Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur kynnt áform um byggingu og rekstur vindorkuþyrpingar við Dyraveg á Mosfellsheiði. Áform OR felast í uppbyggingu allt að 108 MW vindorkuþyrpingu á 7,2 km2 svæði við Dyraveg á Mosfellsheiði. Gert er ráð fyrir að reisa 15 vindtúrbínur á framkvæmdasvæðinu og að afl hverrar verði 7,2 MW. Hæð vindtúrbínanna verður mest 210 m, með vélarhús í 125 m hæð og spaðalengd 87,5 m. Við hverja vindtúrbínu þarf steypta undirstöðu (allt að 30 m í þvermál og 3-4 m á þykkt), 1.500 m2 kranaplan og 5.000 m geymslusvæði. Leggja þarf 1,3-4,5 km aðkomuveg að svæðinu frá Nesjavallaleið eða Þjóðvegi 1. Einnig þarf þjónustuvegi að hverri vindmyllu, alls um 8-12 km að lengd og 4-4,5 m breiðir.
Dyravegur
Dyravegur er forn þjóðleið sem liggur um Hengilssvæðið á Suðvesturlandi, milli Mosfellsheiðar og Grímsness. Leiðin liggur um Dyrafjöll, sem eru móbergshryggir norðan Hengils, og er nafnið dregið af náttúrulegum dyrum eða þröngum skarði milli tveggja þverhníptra hamra sem vegurinn liggur í gegnum. Í dag er Dyravegur vinsæl gönguleið fyrir útivistarfólk en þar liggur einnig gömul friðlýst reiðgata sem liggur í gegnum fyrirhugað framkvæmdasvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Hengilssvæðið austur af framkvæmdasvæðinu er á náttúruminjaskrá.
Leiðin er um 20,4 km löng og tekur um 8 klukkustundir að ganga. Hún hefst við Elliðakot í Mosfellsdal og liggur um Dyrafjöll að Dyradal. Dyravegur er bæði söguleg og náttúrufarslega áhugaverð leið sem býður upp á einstaka gönguferð um móbergsfjöll, jarðhitasvæði og sögulegar slóðir. Leiðin hentar vel fyrir þá sem hafa áhuga á útivist, jarðfræði og sögu Íslands.
Víðátta og óröskuð náttúra Íslands er dýrgripur
Víðátta, óröskuð náttúra og óbyrgt útsýni, eru ekki bara einkenni íslensks landslags þetta eru einnig djúpstæð íslensk gildi sem hafa mikil áhrif á menningu, sjálfsmynd og upplifun fólks á Íslandi. Víðáttan skapar sterka tilfinningu fyrir frelsi og ró. Þú horfir yfir opið land þar sem ekkert þrengir að sjónsviði, og það hefur djúp áhrif á andlega líðan þína. Hún er líka hluti af menningarlegri sjálfsmynd Íslendinga hugmyndin um að geta ferðast óhindrað um landið, án mikilla ummerkja manna. Í ferðaþjónustu er víðáttan eitt af því sem ferðamenn dást mest að þessi óendanlegi opni heimur.
Orkuveita Reykjavíkur hyggst reisa 15 vindtúrbínur á Dyravegi og mun hver þeirra verða 210 metrar á hæð. Svo stórar vindmyllur munu sjást mjög víða frá. Þær verða áberandi í sjónlínu, jafnvel á stórum svæðum. Þær brjóta upp náttúrulega sjónlínu fólk missir möguleikann á að horfa yfir ósnortin fjöll, heiðar og dali. Það dylst engum að vindtúrbínuþyrpingar með svo stórum mannvirkjum og á þessu svæði, sem er í 280 m hæð yfir sjávarmáli mun verða mjög áberandi lýti í náttúrunni og raska því náttúrulega umhverfi og víðsýni sem þar ríkir í dag. Ímynd landsvæðisins breytist frá því að vera í hugum fólks óröskuð náttúra og ákjósanlegt svæði til útivistar í að verða forljótt og truflandi iðnaðarsvæði sem vekur upp ótta meðal viðkvæmra. Svona skrímsli eiga einfaldlega ekki heima í íslenskri náttúru.
Vatnsvernd
Framkvæmdasvæði Orkuveitu Reykjavíkur er innan fjarsvæðis vatnsverndar, sem þýðir að framkvæmdir eru háðar reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Gera þarf sérstakt áhættumat vegna mögulegra mengunaráhrifa á grunnvatn áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessu sambandi verður sérstaklega að gæta að ákvæðum Vatnaáætlunar Íslands 2022 2027, Vatnalaga nr. 15 20. júní 1923 og reglugerðar 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.
Grunnvatns- og yfirborðsmengun frá vindtúrbínuþyrpingum er sterkur áhættuþáttur. T.d. geta vegagerð og undirstöður raskað yfirborði og gróðri, sem getur leitt til jarðvegsrofs. Þegar óvarinn jarðvegur skolast út í ár, læki eða vötn getur hann valdið: Drullu- og leirmengun í vatni, sem getur skaðað fisk og vatnalíf og tæmingu torf- og mýrlendis, sem hefur áhrif á náttúrulegan vatnsbúskap svæðisins.
Þungavélar sem notaðar eru við framkvæmdir nota smurolíu, dísil og önnur efni. Ef leki verður eða eldsneyti kemst í jarðveg eða grunnvatn getur það mengað vatnsból og skaðað vistkerfi sem treysta á hreint yfirborðs- eða grunnvatn eins og er raunin á þessu svæði.
Skv. upplýsingum Orkuveitu Reykjavíkur mun hver vindtúrbína þurfa steinsteypta, (járnbenta) undirstöðu sem er 30m að ummáli og um 4m að þykkt. Hver undirstaða þarf því um 2.827 rúmmetra af steypu (ef reiknað er með þéttleika (eðlismassa) venjulegrar steypu:
≈ 24002500 kg/m³). Hver vindtúrbína mun því þurfa 7.215 tonn af steypu (283 steypubílar!). Þessar tölur má svo margfalda með x 15 vindtúrbínum.
Undirstaða hverrar vindtúrbínu mun innihalda sement og önnur efni sem geta haft áhrif á sýrustig (pH) og samsetningu grunnvatnsins og á framkvæmdatíma getur úrkoma skolað efnasamböndum úr steypusvæðum og breytt vatnsjafnvægi á viðkvæmum svæðum.
Rask á votlendi getur leitt til þess að vatnsflæði breytist eða hverfi og mýrar þorni upp eða breytist í rennandi vatn, sem hefur áhrif á vatnalíf og koldíoxíðlosun. Þetta getur einnig haft óbein áhrif á grunnvatn, þar sem endurnýjun þess fer oft fram í mýrum og ám.
Nýlega ákvað Orkuveita Reykjavíkur að banna umferð bifreiða á vatnsverndarsvæði Reykjavíkur í Heiðmörk. Það skýtur því skökku við að leyfa gífurlega umferð steypubíla og jarðvegstækja á vatnsverndarsvæðinu á Dyravegi, þó svo það sé jaðarsvæði.
Kolefnisfótspor
Ljóst er að sú risaframkvæmd sem Orkuveita Reykjavíkur áætlar á Dyravegi mun skilja eftir sig risastórt kolefnisfótspor. Uppreiknað heildarkolefnisfótspor fyrir eina vindtúrbínu gæti litið svona út:
- Framleiðsla vindtúrbínu: 1.251.5 tonn CO2.
- Flutningur og uppsetning: 300600 tonn CO2.
- Bygging undirstöðu (steypa og járn): 9,00011,000 tonn CO2.
Heildarkolefnisfótspor fyrir eina 210 metra háa vindtúrbínu með undirstöðu og flutningi til Íslands eru áætlað að vera: 10,600−12,100 tonn CO2.
Eru vindtúrbínur góð fjárfesting?
Reykvískir skattgreiðendur hafa ekki við að hrista hausinn yfir heimskulegum áhættufjárfestinum Orkuveitu Reykjavíkur, sem sumar hverjar samrýmast alls ekki kjarnastarfsemi fyrirtækisins, en sem óþarft er að rekja nánar hér. Ljóst er að það útheimtir gífurlegt fjármagn að reisa vindtúrbínuþyrpingu eins og þá sem hér um ræðir og að orkuframleiðsla sú sem ætlað er að þar fari fram muni þurfa á að halda stöðugri og aðgengilegri viðbótarvaraorku t.d. frá vatnsafls- eða varmaaflsvirkjun, sem ekki er þó enn í sjónmáli og með öllu óljóst hver verður. Hæpið er að bygging slíkrar þyrpingar sem hér um ræðir verði arðbær við núverandi raforkuverð og stóla verður því á framtíðar verðhækkanir raforkunnar og/eða lagningu sæstrengs til ESB. Einnig verður væntanlega að ganga út frá því að ETS-kerfi ESB verði við haldið að mestu óbreyttu á komandi árum sem alls ekki er þó öruggt hvað þá verðið á losunarheimildum.
