Einokun Íslandspósts hf. Útreiknuð.

"Þeir einir fá hér inngöngu, sem kunna stærðfræði", sagði heimspekingurinn Platón við þá sem óskuðu inngöngu í Akademíu hans. Platón gerði sér fulla grein fyrir gildi stærðfræðinnar í öllu námi og sem mikilvægum þekkingargrunni í hinu daglega lífi. Í Akademíunni sem og í hinni klassísku heimspeki voru stærðfræðireglur Pýþagórasar lagðar til grundvallar tónlist, útreikningum gangs himintunglanna og í raun allri þjóðfélagsskipuninni. Þar var talan 10 talin heilög tala og ekkert fékk þeirri tölu haggað.

5539019936_02feeacef9

 

Nú er öldin önnur. Íslandspóstur hf virðist ekki hafa farið varhluta af þeirri öfugþróun og afturför sem nú ríkir. Í samfélagi þar sem karllæg gildi eru ríkjandi og þar sem lestrar - og stærðfræðikunnátta drengja er orðin takmörkuð er almennt ekki hægt að búast við mikilli skynsemi eða rökvísi. Sauðsvartur almúginn er því berskjaldaður fyrir alls kyns rökleysu og svindli ekki síst þar sem um er að ræða útreikninga á vísitölum, vöxtum og öðrum kostnaði eins og þekkt er orðið. Greiningardeildir heimilanna og lítilla fyrirtækja, hvað þá frumkvöðlafyrirtækja hafa ekki undan að ráða fram úr vitleysunni og ósómanum sem enn virðist viðgangast.

Ég rekst stundum á heldri mann, sem rekur lítið útflutningsfyrirtæki og hefur því oft þurft að notfæra sér þjónustu 
Íslandspósts hf. Aðrir valkostir eru ekki í boði, því Íslandspóstur hf er hreinræktað einokunarfyrirtæki, rekið í skjóli ríkisvaldsins. Honum hefur eflaust oft verið hugsað til Platóns gamla þegar hann hefur borgað reikninginn fyrir pakkasendingar til útlanda þar sem hann hefur þurft að brjóta heilann um reikniaðferðir Íslandspósts hf .

Fyrir nokkru þurfti þessi ágæti maður að senda til útlanda pakka sem vóg 3,1 kg. Starfsmaður 
Íslandspósts hf . "námundaði" kílóafjöldann upp í 4 kg þrátt fyrir athugasemdir hans og andmæli. Honum var þá bent á gjaldskrá Íslandspósts hf og á heimasíðu fyrirtækisins en þar er eftirfarandi reglu að finna undir kaflanum: VERÐ - PAKKAR TIL ÚTLANDA:

Reikniregla: Grunnverð + (fjöldi kílóa* x kílóverð) = heildarverð *Fjöldi kílóa er námundaður í næsta kíló fyrir ofan. Verð er reiknað út fyrir hvern pakka í sendingu. Dæmi: 0,8 kg með flugpósti til Danmerkur: 2.195 +(1 kg x 550) = 2.745 kr.:

Þannig verður talan 10, hin heilaga tala Pýþagórasar að tölunni 11 hjá Íslandspósti hf  með undraverðum hætti og á sama hátt verður talan 11 að tölunni 12 o.sfrv. Þetta minnir á töfrabrögð gömlu bankanna þar sem einn milljarður varð auðveldlega að tveimur á einu augabragði. Já, á einu augabragði. Þessi töfrabrögð kallar Íslandspóstur hf "námundun". Námundun á tölunni 1,1 getur því fræðilega séð hækkað kostnað neytandans umfram grunnverðið um tæp 82%! Geggjað ekki satt? 

Námundun er reyndar vel þekkt aðferð í grunnskólum landsins, jafnvel þeim ríkisreknu. Í kennsluefni grunnskóla er eftirfarandi reglu að finna:

"Við námundun er alltaf farið eftir síðasta tölustafnum á eftir þeim sem ætlunin er að námunda að. Ef þessi tölustafur er 0, 1, 2, 3 eða 4 á að námunda niður, það er lækka töluna. Ef tölustafurinn væri aftur á móti 5 eða hærri ætti að námunda upp."

Íslandspóstur hf getur auðvitað sett sér hvaða reglur sem er og námundað eins gróflega og hann kýs.  Ílla upplýstir viðskiptavinir verða að sætta sig við hvað sem er því þeir hafa einfaldlega ekkert val.

300px-Mk01n101

 
Platón gamli heimspekingurinn hafði rétt fyrir sér; stærðfræðikunnátta er mikilvæg. En ekki eru allir gjaldgengir í Akademíuna hans.

Ekki námunda nærri allir.

"Keep it Simple" 
BB King


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband