Þjóðaratkvæðagreiðsla vegna umsóknar um aðild að ESB er stjórnsýslugrín!

Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur má fyrst og fremst finna í stjórnarskránni og lögum nr. 91/2010 um framkvæmd þeirra. Forseti Íslands getur vísað lögum til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef frumvarp er samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, öðlast það gildi sem lög. Niðurstaðan er lagalega bindandi.

Alþingi getur samþykkt ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Alþingi getur einnig sérstaklega mælt fyrir um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu með stjórnarskrárbreytingu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi eru í raun pólitískt bindandi, þar sem afar ólíklegt er að Alþingi eða Forseti Íslands gangi gegn vilja þjóðarinnar

Umsókn um aðild að ESB er óheimil samkvæmt stjórnarskránni

Stjórnarskráin heimilar ekki aðild Íslands að ESB. Skilyrði fyrir aðild Íslands er að stjórnarskránni verði breytt og þar kveðið á um heimild stjórnvalda til að framselja ríkisvald til alþjóðlegra ríkjasambanda, eins og ESB.

Fulltrúum Íslands sem taka þátt í viðræðum við ESB er því óheimilt að semja um þau málefni sem stjórnarskráin bannar. Hafa fulltrúar ráðuneytisins upplýst fulltrúa ESB um að stjórnarskráin heimili ekki slíkar samningaviðræður án undanfarandi stjórnarskrárbreytingar?

Er ætlunin að breyta stjórnarskránni eftir á ef þjóðin samþykkir að hefja aðlögunarviðræður, sem utanríkisráðherra kallar gjarnan „samningaviðræður“ eða „aðildarviðræður“?

Er vilji meðal Íslendinga til að afsala fullveldi? Fyrir hvað?

Er líklegt að Íslendingar samþykki svo róttækar breytingar á stjórnarskránni að þær leiði til þess að Ísland láti af fullveldi og framselji valdheimildir til erlends ríkjasambands?

Er vilji hjá meirihluta þjóðarinnar til að afsala sjálfstæði landsins, auðlindum þess, orku, landi, vatni og fiskimiðum? Hvað með löggjafarvaldið, dómsvaldið og framkvæmdavaldið? 

Á að fela embættismönnum Evrópusambandsins vald til að hafa áhrif á stjórnun landsins í framtíðinni? Er það sú framtíðarsýn sem við viljum fyrir Ísland? Er það sú framtíðarsýn sem við óskum fyrir komandi kynslóðir Íslendinga sem nú eru að vaxa úr grasi? Hvað stendur þá eftir?

Niðurstaða:

Umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðlögunarferli vegna inngöngu í ESB stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem slíkt ferli krefst undanfarandi stjórnarskrárbreytinga.

Til að setja þetta í samhengi mætti ímynda sér að boðað væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um að Ísland innleiddi nauðungarvinnu eða dauðarefsingu. 

Hvoru tveggja er bannað samkvæmt stjórnarskránni og aðeins mögulegt að undangengnum stjórnarskrárbreytingum og það sama gildir um aðild Íslands að ESB. Myndi íslenska þjóðin samþykkja slíkar róttækar stjórnarskrárbreytingar?

Ekki er hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræður um inngöngu Íslands í ESB, án undanfarandi stjórnarskrárbreytinga!  

Lifi_frjalst_Island
Áfram frjálst Ísland!

 



ref.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944
Jón Steinar Gunnlaugsson Mbl. 20. mars 2015, bls.23

 

 

 



#ESB #Bókun 35 #fullveldi Íslands #frelsi #EES-samningur #sjálfstæði #lýðræði #Ísland #stjórnarskrá #stjórnarskrárbrot #raforkumarkaður #þjóðaratkvæði #þjóðaratkvæðagreiðsla #landráð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er hárrétt. Stjórnarskráin leyfir ekki ESB aðild og það er mikilvægasti punkturinn í allri umræðu um þetta vitlausa mál. Við sem erum andvíg aðild þurfum í raun ekki nein frekari rök fyrir þeirri afstöðu og með þeim ætti málið að vera útrætt og dautt.

Þú stillir þessu þó þannig upp að með stjórnarskrárbreytingu gæti ESB aðild orðið möguleg en gleymir því að þeir einu sem gætu breytt stjórnarskrá (þingmenn) eru bundnir drengskaparheiti við hana og mega því ekki kollvarpa grundvelli hennar, fullveldinu.

Vinsamlegast ekki gefa aðildarsinnum undir fótinn með slíkar stjónarskrárbreytingar sem drengskaparheitið útilokar. Ef við ætlum að verja fullveldi Íslands verðum við að standa fast á vörnum þess á öllum þeim stöðum sem á það getur reynt.

Ég hef lengi reynt að benda á þessar mikilvægu staðreyndir og var í fyrstu eins og hrópandi í eyðimörkinni en ég fagna því að núna séu fleiri að vakna til vitundar um þessar mikilvægu staðreyndir sem geta gagnast til varnar fullveldinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.8.2025 kl. 01:45

2 identicon

Réttara er að: "Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur m...... Ef frumvarp er samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur það gildi sem lög. Niðurstaðan er lagalega bindandi." Frumvarp öðlast gildi sem lög þegar Alþingi samþykkir það. Vísi forseti lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er það til að þjóðin ákveði hvort þau haldi gildi eða verði felld úr gildi.

Umsókn er ekki bönnuð og viðræður ekki heldur. Til að setja þetta í samhengi mætti ímynda sér að boðað væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um að Ísland innleiddi herskyldu eða dauðarefsingu. Fram að þeirri atkvæðagreiðslu og stjórnarskrárbreytingu væri ekkert sem bannaði að hugmyndirnar væru útfærðar. Það mætti ákveða hvernig og hvar aftökur færu fram. Þú mættir sækja um sem böðull og fara í viðtal um kaup og kjör. Segja mætti hverjir yrðu fyrst kallaðir til herþjónustu. Hvar hún færi fram og hverjir mundu annast þjálfunina. En ekkert mundi raungerast fyrr en búið væri að breyta stjórnarskránni. Það er ekkert sem bannar að það sem taki við ef stjórnarskránni er breytt sé rætt, skipulagt og undirbúið.

Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræður um inngöngu Íslands í ESB, án undanfarandi stjórnarskrárbreytinga!  Umsókn og viðræður um inngöngu Íslands í ESB eru allt annað en innganga í ESB!

Glúmm (IP-tala skráð) 2.8.2025 kl. 02:14

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Mér sýnist Björn Bjarnason f.v. ráðhrra hafa áttað sig á því sem ég er að halda fram, því hannskrifar í dag 2. ágúst 2025 á blogginu sínu:

"Þjóðaratkvæðagreiðslan 2027 krefst þess að tillaga um hana sé lögð fyrir alþingi. Setja verður í lög ákvæði um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, hvernig hún verði bindandi fyrir stjórnvöld. Sýna verður fram á með tillögu á alþingi og meðferð hennar að þingmeirihluti sé fyrir breytingu á stjórnarskránni svo að afsala megi fullveldi, samþykki þjóðin framgang aðildarumsóknarinnar til leiðtogaráðs ESB sem ákveður næstu skref.

Sé ekki tryggilega og löglega frá öllum þáttum gengið kann þjóðaratkvæðagreiðslan að verða dæmd ógild eins og kosningin til stjórnlagaþings árið 2010. Kannski ætlar Kristrún feta þar í fótspor Jóhönnu?"

https://www.bjorn.is/dagbok/nr/12032

Júlíus Valsson, 2.8.2025 kl. 12:20

4 identicon

Sæll vertu

Við þjóðaratkvæðagreiðslu má málið sem borið er undir þjóðina ekki vera óskýrt, hvað þá villandi. Mér hefur virst að flokkar innlimunarsinna vilji stefna að því að bera upp merkingarlausa spurningu sem margir kunna að svara játandi vegna orðalagsins til að geta túlkað svarið að vild. Spurning á borð við „styður þú áframhaldandi samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu?“ „styður þú samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu?“ eða því um líkar spurningar eru marklausar. (Hver styður ekki viðræður?) Spurningin verður að fela í sér að segi kjósandinn já, þá leiði það til innlimunar ESB á Íslandi með tilheyrandi fullveldisafsali.

 

Spurningin „styður þú inngöngu Íslands í Evrópusambandið“ er skýr; já hefur þá merkingu. Nauðsynlegt er að jafnhliða verði spurt um þýðingarmestu mál sem tengjast aðild. Þannig þarf að spyrja „styður þú að Ísland haldi fullum yfirráðum yfir fiskimiðum innan íslensku efnahagslögsögunnar“?

„Styður þú að Ísland haldi fullum yfirráðum yfir alþjóðlegum samningum um veiðar íslenskra aðila utan íslensku efnahagslögsögunnar?

„Styður þú að Ísland haldi fullum yfirráðum yfir nýtingu orkuauðlinda á Íslandi?

 - Ný lög sem eru nauðsynlegur undanfari þjóðaratkvæða greiðslu, sbr. Icesave, verða að ákvarða orðalagið ef af verður. Við þá lagasmíð mun reyna á stjórnaskrá, skýrleika o.fl.

EINAR S HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 2.8.2025 kl. 16:24

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Glúmm er að vísa 26. gr. stjórnarskárinnar sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslu sem skal halda ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar. Ríkisstjórnin stefnir alls ekki að því að halda neina slíka um viðræður við Evrópusambandið enda er þá ekki um að ræða neitt lagafrumvarp heldur einfaldlega ákvörðun. Samkvæmt núgildandi kosningalögum getur Alþingi samþykkt þingsályktun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkar ákvarðanir en þá er slík atkvæðagreiðsla eingöngu ráðgefandi en ekki bindandi. Þessu tvennu má ekki rugla saman.

Að sjálfsögðu er ekki heimilt að grípa til aðgerða í neinu skyni sem stjórnarskráin leyfir ekki því allir þingmenn og ráðherrar eru bundnir drengskaparheiti við stjórnarskrá og verða því að fylgja henni en ekki fara gegn henni. Þeir hafa því enga heimild til að hefja viðræður um aðild að ESB sem er óheimil og enn síður að sækja um aðild sem er líka óheimil auk þess sem jafnvel þó það væri gert yrði það markleysa því stjórnarskráin leyfir hvort sem er ekki að hægt sé að ná markmiði slíkra aðgerða þ.e. aðild að ESB.

Engin þjóðaratkvæðagreiðsla getur breytt neinum af þessum staðreyndum og enn síður athugasemd á bloggsíðu frá huldumanni sem skrifar undir dulnefni og fer rangt með staðreyndir.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.8.2025 kl. 18:53

6 identicon

Vissulega, en þessum ESB-ástsjúka utanríkisráðherra er bara slétt sama. Þar í liggur meinið, og þess verðum við því miður að gjalda.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.8.2025 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband