26.5.2012
Hvar er Magnús Hlöðulás?
Er gröf Magnúsar Hlöðuláss hrein sögufölsun?
Magnus Ladulås (Magnús III) var konungur Svía frá 12751290. Hann var fæddur um 1240 og var sonur Birgis jarls, sem er talinn vera stofnandi Stokkhólmsborgar, höfuðborgar Svíþjóðar.
Magnús konungur dó árið 1290 og var grafinn í Riddarahólmskirkjunni í Skokkhólmi. Eða svo héldu menn a.m.k. þar til nýlega.
Meint gröf Magnusar Ladulås í Riddarholmskyrkan |
Rannsóknir sem gerðar voru fyrr á öldum höfðu bent til þess að gröf Magnúsar væri líklegast tóm. Árið 1915 þegar unnið var að endurbótum á Riddarahólmskirkjunni var gröfin opnuð og komu þá í ljós a.m.k. tvær hvelfingar hlaðnar úr múrsteinum hver niður af annarri og undir þeirri neðri voru tvær trékistur og samtals sjö beinagrindur (af tveimur konum og fimm karlmönnum).
Magnús dó fimmtugur og skv. þessari rannsókn árið 1915 var hann síðustu árið orðinn hrumur og illa farinn af ýmsum kvillum og sjúkdómum líklega hjarta- og lungnasjúkdómi, sem hafði haft áhrif á beinagrind hans þ.e. beinvöxt.
Á miðöldum var ekki óalgengt að endurnýta grafir og grafhvelfingar og hafði það verið gert hér sex sinnum. Fornleifafræðingar voru ekki í vafa um að ein beinagrindin (sú fimmta í röðinni) væru líkamsleifar Magnúsar Hlöðuláss. Beinagrindurnar voru settar í átta nýjar koparkistur, sem komið fyrir í grafhvelfingunni. Í áttundu koparkistuna voru lögð bein, sem menn gátu ekki greint nákvæmlega hverjum tilheyrði og einnig bein af ungabarni, sem fannst í gröfinni.
Uppdráttur frá 1915 |
Árið 2002, á 750 ára afmæli Stokkhólmsborgar fóru menn að róta í gröf Birgis Jarls, sem talin var vera í Varnheimsklaustrinu í Skövde ekki langt frá Gautaborg. Árið 1920 höfðu menn fundið gröf undir klausturgólfinu og lágmynd af Birgi jarli og frú, sem þótti passa vel við beinagrindurnar. Beina- og DNA rannsóknir virtust benda til þess að beinagrindurnar tilheyrðu Birgi Jarli, seinni eiginkonu hans og syni frá fyrra hjónabandi. Þessar rannsóknir þóttu þó ekki fullnægjandi og þurfti því DNA sýni úr nákomnum afkomenda í beinan ættlegg til frekari staðfestingar á að um rétta einstaklinga væri um að ræða. Árið 2010 á 800 ára afmæli Birgis Jarls var því ákveðið að taka DNA sýni úr líkamsleyfum næstelsta syni Birgis Jarls þ.e. sjálfum Magnúsi Hlöðuláss, sem talinn var hvíla undir gólfi Riddarahólmskirkjunnar í Stokkhólmi.
Hvað býr hér undir? |
Þ. 12. apríl 2011 var gröf Magnúsar Hlöðuláss í Riddarahólmskirkjunni opnuð á nýjan leik. í ljós kom að koparkisturnar frá 1916 (í heimildum er ýmist talað um 6 eða 8 koparkistur) voru í mjög góðu ástandi. Beinarannsóknir leiddu í ljós að um var að ræða beinagreindur af sjö fullorðnum einstaklingum og tveimur börnum.
Koparkisturnar í grafhvelfingunni |
Ein beinagrindin þótti mjög líkleg til að vara líkamsleifar Magnúsar Hlöðuláss. En það kom babb í bátinn. Kolefnisaldursgreining (C-14) leiddi í ljós, að þessar beinagrindur voru 200 árum yngri en talið var. Þær voru frá 15. eða 16. öld (c:a 14301520) en Magnús Hlöðulás hafði látist árið 1290. Menn klóruðu sér í höfðinu en þessar aldursákvarðanir eru mjög nákvæmar og lék því enginn vafi á því að beinagrindurnar gátu ekki verið frá 1290. Hvar er þá gröf Magnúsar Hlöðuláss?
Þessi tekur vinnuna með sér "í gröfina" |
Menn voru ekkert á því að gefast upp og hófust því handa við að opna næstu gröf í kirkjunni, sem tilheyrir Karli Knútssyni bónda þ.e. af Bonde-ætt, sem var konungur Svíþjóðar frá 1448 -1470 með hléum og konungur Noregs og Íslands (Karl 8. 1449-1450). Í þeirri gröf fundust bein samtals sjö einstaklinga. Gröfin hafði verið opnuð árið 1915 og fundust þá nokkrar beinagrindur í gröfinni en menn höfðu þá mestan áhuga á þremur beinagrindum, sem þeir töldu tilheyra Karli konungi og ættmönnum hans en höfðu engan áhuga á hinum. Nú beindist athygli manna að þessum beinum sem lágu undir beinum Kars og fjölskyldu hans. Það er nefnilega söguleg staðreynd að Karl Knútsson, bóndinn, sem þrisvar varð konungur reyndi ítrekað sögufölsun með því að halda því fram að hann væri skyldur Magnúsi Hlöðulási konungi. Lék því viss grunur á því að hann hafi látið grafa sig í sömu gröf og Magnús "frændi" til að sýna fram á ættgöfgi sína og tryggja enn frekar veldi sitt. En viti menn... öll beinin voru frá 15. öld ...Doh! Beinin tilheyrðu þar að auki einstaklingum, sem ekki höfðu náð fimmtugsaldri í lifenda lífi.
Bóndinn sem varð konungur Karl Knútsson |
En sagan er ekki þar með öll sögð. Fornleifafræðingar hafa nýlega uppgötvað rými undir kór kirkjunnar sem hugsanlega hefur að geyma gröf Magnúsar Hlöðuláss. Gamall hlaðinn veggur frá 13. öld umlykur þetta rými, sem hefur ekki verið opnað í 700 ár. Það verður því spennandi að fylgjast með frekari rannsóknum í Riddarahólmskirkjunni í Stokkhólmi í framtíðinni.
Leyndardómsfulla holrúmið í kirkjukórnum er merkt með rauðu |
Það var Jóhann III konungur sem lét reisa veglegan minnisvarða um Magnús Hlöðulás árið 1570 yfir rangri gröf. E.t.v. vissi hann ekki betur eða var í raun alveg sama hvaða bein lágu þar undir. Aðalatriðið var að sýna fram á veldi og völd konungsættarinnar.
Svona getur þetta verið í útlöndum...
Veggurinn dularfulli |
Riddarholmskyrkan |
ref.
http://svtplay.se/v/2747778/jakten_pa_magnus_ladulas_kvarlevor
http://www.stockholmskallan.se/ContentFiles/SMM/GravoppningML/grav%C3%B6ppning%202011%20utst%C3%A4llning.pdf
http://magnusladulas.blogg.se/
http://www.alltomhistoria.se/nyheter/jakten-pa-magnus-ladulas-fortsatter/
http://www.svd.se/kultur/mysteriet-med-magnus-ladulas-tatnar-spannande_7081925.svd
http://www.historiehuset.se/blog/genvagar-till-historien-sokandet-efter-magnus-ladulas
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.