Erum við að verða þurrausin?

desert

Fyrir örfáum árum áttum við erfitt með að ímynda okkur vatnsskort, a.m.k. hér á landi í nær stöðugu votviðri. Við höfum verið hálf "vatnsósa". Nú er öldin önnur. Þjóðfélög nútímans þurfa gífurlega mikið vatn til daglegs brúks og vatnsnotkunin og þar með vatnsþörfin fer stöðugt vaxandi. Fólkinu fjölgar og hitastig á jörðinni fer hækkandi að sögn. Menn hafa oft farið illa með vatn og það er víða mengað. Aukin velmegun kallar á aukna vatnsnotkun. Þótt vatnsskortur virðist almennt ekki yfirvofandi hér á landi þurfa stjórnvöld samt sem áður að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ekki komi til skorts á vatni. Menn eru stöðugt að leita nýrra leiða til þess að endurvinna neysluvatn á vistvænan hátt og vinna vatn úr sjó. Í sumum stórborgum heimsins er þegar farið að skammta vatn. Eftirspurnin er orðin meiri en framboðið. Þau svæði jarðar, sem eru í mestri hættu af að þjást af skorti á vatni eru hluti Mið-Austurlanda, sunnanverð Afríka, Bandaríkin, Suður Ameríka og miðjarðarhafslönd. Á sumum svæðum þar sem jöklar eru litlir, gætu þeir verið alveg horfnir eftir 30 til 50 ár og þar með er mikilvæg vatnsuppspretta, sérstaklega á sumrin, í raun farin.
drinkingwtrtap
Hve mikið er til af vatni? Hvað þurfum við mikið?
Til að koma í veg fyrir vandamál þarf fyrst að gera sér grein fyrir staðreyndum. Talið er, að hver einstaklingur þurfi um 1,000 rúmmetra (m3) vatns á ári. (Þetta samsvarar um fimmtungi af vatninu í keppnissundlaug á Ólympíuleikunum). Grunnþörf mannsins eru um 5 lítrar vatns á sólarhring þ.e. til neyslu, hreinlætis og eldunar. Tiltækt vatn á hvern íbúa er mikið hér á landi miðað við önnur Evrópulönd. Mjög erfitt er að mæla nákvæmlega vatnsbirgðir landssvæða og enn erfiðara er að áætla notkunina nákvæmlega. Meginhluti grunnvatnsins er að finna í holum og sprungum í bergi og jafnvel milli sandkornanna í sandsteini. Grunnvatnið er því sjaldnast að finna sem neðanjarðastöðuvötn eða ár, eins og margir halda. Blautur leirkenndur jarðvegur getur einnig verið heldinn á vatnið og lætur það ekki auðveldlega frá sér. Hreyfing grunnvatns þ.e. grunnvatnsflæðið fylgir ákveðnum lögmálum, sem tengist vatnshalla og gegndræpi jarðlaga. Tæplega 98% af vatnsbirgðum jarðar er saltvatn. Einungis um 2% er því ferskvatn og um 2/3 hlutar ferskvatnsins eru bundnir sem ís í jöklum og á heimsskautasvæðunum.

Til forna höfðu menn ákveðnar hugmyndir um eðli grunnvatnsins. Í Prologus Snorra-Eddu er þess getið að mönnum var náttúra jarðarinnar hugleikin.
Þat var eitt eðli, at jörðin var grafin í hám fjallatindum ok spratt þar vatn upp ok þurfti þar eigi lengra at grafa til vatns en í djúpum dölum; svá er ok dýr ok fuglar at jamlangt er til blóðs í höfði ok fótum“. Mönnum var því snemma ljóst samhengi hlutanna og er vistfræðin engin ný bóla. 

water_measureAuðveldar virðist vera að mæla breytingar á vatnsmagni en vatnsmagnið í heild. Á 19. öld var lagður grunnur að nútímavatnafræði, hreyfingum grunnvatnsins og eðli. Franskur verkfræðingur og vatnsveitustjóri í Dijon, Henry Darcy (1803-1858) að nafni, rannsakaði streymi gegn um sand og fann sambandið milli þrýstimunar og vökvastreymis í gropnu efni. Þetta samband er kallað Darcys lögmál. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem byggir á athugunum frá árunum 1750-1760, er íslensku vatni skipt í eftirfarandi flokka: Jökulvatn, mýravatn, bergvatn, uppsprettu-lindavatn, kaldavermsl og hveravatn. Þessi nálega 250 ára gamla flokkun Eggerts og Bjarna á vatninu hefur að mestu staðist tímans tönn. Hún er grundvöllurinn að þeirri flokkun sem við höldum enn í dag. Elliðaárnar voru t.d. mældar 1894. Reglulegar vatnamælingar hófust 1919. Síritandi vatnshæðarmælar komu til sögunnar um 1950 og nú munu á þriðja hundrað síritandi mæla vera í ám, vötnum og borholum um allt land. 

Hvað þurfum við að gera?

Vatnið er mikilvæg auðlind.  Verðmæti vatnsins eru ekki einungis fjárhagsleg heldur einnig líffræðileg. Líkami okkar getur ekki án þess verið. Íslendingar hafa enn ekki lært að umgangast auðlindir með skynsömum hætti. Óheft aðgengi að hreinu vatni eru mannréttindi (obs!, missti þetta út úr lyklaborðinu). Meginverkefnin eru að tryggja jafnt aðgengi þegnanna að auðlindinni og varðveisla hennar þ.e. að tryggja framboð, skynsamlega nýtingu og gæði. Íslenska vatnið er þó í víðum skilningi auðlind fyrir fleiri en Íslendinga eina. Erum við reiðubúin til að stórauka fjárfestingar til þess að vernda og auka gæði vatnsins og nýta það betur? Erum við reiðubúin til að umbuna þeim, sem fara vel með vatnið? Það eru tískusveiflur í þessarri umræðu sem annarri. Hver talar nú t.d. um "súrt regn"? Ekki er ýkja langt síðan Svíar dembdu ógrynni af kalki í stöðuvötn til að hækka sýrustig þeirra.

 gata


Blikur á lofti?

Koma þarf í veg fyrir alvarlegar deilur um vatnsréttindi. Almenningur þarf að veita stjórnmálamönnum aðhald og gera þá kröfu að þeir sinni málefnum sem lúta að vatninu á skynsaman hátt. Allar ráðstafanir stjórnvalda þurfa að byggja á vísindalegum grunni, taka mið af hagsmunum heildarinnar og horfa til framtíðar. Mjög fáir vísindamenn rannsaka vatnafræði fjalla (e. mountain hydrology). Þessi vitneskja verður æ mikilvægari með hopun jökla.
  
  
 Mynd: JV 

*Við þurfum að leggja stóraukið fé í rannsóknir á vatnafræði. *Rannsaka þarf gæði neysluvatns, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu. Slíkar rannsóknir þarf að framkvæma af óháðum aðilum.  Hvað áhrif hafa t.d. gufuaflsvirkjanir á grunnvatnið?
dry
*Draga þarf úr vatnsnotkun heimila og fyrirtækja. Þetta er oft hægt að gera með einföldum búnaði.
   *Draga þar úr mengun neysluvatns með öllum tiltækum ráðum. Þessu hefur ekki verið sinnt sem skyldi hér á landi. Hver man t.d. eftir blýmengun drykkjarvatns að Keldum á síðasta ári? Hvaðan kemur kvikasilfrið í urriðanum í Þingvallavatni?
   *Auka þarf sjálfbæra vatnsnotkun þ.e. að endurnýta vatnið þ.e. frárennsli þar sem því verður við komið t.d. í iðnaði og landbúnaði.

 Verndun vatnasvæða
   *Vernda þarf og friða vatna- og votlendissvæði, Því fyrr, því betra. Því meira, því betra.
   *Takmarka þar alla umferð og starfsemi á vatnsverndarsvæðum.
  
 
  
 Mynd: JV 

*Vistkerfi Íslands er mjög viðkvæmt. Gífurlegar breytingar geta orðið á skömmum tíma t.d. af völdum jarðhræringa, eins og reynslan hefur sýnt. Við þurfum að eiga "plan-B". 
*Stórauka þarf upplýsingaflæði til almennings um mikilvægi vatnsins og hvetja einstaklinginn til aðgerða.
*Styðja þarf rækilega við bakið á þeim, sem vilja nýta vatnið á skynsaman hátt og auka verðmæti þess innanlands, sem utanlands.

Við þurfum að vera viðbúin aukinni ásókn í vatnið okkar. Getum við varið okkur? Við þurfum einnig að vera viðbúin að geta miðlað öðrum af þekkingu okkar á vatninu og jafnvel að veita öðrum af vatnsbirgðum okkar í framtíðinni. Öll hugsun þarf að teygja sig út fyrir vatnsglasið. Við þurfum fleiri "vatnshausa", þ.e. fólk sem hugsar um vatnið öllum stundum. Fólk, sem er með vatn á heilanum.

Hér á landi erum við enn ekki orðin þurrausin en gætum orðið það. A.m.k þurrausin af hugmyndum að verndum og betri nýtingu vatnsins. water_01












ref:
http://www.sciam.com/article.cfm?id=facing-the-freshwater-crisis
http://www.waterandlivelihoods.org/measuring_gw.pdf          
http://is.wikipedia.org/wiki/Vatnafr%C3%A6%C3%B0i
http://www.vb.is/index.php?gluggi=frett&flokkur=14&id=41804
reports.eea.europa.eu/water_assmnt07/is/water_assmnt07is.pdf
http://en.wikipedia.org/wiki/Water_resources
http://www.africanwater.org/basic_needs.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Íslenska vatnið er náttúrulega hreinn lúxus. Þegar ég bjó í Mexíkó þurftum við að nota rafmagnspumpu til að sækja vatn til þvottar ofan úr brunni, en keyptum alltaf hreinsað drykkjarvatn út úr búð. Það er ótrúlegur munur að geta þambað vatn úr krananum, og óskiljanlegt hvað fáir virðast kunna ð meta þennan fjársjóð okkar að verðleikum. En er það ekki alltaf þannig að maður kann ekki að meta hlutina fyrr en maður hefur tapað þeim?

Hrannar Baldursson, 27.7.2008 kl. 16:07

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

fróðleg lesning. takk fyrir þennan pistil :9

Óskar Þorkelsson, 28.7.2008 kl. 09:50

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Jón Frímann.. það á sér eðlilegar skýringar.. lægðir koma oftast nær fyrst upp að suðurströndinni.. og þar eru líka jöklarnir flestir hverjir og þeir soga í sig vætu ...

Óskar Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 00:35

4 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Það er til þess að gera nýlega farið að selja fyrirtækjum kalda vatnið eftir mæli. Fram að því var því örugglega oft sóað ótæpilega, t.d. notað til kælingar á kælivélum þar sem auðveldlega má nota loftkælingu.

Gísli Sigurðsson, 31.7.2008 kl. 22:33

5 identicon

Þú segir að grunnþörf mannsins á vatni til neyslu, eldunar og hreinlætis nemi 5 lítrum á sólarhring. Ég held að þú mættir útskýra aðeins betur hvað þú átt við með hugtakinu "grunnþörf" í þessu samhengi. 

Það má nefnilega vel vera að auðveldlega megi komast af með 5 lítra á dag, en heldur er ég hræddur um að meðalneyslan, ekki síst hér á landi, sé margföld þessi tala, og fáir geti ímyndað sér að hægt sé að komast af með þetta lítið vatn. það þarf reyndar aðeins að sturta einu sinni niður úr venjulegu, íslensku klósetti til að ná þessari tölu og ríflega það, flestir klósettkassar taka á bilinu 5 - 10 lítra.

Í hvert skipti sem farið er í sturtu renna 50 - 100 lítrar niður um niðurfallið.

Baðker tvöfaldar þessa tölu, jafnvel þrefaldar.

Held að það verði erfitt að sannfæra vesturlandabúa um að böð falli ekki undir grunnþarfir - og enn erfiðara að fá þá til að hætta að nota vatnsklósett...

Ævar Örn (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 23:23

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Ævar. Það er rétt hjá þér, að þetta er ekki raunhæf tala t.d. fyrir vatnsnotkun hvers einstaklings hér á landi. Hér er miðað við algjört lágmark. Ég var að vitna í Peter H. Gleick einn helsta vatnssérfræðing heimsins frá 1999 en tilvitnunina er að finna hér:

http://www.africanwater.org/basic_needs.htm


Raunveruleg vatnsnotkun (eyðsla) er hens vegar um 20-50 L á dag.

Júlíus Valsson, 2.8.2008 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband