16.7.2008
Búddismi á grafarbakkanum?
Þó Japanska þjóðfélagið sé í okkar augum fremur kreddufast og að mörgu leyti stirðbusalegt hafa menn þar í landi ávallt verið mjög frjálslegir, þegar kemur að trúmálum. Eða kannski bara ráðvilltir. Þannig hafa menn kvatt gamla árið í Búddamusterum en fagnað því nýja í Shintóskríni nokkrum klst. síðar. Brúðkaup geta jafnt verið upp á Shintó eða Kristni. Dauður Japani er þó nær ávallt skyndilega orðinn Búddisti a.m.k. eru jarðarfarir í Japan langoftast að hætti Búddista. Stundum er því talað í gríni um "jarðarfarabúddisma" í Japan þar sem Búddistar hafa hingað til nær einokað þann síðasta þátt mannlífsins.
Þar í landi virðist Búddisminn því að mati sumra fremur fullnægja þörf hinna dauðu fremur en andlegri þörf hinna sem eftir lifa. Sterk tengls Búddista í Japan við japanska herinn í seinni heimstyrjöldinni svipti Búddismann að einhverju leyti helgiljómanum þar í landi. Búddisminn er jú þekktur fyrir að stuðla að friði fremur en að skipta sér að stríðsrekstri. Menn hallast því orðið fremur að Kristni eða jafnvel Íslam. Búddistarnir eru því að missa tökin á jarðarförunum því fleiri og fleiri Japanir halda jarðarfarir á útfararstofum eða hafa alls enga formlega jarðarfararathöfn. Einungis einfalda bálför án prests. Jarðarförum fer einnig fækkandi með hækkandi meðalaldri og fækkun fæðinga (og vaxandi náttúruleysi). Búddamusterum hefur fækkað á síðustu 6 árum um ríflega 10.000. Það er því ekki vænlegur bísness að gerast Búddamunkur í Japan þessa dagana enda skiptir það líklega litlu máli fyrir sanna Búddista. Hins vegar má geta þess að hagtölur sýna að meðalkostnaður við jarðarför í Japan er um $21,500.- (f.u. kostnað við grafreitinn) og þar af fer um $5,100 til prestsins (þ.e. Búddamúnksins). Fyrir nokkrum árum stofnaði búddamunkur nokkur, Kazuma Hayashi sitt eigið fyrirtæki til að sporna við þessari þróun m.a. með því að fækka milliliðum. Hefur honum tekist að lækka kostnaðinn við jarðarfarir um þriðjung. Fer Búddisminn endanlega í gröfina eða fara menn í Japan e.t.v. aftur að standa á grafarbakkanum em Búddistar. Hver veit?
ref:
In Japan, Buddhism May Be Dying Out
Athugasemdir
Takk fyrir fróðleikinn Júlíus :) Tek eftir að þú kallar Shinto-hofin skrín. Er það þín þýðing eða hefur þú séð það annarsstaðar?
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.7.2008 kl. 01:39
Ferðaðist um Viet Nam í vetur. Þar lifir Buddisminn góðu lífi. Allir grafreitir eru vel við haldnir. Og í hofunum eru fórnirnar; PENINGAR, ÁFENGI OG TÓBAK...........og heitt kaffi. Buddistar eru friðsælli en aðrir hér á jörð. Virðing fyrir þeim eldri..og hinum látnu...við gætum lært margt af þeim.
Hólmdís Hjartardóttir, 16.7.2008 kl. 01:46
Svanur. Mér datt þetta orð í hug sem þýðing á "shrine" (sem bókstaflega þýðir "box") í stað "hofs", sem er dálítið ofnotað.
Hólmdís. Já við getum lært mikið af Búddistum. Rétt er þó að benda á, að Búddismi er í raun ekki trú eða trúarbrögð. Líklega eru Búddistar friðsamasta fókið í þessum heimi.
Júlíus Valsson, 16.7.2008 kl. 10:04
Rétt, enska orðið shrine er samstofna íslenska orðinu skrín og helgiskrín eru kunn. Flott hjá þér :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 16.7.2008 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.