26.5.2010
Að fara alla leið
Mörgum verður um þessar mundir tíðrætt um ferðir. Rætt er og ritað um ferðalög, vegferðir og göngur. Stöðnun er bannorð, allt þarf að hreyfast, ganga eftir. Fáir fara þó alla leið. Margir hætta við eða snúa við á miðri leið. Það þarf kjark og þrautseigju til að fara leiðina á enda. Leika leikinn til fulls. Hálfkák er algengt. Færa má rök fyrir því, að góður undirbúningur ferðar skipti jafnvel meira máli en ferðin sjálf, hvað þá ferðalokin. 


Í erindi Sigurðar Norðdals, Ferðin, sem aldrei var farin segir Marcus Árelíus við hinn unga Lucius, sem eytt hafði öllum kröftum sínum og hæfileikum í undirbúning fyrir ferðina miklu:
Þú hefur búið þig vel og drengilega undir þá ferð sem keisari þinn kvaðst hafa fyrirhugað þér. Þú stendur nú frammi fyrir mér albúinn til þess að færast hverjar þær þrautir í fang, sem þér kunna að bera að höndum. Þú hefur gert þína skyldu. Nú á eg eftir að gera mína: að leysa þig frá þessari kvöð. Ferðin, sem eg talaði um, verður aldrei farin.

Menn eru misvel undirbúnir fyrir verkefni og ferðalög. Það er skynsamlegt að gæta að, hvernig undirbúingi er háttað því það getur í raun skipt meira máli en það hvort menn náðu leiðarenda . Við tökum ofan fyrir þeim, sem leika leikinn til fulls, reyna að ná alla leið. Vel undirbúnir. Af eigin verðleikum.
Keep it Simple
BB King
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.