Vefjagigt - Fibromyalgia Syndrome

Hvað er til ráða? 

Skilgreining

  • Vefjagigt er heilkenni (syndrome, þ.e. samsafn sjúkdómseinkenna) sem einkennist af langvarandi útbreiddum verkjum frá stoðkerfi líkamans og aumum blettum á vissum stöðum.
  • Ekki finnast nein merki um liðbólgur (synovitis) eða bólgur í vöðvum (myositis).
  • Eðlileg læknisskoðun og eðlilegar niðurstöður blóðprófa og röngtenrannsókna.
  • 80-90% þeirra sem veikjast eru konur á aldrinum 30-50 ára.

Óleyst gáta

Margir þjást af þrálátum einkennum frá stoðkerfinu án nokkurar sýnilegrar ástæðu. Erfitt hefur reynst að henda reiður á þessi einkenni og koma þeim saman undir eina sjúkdómsgreiningu. Segja má, að vefjagigtin sé ein af mörgum óleystum gátum læknisfræðinnar. Á undanförnum árum hafa menn veitt þessum sjúkdómi eða heilkenni aukinn áhuga. Orðið vefjagigt (í erlendum tímaritum ýmist kallað fibrósitis eða fibromyalgia) hefur verið notað yfir sérstakan gigtarsjúkdóm, sem einkennist af langvarandi dreifðum stoðkerfisverkjum og stirðleika ásamt fjölmörgum aumum blettum víða um líkamann. Ekki eru allir læknar þó sammála um að hér sé um að ræða sérstakan sjúkdóm og margt er enn óljóst varðandi orsakir hans. Vitað er að vefjagigt leggst oftast á konur á barnseignaraldri (80-90%). Hann kemur þó fyrir hjá báðum kynjum og í öllum aldurshópum og hann virðist algengari í sumum fjölskyldum en öðrum. Tíðni sjúkdómsins virðist vera mjög mismunandi. Rannsókn sem gerð var nýlega í Noregi leiddi í ljós að 10.5% kvenna á aldrinum 20 til 40 ára voru haldnar sjúkdómnum.

Orsakaþættir

Yfirleitt er um að ræða samtvinnaða orsakaþætti og ekki hægt að benda á neina einstaka orsök. Þó er vel þekkt að sjúkdómurinn getur byrjað t.d. í kjölfar sýkingar eða slyss. Einkenni vefjagigtar skarast oft við einkenni síþreytu. Athygli vekur, að um þriðjungur sjúklinga með HIV sýkingu hafa einkenni vefjagigtar. Sýkla- og veirulyf hafa þó að jafnaði engin áhrif á sjúkdóminn. Talið er að í flestum tilfellum megi rekja einkennin til langvarandi truflunar á nætursvefni, sem aftur getur haft margvíslegar frumorsakir. Flestir langvinnir gigtarsjúkdómar svo sem liðagigt valda verkjum og stirðleika og almennri þreytu og er vefjagigt stundum hluti af sjúkdómsmyndinni hjá t.d. liðagigtarsjúklingum. Læknar eru ekki á einu máli um hvað það er, sem orsakar hina aumu blettir, hvort það er almennt lækkaður sársaukaþröskuldur eða einungis staðbundin eymsli. Ljóst er þó, að almennt lélegt ástand vöðva (léleg súrefnisupptaka) gerir þá mun viðkvæmari fyrir öllu hnjaski en ella (microtrauma). Sjúklingar með vefjagigt eru að jafnaði ekki þunglyndari en aðrir á sama aldri. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að þeir séu taugaveiklaðir eða séu haldnir ímyndunarveiki. Ljóst er að mikið og langvinnt andlegt álag getur leyst sjúkdóminn úr læðingi og aukið á einkenni. Eins og öðrum langvinnum sjúkdómum fylgir honum stundum þunglyndi.

fibromyalgia1

Rétt greining og fræðsla

Mikilvægt er að útiloka aðra sjúkdóma svo sem langvinna gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, sérstaklega skjaldkirtilssjúkdóma, langvinnar sýkingar (Lyme disease, AIDS ofl.) og jafnvel illkynja sjúkdóma. Fræðsla um sjúkdóminn er mjög mikilvæg. Oft er gagnlegt að sjúklingurinn hitti aðra sjúklinga með vefjagigt (t.d. í umræðuhópum), til að ræða sjúkdóminn og ýmis atriði sem tengjast honum.

Meðferð

Ekki er hægt að segja fyrirfram hvaða meðferð kemur að bestu gagni. Meðferðin er einstaklingsbundin og þarf oft að þreifa sig áfram með hvað hentar hverjum og einum best. Mikilvægt er að reyna að komast að orsökum einkennanna, til dæmis ef þau stafa af slæmum lífsvenjum. Athuga þarf atriði svo sem reykingar, óhóflega áfengis- og kaffidrykkju, of mikið vinnuálag og langar vökur. Oft þarf að bæta samskiptin innan fjölskyldunnar.

Meginmarkmið meðferðar

  • Að minnka verki með verkjalyfjum t.d. með parkódíni eða kódimagnýli sem bæði eru mið- og útverkandi (e:periferal and central analgesia).
  • Að bæta svefnmynstrið,t.d. með lyfjum svo sem amitriptylini.
  • Að draga úr geðsveiflum og minnka andlegt álag t.d. með reglulegri slökun.
  • Að auka blóðflæði til vöðva og mjúkvefja með líkamsæfingum.
  • Að auka líkamlegt þol.

Lyfjameðferð

Yfirleitt kemur lyfjameðferð t.d. með bólgueyðandi lyfjum að litlu gagni, en rétt er að reyna meðferð með verkjalyfjum og jafnvel stuttverkandi svefnlyfjum ef verkir og svefntruflanir eru mjög áberandi í sjúkdómsmyndinni. Í vissum tilfellum kemur að gagni að sprauta bólgueyðandi og jafnvel deyfandi lyfjum í blettina. Stundum reynist vel að nota ákveðin geðdeyfðarlyf í stuttan tíma t.d. amytriptilinum. Ekki er ástæða til öfgakenndra breytinga á mataræði, en sjálfsagt er að bæta slæmar matarvenjur og mörgum líður betur við að breyta yfir í léttara fæði. Yfirleitt þarf að nota saman líkamsæfingar og slökun. Margir hafa gott af nuddi og hitameðferð á auma bletti og ef um útbreiddar vöðvabólgur er að ræða.

Líkamlegt þrek

Eitt aðalatriðið í meðferð sjúklinga með vefjagigt er að auka almennt líkamlegt þrek þeirra. Oft er um að ræða einstaklinga, sem hafa mjög lítið líkamlegt þrek og eru mjög úthaldslausir. Ekki er ólíklegt að einmitt lélegt líkamlegt þrek stuðli að því að menn fái frekar vefjagigt. Hafa ber þó í huga að of mikil áreynsla, sérstaklega í byrjun meðferðar getur aukið einkenni sjúklinganna, sem virðast þola líkamlega áreynslu misvel. Sjúklingurinn sjálfur getur gert ýmislegt til að bæta líðan sína t.d. með reglulegum gönguferðum, sundi og jafnvel léttri leikfimi. Í flestum tilfellum er ekki ástæða til að hann hætti að vinna. Þótt margir telji vefjagigt vera einkonar ruslakistu fyrir stoðkerfiseinkenni þá er nú almennt viðurkennt í læknaheiminum að hér er um ákveðið heilkenni að ræða og eru þessar niðurstöður studdar af faraldsfræðilegum rannsóknum. Segja má að ef rétt er staðið að málum frá upphafi, þá eru horfur sjúklinga með vefjagigt góðar, en til þess þurfa að koma markviss og samhæfð vinnubrögð þeirra aðila sem starfa að greiningu og meðferð gigtarsjúklinga, svo sem lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa ofl.

Rannsóknir

Rannsóknir á vefjagigt fara nú fram í ýmsum löndum og verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðum þeirra á næstu árum. Í dag þekkjum við ekki nákvæmlega orsakir sjúkdómsins og það veldur einmitt erfiðleikum í meðferð hans.

Æfingar fyrir vefjagigtarsjúklinga:

Ef ég greinist með vefjagigt, hvað get ég gert til að láta mér líða betur?


Eitt að því mikilvægasta sem þú sjálf(ur) getur gert er að stunda æfingar. Byrjaðu með teygjuæfingar og gerðu síðan mjög léttar æfingar t.d. að ganga eða hjóla. Byrjaðu æfingarnar hægt og rólega því í byrjun þeirra geta verkirnir orðið verri. Ekki er þó óeðlilegt að finna fyrir einhverjum vöðvaverkjum í byrjun æfinganna. Mjög sárir verkir geta hins vegar verið vísbending um að þú sért að ofgera vöðvunum

Eftir því sem þú styrkist meira með æfingum, þeim mun betur kemur líður þér. Til þess að æfingarnar geri sem mest gagn þarft þú að æfa reglulega. Markmiðið er að byrja og geta haldið áfram að æfa til að draga úr verkjum og bæta svefninn.

Gönguæfingar: Byrjaðu hægt með því að ganga í fimm mínútur firstadaginn. Bættu síðan við tveimur mínútum næsta dag við þessar fimm. Halt áfram að bæta við tveimur mínútum þar til þú ert komin(n) upp í 60 mín á dag. Þegar þú hefur náð þessum árangri haltu áfram að ganga a.m.k. í klukkutíma þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ef þér finnst mjög erfitt að ganga í heilan klukkutíma í senn styttu þá þá tímann þannig að þér líði aftur vel á göngunni og haltu þeirri tímalengd í nokkra daga. Bættu þá aftur við tveimur mín eins og áður þar til þú ert aftur komin(n) upp í eina klukkustund. Reyndu að þjálfa þig upp í að ganga í a.m.k. 60 mínútur þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Ganga/skokk: Þegar þér finnst orðið þægilegt að ganga þrisvar til fjórum sinnum í viku þá getur þú byrjað að skokka hægt inn á milli. Þú getur t.d. gengið gengið 200 til 500m og skokkað hæægt aðra 500m og síðan koll af kolli. Þú getur lengt æfingarnar ef þær valda þér ekki miklum óþægindum.

Hjólreiðar: Oft er gott að geta gripið til æfingahjóls innandyra t.d. þegar veðrið er vont. Skrifaðu niður vegalengdir og tíma og settu þér það markmið að geta hjólað í a.m.k. 60 mínútur.

Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða æfingar þú velur. Aðalatriðið er að koma sér af stað og halda áfram að æfa. Mikilvægt er að velja æfingar eftir getu og áhuga. Sannað er, að æfingar draga úr verkjum með því að losa endorfin úr taugaendum. Þær bæta einnig svefninn og svefnmynstrið. Sumir losna alfarið við verki með æfingum. Mikilvægt er að finna að maður hefur einhverja stjórn á eigin líkama og heilsu. Regluleg líkamsþjálfun eykur þol og almenna vellíðan en bæta einnig sjálfsímyndina og sjálfstraustið! 

Hér er listi yfir nokkrar þær rannsóknir, sem nú er verið að vinna að í USA varðandi vefjagigt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér skilst að aðferðir sem Dr. Hulda Clark og fleiri hafa bent á virki sérstaklega vel á vefjagigt og gigt og fleira og fleira. Ég þekki af eigin reynslu að margt sem hún og fleiri benda á virkar.

Baldvin (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 17:28

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Frábært Júlíus! það þarf að tala meira um vefjagigt, það er almennt enginn skilningur á þessu. Má ég benda á vefjagigtarvefinn hennar Sigrúnar Baldursdóttur www.vefjagigt.is

Ég hef talað aðeins um vefjagigt á mínu bloggi og nú síðast um fáránleika TR og hin vonlausa hringiða sem maður getur lent í þar.

Takk Júlíus fyrir góðan pistil

Ragnhildur Jónsdóttir, 13.10.2007 kl. 17:41

3 identicon

Takk fyrir upplýsingarnar.

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 09:52

4 identicon

Frábær lesning.  Er einmitt á leiðinni í blóðprufur í sambandi við gigt og fleira.  Stemmir óhugnanlega vel saman allt sem þú nefnir.  En einnig gott að maður þarf ekki að leggjast í kör heldur halda áfram að vera duglegur að hreyfa sig og passa mataræðið

Inga (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband