10.2.2025
Fjárplæging hreinleikans
"Sofandahætti og aumingjaskap íslenskra ráðamanna í umhverfismálum er viðbrugðið. Ísland er tiltölulega hreint og óspjallað land en regluverk varðandi umhverfismál, einkum hvað varðar innflutta mengun, er algjörlega í molum og fer versnandi."
Vítissódi (NaOH) er rammur basi og þegar hann er leystur upp í vatni myndast mikill hiti. Vítissódi er afar ætandi og hættulegt efni og þekkja margir hann sem öflugan stíflueyði. Kolefnisspor efnisins er 1.12kg CO2e/kg.
Vítissóda varpað í hafið við Cape Cod
Yfirvöld í Massachusetts í Bandaríkjunum stöðvuðu í ágúst 2024 áætlanir vísindamanna um að varpa yfir 130 tonnum af vítissóda ásamt litarefni í hafið umhverfis Cape Cod vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á lífríkið á þessu svæði einkum á svifið og aðrar smærri lífverur, bæði á eggja- og lifrustigi. Tilraunin gekk út á að kanna hvort hafið fangaði meira af CO2 ef vítissóda væri varpað í sjóinn til að hækka sýrustig sjávar (Ph), allt í nafni loftslagsmála og hamfarahlýnunar.
![]() |
Vítissóda og litarefni varpað í hafið |
Ísland, ruslahaugur Norðursins
Sofandahætti og aumingjaskap íslenskra ráðamanna í umhverfismálum er viðbrugðið. Ísland er tiltölulega hreint og óspjallað land en regluverk varðandi umhverfismál, einkum hvað varðar innflutta mengun, er algjörlega í molum og fer versnandi. T.d. er ekki langt síðan að Alþingi samþykkti lög sem leyfa innflutning á eitursulli frá útlöndum til niðurdælingar í þéttbýli, Já þú last rétt, í þéttbýli! Kolefniskrakkarnir leita því gjarnan til Íslands með tilraunir sínar í loftslagsmálum sem ekki er hægt að framkvæma í öðrum siðmenntuðum löndum.
![]() |
20.000 tonn af viðarkurli á Grundartanga bíða eftir brennslu |
Skemmst er að minnast gjörsamlega galinnar tilraunastarfsemi Running Tide sem varpaði tugþúsundum tonna af kanadísku viðarkurli með steypuídýfu í hafið umhverfis Ísland. Um 20.000 tonn af viðarkurlinu enduðu reyndar að lokum sem eldsmatur í brennsluofni járnbrennslunnar á Grundartanga þar sem því er brennt í nafni loftslagsmála og orkuskipta. Enginn spyr um kolefnissporið af því ævintýri, sem ekki virðist enn hafa haft áhrif á hitastig jarðar. Sem betur fer!
![]() |
Nú hafa sömu kolefniskrakkarnir og sem sannfærðu a.m.k. þrjá íslenska ráðherra um snilld sína í loftslagsmálum með viðarkurlinu, ákveðið að nurla saman nýjum fjárstyrkjum í því skyni að varpa í hafið í Hvalfirði 30 tonnum (200 tonnum útþynnt) af vítissóda. Krakkarnir hafa þegar greitt Hafrannsóknarstofnum styrk upp á um 100 milljónir. Skýringin er líklega sú að starfsmaður Hafró er í ráðgjafaráði fyrirtækisins Rastar, sem stendur fyrir tilrauninni. Málið er reyndar nú á borði utanríkisráðuneytisins en miðað við fyrri reynslu af slíkum málum m.a. Coda Terminal tilrauninni á Hafnfirðingum, er einsýnt að ráðuneytin líta á Ísland sem ruslahaug Norðursins þar sem kolefniskrakkarnir fá að leika sér að vild gegn ríflegum greiðslum í styrkjaformi og skattaafslætti vegna rannsókna og nýsköpunar. Ekki er verra ef ríflegur styrkur frá ESB fylgir með í bakpokanum.
Hreint land. Fagurt land!
Ref.
https://is.wikipedia.org/wiki/Vítissódi
https://phys.org/news/2024-08-cape-cod-scientists-delay-controversial.html
https://www.mvtimes.com/2024/07/18/climate-change-lye-possible-solution-near-vineyard/
https://news.mongabay.com/2024/10/controversial-us-marine-geoengineering-test-delayed-until-next-year/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning