21.1.2010
Að einfalda hið flókna
"Það er sem er erfiðast við að skrifa, er að láta allt líta út fyrir að vera svo auðvelt", segir Paul Auster í nýlegu viðtali í tilefni af útkomu bókar sinnar "Invisible", sem er hans 13. skáldsaga og sem margir telja vera eina af hans bestu bókum ef ekki þá allra bestu.
Eins og margir óvirkir bókaormar heyrði ég fyrst talað um Auster um haustið 2005 er hann gisti hér á Skáldanótt. Hann svaraði þá fyrirspurnum Torfa Tuliniusar í Norræna húsinu og áritaði bækur sínar í Bókabúð M&M á Laugaveginum og las úr verkum sínum á gömlum leikhúsfjölum við Tjörnina.
Paul Auster er merkilegur rithöfundur. Við fyrstu sýn virðast bækur hans ákaflega óspennandi og hversdagslegar en þegar haldið er á, þá gerist einhver galdur, textinn hverfur og sagan stendur eftir, ein og óstudd. Þegar lestrinum lýkur, átta menn sig á því að einhver brögð eru í tafli og hefja þá lesturinn að nýju til þess að sjá í gegn um galdurinn. Þá opnast nýjar víddir og hliðargötur og menn eru engu nær. Einungis tónn sögunnar verður eftir. Sagan verður því eins og tónlist, sem skapar ákveðna stemningu, þar sem nóturnar þvælast ekki lengur fyrir. Auster lætur ekki góma sig, hann verður ósýnlegur.
Mæli eindregið með þessari nýju bók meistarans sem er þrískipt þ.e. þriggja-sögumanna-bók, sem Auster vefur saman á listilegan hátt. Þar koma fram margir sterkir en afar kynlegir kvistir. Hún er í senn spennandi og djörf og margslungin i einfaldleik sínum.
Hið enifalda er oft of flókið til að hægt sé að flækja það enn meira.
"Keep it Simple"
BB King
Hér er áhugaverð umfjöllun í The New Yorker
Athugasemdir
Amadeus hefst á því, að Salieri lýsir því, þegar hann varð frá sér numinn af einum tóni í tónverki Mozarts, óbóinu, sem hékk eða öllu heldur sveif á fegurðarbeði án enda. Síðar í sömu mynd atyrðir keisari þeirra Habsborgara Mozart fyrir "of margar nótur" í Brottnáminu úr kvennabúrinu. Mozart lét sér fátt um finnast og ég efast um að höfundur Amadeusar hafi áttað sig á þeim andstæðum, sem hann var að efla fram.
Brögð listarinnar felast einmitt í því að búa svo um hnúta verksins, að hvorki sé neinu vant né ofaukið. Orð og nótur eru verkfæri hugans til að skapa hið sérstaka fyrir aðra að forvitnast og dást.
Orð geta verið eins og tónverk en margt af því tagi er t.a.m. að finna hjá HKL. Þá taka orðin og samstaða þeirra á sig sjálfstæða mynd eða gervi hljómkviðu, sem fer eftir innri lögmálum og fær líf úr höfundarins hendi þrátt fyrir allt annað, sem í sögunni býr. Með því fórnar höfundurinn sjálfstæði hugverks síns, sem verður fyrir vikið háð umbúðum sínum. Ef til vill er ástæða þessa syndafalls kaldlyndi, sem lesa má um í samræðum Sigurðar Nordal og Ragnars í Smára í nýútkominni bók Jóns Karls Helgasonar.
Mér sýnist að Auster hafi tekist galdur kjarnans hvað þig varðar og þessa bók, sem þú minnist á.
Sigurbjörn Sveinsson, 21.1.2010 kl. 23:17
Vel orðað.
Júlíus Valsson, 21.1.2010 kl. 23:40
Alveg Magnaður Andskoti!
Fjelag islenzkra magnaravarða, 22.1.2010 kl. 00:23
Ég hef aldrei heyrt um þennan Paul Auster en ég tók þig á orðinu og pantaði hana í plasttöfluna mína þar sem hún bíður eftir því að verða lesin.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.