Af kartöflum og fiski

Kartöflugarðurinn var algjör plága. Bæði vor og haust. Um leið og prófunum lauk þá tók fjandans kartöflugarðurinn við. Okkur var kennt að velja útsæðið, láta kartöflur spíra hæfilega mikið, moka götur, setja niður útsæðið, velja réttar tegundir. Gullauga, Rauðar íslenskar, Bintje og Premier. Heppinn að hafa ekki fæðst meðal Aymara-indíána, sem búa við Titicacavatnið en þeir rækta meira en 800 mismunandi kartöflutegundir. Einhver sagði að Pólverjar elskuðu kartöflur en því trúði ekki nokkur sála. Moka yfir, þjappa moldina, þó ekki of mikið. Þetta voru trúarbrögð. Svo kom einhver illa lyktandi ábætir; hrossatað eða skarni.   potatis_1

 

 

 

 

 

 

Maður vissi brátt allt um kartöflumyglu, arfaeitur, og snigla. Fjandans arfinn.  Það þurfti að útrýma honum en líklega hefur hann ekki gert mikinn skaða. En hann er lífseigur. Einhvern tíma verður gert úr honum töfralyf. Þeir lengra komnu breiddu svart plast með gægjugötum yfir beðin. Við reittum arfa þar til okkur krakkana langaði helst til að reita á okkur hárið. Hjá heldri borgurum fylgdi kartöflugarðinum lítill kaffiskúr. Þar sátu menn og drukku kaffi og Egils appelsín og röbbuðu um kartöflur, kosti og galla hinna ýmsu tegunda. Hvað menn spöruðu mikið yfir árið með því að rækta sinn eigin garð. Sumir gengu jafnvel svo langt að setja niður kál og gulrætur. Þeir þóttu sérvitir.


koloni

Svo leið sumarið og menn fylgdust reglulega með uppskerunni. Sátu jafnvel heilan laugardagseftirmiðdag í skúrnum og horfðu á kartöflugrösin vaxa og bölvuðu um leið skæruliðaforingjunum; Hr. Arfa og Hr. Njóla, sem voru stráfelldir ef til þeirra sást. Svo hófst fjandans uppskerutíminn. Það varð að taka upp áður en næturfrostið eyðilagði uppskeruna. Maður púlaði allan sólarhringinn með skóflu eða alltof stóran gaffal, sem maður réði vart við. Stakk upp grösin og snéri þeim. Tíndi kartöflur í fötur. Gras eftir gras, götu eftir götu.

  Mikið var maður feginn potatisþegar þetta var búið og öll uppskeran var komin í strigapokana og í myrka, dimma kartöflujarðhýsið þar sem Bintje draugurinn réði ríkjum. Verkir og strengir í handleggjum, fótum og baki gleymdust þó þegar fyrsta uppskeran var étin með soðinni ýsu. Mikið er ný kartafla annars góð á bragðið beint úr garðinum. Maður vandaði henni þó ekki alltaf orðbragðið.

Kartaflan kenndi okkur margt. Hún hélt fjölskyldunni saman, varðveitti dýrmæta þekkingu og reynslu á milli kynslóða. Það má hún eiga.
Sá, sem átti kartöflugarð var sinn eigin herra, hann var frjáls, en um leið mikilvægur hlekkur í lífskeðjunni. 
"Gullauga", töff nafn, var það ekki annars heiti á James Bond mynd?                 

  

 potatis_2
Kartöflumóðir
eftir Þórarinn Eldjárn

Ég er kartöflumóðir sem þraukaði í Þykkvabænum
og þjónaði bændum.

Dóttir mín gullauga fetar í fótspor mín.

Mella, segja yngri dæturnar
sem eru rauðar íslenskar.

 

verbud


Verbúiðn
var dimm, köld og blaut. Þar var alltaf rökkur þó það væri glaðasólskin úti. Þar var klukkan alltaf annað hvort 07:00 eða 23:30. Ekkert þar á milli nema e.t.v. hálftími í sólinni í hádeginu. Maður roðnaði ekki einu sinni á nefinu á þessum hálftíma. Fiskifýlan loddi við vinnufötin á morgnana sérstaklega skyrtuermarnar svo maður hafði varla lyst á hafragrautnum. Á kvöldin var maður svo þreyttur að maður gat vart lyft höndunum til að bursta tennurnar. Í verbúðinni voru karlar sem þekktu ekkert annað en vinnu, ekkert nema þrælavinnu.

Þeir áttu aldrei frí og þeir tóku sjaldan til máls að fyrra bragði. Ef þeir sögðu eitthvað, var það eitthvað tengt fiski, veiðarfærum eða vinnulagi. Stundum var þó talað um vinnuvettlinga og gúmmíhanska, sérstaklega ef þeir voru nýir. Aldrei var rætt um mat. Matartíminn var bara tímaeyðsla og beindi athyglinni frá vinnunni. Þó komu stundir, þegar merkismenn litu inn í verbúðina. Þá breyttist andrúmsloftið skyndilega. Menn tóku af sér gúmmíhanskana. Settust niður og fengu sér kaffi og kleinur. Þá var rætt um afla, gróða og pólitík. Það var jafnvel kveikt í vindli. Fiskilyktin hvarf í nokkrar mínútur. Það var eins og að stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu hefði snúist um 90 gráður og nýr leikkafli væri hafinn með nýju sviði og nýjum leikurum. Svo snérist sviðið aftur og fiskurinn tók við, endalaus andskoti.saltfisk

Djöfulsins þorskurinn, alltof stór og þungur. Gott á hann að hann endaði sitt ömurlega líf útflattur, krossfestur í illa lyktandi salthrúgu. Hann fékk þó sína uppreisn seinna. Endar kannski sem dýrlingur síðar meir?

Verbúðin kenndi okkur að vinna og gefast ekki upp. Hún kenndi okkur viðhorf hinnar vinnandi stéttar. Hún kenni okkur líka gildi fjármagnsins og menntunar. Hún kenndi okkur að það var betra að stjórna en að láta stjórna sér. Verbúðin hélt fjölskyldunni saman. Þar unnu samhentar kynslóðir myrkranna á milli. Þar varðveittist þekkingin á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sem fluttist á milli kynslóða. Sá sem átti verbúð var konungur í eigin ríki. Fiskur og kartöflur, kartöflur og fiskur. Hvað er í raun merkilegra en það? Oft bölvaði maður í hljóði en það var hluti af heila mambóinu. 

Þó ekki væri mikið rætt eða skrafað í verbúðinni þá er það ekki þögnin sem er eftirminnilegust, heldur hljóðið í vekjaraklukkunni kl. 06:15 að morgni.    

kartfish


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Góður pistill hjá þér doktor. Kjarni málsins. Kvitta fyrir lestur. GP

Guðmundur Pálsson, 10.5.2008 kl. 13:52

2 identicon

Sæll Júlíus.

Þetta er með skemmtilegri pistlum sem hér hafa sést í seinni tíð og um leið fullur af fróðleik fyrir þá sem ekki þekkja kjarnan í þessu hjá þér.Ég er svo gæfusamur að þekkja báðra greinarnar.já, það er hafsjór í þekkingunni.

Hafðu þökk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 00:09

3 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

....en þú hefur sem sagt alveg sloppið við að vinna í sláturhúsi, eða áttu eftir að bæta þeim áfanga við pistilinn...? Það var miklu skemmtilegra að eiga við kartöflurnar en að klippa hausa....

Ómar Bjarki Smárason, 11.5.2008 kl. 22:49

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Nei, ég vann aldrei í sláturhúsi en gaman væri að taka námskeiðið til að geta bætt þeim réttindum í CV. Kæmi vel út í símaskránni.

Júlíus Valsson, 11.5.2008 kl. 23:19

5 Smámynd: Sverrir Einarsson

Kartöflugarðarnir, svo kom síldin, hringi, tóma tunnu, taka tunnu, salt, vatna tunnur,

síðan  kom  satfiskurinn, og ölll sú "ánægja" í púlinu, salt hreint  alstaðar, í stígvélunum, sokkunum , skyrtuvasanum, bara nefndu það það var örugglega salt þar hehe.

Ekki hefði ég viljað vera án þessa "þrældóms" eða lærdóms, pillurnar sem ég fékk frá mér eldri og svona eitt og annað sem ég fékk að heyra.

Góður og þarfur pistill hjá þér.

Sverrir Einarsson, 12.5.2008 kl. 08:13

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Þegar maður er bara 13 eða 14 ára, kann maður ekki að meta "gildi" vinnunnar. Maður vill heldur vera úti og leika sér með félögunum. Í dag myndi þetta kallast barnaþrælkun.  Ég hefði þó ekki viljað missa af þessari "þrælavinnu".

Júlíus Valsson, 12.5.2008 kl. 18:38

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Takk fyrir mig.

ÞEtta rifjar margt upp, svosem Karbolín lyktina af nýþveginni línu.

Stokka upp, vaska og hengja upp.

Svo auðvitað líka lyktin uppúr gúmíhönskunum.....

Vinnan göfgar.

Barnaþrælkun er teygjanlegt hugtak.

 Það sem var sumum þrældómur gat veerið passandi hjá öðrum eða jafnvel hálfgert letilíf, að eigin mati.

,,Hver á allt þetta salt, get ég fengið vinnu? kvað við í verkamanni, sem sofnaði í saltbingnum, þegar hlé kom á uppskipun á salti hérna í ,,Kreppunni" Hann fékk sjaldan ,,stubb" og átti fyrir ómegð að sjá.

Gleymum því ekki, við erum lukkunar pamfílar.  Höfum beggja heima sýn í þessum efnum, ungt fólka margt lítur á svona sögur sem píp og bull.

Endurtek þakkir

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 13.5.2008 kl. 09:36

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk Bjarni. Stundum vorum við strákarnir teknir fram fyrir fjölskyldufeður á Kæjanum í uppskipunarskúrnum hjá Eimskip forðum. Það þótti þeim súrt í broti.

Júlíus Valsson, 13.5.2008 kl. 18:57

9 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Algjörlega frábær pistill hjá þér Júlíus.

Guðrún Sæmundsdóttir, 13.5.2008 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband