1.7.2010
Skammtapólitík
Það getur verið mjög erfitt fyrir okkur leikmenn að átta okkur á skammtafræðinni. Þar er nefnilega ekki á vísan að róa. Flestir vilja að sá heimur sem við lifum og hrærumst í sé þekktur og sæmilega stöðugur og helst fyrirsjáanlegur. Þetta er auðvitað óskhyggja. Raunveruleikinn er annar.
"Þegar ég heyri kött Schrödingers mjálma, gríp ég til byssunnar", er haft eftir eðlisfræðingnum kunna Stephen Hawking*. Schrödinger þessi hafði sett fram þá undarlegu kenningu að ef líf kattar í lokuðum kassa væri undir því komið, hvort ákveðin geislavirk eind með vissan helmingunartíma klofnaði eða ekki á tilsettum tíma, þá er ógjörningur að vita fyrirfram (þ.e. áður en gáð er ofan í kassann) hvort kötturinn væri lífs eða liðinn. Hið undarlega er, að skv. kenningunni gæti kötturinn verið dauður, sprelllifandi eða hálfdauður. Og ekki nóg með það, kötturinn gæti verið þetta allt samtímis.
Stjórnmálamenn nútímans virðast gera sér fulla grein fyrir þessu nytsama lögmáli. Það er hægt að ganga í ESB, ganga ekki í ESB eða hvoru tveggja eða að hálfu leyti. Menn bjarga heimilunum, bjarga smá og bjarga þeim ekki. Það er hægt að fara eftir dómi Hæstaréttar, fara ekki eftir Hæstarétti eða að hálfu leyti eða blanda þessu saman á dásamlega heimskulegan hátt.
Stjórnmálin fylgja því að fullu lögmálum skammtafræðinnar. Það er því ekki á vísan að róa.
*Stephan Hawking var þarna reyndar að gera grín að ljóðskáldi Nazista Hanns Johst og í fyrstu útgáfu kenningar Schrödingar var kötturinn drepinn með byssu.
Keep it simple
BB King
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.