Hvernig gengur rafbílavæðingin?

Nýlega var fjallað um rafbílavæðinguna í Svíþjóð í Svenska Dagbladet. Þar eru ýmsar áhugaverðar upplýsingar að finna m.a. að þar í landi eru um 300 flutningabílar rafdrifnir og enn um 85.000 flutningabílar sem ganga fyrir dísel. Gott úrval af nýjum rafknúnum flutningabílum er að finna bæði hjá Scania og AB Volvo og mikil vinna er nú lögð í að koma upp stórum hleðslustöðvum um alla Svíþjóð en á móti kemur að rafbílavæðingin gengur mun hægar en raforkusalarnir höfðu vonast til. Þar kemur til m.a. stóraukinn fjárfestingarkostnaður þar sem „venjulegur“ flutningabíll kostar um 1,5 milljón SEK (um 20M ISK) en rafknúinn um 4 milljónir SEK (um 52M ISK) þó svo rekstrarkostnaður sé lægri fyrir rafbíla. Uppsafnaður kostnaður er þó mun hærri fyrir rafknúna flutningabíla þegar upp er staðið. Flutningafyrirtækin kaupa rafknúna bíla fyrst og fremst til að prófa þá og til þess að sýna að þau séu að „flýta orkuskiptum“ í nafni loftslagsmála. Svíar vilja því að sænska ríkið styðji í auknum mæli við rafbílavæðinguna en t.d. í Þýskalandi stendur ríkið að baki um 80% af aukakostnaði við rafvæðingu flutningabíla.

rafflutningabill
Sænskur flutningabíll í hleðslu

Þau fyrirtæki sem sjá um að setja upp hleðslustöðvar víða um Svíþjóð óttast nú að rafbílavæðing flutningafyrirtækjanna muni ganga allt of hægt fyrir sig og að raforkukerfið ráði ekki við aukið álag en hver hleðslustöð eyðir jafn miklu rafmagni og 3 – 4 einbýlishúsahverfi. Áætlað er að setja upp um 50 nýjar hleðslustöðvar fyrir flutningabíla í Svíþjóð og stóru bílaframleiðendurnir AB Volvo, Tranton/Scania og Daimler Truck áætla að setja upp um 1.700 hleðslustöðvar fyrir flutningabíla meðfram vegakerfi Evrópu fyrir lok september 2024. Koma þarf hleðslustöðvunum fyrir á sömu stöðum og bílstjórarnir taka sér lögbundin hvíldarhlé. Menn óttast þó eins og fyrr sagði að fjöldi rafknúinna flutningabíla verði ekki eins mikill og áætlað hefur verið fyrst og fremst vegna hás fjármagnskostnaðar. Ekki má heldur gleyma himinháu verði á raforku í ESB löndunum sem eykur stórlega kostnað flutningafyrirtækjanna.

Þess má geta að margir flutninga- og rútubílstjórar sem undirritaður hefur rætt við hér á landi telja algjörlega óraunhæft, eins og tæknin er í dag, að ætla sér að rafvæða þessi stóru faratæki. Vegakerfið okkar ráði einfaldalega ekki við hinn gríðarlega mikla þunga faratækjanna (rafhlaðan í einum rafdrifnum strætó vegur t.d. um 4 tonn!) og kostnaður er allt of hár þrátt fyrir lægra orkuverð (ennþá) hér á landi miðað við raforkuverðið í Evrópu. Menn sjá ekki fyrir sér rafknúnar rútur á hálendi og í óbyggðum Íslands. Þetta eigi þó eftir að breytast m.a. með bættri tækni í gerð rafhlaðna. Eitt er þó víst, en það er að rafeindin hefur enn ekki sungið sitt síðasta.      

ref./foto Svenska Dagbladet


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband