Íslendingar eru skynsöm þjóð. Við höfum löngum talið okkur til þeirra, sem helst hvetja til og stuðla að framþróun og framförum á ýmsum sviðum. Tæknin er okkur afar hugleikin. Hér á landi býr vel menntuð þjóð með ríka réttlætiskennd. Sannleikurinn, þó það sé heimspekilegt hugtak, er hér á landi mikilvægur gjaldmiðill í samskiptum manna. Án sannleikans erum við lítils virði. Án sannleikans er allt í plati. Tæknilega séð.
Margir muna eftir vetnisvæðingunni svonefndu. Hrein orka fallvatnanna skyldi virkjuð til að framleiða vetni, sem notað yrði til að knýja farartæki ýmiss konar. Græn orka, engin mengun, hljómar mjög vel. Vetnisstöðin við Suðurlandsveg var opnuð almenningi við hátíðlega athöfn í nóvember 2007. Atburðurinn vakti talsverða athygli fjölmiðla og sá Reuters fréttastofan ástæðu til að vera með sérstaka umfjöllun um málið. VIDEO |
Um tíma spókuðu sig á götum Reykjavíkur glæsilegir strætisvagnar knúnir vetni. Mengunarlaus strætó virðist auðvitað góður kostur. Enginn reykur, enginn koltvísýringur, engin lykt, enginn mengandi útblástur, einungis hreint vatn. Nú eru þeir algjörlega horfnir af götunum og enginn veit af hverju. Dæmið gekk ekki upp að því er virðist.
Þegar vetnisbílar eru skoðaðir nánar kemur í ljós, að vetnið er framleitt með rafgreiningu þ.e. rafmagn er notað til að framleiða vetni. Vetnið er aftur notað til að búa til raforku. Vetnisbílarnir voru þá þegar allt kom til alls ekki knúnir af vetni heldur raforku. Hverjum hefði dottið þetta í hug? Vetnisbíllinn notar því í raun rafmagn til að komast áfram. Þá vaknar ný spurning?
Hvers vegna ekki að nota rafmagnið beint á bílinn og losna við vetnið sem millistig og það orkutap sem óhjákvæmilega á sér stað við það (allt að 40%)? Ljóst er, að nýlegir rafbílar nota litla rafgeyma eða rafhlöður, sem eru sambærilegar við þær sem fartölvur nota (einungis stærri) og hægt er að aka venjulegum fólksbíl allt að 400 km á einni hleðslu. Rafhlaðan er því ekki lengur nein fyrirstaða. Hvers vegna eru þá vetnisbílar enn inni í myndinni? Hvers vegna eru vetnisbílar á Íslandi kallaðir "rafbílar" af yfirvöldum. Er vetnið enn sett ofar sjálfu rafmagninu, sem við eigum þó nóg af? Er etv. ástæða til að gefa vetnisbólunni smá straum svo hún springi? Bólur geta verið til ama.
Þetta er áhugaverðar spurningar einkum fyrir þjóð sem setur sannleikann ofar öllu.
ps
Það er engin ástæða til að hætta að framleiða vetni. Við getum selt það þeim, sem ekki hafa aðgang að nægu rafmagni og sem vilja nota vetnisbíla. Þeir hinir sömu myndu varla kalla slíka bíla "rafbíla". Eða hvað?
Áhugaverðar síður:
http://agust.net/vetni/
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/616428/
Athugasemdir
Vilji maður sóa stærstum hluta orkunnar, þá er kjörið að nota vetni til að knýja bílana.
Sprakk ekki bólan þegar menn áttuðu sig á þessari orkusóun?
Gamalt blogg:
Vetni eða rafgeymar sem orkumiðill bifreiða?
Ágúst H Bjarnason, 26.2.2010 kl. 17:04
Það er langt síðan að menn áttuðu sig á þessu, og það er einmitt þess vegna sem þetta hefur ekki náð neinni útbreiðslu. En vegna athyglissýki og tækniblindu stjórnmála- og embættismanna, að meðtöldum forsetanum, hefur þessari bólu verið haldið við í staðinn fyrir að einbeita sér alfarið að rafbílum.
Og nú hefur þróunin á sífellt betri rafgeymum fyrir rafbíla gert það að verkum, að það getur enginn lengur verið hlynntur hugmyndinni um vetnisknúnar bifreiðar. Nema ef vera skyldi heimskir ráðherrar.
Vendetta, 26.2.2010 kl. 19:18
Rafbílar eru ágætir þar sem þeir eiga við.
Þeir geta þó aldrei komið í stað bensín- og dísel bíla, hvort heldur þeir eru með rafhlöðum eða framleiða rafmagnið úr vetni. Þó er vetnisútgáfan ögn skárri.
Bílaframleiðendur eru nú frekar farnir að horfa til METAN knúinna bíla. Kostirnir við þá umfram rafbíla er óumdeilanlegur.
Þar að auki er lítið mál að breyta bensín- og dísel bílum yfir í metan. Það þarf þá ekki að skipta út öllum bílaflotanum, sem gerir það að verkum að við gætum skipt yfir í hreinna og innlennt eldsneyti á mun styttri tíma.
Það vantar bara vilja stjórnvalda til.
Gunnar Heiðarsson, 26.2.2010 kl. 23:15
Það virðist nákvæmlega ekkert vera að gerast í þessum málum, nema ef vera skyldi að menn ákváðu að vetnisbílar skuli framvegis skilgreindir sem rafbílar.
Kosturinn við rafbílar er einkum sá að þar er t.d. enginn gírkassi og því mun færri hlutir, sem geta bilað.
Júlíus Valsson, 27.2.2010 kl. 23:28
Það þarf tvisvar til þrisvar sinnum meira rafmagn til að búa til vetni fyrir vetnisbíl en að keyra bílinn á rafmagni. Það eru mörg geymslu vandamál með vetnið. Einn kostur sjá þó olíulindaeigendur, að það er ódýrara að búa til vetnið úr olíu. Á meðan við höldum öllum uppteknum við að stússa í vetninu, eru minni líkur að við skoðum rafbílin á meðan.
samtíningur
http://www.herad.is/0/z/rafbilar.htm
Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 20:58
Góð samantekt Jónas
Júlíus Valsson, 28.2.2010 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.