10.10.2007
Eituráhrif kvikasilfurs
Mikið magn kvikasilfurs í urriða í Þingvallavatni
Urriði - Salmo Trutta
Mikið magn kvikasilfurs mældist nýlega í stórum urriða í Þingvallavatni. Urriðinn, sem er ránfiskur er mjög ofarlega í fæðukeðju vatnsins og því útsettur fyrir þeim eiturefnum, sem gjarnan safnast fyrir í fituvef fiska. Ekki er fulljóst, hvers vegna mikið magn kvikasilfurs er í Þingvallavatni en hugsanleg skýring er sú, að frárennsli Nesjavallavirkjunar sé um að kenna en það ku innihalda kvikasilfur og e.t.v. fleiri þungmálma og eiturefni.
Af einhverjum orsökum hefur frárennsli virkjunarinnar verð beint í Þingvallavatn líklega vegna þess að vatnið er þarna og það er þægilegt.
Kvikasilfur er frumefni (Hg) og í náttúrunni kemur það einkum fyrir sem steintegundin sinnóber (HgS kvikasilfurssúlfíð, e. cinnabar).
Kvikasilfur er eitur. Kvikasilfur er ekki bara eitrað, það er baneitrað. Bannvænn skammtur kvikasilfursalts er um 1 g. Kvikasilfurmálmurinn sem slíkur er ekki eitraður þó hann sé gleyptur þar sem hann frásogast ekki úr meltingarvegi.
Kvikasilfur er í raun vökvi en telst til þungmálma. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, sbr. eituráhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.
Það kvikasilfur, sem finnst í náttúrunni er að miklu leyti bundið seti, og lífrænum ögnum sem salt og því ekki aðgengilegt æðri lífverum. Örverur geta hins vegar breytt bundnu kvikasilfri í metýl-kvikasilfur, sem er baneitrað og lægri lífverur eiga auðvelt með að taka upp. Vegna rokgirni kvikasilfurs berst það auðveldlega langar vegalengdir í andrúmslofti. Þetta hefur valdið því, að mikið magn kvikasilfurs hefur fundist fjarri uppsprettum þess. Almennt hefur verið talið varasamt að magn kvikasilfurssambanda (methyl mercury) sé meiri en 0,5mg/kg og að neysla kvikasilfurs megi ekki fara yfir 0,5mg/viku. Lægri gildi eru fyrir barnshafandi konur. Kvikasilfrið hamlar starfsemi efnahvata í frumum líkamans með því að bindast sulfhydryl hópum (-SH) í frumunum. Þetta veldur því, að kvikasilfur er eitrað öllum frumum líkamans.
Helstu eituráhrif kvikasilfurs eru:
1) Bráð eituráhrif kvikasilfurs:
a) Eftir neyslu kvikasilfurssalta: Málmbragð, kviðverkir, blóðugur niðurgangur jafnvel í nokkrar vikur. Minnkaður þvagútskilnaður. Nýrnabilun, sem veldur dauða.
b) Eftir innöndun kvikasilfurgufu: Bólgur í munnslímhúð, aukin munnvatnsframleiðsla, málmbragð, niðurgangur, lungnabólga, nýrnaskemmdir, svimi, klaufska, taltruflanir og banvænir krampar.
c) Aklylsambönd kvikasilfurs safnast fyrir í miðtaugakerfinu og valda truflun á samhæfingu hreyfinga (ataxia), rykkjasótt (chorea), og krömpum. Yfirleitt er um að ræða varanlegar skemmdir á miðtaugakerfinu.
2) Langvinn eituráhrif kvikasilfurs:
a) Ofsakláði (urticaria), húðeksem, bólgur í slímhúðum, aukin munnvatnsframleiðsla, niðurgangur, blóðleysi, fækkun hvítra blóðkorna, lifrarskemmdir og nýrnabilun. Hárlos. Einnig truflanir á andlegri starfsemi, ekki síst hjá börnum.
Frægt dæmi um kvikasilfureitrun er frá Japan er íbúar Minamata veiktust eftir að hafa borðað kvikasilfursmengaðan fisk. Nú ættu yfirvöld skilyrðislaust að rannsaka nánar lífríki Þingvallavatns og afla upplýsinga um áhrif Nesjavallavirkjunar. Menn ættu ekki að borða stóran urriða úr vatninu. Spurning vaknar, hvort hin hreina orka er eins hrein og haldið er fram?
Heimildir:
Mbl. 6. október 2007
Vefur Umhverfisstofnunar
Wikipedia.org
Vísindavefurinn
eMedicine.com
Robert H. Dreisbach
Handbook of Poisoning - Lange
Markabókin.
Innst í réttinni
vindurinn feykir blöðum;
Sjö auðum síðum.
Athugasemdir
Góð umfjöllun um kvikasilfurseitrun, Júlíus. Fékk tvo Grænlendinga inn á gjörgæslu vegna kvikasilfurseitrunar, á níunda áratugnum. Voru ungir selaveiðimenn, er borðuðu mikið af selakjöti og spiki. Voru hundveikir í nokkrar vikur hjá okkur, og kvikasilfri í sel kennt um. Bjargaði þeim að þeir voru ungir, og komust báðir á heimaslóðir aftur, þrátt fyrir að nýrnastarfsemi þeirra væri skert eftir veikindin. Þurfum að líta okkur nær, Frónbúar, og kanna hversu "hrein og tær" náttúra okkar í raun og veru er.
Sigríður Sigurðardóttir, 10.10.2007 kl. 20:29
Gott og tímanlegt og fræðandi innlegg.
Í framhjáhlaupi má ég kannski benda á nokkrar heldur nöturlegar staðreyndir til umhugsunar.
1. Nánast allt plast sem hefur verið framleitt í heiminum er enn að þvælast í náttúrunni ekki síst í höfunum, þrátt fyrir miklar endurvinnslublekkingar. Hlutabréfamarkaðurinn stjórnar heiminum og raunverulegt átak í endurvinnslu er því miður of dýrt og skaðar hagnaðinn.
2. Allir heimsins heimiliskettir éta meira af fiski úr hafinu en allir heimsins selir.
3. Meira en helmingurinn af sjávarfangi heimsins fer í að framleiða fóður í nautgripi sem aftur þýðir í raun að beljan er mesti ránfiskur hafsins og er að útrýma ránfiskum þar. Þannig störfum við skipulega að því að rjúfa lífkeðjuna í þágu eigin græðgi og þeirra sem kosta og stjórna pólitíkusum sem okkur er boðið upp á í auglýsingum í NYT og mogganum svo dæmi séu nefnd.
Baldur Fjölnisson, 10.10.2007 kl. 21:35
Það er orðið vandlifað í henni veröld
Guðrún Sæmundsdóttir, 10.10.2007 kl. 22:23
Hér þarf sérstaklega að líta til þess að því meira sem efnið er rannsakað, því fjær eru vísindamenn því að finna öruggt lágmarksmagn til inntöku.
"There is no safe level" segja þeir í dag.
Elías Halldór Ágústsson, 11.10.2007 kl. 00:37
hvað er átt við með að kvikasilfur sé rokgjarnt?, er hugsamlegt að það sé í gufu? og hve langt getur það þá farið með vindi, brennisteins tvíildi berst alla leið til Reykjavíkur frá Nesjavallavirkjun er hugsanlegt að það sama geti gerst með kvikasilfur? spyr sá sem ekki veit.
Magnús Jónsson, 11.10.2007 kl. 01:03
Magnús!
Bræðslumark kvikasilfurs er um -39 gr C.
Eftirfarandi upplýsingar er m.a að finna um Nesjavallavirkjun á heimasíðu Orkuveitunnar:
Júlíus Valsson, 11.10.2007 kl. 02:13
Það er rokgjarnt á þann hátt að ef kvikasilfursmælir brotnar innandyra, þá þarf að safna því öllu saman til förgunar því annars gufar það hægt og smátt upp og mengar umhverfið.
Elías Halldór Ágústsson, 11.10.2007 kl. 07:35
OR hefur víst beðið Náttúrufræðistofu Kópavogs einu sinni eða tvisvar um að mæla mengun í Þingvallavatni þar sem innrennslið í vatnið frá virkjuninni er. Mengun mældist undir hættumörkum skildist mér en vart ku hafa verið við neikvæð áhrif vegna hita vatnsins.
Nesjavallavirkjun var tekin í notkun í september 1990 og hefur verið stækkuð tvisvar síðan. Þegar túrbínan vegna Grundartangaálversins var tekin í notkun var ekki hægt að nýta heita vatnið,sem þá féll til, til hitaveitu því pípan til Reykjavíkur annar því ekki.
Pétur Þorleifsson , 11.10.2007 kl. 10:09
Gallinn við að setja eitthvað viðmiðunargildi varðandi styrk þungmálma í ákveðnu vistkerfi er sá, að þar vantar einn þátt, sem er tímafaktorinn. Þungmálmar safnast nefnilega fyrir í þeim lífverum, sem efstar eru í fæðukeðjunni og sem lifa lengst. Maðurinn trjónir þar efst. Fróðlegt væri því að mæla kvikasilfursmagnið og aðra þungmálma í umhverfisráðherranum. Er hann ekki fræg urriðaæta?
Einnig vaknar spurning um það, hvaða aðrar mengunaruppsprettur en virkjunin eru mögulega fyrir hendi á þessu svæði?
Júlíus Valsson, 11.10.2007 kl. 10:54
0,9 mg/kg er mjög mikið, það er eins og við er að búast í stórum ránfiskum svo sem eins og sverðfiski eða hákarli.
Hér eru bandarískar tölur um þetta, gefnar upp í ppm (parts per million) sem samsvarar mg/kg http://www.cfsan.fda.gov/~frf/sea-mehg.html
Elías Halldór Ágústsson, 11.10.2007 kl. 10:55
Það er eins og ég segi: það lífshættulegt að lifa.
Ragnhildur Jónsdóttir, 11.10.2007 kl. 11:16
Áhugaverðar töflur! Ég vissi ekki að urriðinn gæti orðið SVONA stór!
Júlíus Valsson, 11.10.2007 kl. 11:17
Ég las þetta í Mogganum. Góð grein og fróðleg.
Jens Guð, 12.10.2007 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.