13.9.2007
Hvað býr í þér Óli minn?
Fyrir langa löngu fór æskuvinur minn í skóla erlendis. Þetta var í fjarlægu landi, þar sem foreldrar hans stunduðu nám um tíma. Ég fékk frá honum bréf, sem var nokkrar vikur að berast mér í sjópósti. Fyrsti dagurinn í skólanum kom honum mjög á óvart. Skólinn var nefnilega allt öðru vísi en hann átti að venjast. Kennarinn tók honum opnum örmum og bauð honum inn í skólastofuna. Þar biðu væntanlegir bekkjarfélagar hans og Óli tók eftir, að andlit þeirra ljómuðu af gleði og eftirvæntingu. Óli kynnti sig og kennarinn spurði hann spjörunum úr um Ísland, krökkunum til mikillar ánægju. Óli hefur nú alltaf verið fremur málglaður og hafði bara gaman af þessari óvæntu athygli. Hann vissi þó að brátt myndi hann falla inn í hópinn og athyglin minnka. Það fór þó á annan veg. Kennarinn og krakkarnir héldu áfram að spyrja hann um allt það sem þeim datt í hug. Svona hélt þetta áfram í nokkra daga. Óla fannst hann vera kominn í Forvitnaland. Hann var orðinn þreyttur á þessu umstangi og vildi fara að læra eitthvað, öfugt við það sem hann var vanur á Íslandi. Hann spurði kennarann um námsefnið. "Námsefnið? Jú, námsefnið það erum við!" svaraði kennarinn að bragði. "En ert þú ekki kennarinn?", spurði Óli forviða. "Við erum öll nemendur, Óli minn, og stundum erum við kennarar. Nú er komið að þér að kenna okkur hinum. Við viljum vita allt um þig og þína hæfileika. Við viljum vita, hvað í þér býr, hvaða eiginleika þína á að rækta, hvað þú getur gefið og miðlað okkur hinum".
Þetta fannst Óla vera skrýtinn skóli. Smám saman varð hann einn af hópnum.
Athugasemdir
Aha....þetta er eins og þegar ég tók Mastergráðuna mína í Oxford....Þá sagði Tutorinn minn...Við erum ekki hér til að troða neinu í þig heldur til að ná fram því besta sem býr í þér. Hvað hefuru að segja þessari veröld sem býr í þinni einstæðu reynslu og upplifun af veröldinni. Þá vissi ég að ég var á rettum stað
Um það er menntun..að ná út en ekki að troða inn.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.9.2007 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.