Torfajökull gaus síðast árið 1480 en það sama ár fæddist landkönnuðurin Ferdinand Magellan og Domenico Ghirlandajo málaði þá heilagan Jeremías með gleraugu, (en hann hefur síðan verið verndardýrlingur gleraugnasmiða). Jökullinn er nefndur eftir Torfa Jónssyni frá Klofa á Landi í Rangárvallasýslu, sem átti í stríði við marga og vann sér það m.a. til frægðar að taka Lénharð fógeta af lífi. Vegna drepsóttar sem upp kom flutist hann búferlum frá Klofa og upp á Landmannaafrétt rétt við Tofajökul.
Ari Trausti segir þetta um Torfajökulsvæðið:
"Einkenni Torfajökulsmegineldstöðvarinnar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar myndanir úr kísilríku (súru) bergi. Sprungukerfi Bárðabungu og norðurhluti öskju Torfajökuls skarast og gliðnunarhrinur í því fyrrnefnda kalla fram óróa og jafnvel eldgos í því síðarnefnda. Þannig var með jarðeldana í kringum árið 100 og 877. Einnig 1477 en þá gaus hressilega þar sem nú eru Veiðivötn (í Bárðarbungukerfinu) og í litlum mæli á Torfajökulssvæðinu (m.a. rann þá Laugahraun). Alltíðar jarðskjálftahrinur ganga yfir Torfajökulssvæðið og vísa til þess að við verðum að gera þar ráð fyrir eldsumbrotum fyrr eða síðar."
Torfajökulseldstöðin er um margt merkileg. Askjan, sem er stærsta askja landsins nær yfir 200 ferkílómetra og er miðja hennar við Hrafntinnusker. Merki eru um gríðarlega öflug þeytigos í kerfinu sem hafa skilað allt að 20 km3. af gosefnum. Angi úr Bárðarbungukerfinu teygir sig inn í Torfajökulskerfið og hefur valdið endurteknum kvikuinnskotum í það. Kvika getur einnig borist úr vestri, úr Vatnafjallakerfinu, sem hugsanlega tengist Heklu. Atburðarrásin virðist endurtaka sig nokkuð reglulega á 6700 ára fresti, fyrst um árið 100, síðan árið 870 og síðast árið 1480 og ætti því að vera farið að styttast í nýtt gos. Hugsanlegt er, að aukinn óróleiki í Bárðarbungu undanfarna tvo áratugi geti á endanum leitt til öflugrar gos og rekhrinu á þessum slóðum. Mun Torfarisinn nú vera að vakna til lífsins öllum að óvörum? Það gæti vissulega orðið sögulegt...
Skjalftar í Torfa 3. ágúst 2017 |
heimildir:
http://www.eldgos.is/torfajokull
http://www.vedur.is/um-vi/frettir/bigimg/2239?ListID=0
http://www.snerpa.is/net/thj
https://kjarninn.is/skodun/eldgos-og-jardskjalftar
Þeim sem hafa áhuga á jarðfræði Torfajökulssvæðinu skal bent á ítarlega skýrslu Orkustofnunar frá 2001: Í Torfajökli
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.