Kína sigrar að lokum

Northvolt - Svíar hefja framleiðslu á bílarafhlöðum

Sænski athafnamaðurinn Peter Carlsson stofnaði rafhlöðufyrirtækið Northvolt í Skellefteå árið 2015 en hann hafði áður starfað m.a. hjá Ericson og Tesla. Drifkrafturinn að stofnun fyrirtækisins var óttinn við yfirburði Kína á þessu sviði og þörf Evrópu fyrir eigin, sjálfstæða rafhlöðuframleiðslu. Risaverksmiðjan í Norður-Svíþjóð átti einnig að vera mikilvægasta framlag Svía í „baráttunni gegn loftslagsbreytingum“ þ.e. til orkuskipta, „grænu byltingarinnar“ og bjartasta von ESB til að draga úr innflutningi á olíu og rafhlöðum frá Kína. Fjárfestar voru ekki lengi að bregðast við þessum frábæru grænu hugmyndum og fyrirtækinu var nær drekkt í fjármagni m.a. frá bílaframleiðendunum Volkswagen, BMW og Volvo. Goldman Sachs, sænska ríkið og fjárfestingabanki ESB lögðu einnig til fleiri milljarða dollara. Síðar kom einnig mikið fjármagn frá bæði kanadíska og þýska ríkinu. Northvolt hafði það hlutverk að framleiða „heimsins grænustu rafhlöðu“. Risaverksmiðjan var vígð í júní 2022.

northvolt_1
Risaverksmiðja Northvolt í Skellefteå

Leitin að hinni fullkomnu bílarafhlöðu

Í júní 2024 kynnti kínverski rafhlöðuframleiðandinn, CATL nýja litíumrafhlöðu fyrir rafbíla sem eykur drægni þeirra í 1.000 km sem þýðir að hægt er að aka t.d. frá London til Berlínar á einni hleðslu. Hleðsla í 10 mínútur skilar um 600 km (um 1 km/sek). Kapphlaupið um nýjar, ódýrari, kröftugri, hraðari en um leið öruggari og umhverfisvænni rafhlöður heldur áfram á fullri ferð. Um 40% af verði rafbíla felst í rafhlöðunni einni og 40% til 60% af kolefnisspori hans. Það er því mikið í húfi.  
Aðallega er um að ræða tvær megin tegundir litíumrafhlaðna: Annars vegar þær sem innihalda járn og fosfat (LFP) og hins vegar þær sem innihalda nikkel, mangan og kóbalt (NMC) sem eru orkumeiri en LFP eru taldar öruggari, ódýrari, endingarbetri og um leið umhverfisvænni. Framleiðslan þ.e. nauðsynlegur námugröftur er þó ekki án fórna fyrir umhverfið og stuðlar m.a. að eyðingu skóga. Menn leita því nýrra aðferða og nýrra efna í stað litíums sem uppistöðuefnis í rafhlöðunum.

Þróunin gengur þó hægt og eru menn m.a. að skoða svokallaða „hliðarmálma“ (e. transition metals) svo sem litíum, kóbalt, nikkel, mangan og grafít. Á undanförnum tveimur árum hefur verðið á litíumkarbónati fjórtánfaldast! Kínverjar vinna nú að því að þróa rafhlöður sem byggjast á natríumjónum (e. sodium-ion batteries), manganjónum (e. magnesium-ion batteries), og sinki (zink-air batteries), sem myndu gjörbreyta framleiðslunni. Auðveldast og ódýrast er að sjálfsögðu að byggja á natríum jóninni en rafhlöðurnar eru enn taldar vera fremur kraftlitlar og henta því einungis í minni og léttari farartæki fyrir styttri vegalengdir en þær þola þó vel kulda.   
Annar möguleiki er að nota fastkjarnarafhlöður (solid-state batteries) í stað þeirra sem innihalda vökva. Þær eru kraftmeiri, hraðari, öruggari og duga mun lengur og kolefnisspor þeirra er minna. Hins vegar eru þær enn mun dýrari en litíumrafhlöður  í framleiðslu (allt að 25 sinnum dýrari) og hefur það tafið fyrir notkun þeirra í rafbílum. 

180606-Elbil-Batteri-BMW
Rafhlöður gerðar með natríumjónum

Vindarnir snúast í ESB

Ljóst er að Kína eykur stöðugt á forskot sitt á Bandaríkin og önnur ríki í raf(bíla-)væðingunni. Ríkisstjórn Kína hafði þegar árið 2015 samið stefnumótandi áætlun "Made in China 2025" með það að markmiði að verða leiðandi í heiminum í tíu hátæknigeirum, þar á meðal í framleiðslu á rafbílum og rafhlöðum.

Hækkandi verð á hráefnum, vaxandi viðskiptastríð Kína og USA, sem dregur úr framboði hráefna frá Kína og hækkandi verðbólga og vextir í ESB hafði afar slæm áhrif á starfsemi verksmiðjunnar í Skellefteå. Northvolt hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar en fyrirtækið gefur þó enn ekki upp neinar framleiðslutölur. Á sama tíma áformar Northvolt mikla stækkun því til stendur að byggja nýja rafhlöðuverksmiðju í Gautaborg í samvinnu við Volvo Cars, orkugeymslu í Póllandi og verksmiðjur bæði í Kanada og Þýskalandi. Það hefur vakið upp miklar deilur í Svíþjóð að sænska ríkið skuli hafa lagt til fyrirtækisins 600 milljónir sænskra króna því slíkir gjafagjörningar ríkisins til einstakra fyrirtækja er að jafnaði taldir óásættanlegir þar í landi (öfugt er því farið á Íslandi) einkum fyrir stjórnvöld sem vilja stuðla að frjálsri samkeppni - sérstaklega eftir skipasmíðakreppuna á áttunda áratugnum, þar sem sænska ríkið fjárfesti háar fjárhæðir í skipasmíðastöðvum sem fóru á hausinn.

Þrátt fyrir mikinn fjárhagslegan stuðning úr ýmsum áttum hefur Northvolt ekki enn tekist að gera Svíþjóð að „rafhlöðu-stórveldi" ESB. Stórir væntanlegir viðskiptavinir svo sem Scania og BMW hafa sagt upp milljarðasamningum vegna tafa. Enn er framleiðslan nánast engin og tekjurnar að sama skapi mjög takmarkaðar. 

Í júlí 2024 birti Bloomberg grein sem fékk mikla athygli. Undanfarið ár hefur Kína lækkað verð á litíumjónarafhlöðum um helming með aðstoð ríkisstyrkja og skilvirkri framleiðslu. Kínversku fyrirtækin dæla nú út ódýrum rafhlöðum á Evrópumarkaðinn. Nokkur evrópsk rafhlöðuframleiðsluverkefni sem ekki hafa haft enn tíma til að reisa sínar eigin verksmiðjur fara nú á hausinn. Á sama tíma býðst evrópskum rafhlöðuverksmiðjur flytja starfsemi sína til Bandaríkjanna vegna sérstakra „styrktarpakka“ þar í landi.

Samkvæmt heimildum er ástæða framleiðsluerfiðleika Northvolt blanda af nokkrum þáttum: Það er mjög flókið að framleiða rafhlöður í iðnaðargæðum, en einnig er um að kenna kunnáttuskorti, óraunhæfum tímaáætlunum og illa hönnuðum vélbúnaði, sem ekki hefur staðið undir gæðakröfum m.a. hvað varðar léleg gæði þeirra katóðuskauta sem nauðsynleg eru fyrir framleiðsluna og sem átti að framleiða í Svíþjóð en sem þarf nú að kauka frá Kína. Bílaframleiðendurnir, stærstu viðskiptavinirnir eiga einnig í fjárhagslegu basli vegna hás kostnaðar og minnkandi rafbílakaupa fyrirtækja og almennings. Þetta er að hluta vítahringur því enginn selur rafbíl án rafhlöðu. Ekki bætir úr skák að fyrir skömmu kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forseti Seðlabanka Evrópu, dramatíska skýrslu sem skók stofnanir ESB. Niðurstaðan er sú að ESB þurfi að fjárfesta fyrir 800 milljarða evra til að standa Bandaríkjunum og Kína á sporði í samkeppnishæfni.

Í lok september er fjárhagsstaða Northvolt orðin það slæm að segja þurfti upp 1.600 starfsmönnum fyrirtækisins en þrátt fyrir allt er Northvolt er eina rafhlöðufyrirtækið í Evrópu sem hefur hafið rafhlöðuframleiðslu fyrir rafbíla.

Þess vegna eru viðræður í gangi milli sænskra og þýskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB, sem að lokum snýst um það hvort Northvolt sé svo hernaðarlega mikilvægt fyrir Evrópu að það sé þess virði að bjarga frá hugsanlegu gjaldþroti – til að hindra að framleiðslan færist yfir til kínverskra fyrirtækja? Hingað til hafa sænsk og þýsk stjórnvöld neitað að aðstoða Northvolt frekar. En enn vantar þó talsvert upp á fjármögnun fyrirtækisins. Ástandið hefur haft alvarleg áhrif á um 300 fyrirtæki í Norður-Svíþjóð. 

Hnignun Evrópu

Saga Northvolt er sorgarsaga sem endurspeglar hnignun Evrópu sem byggist m.a. á vaxandi miðstýringu innan ESB, hárri verðbólgu og háum vöxtum, háum orkukostnaði, lágri framleiðni og stóru, afar stirðu og flóknu reglugerðarumhverfi. Óraunhæfir grænir loftslagsdraumar koma einnig þar við sögu þar sem miklum peningum er sóað í óraunhæfar lausnir. Og ekki síst alvarlegt vanmat á aðal keppinautnum, Kína. 

Evrópa er að hrynja, Kína mun sigra.

Ref.

https://www.dn.se/ekonomi/northvolt-skulle-radda-klimatet-jobben-och-europas-oberoende-av-kina/

https://dialogue.earth/en/business/chinas-position-in-the-global-race-for-alternative-ev-batteries/

https://leadthecharge.org/rainforest-foundation-norway-documents-deforestation-impacts-of-ev-supply-chain/

https://www.svd.se/a/xmQ47p/svd-techbrief-vad-gick-snett-pa-northvolt

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband