Orkuveita Reykjavíkur: "Verndum Reykjavík en dælum erlendri iðnaðarmengun niður í Hafnarfjörð, Þorlákshöfn, Helguvík og Húsavík með milljarðastyrkjum frá ESB í nafni "loftslagsmála"".
Til Skipulagsstofnunar.
Umsögn undirritaðs um Mál nr.690/2025: Heiðmörk - USK24030262
Gott neysluvatn er líklega ein verðmætasta auðlind Íslendinga. Vatnsból höfuðborgarsvæðisins eru aðallega staðsett í Heiðmörk og nágrenni og spannar vatnsverndarsvæðið um 250 ferkílómetra. Veitur hafa áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið og sérstaklega sérstaklega vegna flutnings mikils magns olíu um Suðurlandsveg sem liggur við jaðar vatnsverndarsvæðisins.
Skv. skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur frá maí 2025 er markmiðið að draga úr umferð ökutækja á grannsvæði vatnsverndar. Veitur vilja því takmarka bílaumferð um Heiðmörk verði takmörkuð og loka fyrir umferð almennra ökutækja.
Reykjavíkurborg vinnur ásamt Veitum að breyttu deiliskipulagi fyrir Heiðmörk. Stefnt er að því að vinna ljúki í upphafi næsta árs og er deiliskipulagið forsenda fyrir uppbyggingu nýrra bílastæða í nágrenni Heiðmerkur. Farartæki á vegum Skógræktarinnar og Veitna munu áfram hafa aðgang að friðlandinu. Almennri bílaumferð verður beint á ný bílastæði, en staðsetning þeirra liggur ekki enn fyrir.
Í Vatnaáætlun Íslands 2022-2027 segir m.a.: "Landsskipulagsstefna er fyrsta samræmda stefnan um skipulagsmál á landsvísu. Með henni eru settar fram leiðbeiningar til sveitarfélaga um skipulagsgerð og áætlanir um landnotkun og byggðaþróun. Í lögum um stjórn vatnamála kemur fram að opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda t.d. vegna skipulagsmála skulu vera í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun. Við endurskoðun/breytingu skipulagsáætlunar skal samræma hana vatnaáætlun innan sex ára frá staðfestingu vatnaáætlunar.
Allt vatn á Íslandi skal vera í mjög góðu eða góðu ástandi og þurfa skipulagsáætlanir að taka mið af því."
Í 4. kafla koma fram eftirfarandi upplýsingar:
"Álag á vatn Þegar búið er að afmarka vatnshlotin þarf að greina álag á vatnsauðlindina en margs konar umsvif manna geta valdið álagi á yfirborðsvatn og grunnvatn. Vatnshlot geta verið undir álagi ef í þau eru losuð efni í því magni sem veldur mengun. Álag getur einnig skapast vegna vatnsformfræðilegra breytinga svo sem vegna breytinga á árfarvegum, stíflugerð, vegagerð, hafnargerð eða efnistöku. Jafnframt er vatnstaka umfram endurnýjun skilgreind sem álag. Álagi af völdum mengunar er skipt í tvennt, þ.e. punktlosun og dreifða losun. Punktlosun nefnist það þegar uppspretta losunar er afmörkuð t.d. frá útrásaropi fráveitu eða starfsleyfisskyldri starfsemi (iðnaði). Dreifð losun er hins vegar álag sem ekki er hægt að afmarka á ákveðnum stað og má þar nefna áburðarnotkun í landbúnaði, afrennsli af þéttum flötum, s.s. iðnaðarsvæðum og götum í þéttbýli." Ísland hefur nú hlotið 3,5 milljarða styrk frá ESB til að koma vatnsverndarmálum Íslands í betra horf.
Lokun grannsvæðis vatnsverndar í Heiðmörk myndi þýða að ekki væri lengur hægt að aka að Elliðavatni og að bílastæði yrðu staðsett við Suðurlandsveg, annaðhvort við Rauðhóla eða Búrfellsgjá.
Til að komast að Elliðavatni gætu veiðimenn þurft að ganga nokkra kílómetra og sem hefði þær afleiðingar að Heiðmörk yrði lokað fyrir þorra þeirra silungsveiðimanna sem Elliðavatn heimsækja.
Ferðafélag Íslands telur að hægt sé að ná markmiðum um vatnsvernd með mörgum leiðum án þess að skerða útivist og jafnvel Landsamtök hjólreiðamanna (LHM) telja að tillögur Orkuveitu Reykjavíkur um vatnsvernd í núverandi mynd gangi of langt gagnvart útivist á svæðinu.
Aðalfundur Landverndar hvetur alla sem koma að framtíðarskipulagi Heiðmerkur til að virða almannarétt og beita meðalhófi í ákvarðanatöku. Þannig má tryggja að nauðsynleg verndun vatnsbóla verði ekki á kostnað aðgengis almennings að náttúru og útivistarsvæðum. Leita skal allra leiða til að samræma markmið um vatnsvernd og rétt fólks til aðgangs að náttúru, í anda sjálfbærrar þróunar og lýðræðislegra sjónarmiða.
Enginn skynsamur maður getur verið á móti vatnsvernd en það vekur upp spurningu um hvort afstaða Veitna til verndar vatnsbóla Reykvíkinga sé í mótsögn við afstöðu eigandans í öðru máli þ.e. afstöðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sérstaklega í ljósi áætlaðrar áhættufjárfestingar fyrirtækisins í umdeildu verkefni í Hafnarfirði; Coda Terminal, sem fólst í að dæla allt að 4,8 milljónum tonna af fljótandi iðnaðarmengun frá Evrópu niður í jarðlög og grunnvatn Hafnarfjarðar árlega. Allt í nafni "loftslagsmála".
![]() |
Þetta er ekki mynd af alvöru CarbFFix drykk heldur AI myndlistarverk |
Samkvæmt Umhverfisstofnun eru þetta aðskilin vatnasvið og þau hafa verið skilgreind sem slík í stjórn vatnamála á Íslandi þ.e. sem ótengd og sjálfstæð vatnshlot. Samkvæmt Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur njóta Gvendarbrunnar sérstakrar verndar og Coda Terminal/CarbFix-svæðið staðsett utan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins.
Þrátt fyrir það voru sett fram rök og áhyggjur komu fram í umsögnum um Coda Terminal verkefnið í Hafnarfirði þar sem bent er á að ef öryggi bregst í dælingu eða holum geti mengun borist í grunnvatnsstrauma sem hugsanlega nái til jaðars Heiðmerkur sérstaklega ef þrýstikerfi grunnvatns raskast. Áhrifasvæði CarbFix í Hafnarfirði var áætlað vera um 100 ferkílómetrar, ekki má gleyma því.
Hafnfirðingar höfnuðu tilboði OR og ESB um að dæla milljónum tonna af iðnaðarúrgangi niður í sitt nærsamfélag og nú er Orkuveita Reykjavíkur / CarbFix að leita að nýjum staðsetningum fyrir verkefnið utan höfuðborgarsvæðisins þar á meðal í Þorlákshöfn/Ölfusi, Helguvík og á Húsavík. Þar virðist ekki, frekar en í Hafnarfirði, vera litið til ákvæða Vatnaáætlunar Íslands 20222027.
Á sama tíma njóta íbúar Reykjavíkur og Hafnarfjarðar þess að ganga og hjóla um Heiðmörk með vatnsbrúsa fulla af hreinu vatni úr Gvendarbrunnum eða "sódavatni" frá CarbFix og sumir þeirra mæra jafnvel bíllausan lífsstíl. Mun Borgarlínan á endanum ná alla leið upp í Heiðmörk?
Reykjavík, 2. júlí 2025
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.