12.2.2024
Ósnjallt frumvarp um orkumál
Tíðrætt er um orkuskort á Íslandi sem er afar undarlegt þar sem hér á landi eru framleidd meiri orka á hvert mannsbarn en í nokkru öðru landi í heiminum eða yfir 50 þúsund kwst. á ári. Það land sem kemur næst okkur er Noregur, sem einungis er hálfdrættingur miðað við okkur með rúmleg 20 þúsund kwst. Spurning vaknar um hvert öll þessi orka hefur verið seld ef heimilin og fyrirtækin líða nú fyrir orkuskort?
Undanfarið hefur legið fyrir Alþingi frumvarp um forgangsorku. Við lestur þess vaknar grunur um að þeir ráðherrar og þingmenn sem samþykktu 3. orkupakka ESB hafi hreinlega ekki skilið hvað þeir voru að samþykkja því frumvarpið gengur þvert gegn tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2009/72/EB.
Þriðji orkupakki ESB skyldar nefnilega stjórnvöld til að tryggja og auðvelda aðgengi nýrra raforkuframleiðenda að markaðnum og þróa raforkumarkaðinn til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni. Ef framleiðandi raforkunnar er skyldaður til að tryggja ákveðnum viðskiptavinum ákveðið magn, þá tryggir það í raun yfirburði þess kaupanda gagnvart seljendum, raforkumiðlum og öðrum milliliðum og ekki síst framleiðendum raforkunnar. Frumvarpið gengur hins vegar út á það að aftengja raforkuna frá lögmálum hins frjálsa markaðar, markaðslögmálin eru m.ö.o. tekin úr sambandi.
Þriðji orkupakki ESB gerir reyndar ráð fyrir að yfirvöldum sé heimilt að skylda fyrirtæki til að sinna heimilum og fyrirtækjum við vissar efnahagslegar aðstæður (neyðarástand) en þá þarf að skilgreina vel það ástand og þær skyldur og ástæður þurfa að vera gagnsæjar, án mismununar, sannprófanlegar og tryggja jafnan aðgang raforkufyrirtækja að neytendum. Ekki er þó með neinu móti hægt með íslenskum lögum að mismuna hópum viðskiptavina eftir því hvaða magn og verð þeir borga á raforkumarkaði.
Þá vaknar spurning um hvað verður þá um alla snjallmælana sem er fjárfesting orkufyrirtækjanna upp á marga milljarða? Allt í plati? Það er ekki mjög snjallt því snjallmælarnir hafa þann tilgang að sögn að auka samkeppni á raforkumarkaðnum þar sem almennir notendur raforku að keppa um raforkuna við aðra notendur og frumvarpið gerir þannig út af við drauminn um virkan raforkumarkað. Snjallmælarnir verða gagnslausir.
Nýlegur dómur Landsréttar í máli gegn Landsvirkjun sýnir það svart á hvítu að ákvæði samkeppnisreglna og orkupakka ESB ganga nú framar íslenskum lögum svo Alþingi Íslendinga er nú í klemmu vegna væntanlegra viðbragða ESA/ACER. Ekki furða þótt allt kapp sé nú lagt á að innleiða Bókun 35 í miklum hasti en hún framselur löggjafarvald Alþingis í ESB málum til Brussel. Þá losna menn við allt þetta bölvaða, ekkisens vesen sem fylgir því að semja sérstök íslensk lög.
Snjallt! Ekki satt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.