13.6.2007
Síðasta lag fyrir fréttir
Ég hef ávallt borið mikla virðingu fyrir sérvitringum, sérstaklega þeim skemmtilegu. Sérviskan getur birst í ýmsum myndum. Safnararnir eru alveg sér á parti. Ég held að söfnunaráráttan sé rík í eðli okkar flestra, að safna forða og geyma til hörðu áranna. Þessi árátta kemur fram á margvíslegan hátt og menn geta safnað hinum ótrúlegustu hlutum. Fyrir skömmu var viðtal í Fréttablaðinu við konu, sem safnað hefur fílum í 29 ár! Hún á 300 fíla og þann dýrasta keypti hún með afborgunum. Hún kallar sig "Fílakonuna í fílahúsinu". Túrhestar og krakkar fíla þetta víst í botn og staldra oft við gluggann hennar í miðbænum til að skoða safnið. Fyrir nokkrum árum var viðtal í sjónvarpinu við afar sérvitra bræður uppi í sveit, sem söfnuðu veðurfréttum! Gott ef það var ekki Ómar formaður, sem tók viðtalið við þá. Þeir skiptust á að vakna á nóttunni til að kveikja á segulbandinu til að missa ekki af veðurfréttunum kl. 04:30. Myndavélin sýndi okkur ótrúlegt safn af segulbandskasettum, sem allar geymdu upptökur af veðurfréttum síðustu áratuga. Þær fylltu heilt herbergi. Ekki veit ég hvort þeir eru enn að. Minnir að þeir hafi búið einhvers staðar í Borgarfirðinum. Það gæti verið áhugavert að taka sér frí í eina viku og hlusta hjá þeim á veðurfréttir t.d. frá árinu 1965. Maður yrði allavega vel veðraður eftir þá hlustun. Gæti verið góð afslöppun eða ný hugleiðsluaðferð. Í minningunni var alltaf sólskin og gott veður það ár.
Nokkrir vinir mínir hafa nú stofnað klúbb, sem safnar "Síðasta laginu fyrir fréttir", S.Á.S.L.F.F. - Samtök áhugamanna um síðasta lag fyrir fréttir. Markmið félagsins er að afla allra tiltækra upplýsinga um þessi lög en einnig að semja lag, sem síðar verði leikið í hádeginu einhvern daginn sem síðasta lag fyrir fréttir. Þetta er heilmikil vinna sem fer í þetta hjá þeim og minnir mest á undirbúning Evróvisíon. Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað þennan sið varðar en þeir sem hafa búið í Búlgaríu segja mér að þetta hafi tíðkast þar í landi á stríðsárunum. Klúbburinn á nú í safni sínu nánast öll þau lög, sem leikin hafa verið fyrir hádegisfréttir síðustu árin og hafa gert nákvæma úttekt á ýmsum smáatriðum í þessu sambandi svo sem höfundum laganna, kyni, aldri, flytjanda, texta, innihaldi texta, hve oft flutt o.s.frv. Mörg lögin í safni félagsins hljóma mjög kunnuglega. Umræðuefnin í klúbbnum eru þó femur einhæf verð ég að segja. Þó hafa ýmsar góðar hugmyndir komið fram. t.d. að "thema" lagsins eigi ávallt að tengjast á einhver hátt aðalfrétt dagsins. Næst þegar gos hefst í Heklu þá verði t.d. spilað lagið "Þú stóðst á tindi Heklu hám" með Elísabetu Einarsdóttur og þegar utanríkisráðherra fer næst til Ísrael þá mætti spila "Í fjarlægð" með Erlingi Ólafssyni. Þegar skipt er um ráðherra á að sjálfsögðu að spila á undan fréttinni lagið "Kveðjustund" (Auf Wiedersehen), sem Alfreð Clausen söng inn á plötu með undirleik Björns. R. Einarssonar árið 1952 og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf út. Auðvitað á að spila "Söng villiandarinnar" með Jakobi Hafstein á undan öllum fréttum, sem tengjast skotveiði og fuglalífi. Þegar vinkona okkar, Paris Hilton losnar úr fangelsinu mætti leika "Ég er frjáls" með Facon og Jóni Kr. Ólafssyni stórsöngvara frá Bíldudal. Platan var gefin út á 45 snúninga vínilplötu af SG-Hljómplötum árið 1969. (Jón Kr. er sjálfur mikill safnari og hefur opnað tónlistarsafn á Bíldudal, sem heitir "Melódíur minninganna".)
Svona má lengi telja. Öllum er frjálst að ganga í félagið.
Því miður fer svona ástríðusöfnurum og sérvitringum fækkandi. E.t.v. er það vegna aukinnar geðlyfjanotkunar landans, hver veit?
"Keep it simple"
B.B.King
Athugasemdir
Hvar gerist maður félagi í þessum S.Á.S.L.F.F.? ábyggilega skemmtilegur félagsskapur
Guðrún Sæmundsdóttir, 13.6.2007 kl. 20:29
Sæl Guðrún!
Við erum vön að hittast fyrsta mánudag hvers mánaðar á Súfistanum kl. 20:00 ef einhver góð lög (eða afspyrnu léleg) hafa verið leikin fyrir fréttir, mánuðinn þar á undan. Nánari upplýsingar verða birtar á heimasíðu félagsins, sem nú er í smíðum.
Júlíus Valsson, 14.6.2007 kl. 00:54
Flott framtak. Síðasta lag fyrir fréttir er auðvitað alveg magnað fyrirbrigði, sem og öll þau lög, og fylgist spennt með þróun mála. Ætla samt ekki að ganga í fleiri félög enda engin félagsvera, þannig séð, svo ég sæki ekki um aðild að svo stöddu. Alin upp af miklum safnara og hef reynt að hafa hemil á ástríðunni en tekist illa. Á nokkur hundruð pör af smáskóm, þar sem íþróttaskór eru í mestu uppáhaldi, byrjandi úlfaldasafn (bernskuminning) og eina safnið á landinu, (held ég), af ljósmyndum af bleikum húsum. Einn góðan veðurdag býð ég ykkur öllum, bloggurum, á sýninguna sem ég er búin að skipuleggja í kring um það project.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 14.6.2007 kl. 00:57
Söfnunarárátta fullorðins fólks skiptist í 3 stig. Fyrsta stigið telst vera heilbrigð söfnunarárátta. Margir safna plötum með uppáhalds hljómsveitinni sinni eða tónlistarmanninum, bókum eftir uppáhalds rithöfundinn o.s.frv.
Næsta skref er þegar umræðuefnið berst stöðugt að því sem söfnunin snýst um. Það er viðvörunarmerki um að viðkomandi er að verða heltekinn af viðfangsefninu. Þetta telst þó vera eðlilegt ef viðkomandi getur sameinað vinnu og viðfangsefnið eða að þetta tengist heilbrigðu áhugamáli.
Þriðja stigið er þegar öll tilveran snýst um söfnunina. Þá er söfnunin komin á hættustig. Hún hefur magnast upp í þráhyggju. Dæmi um slíkt er þegar stofa heimilisins er orðin eins og minjasafn um Elvis Presley eða Bítlana. Eða eins og hjá manni í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann safnar merktum húfum. Hann byggði hús undir húfurnar. Þar eru þær flokkaðar, þeim raðað upp alla veggi og loft í samræmi við lit og fleira.
Allt annað: Hann er góður lagalistinn í Tónspilaranum þínum.
Jens Guð, 14.6.2007 kl. 02:27
Ég er svona safnari á fyrsta stigi eins og Jens lýsir þeim; reyni að eiga allt með Bítlunum og Paul McCartney en fer ekki svo langt að eltast við bootlegga. Í vikunni las ég um konu með svo svakalega söfnunaráráttu fyrir Elvis Presley að í mörg ár var hún búin að stela frá vinnunni sinni til að fjármagna söfnunina. Nú á að setja allt draslið á uppboð og stendur til að reyna að borga þennan pening til baka. Hins vegar mun miklu minna fást fyrir dótið en hún greiddi fyrir það, því seljendur voru búnir að átta sig á að hún myndi borga næstum hvað sem er. Þannig að mest af þessu dóti er miklu minna virði en hún greiddi fyrir það.
Í sambandi við síðasta lag fyrir fréttir. Ég keypti einu sinni kasettu sem innihélt lög sem spiluð höfðu verið sem síðasta lag fyrir fréttir, og kasettan hét 'Síðasta lag fyrir fréttir'. Ég ætlaði að gefa mömmu þessa kasettu en þegar ég sagði henni að ég hefði keypt hana hló mamma. ég spurði af hverju hún hlægi og þá svaraði hún: "Æi, mér hefur alltaf þótt lögin sem spiluð eru síðast fyrir fréttir ógurlega leiðinleg." Ég gaf henni ekki kasettuna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.6.2007 kl. 03:38
Vil bæta einu við. Þegar ég var átta ára var það vaninn að þegar byrjað var að spila síðasta lag fyrir fréttir lögðu vinir mínir af stað heiman frá sér og söfnuðust saman í forstofunni heima svo við gætum öll gengið saman í skólann. Þau bjuggu öll nógu stutt frá til þess að þau komast til mín áður en lagið kláraðist. Við þurftum að mæta í skólann klukkan eitt og það kom iðulega fyrir að við þurftum að hlaupa síðasta hlutann þegar við heyrðum í skólabjöllunni. Það tekur mig nú innan við tíu mínútur að labba þetta. Mikið ósköp hefur alltaf verið gaman hjá okkur á leiðinni að það skyldi taka allan þennan tíma.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.6.2007 kl. 03:42
Takk fyrir bráðskemmtilegar athugasemdir!
Hún var frábær sagan hennar Kristínar af krökkunum, sem marseruðu saman í skólann undir Síðasta laginu fyrir fréttir. Ég heyri fyrir mér "Hraustir menn" með Kristni Hallssyni.
Gaman væri að fá fleiri sögur af skemmtilegum söfnurum og ekki síst einhverju sem tengist "Síðasta laginu fyrir fréttir". Þetta lag skiptir miklu máli fyrir þjóðarsálina dag hvern.
Eins og Hallgrímur Helgason komst svo vel að orði: "Fátt er betra í þessum heimi en nítján íslenskar gráður í hádeginu og logn á firði, síðasta lag fyrir fréttir út um opna hurð, ferjan kumrandi í fjarska og suðandi norðlenskar flugur í skugganum af fréttunum að sunnan."
Júlíus Valsson, 14.6.2007 kl. 11:36
Ég man eftir því síðan ég var krakki að þá var pabbi alltaf að reyna að geta upp á því hvaða söngvari eða kór væri að syngja.Vandinn var sá að hann þekkti ekkert marga söngvara eða kóra,en hann byrjaði minnir mig alltaf á Axel Sjuth (man ekki hvernig það er skrifað)eða Sunnukórnum og auðvitað kom stöku sinni fyrir að hann hefði rétt fyrir sér,og það sem hann varð glaður.Þar sem maðurinn minn vann fyrir 30 árum þá var þetta heilmikið mál að þekkja söngvarann sem söng síðasta lag fyrir fréttir.Nú í dag spái ég sjálf heilmikið í þetta og mjög grobbin þegar ég get mér rétt til,eins og þegar Kristján Kristjánsson var að syngja um daginn,það heyrist svo sjaldan í honum að það eru ekki margir sem þekkja hann í dag.En hugmyndin að félaginu er frábær.
Margret Th (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 20:29
Sæll Júlíus, skemmtilegur pistill og frábært að þetta félag skuli vera til! Gangi ykkur vel! Starfsfélagi minn á Rás 1, Ævar Kjartansson, tók dásamlegt við veðurfréttasafnarana á sínum tíma. Ég veit ekki til að það hafi verið tekið við þá sjónvarpsviðtal. Þó gæti það verið. Langaði bara að koma þessu að.
Sigga (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 21:23
Takk fyrir þetta Sigga!
E.t.v var þetta bara útvarpsviðtal. Ævar er frábær útvarpsmaður. Ég sá a.m.k. fyrir mér ótal segulbandskasettur, sem fylltu marga hillumetra heima hjá bræðrunum.
Júlíus Valsson, 15.6.2007 kl. 22:43
Alltaf gaman af þínum pistlum Júlíus!
Ásgeir Rúnar Helgason, 17.6.2007 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.