3.12.2010
Arsenik, einum ragn, öðrum gagn
Arsenik er eitur. Í nógu stórum skömmtum drepur það lífverur. Þó ekki allar. Nú hafa bandarískir vísindamenn fundið bakteríur; GFAJ-1, sem tilheyra stofni Halomonadaceae baktería af ætt Gammaproteobakteria, sem nýta arsenik í stað fosfórs í líkama sínum. Þessar bakteríur fundust í seti stöðuvatnsins Mono Lake í Kaliforníu. Þessar bakteríur eða svipaðar hafa reyndar verið þekktar undanfarin tvö ár eða svo.
Fosfór er uppistaðan í erfðaefni okkar, DNA og RNA. Allar þekktar lífverur nota þar að auki orkuríkt fosfórsamband, ATP, sem er nokkurs konar lífræn rafhlaða. Arsenik er beint undir fosfóri í lotukerfinu svo þessi efni hafa svipaða efniseiginleika, þótt efnafræði þeirra sé of ólík til þess að arsenik geti leyst fosfór af hólmi í flestum lífverum. Eitrunaráhrif arseniks eru vegna truflandi áhrifa þess á ATP og aðra þætti í orkuflutningi frumanna einmitt vegna þess hve arsenik er líkt fosfór að efnafræðilegri uppbyggingu. Einnig hefur það skaðleg áhrif á fosfólípíð, sem eru í frumuhimnum. Blæðingar frá slímhúð er eitt af einkennum arsenikeitrunar.
Þessi uppgötvun þó einföld sé, kann að hafa gífurleg áhrif á skoðanir manna á lífi í alheiminum. Nú hafa vísindmenn komist að því að lífverur geta haft allt aðra uppbyggingu en þá, sem hefur fram að þessu verið kennd í kennslubókum. Enn fleiri möguleikar kunna því að fyrirfinnast í alheimnum. NASA hefur verið að læðupúkast með rannsóknir á þessum bakteríum og marga grunar að þeir hafi nú uppgötvað líf á öðrum hnöttum en sú ekki enn reiðubúnir til að greina frá því. E.t.v. eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli. Geimverufræðingar gleðjast mjög þessa dagana.
Keep it Simple
BB King
ref.
http://www.nasa.gov/topics/universe/features/astrobiology_toxic_chemical.html
http://stjornuskodun.blog.is/blog/stjornuskodun/entry/1122015/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.