Nýlega hélt sænskur hagfræðingur, Christian Steinbeck fyrirlestur í sænska þinginu (Riksdagen) um arðsemi vindtúrbínuþyrpinga þar í landi. (sjá slóð á YouTube myndband hans hér að neðan).
Í fyrirlestri sínum segir hann frá ítarlegri greiningu á arðsemi og framtíð vindorku í Svíþjóð og lætur þar í ljós verulegar áhyggjur af þróun kostnaðar og arðsemi. Hann ræðir þar um ýmis fjármálagögn sem safnað var úr gagnagrunni þar sem fylgist með 90% sænskra vindorkuvera á árunum 2017 til 2023 þar sem í ljós kemur stöðuga hækkun framleiðslukostnaðar þrátt fyrir vaxandi tekjur, sem hefur leitt til umtalsverðs fjárhagslegs taps. Steinbeck leggur áherslu á að núverandi fjárfestingar í vindorku séu óskilvirkar til lengri tíma og bendir á að í framtíðinni sé líklegt að grípa þurfi til ríkisafskipta til að bjarga vindtúrbínuverkefnum í rekstrarvanda. Fram kemur einnig að talsverð lækkun hefur orðið á fasteignaverði á svæðum með vindtúrbínuþyrpingum og í nágrenni þeirra.
Vindtúrbínuþyrpingar Lagaumhverfi
Skv. Upplýsingum á heimasíðu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verða sérstök lög sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Ráðuneytið telur afar mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit verði tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Vinnu við frumvarp og þingsályktun um stefnu stjórnvalda um nýtingu vindorku á landi er lokið og hefur hvoru tveggja verið lagt fram á Alþingi en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þeirra fyrir þinglok.
Ljóst er því að enn liggur ekki fyrir heildarlöggjöf um vindtúrbínur á Íslandi. Ekki að furða þótt margir rembist eins og rjúpa við staur að koma sinni ár fyrir borð á meðan Vilta-Vestrið ræður ríkjum í vindorkumálum hér á landi. Hverjum er Alþingi annars að hygla með þessum slóðahætti?
Niðurlag
Víðátta, óröskuð náttúra og óbyrgt útsýni eru ekki bara fagurfræðilegir þættir þau eru menningarleg, umhverfisleg og andleg gildi sem móta bæði upplifun einstaklinga og sjálfsmynd þjóðarinnar. Þau eru líka verðmæti sem þarf að standa vörð um í skipulagi, ferðamennsku og náttúruvernd.
Stórar vindtúrbínur hafa djúpstæð neikvæð áhrif á íslenska náttúru:
- Þær breyta útliti landsins og skerða ósnortið útsýni,
- Þær raska vistkerfum og náttúrulegri upplifun,
- Þær grafa undan því sem margir telja helsta auðlind Íslands: óbyggðir, víðáttu og friðhelga náttúru.
Ég mótmæli þessum áformum Orkuveitu Reykjavíkur aðallega vegna þess náttúrurasks og sjónmengunar sem fylgja fyrirhuguðum vindtúrbínum. Þær verða eins og risavaxin aðskotadýr úr fornöld í íslenskri náttúru og Íslendingar hafa fjölmarga aðra mun hagstæðari valkosti til orkuöflunar.
Ég mótmæli því einnig harðlega að verið sé að skipuleggja og hefja vinnu við vindtúrbínuþyrpingu við Dyraveg í Sveitarfélaginu Ölfusi (á grænu máli "vindorkugarð") áður en heildarlöggjöf um vindorku hefur endanlega verið samin og samþykkt af Alþingi Íslendinga. Annað eru svik við íbúa Reykjavíkur og nágrennis og í raun alla Íslendinga. Nær væri að flýta setningu laga um nýtingu vindorkunnar og að menn virði þau lög. Orkuveita Reykjavíkur ætti að einbeita sér að öðrum þarfari, skynsamari og mun arðbærari verkefnum en því sem hér er til umræðu.
Heimildir:
Skipulagsgátt:
https://skipulagsgatt.is/issues/2025/454
Vindkraftens gigantiska förluster - Christian Steinbecks föredrag i Riksdagen
Vatnalög nr. 15 20. júní 1923
https://www.althingi.is/lagas/nuna/1923015.html
Reglugerð 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.
https://island.is/reglugerdir/nr/0796-1999
Vatnaáætlun Íslands 2022 - 2027
https://www.ust.is/library/sida/haf-og-vatn/Vatna%C3%A1%C3%A6tlun%202022-2027%20-%20Copy%20(1).pdf
Hrakfarir sænskra vintúrbínuverkefna
https://finance.yahoo.com/news/investors-learn-brutal-lesson-swedens-050008371.html
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning