19.8.2024
Orkukúgun Íslendinga?
Suma pakka er best að sleppa því að opna. Davíð Oddson um 3. orkupakka ESB (Mbl 02.09.2018)
Íslendingum er haldið í orkukreppu. Enginn veit þó hvort hún er raunveruleg eða ekki.
Samkvæmt viðtali við f.v. forstjóra Orkuveitunnar til margra ára, Bjarna Bjarnason, er orkukreppan algjör tilbúningur, hreinn uppspuni og næg orka til í landinu. Rafvæðing alls bílaflotans muni t.d. aðeins krefjast um 5% af raforkuframleiðslunni.
Samkvæmt núverandi orkumálaráðherra er orkukreppan hins vegar raunveruleg og mikill ógnvaldur. Vegna yfirvofandi orkuhamfara sé brýnt að Íslendingar virki hverja sprænu með smávirkjunum og reisi vindtúrbínuþyrpingar á hverjum hól til að auka framleiðslu á grænni orku til þess að bjarga okkur sjálfum og öllum heiminum. Íslendingar þurfi að flýta orkuskiptum. Athygli vekur að meiri "græn" orka fer nú til gagnavera en samanlagt til allra heimila í landinu.
Orkuskiptin urðu á Íslandi fyrir mörgum áratugum og er ljóst að heildarlosun Íslands er einungis um 0.00014% af heildarlosun heimsins. Ekki er auðvelt að sjá hvernig Íslendingar geti t.d. minnkað kolefnislosun um 30% á örfáum árum. Það myndi stöðva þjóðfélagið. Við framleiðum nú þegar mun meira af grænni orku á hvert mannsbarn en öll þjóðríki í heiminum. Er það ekki nóg?
Stóra plottið er auðvitað að einkavæða orkuauðlindina og koma arðinum af henni til fárra. Það má þó ekki segja upphátt. Í staðinn fyrir hreinskilni og heiðarleika nota menn ýmsar loðnar skýringar og hengja sig á blóraböggla svo sem orkukreppu, glópal hlýnun, alþjóðlegar skuldbindingar, VG og EES-samninginn.
Ekki fór lítið fyrir áróðrinum og blekkingunum í sambandi við innleiðingu Alþingis á 3. orkupakka ESB, þó engin þörf hafi verið fyrir Ísland að samþykkja hana og neitun af okkar hálfu hefði ekki haft hin minnstu áhrif á EES-samninginn öfugt við fullyrðingar ráðherra. Þriðji orkupakkinn gengur út á að tengja saman orkukerfi aðildarlanda ESB/EES og ryðja úr vegi hindrunum fyrir síkum tengingum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar héldu því fram að 3. orkupakkinn hefði engin áhrif hér á landi og engin áform væru um lagningu sæstrengs. Til hvers þá að samþykkja innleiðingu 3. orkupakkans? Af því bara? Landsmenn eru fyrir löngu hættir að trúa eða treysta orðum ráðherra í núverandi ríkisstjórn og ekki að ástæðulausu.
Landsvirkjun hefur nú fengið leyfi til að reisa vintúrbínuþyrpingu við Búrfell. Við vitum hvaða orku slík þyrping mun skila miðað við um 40% orkunýtingu en við höfum ekki hugmynd um kostnaðinn á bak við hverja túrbínu og munum líklega aldrei að komast að því, honum er haldið leyndu. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó sagt, að hver vindtúrbína sé mjög dýr. Líklegt er, að hver einasta vindtúrbína sem reist verður hér á landi í framtíðinni mun hækka raforkuverðið til neytenda. Hér er um að ræða ríkisstyrkt verkefni. Nú streyma inn umsóknir einkaaðila um margra tuga vindmylluþyrpinga um allt land, sem munu fara í samkeppni við Landsvirkjun.
Sameining ráðuneyta orku-, loftlags- og umhverfismála var ekki til þessa að spara peninga fyrir ríkissjóð. Þessi hagræðing var gerð til að umhverfisráðherra sé sá sami og orkumálaráðherra og ekki að gagnrýna ákvarðanatöku þess síðarnefnda og öfugt. Ákvarðanir orkumálaráðherra eru því yfir gagnrýni hafnar innan ráðuneytanna. Vindtúrbínurnar skulu teknar út fyrir rammaáætlun. Best að drífa þær upp áður en lagaramminn er tilbúinn. Nær hefði verið að taka nokkrar vel valdar vatnsaflsvirkjanir út fyrir rammaáætlunina.
Vindtúrbínueinkavæðingarmanía Sjálfstæðisflokksins hefur þegar gengið of langt. Hún gengur of langt þegar hún bitnar á fólkinu í landinu Einkavæðing og einkarekstur á þó auðvitað fullan rétt á sér á vissum sviðum.
Að markaðsvæða raforkuna er ekki sambærilegt við að einkavæða sölu brennivíns eða bifreiða. Fáir vilja í dag sjá bílasölu- eða rakarastofu ríkisins. En enginn getur verið án rafmagns, sem ekki er hægt að meðhöndla á sama hátt og t.d. matvöru eða skó. Hingað til hafa Íslendingar litið á raforkuna sem ódýra og sjálfsagða þjónustu. EES-samningurinn er á allt öðru máli. Raforkan er þar vara sem lýtur markaðslögmálum fjórfrelsisins. Vegna EES hafa Íslendingar þurft að skilja á milli framleiðslu og flutnings á raforku. Vegna hans höfum við Íslendingar í okkar örsamfélagi þurft að koma á fót uppboðsmarkaði á raforku (í alvöru) með tilheyrandi áður ónauðsynlegum afætum, orkumiðlurum og raforkusölum sem þegar hefur til hækkunar á raforkuverði til neytenda. Uppboðsmarkaður þar sem 85-90% raforkunnar kemur frá Landsvirkjun telst varla markaður. Vegna samþykktar orkupakkanna og inngöngu í Orkusamband ESB er yfireftirlit raforkumála á Íslandi nú á höndum landsreglara ACER. Orkustofnun skal lögð niður. Menn verða að vera trúir reglum ESB annars fer EES-samningurinn í uppnám skv. ráðherrum XD. Vegna samþykktar orkupakkanna og inngöngu í Orkusamband ESB munu Íslendingar þurfa að leggja sæstreng til ESB. Þá loksins fá íslenskur almenningur og fyrirtæki að greiða ESB-verð fyrir raforkuna líkt og frændur okkar í Suður-Noregi. Íslendingar hafa aldrei samið um eða sótt um undanþágur varðandi raforkumál vegna EES. Hvers vegna ekki, við erum jú eyland án allra raforkutenginga við ESB!
Formaður VG vill að orkuauðlindin / vindorkan sé alfarið í eigu þjóðarinnar. Allur þingflokkur VG, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, allir sem einn maður, samþykktu innleiðingu 3. orkupakkans í íslensk lög. Hvað vakti fyrir þeim? Að koma yfirstjórn raforkumála til ESA/ACER í Slóveníu? Að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir raforkutengingum á milli landa? Að koma á fót uppboðsmarkaði á raforku þar sem hæstbjóðandi hefur ávallt sigur? Að leggja niður Orkustofnun? Að valda margföldum hækkunum á raforkuverðinu til neytenda? Hvað voru þeir að hugsa? Á meðan við erum ógagnrýnir aðilar að EES og gleypum allt hrátt sem þaðan kemur verður orkuauðlindin aldrei í eigu þjóðarinnar. Það er eins gott að formaðurinn geri það sér strax ljóst.
Hvað vilja erlendir ferðamenn? |
Ísland þarf alls ekki á vindmyllum að halda eins og Júlíus Sólnes f.v. umhverfisráðherra útskýrði nýlega í þættinum Vikulokunum á RÚV. Ísland, vindmyllulaust land væri frábært kjörorð. Það væri heiðarlegt gagnvart náttúru Íslands og því uppbyggingarstarfi sem fyrri kynslóðir hafa unnið í áratugi í orkumálum landsins. Ísland á feikinóg af vatnsorku sem þarf að virkja og sem er mun betri valkostur en vindorkan, sem getur hvort sem er ekki verið án varaafls vatnsorkunnar. VG er að hverfa af þingi en það skiptir engu máli, því þeir hafa ætíð gleypt allt hrátt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skammtað þeim. Fráhvarf hans af Alþingi mun því ekki hafa hin minnstu áhrif á orkumálin á Íslandi. Það er með öllu óskiljanlegt hvers vegna þessi ríkisstjórn leggur meiri áherslu á að flýta uppbyggingu vindtúrbínuþyrpinga í stað þess að halda áfram að virkja vatnsföllin. VG er þar blóraböggull.
Íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð álits varðandi eignarhald á orkuauðlindinni. Þjóðin heldur að hún sé í almannaeigu. Formaður VG heldur að hún geti verið eign og undir forsjá almennings í landinu. Með því að samþykkja samkeppnisreglur og orkupakka ESB er það borin von. Íslendingar geta ekki lengur sett sín eigin lög í orkumálum því það eru reglur ESB sem gilda. Frumvarp um forgangsorku til heimilanna datt því dautt niður. Bókun 35 mun endanlega innsigla þá martröð, því hún framselur löggjafarvald Alþingis til ESB. Einkarekin orkufyrirtæki sem fara í samkeppni við Landsvirkjun t.d. með því að reisa vindtúrbínuþyrpingar munu krefjast þess að fá að njóta sömu fyrirgreiðslu frá íslenska ríkinu og Búrfellslundur. Ríkisstyrkt starfsemi á samkeppnismarkaði kemur ekki til greina skv. EES (RÚV er þó undantekning, því miður). Starfsemi Landsvirkjunar verður kærð til ESA vegna stærðar hennar og markaðsráðandi stöðu og henni verður skipt upp og hún seld einkaaðilum. Það er einungis tímaspursmál hvenær það gerist. Það er bara þannig en þetta má ekki segja upphátt annars myndi þjóðin rísa upp á afturlappirnar, þrátt fyrir þöggun RÚV. Í rauninni ættu allir réttsýnir Íslendingar nú að vera brjálaðir vegna blekkinga og óheiðarleika ríkisstjórnarinnar og þeirrar orkukúgunar sem við búum við. Spennandi verður að sjá hvort VG muni samþykkja samhljóða Bókun 35 og innleiðingu 4. orkupakka ESB. Líklega vita þeir ekki hvað það hefur í för með sér. Og hvað verður svo um vindorkufrumvarpið hans Gulla? Þurfum við í alvöru að "flýta orkuskiptum"?
Sumt á ekki að einkavæða og suma pakka á ekki að opna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.