Á Ísland að verða stærsti og dýrasti ruslahaugur ESB?
Lítið hefur verið fjallað um almenna andstöðu og mótmæli íbúa Hafnarfjarðar og í raun íbúa Stór-Reykjavíkur við áætlanir Reykjavíkurborgar / Orkuveitunnar / Carbfix um að dæla á ári hverju 3 milljónum tonnum af mengunarúrgangsefnum (aðallega CO2), þ.e. efnaúrgangi frá járn-, stál-, ál- og sementsiðnaði í ESB. Þessi úrgangsefni verða á fljótandi formi og innhalda um 5.700 tonn af ýmiss konar snefilefnum sem sum hver geta verið baneitruð jafnvel í litlum skömmtum svo sem blásýru, arsen, kvikasilfur, kadmíum, blý o.fl.
Smíðuð verða sérstök eiturefnaflutningsskip |
Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Bæjarbíó í byrjun janúar 2024 þar sem Hafnfirðingar kröfðust svara við ýmsum áleitnum spurningum einkum hvað varðar skort á upplýsingum og á samráði við íbúana. Skv. heimasíðu samtakanna Mótmælum staðsetningu Coda Terminal við í búabyggð á Facebook þykir mörgum sem Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri hafi farið á bak við íbúa Hafnarfjarðar með því að skrifa undir tvær stuðningsyfirlýsingar til handa Carbfix vegna Coda Terminal verkefnisins þ.e. í október 2020 og í febrúar 2022, án þess að spyrja íbúa bæjarins áður álits þ.e. hvernig þeim litist á verkefnið heldur hafi hún staðfest að verkefnið nyti fulls stuðnings sveitafélagsins og þá væntanlega þeirra íbúa sem í því búa! Slík yfirlýsing var m.a. nýtt af Carbfix til að krækja í 16 milljarða styrk frá ESB með fullum stuðningi nærsamfélagsins. Skyldi tilgangurinn hafa helgað meðalið?
Hafnfirðingar mótmæla og krefjast svara |
Aðdragandi þessa tilraunaverkefnis er þó lengri og má rekja allt aftur til júní 2019 er undirrituð var viljayfirlýsing stjórnvalda, stóriðjunnar og Orkuveitu Reykjavíkur um hreinsun og bindingu kolefnis. Í kjölfarið hófu fyrirtækin undirbúning og skoðun á mögulegu förgunarverkefni við Straumsvík. Þreifingar og viðræður áttu sér stað á milli fyrirtækisins og Hafnarfjarðarhafnar og umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðarbæjar um möguleikana kæmi til þessarar uppbyggingar án þess að þessi áform væru kynnt fyrir íbúum bæjarfélagsins.
Það skal tekið skýrt fram, að Hafnfirðingar eru ekki að mótmæla aðferðum Carbfix við kolefnisförgun, heldur einungis staðsetningu Coda Terminal tilraunaverkefnisins við bæjardyr þeirra á Völlunum í Hafnarfirði.
Hafnfirðingar kalla nú eftir því að bæjarstjórinn, Rósa Guðbjartsdóttir standi með íbúum bæjarins, taki samtalið við bæjarbúa og hlusti á áhyggjur þeirra og útskýri mál sitt áður en hennar embættistíma lýkur um áramótin. Allar líkur eru þó á því að það verði valtað yfir Hafnfirðinga því skv. grein um Coda Terminal í Mbl í dag áætlar Orkuveitan að tilraunaverkefnið muni skili alls 350 milljarða hagnaði á næstu árum. Þrjú önnur slík verkefni séu í deiglunni og þá vaknar sú spurning hvort önnur bæjarfélög séu reiðubúin að fórna náttúrunni og mannlífinu fyrir alla milljarðana sem í boði eru?
Fylgist með á Facebook:
Athugasemdir
Sæll Júlíus,
Að fólk skuli ekki vera að öskra um þetta málefni á öllum götuhornum er mér óskiljanlegt. Ef við fólkið mótmælum ekki þá mun þessi verkefni verða að veruleika og mér sýnist Íslendingar væri auðkeyptir fyrir að gera þjóð sinni harm ef fé er borið á fólk.
Það er nú þegar verið að dæla niður hundruðum tonna af mengandi efnum í Helguvík og íbúar Reykjanesbæjar og nágranna sveitafélaga eru grunlaus um þessar aðgerðir þar sem engin umræða er um þær.
Ég veit satt og segja ekki hvað er hægt þegar siðlaust og ginkeypt fólk skuli geta komið af stað svona verkefnum án allra regluegerðar? Af því að verkefnið er tilraunaverkefni fjármagnað af ESB/EU þá eru allar dyr opnar. Ef þetta verður ekki stöðvað þá er eina leiðin að flytja til bæjarfélags sem gerir ekki tilraunir á íbúum þess.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/08/13/buid_ad_daela_nidur_100_tonnum_i_helguvik/
Þröstur R., 24.10.2024 kl. 09:39
Svo er annað sem hefur farið ÓTRÚLEGA HLJÓTT en það er BÚIÐ að dæla niður að minnsta kosti 100 tonnum af ÚRGANGI í Helguvík (þessi úrgangur kemur frá Sviss og eitthvað kostar að flytja þetta hingað til lands). Getur verið að það sé verið að taka "ÆFINGU" áður en Hafnarfjarðarverkefnið Byrjar??? Um þetta verkefni kom lítil grein á mbl.is þann 14/8 2024 sjá blogg um málið: "RUSLAHAUGAVERKEFNIÐ ÍSLAND" Í FULLUM GANGI UM ALLT LAND,,,,,,, - johanneliasson.blog.is
Jóhann Elíasson, 25.10.2024 kl. 04:38
Tilraunaverkefnið í Helguvík gengur út á það að nota sjó í stað ferksvatns við niðurdælinguna á iðnaðarúrgangi frá Sviss. Rakst á þetta á heimasíðu XL: "Lýðræðisflokkurinn vill standa vörð um hreina náttúru Íslands og vernda gæði landsins fyrir komandi kynslóðir. Við viljum ekki láta menga hér grunnvatnið, ekki láta spilla heiðarlöndunum, ekki leyfa því að gerast að arnarstofninum (eða öðrum fuglastofnum) verði teflt í hættu. Við viljum ekki að hér sé allt falt fyrir peninga. Ísland er landið okkar og við berum ábyrgð á því gagnvart fyrri kynslóðum og gagnvart komandi kynslóðum. Íslandi má ekki breyta í ruslatunnu stórfyrirtækja, innlendra eða erlendra. Atvinnustarfsemi sem veldur óásættanlegu umhverfistjóni í þessu tilliti á ekki að leyfa. Gera þarf mönnum ljóst frá upphafi að umhverfistjón muni framkalla fulla skaðabótaskyldu. Gjöld fyrir mengandi starfsemi þurfa að endurspegla samfélagslegan kostnað, sbr. það sem verið er að gera í Noregi nú. Íslendingar eiga að læra af reynslu annarra, en ekki gera sömu mistök og aðrar þjóðir hafa gert á fyrri stigum." Arnar Þór Jónsson
Júlíus Valsson, 25.10.2024 kl. 06:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.