rétta. Og viti menn, við vorum einhuga um að fara á Umferðarmiðstöðina og borða á "Kjamm-Inn". Þvílíkur lúksus! Ekta íslenskar kótilettur með raspi, með rauðkáli og sykruðum kartöflum. Og með þessu má velja feiti eða sósu! Nammi! Namm! Það var engu líkara en að maður væri kominn á Matstofu Austurbæjar á Laugaveginum árið 1975 eða á Hotel KEA árið 1981 eða bara heim til mömmu! Mæli eindregið með þessu, jafnvel fyrir svona heldra fólk eins og okkur, sem viljum helst borða í útlöndum eða á SagaKlass. Þetta er eins konar Nostalgíumatseðill sem þeir eru með þarna á Umferðarmiðstöðinni á Kjamm-Inn. Frábært framtak!
Ekki skemmdi fyrir, að á meðan við vorum að kjamma í okkur kótiletturnar (ég fékk mér reyndar einnig eina flatköku með hangikjöti) þá gátum við virt fyrir okkur frábært eintak af Farmall Super H dráttarvél líklega 1954 módel, sem stendur þarna á miðju gólfinu. Mér sýndist mér þetta vera 1954 módelið fremur en 1953 þar sem rafgeymirinn er undir sætinu. Þessi gerð var einnig með glussakerfi og var kraftmeiri en 1953. Þessir tractorar voru algengur hér á landi áður en Ford og Fergusonæðið tók við. Þeir voru framleiddir í USA af fyrirtækinu International Harvester, sem stofnað var árið 1924 og var þessi týpa framleidd frá árinu 1952. Líklega var þetta með fyrstu dráttarvélunum, sem voru með diskabremsum. Ekki þekki ég sögu þessarar vélar á Kjamm-Inn, en hún hefur væntanlega verið upp á sitt besta á bítlaárunum. Mjög fallegt eintak!
Ef krakkarnir eru í fýlu út í þjóðlega rétti þá geta þeir einnig fengið sér alþjóðlegan mat með transilvaníufitu að hætti Möggu. En það jafnast ekkert á við lambakótiletturnar á Kjamm-Inn. Við mælum eindregið með þeim. Með malti og appelsíni. Eins og einhver sagði: "Þetta svínvirkar!"
Við gengum út í kvöldhúmið södd og ánægð eftir máltíðina. Þegar ég kom út sá ég Flugleiða Grúpp þotu fljúga framhjá tunglinu og ég velti því fyrir mér hvað vinir mínir á SagaKlass væru nú að borða.....
Matur og drykkur | Breytt 26.2.2007 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)