Skilur f.v. Orkumálastjóri ekki EES-samninginn?

Framsóknarflokkurinn, ásamt öðrum stjórnmálaflokkum í fráfarandi ríkisstjórn, stóð fyrir innleiðingu samkeppnisreglna og orkupakka ESB. Þar er raforkan okkar skilgreind sem hver önnur vara (eins og kaffi, ávextir og skór) en ekki sjálfsögð þjónusta eins og áður. Raforkan lýtur því markaðs- og samkeppnislögmálum ESB eins og aðrar vörur. Frjálst flæði vöru, fjármagns, fólks og þjónustu, þ.e. „fjórfrelsið“ er greipt í stjórnarskrá ESB. Frjálst flæði raforku yfir landamæri er þar með talið.  
Allur þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti innleiðingu 3. orkupakka ESB árið 2019, allir sem einn. Spurning vaknar hvort þingmenn Framsóknar hafi skilið til fulls hvað þeir voru að samþykkja? Þingmenn VG höfðu t.d. ekki hugmynd um það. Þriðji orkupakki ESB skyldar nefnilega stjórnvöld til að tryggja og auðvelda aðgengi nýrra raforkuframleiðenda til að tryggja og auðvelda aðgengi nýrra að markaðnum og þróa raforkumarkaðinn „til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni“ og að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir raforkutenginum á milli landa.
Í samræmi við ákvæði orkupakkanna hefur verið sett á fót hér á landi „markaðstorg“ fyrir raforkuviðskipti; Elma orkuviðskipti, sem eru í eigu Landsnets og Vonarskarð, sem er einkarekið. Nú þurfa heimili og lítil fyrirtæki að keppa við stórfyrirtæki um raforkuna á uppboðsmarkaði.
ESB-sinnar hér á landi fagna því að sjálfsögðu.

Halla Hrund Logadóttir f.v. Orkumálastjóri skrifaði þ. 17. nóvember 2024 grein á visir.is 1) þar sem hún segir m.a.:

„Raforka er ekki bara vara sem seld er til hæstbjóðanda. Hún er lífæð samfélagsins, grundvöllur daglegs lífs og atvinnurekstrar. Nú þarf að tryggja að allir njóti góðs af henni. Líka venjuleg fyrirtæki, garðyrkjubændur og heimilin í landinu. Viljum við verða verstöð fyrir erlenda fjárfestingasjóði, þar sem við seljum auðlindir okkar sem hrávöru til hæstbjóðanda, eða viljum við byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem styður við nýsköpun, minni fyrirtæki, virðisaukandi framleiðslu og gjaldeyrissparandi starfsemi? Þetta er ekki aðeins spurning um hagnað eða markaðslögmál – þetta er spurning um stefnu, gildi og framtíðarsýn fyrir Ísland.”

landsvirkjun_foss

Þarna heldur f.v. Orkumálastjóri því blákalt fram, að raforkan sé alls ekki „vara“ sem ekki sé hægt að selja á uppboðsmarkaði og að stefna (líklega stefna Framsóknar) geti bjargað ástandinu. Nú er það svo, að Framsóknarflokkurinn gerði á síðasta kjörtímabili algjörlega misheppnaða tilraun til að skáka eigin misgjörðum með því að ganga í berhögg við ákvæði EES-samningsins og setja lög um forgangsorku til heimilanna 2). Þeir eru greinilega enn ekki búnir að fatta EES og telja að þetta ætti ekki að vera mikið vandamál þar sem heimilin nota einungis um 5% af raforkuframleiðslunni. Frumvarpið var þó gert afturreka og stólpagrín gert að flutningsmanni þess. Ráðherra orkumála sagði t.d. að það væri mun skynsamlegra að „treysta á samfélagsvitund orkufyrirtækjanna“!

Landsvirkjun er langstærsti framleiðandi raforku hér á landi. Ef svo stór framleiðandi raforkunnar er skyldaður til að tryggja ákveðnum viðskiptavinum ákveðið magn, þá tryggir það í raun yfirburði þess kaupanda gagnvart seljendum, raforkumiðlum, afætum og öðrum milliliðum og ekki síst öðrum framleiðendum raforkunnar. Frumvarpið gekk hins vegar út á það að aftengja raforkuna frá lögmálum hins frjálsa markaðar, m.ö.o. markaðslögmálin voru tekin úr sambandi. Þetta stangast algjörlega á við ákvæði EES-samningsins.

Þriðji orkupakki ESB gerir reyndar ráð fyrir að yfirvöldum sé heimilt að skylda fyrirtæki til að sinna heimilum og fyrirtækjum við vissar efnahagslegar aðstæður (neyðarástand) en þá þarf að skilgreina vel það ástand og þær skyldur og ástæður þurfa að vera gagnsæjar, án mismununar, sannprófanlegar og tryggja jafnan aðgang raforkufyrirtækja að neytendum. Ekki er þó með neinu móti hægt með íslenskum lögum að mismuna hópum viðskiptavina eftir því hvaða magn og verð þeir borga á raforkumarkaði.

Nú vaknar sú spurning hvernig f.v. Orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir ætlar sem þingmaður Framsóknar eða jafnvel sem nýr orkumálaráðherra að aftengja framleiðslu og sölu á raforku frá markaðslögmálum ESB? Segja upp EES? Segja Ísland frá orkupökkum ESB?

...eða er kannski bara best að treysta áfram á samfélagsvitund orkufyrirtækjanna?  

Ps. Undirritaður hefur ítrekað beint fyrirspurnum um þessi atriði til Höllu Hrundar en hún hefur enn ekki svarað þeim.

ref.

1) https://www.visir.is/g/20242650864d/-hvenaer-var-thetta-samtal-vid-thjodina-tekid-spurdi-gardyrkjubondinn

2) https://www.althingi.is/altext/154/s/0635.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Bara það að orkumálastjóri trúi að hún muni hafa meiri völd sem óbreyttur þingmaður
en sem orkumálastjóri sýnir skilningsleysi hennar á stjórnsýslunni

Grímur Kjartansson, 18.11.2024 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband