Tvær þjóðir, margir guðir, eitt markmið: Að útrýma hvor annarri með öllum tiltækum ráðum. Deilur þeirra minna einna helst á eilíf slagsmál Tomma og Jenna. Mikill hraði og æsingur. Annar lemur hinn, hinn slær til baka. Öllum brögðum beitt. Hvorugur sigrar. Allt dettur í dúna logn. Aftur á byrjunarreit. Nýr þáttur í næstu viku. Hvað á að gera við svona kjána? Þarf ekki að grípa til sópsins?
Flóknar deilur - einfaldur ásetningur?
Það er erfitt að ímynda sér deilu sem er jafn hatrömm, erfið og margslungin og deila Ísraela og Palestínumanna. Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um landsvæði. Annars vegar eru Palestínumenn, þ.e arabar, sem eru að heyja sjálfstæðisbaráttu til að mynda eigið ríki á landi sem þeir telja að hafi verið tekið frá þeim með valdi af Ísraelsmönnum. Hins vegar er Ísraelsríki, stofnsett af gyðingum, sem vill halda sínum hlut enda álíta þeir að þeir eigi sögulegan og trúarlegan rétt á þessu umdeilda landi. Það sem gerir þessa deilu sérstæða er að hún er ekki einskorðuð við þessa tvo aðila. Landið, sem er oft nefnt Landið helga, er miðlægt í þremur mikilvægum trúarbrögðum, Kristindómi, Íslam og Gyðingdómi. Þar af leiðandi er fylgst með þessum átökum af meiri áhuga um allan heim en sambærilegum deilum í öðrum heimshlutum.
Ísrael
Tilvist Ísraelsríkis byggist að miklu leyti á langri leit hinna ofsóttu og útskúfuðu að eigin griðastað. Leit að eigin heimalandi. Svipaða drauma hafa aðra dreymt svo sem Serba, Króata, Tékka og jafnvel Pólverja, svo Ísraelar eru ekki einir á báti hvað það varðar. Vandi Ísraelsmanna byggist hins vegar á því, að ríki þeirra var stofnað á landi annarra (deila má þó um hver átti landið upphaflega), fyrst og fremst af trúarlegum ástæðum fremur en pólitískum eða landfræðilegum. Landfræðilega hefði e.t.v. verið hentugra eftir að seinni heimstyrjöldin lauk að koma þeim fyrir annars staðar þar sem landrými var nægjanlegt t.d í Kanada. Alþjóðasamfélagið hefur lengi fordæmt hersetu þeirra á Vesturbankanum og á Gazasvæðinu, sem brýtur í bága við alþjóðalög. Hersetan er einnig í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Ísraelsríki var stofnað þ. 14. maí 1948 þegar Ísraelsmenn lýstu yfir sjálfstæði sínu. Sameinuðu þjóðirnar höfðu árið 1947 samþykkt skiptingu þáverandi landsvæði Palestínu, sem Bretar höfðu stjórnað, í tvö ríki: Ísrael og Palestínu. Íbúar landsins eru nú um 7,28 milljón flestir Gyðingar en þar búa einnig arabar og kristnir. Ísrael er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ófriður hefur verið um Ísraelsrík allt frá stofnun þess. Deilur hafa aðallega staðið um þau landsvæði Palestínumanna, sem Ísraelar hernumdu í stríði árið 1967 en þau eru Gólanhæðir, Vesturbakkinn og Gazaströndin.
Hvað með Palestínu?
Vandamál Palestínu eru í raun annars eðlis, nefnilega þau, að Palestínuríki hefur til skamms tíma alls ekki verið til sem raunverulegt sjálfstætt ríki. (innskot: Palestínuþjóð var á öndverðri 20. öld ekki til sem raunveruleg þjóð). Það er erfiðleikum bundið í alþjóðlegu samhengi að taka þjóð alvarlega, sem hefur í raun ekki verið til nema í hugum þeirra sjálfra. Palestínumenn hafa að mörgu leyti verið mjög seinheppnir og ekki nýtt vel þau tækifæri, sem þeim hafa gefist. Stundum er sagt í gríni að þeir nýti hvert tækifæri til að nýta ekki tækifærið. Á síðustu árum hafa orðið róttækar breytingar á stjórnmálaviðhorfi margra araba, sem m.a. hefur leitt af sér stofnun samtaka svo sem Hamas og Hizballah.
Þessi þróun er í raun skiljanleg hjá þjóð, sem sér ekki fram úr vanda sínum. Þjóð, sem er komin á vonarvöl og orðin vonlaus um úrbætur. Þjóð, sem hefur verið hrakin í flóttamannabúðir og niðurlægð á allan hátt. Hörðustu andstæðingar Ísraelríkis hafa á undanförnum árum breytt baráttuaðferðum sínum. Hinn máttugi her Ísraelsmanna, sem áður vann hverja hefðbundnu orrustuna á fætur annarri, má sér nú í raun lítils gegn borgarskæruliðum, sem felast gjarnan meðal óbreyttra borgara. Ísrael hefur lengi reynt að "þvinga" Palestínumenn til hlýðni, sem einnig beita sínum aðferðum til að lækka rostann í Ísraelsmönnum.
Ariel Sharon, hin forna stríðskempa Ísraelsmanna, viðurkenndi á sínum tíma að réttast væri að Ísrael dragi hernám sitt til baka og léti Palestínu eftir þau landsvæði, sem hernumin hafa verið allt frá árinu 1967.
Shimon Peres forseti Ísrael sagði fyrir allmörgum árum að leysa þyrfti deiluna á diplómatískan hátt. Báðir höfðu rétt fyrir sér þó svo sá síðarnefndi hafi seinna skipt um skoðun.
Jerúsalem
Á margan hátt er Jerúsalem táknræn fyrir ástandið. Örfá og oft ósýnileg lína skilur að trúarbrögð, menningu og stjórnmálaviðhorf gyðinga, araba og kristinna manna. Þessir trúarhópar tengjast þó á ýmsan hátt innbyrðis ekki síst með verslun og viðskiptum. Líkja má þjóðunum tveimur við síamstvíbura, sem ekki koma sér saman um neitt en sem tæknilega er ekki hægt að skilja í sundur. Mikill munur er þó á lífsgæðum araba og gyðinga, sem þéna að meðaltali fimmfalt meira á ári en arabarnir.
Nú er verið að reisa nýjan Berlínarmúr í Jerúsalem! Þetta eru skýr merki um algjört hugmyndaþrot í lausn deilunnar. Öll skynsemi mælir á móti slíkum aðferðum, sama hver á í hlut. Þetta vita menn, en virða það að vettugi. Slíkur múr eykur einungis á vandamál arabanna og skapar ný vandamál fyrir alla aðila.
David Ben-Gurion fyrrum forsætisráðherra Ísraels hélt því fram í fullri alvöru árið 1919 (sic), að engin lausn væri til á deilu gyðinga og araba. Í rauninni hefur lítið sem ekkert þokast í samkomulagsátt í deilu þessara þjóða í þá sjö áratugi, sem liðnir eru síðan. E.t.v. hafði hann rétt fyrir sér? Margir meiri háttar spámen á alþjóða vettvangi svo sem Henry Kissinger, Zbigniew Brzezinski, James Baker, Madeleine Albright og Bill Clinton hafa reynt til hins ýtrasta að miðla málum en án árangurs. Er samkomulag þá borin von?
Hvað er þá til ráða?
* Það ætti öllum að vera orðið ljóst, að Ísraelsmenn og Palestínumenn geta ekki leyst deilur sínar upp á eigin spýtur. Sagan og trúarbrögðin hafa í tímans rás náð að kaffæra Palestínu, sem í raun er harla lítið landsvæði, með langvinnum og illleysanlegum deilum. Það eru þó til lausnir á öllum vandamálum ef vilji er til að leysa þau. Það er auðvelt að halda þessu fram í orði, framkvæmdin er erfiðari. Vandamál Palestínu og Ísraels eru gífurlega flókin og erfið. Því verður ekki neitað.
* Voldugasta ríki heims, Bandaríkin er helsti bandamaður Ísraelsríkis. Það er yfirlýst stefna Bandaríkjanna að "tryggja öryggi" Ísraels. Bandarísk stjórnvöld eru því í góðu sambandi við Ísrael og í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á og móta afstöðu Ísraelsmanna. Lausn deilunnar er því í raun óhugsandi án afskipta Bandaríkjanna.
* Einn helsti hvatinn að starfsemi hryðjuverkasamtaka í Miðausturlöndum er að þeirra eigin sögn deila Ísraels og Palestínu. Leysist sú deila ættu slík öfgasamtök að hafa minni fótfestu í arabaheiminum.
* Palestínumenn þurfa alfarið að láta af skæruhernaði og hryðjuverkum gegn Ísrael. Alla stríðsfanga þarf að leysa úr haldi.
* Nýr Berlínarmúr í Jerúsalem leysir engan vanda heldur skapar nýjan. Byggingu hans ætti því að stöðva strax. Bil Clinton var á sínum tíma með flóknar tillögur um skiptingu borgarinnar, sem voru algjörlega óraunhæfar.
* Leysa þarf vandamál Palestínskra flóttamanna með því að leyfa þeim að snúa aftur heim til herteknu svæðanna. Öllu sem var stolið, þarf að einfaldlega að skila aftur. Þetta gildir einnig um landsvæði.
* Aðgangur að vatni er eitt helsta bitbeinið í deilu ísraelsmanna og Palestínumana. Tryggja þarf jafnan og frjálsan aðgang allra að fersku vatni.
* Fylgja þarf eftir ályktunum Sameinuðu þjóðanna (hvað annað?). Fjölþjóðasamfélagið á ekki að líða mannréttindabrot.
* Koma þarf á stöðugleika í Líbanon. Þetta er mjög mikilvægt skref, ekki síst í ljósi nýlegra atburða og vaxandi spennu í Beirut, þar sem her Hizballah ræður nú ríkjum. Margir kenna Bandaríkjunum um þetta ástand. Óróleikinn eykur vægi Írans fyrir botni Miðjarðarhafsins. Bandaríkjamenn hafa einmitt sakað Íran um stuðning við Hizballah. Þetta eykur aftur þrýsting á Ísrael um að skila aftur herteknu svæðunum til að draga vígtennurnar úr Hizballah. Rétt er þó að nefna, að margir háttsettir aðilar jafnvel trúarleiðtogar í Íran vilja aukna samvinnu við Bandaríkin.
* Og þá er það Írak. Dettur ekkert í hug. Allar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar.
* Palstínumenn þurfa sárlega nýjan talsmann svo hlustað sé á þá á alþjóðlegum vettvangi. Dalai Lama væri tilvalinn en hann er upptekinn við annað.
Að lokum
Það þarf að grípa til sópsins. Í þáttunum um Tomma og Jenna er það heldri kona, sem í lok þáttanna ofbýður hamagangurinn, grípur sópinn og lúskrar á Tomma af því að hann er stærri og sterkari en Jenni. Ekki veit ég hver kom á undan í húsið, Tommi eða Jenni. Skiptir það í raun máli? Sá, sem veldur stóra sópnum í dag ætti að grípa til hans og a.m.k. að fara að sveifla honum.
Ref:
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dsrael
http://en.wikipedia.org/wiki/Israel
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2295
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1828
http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,1214968,00.html
http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,1218058,00.html
Time, 3. desember 2007
Time, 26. maí 2008
http://edition.cnn.com/2007/WORLD/meast/02/21/btsc.iran.amanpour/
http://www.passia.org/publications/research_studies/Water-Book/Water-forward.htm
Athugasemdir
Kolröng er hjá þér byrjun greinarinnar og forsenda, Júlíus! ("Tvær þjóðir, margir guðir, eitt markmið: Að útrýma hvor annarri með öllum tiltækum ráðum").
Það er til lítils gagns að ýkja vandamálin, Júlíus, til þess síðan að reyna að leysa þau!
Jón Valur Jensson, 2.8.2008 kl. 16:41
Takk fyrir góðar ábendingar Jón Valur.
1) Ég viðurkenni að byrjunin er dálítið stílfærð en eru þeir í raun ekki að murka lífið úr hvor öðrum?
2) Athugasemd tekin til greina (sjá texta)
3) Fróðlegt væri að vita hvort þú hefur sjálfur einhverjar hugmyndir um lausn deilunnar.
4) Hverjar eru annars hugmyndir íslenkra ráðamanna um lausn deilunnar?
Júlíus Valsson, 2.8.2008 kl. 18:14
Góður póstur...
Ég myndi reyndar aldrei kalla Ariel Sharon stríðskempu, stríðsglæpamaður og fjöldamorðingi væri heppilegra að mínu mati.
Svo er hægt að hafa í huga hversu margar ályktanir öryggisráðs S.Þ. Ísrael hefur hunsað, þær eru 246 (þar af eru 135 sem varða rétt Palestínumanna til að snúa til heimkynna sinna).
Þessir punktar þínir eru allt góðar tillögur og gaman væri að sjá einhverjar þeirra framkvæmdar. Eitt það besta væri að Bandaríkin hættu að moka milljörðum dollara í her Ísraelsmanna á hverju ári (sem reyndar er mjög gott fyrir Bandaríkin viðskiptalega). Ef Bandaríkjamenn hættu því þá einfaldlega myndu Ísraelsmenn neyðast til að hætta hersetunni á stolnu landsvæðunum.
Núna á þessu ári hafa 72 Palestínsk börn verið drepinn af Ísraelum, 4 Ísraelsk börn hafa verið drepinn af Palestínuskum hryðjuverkamönnum. Hvað þurfa mörg að deyja í viðbót til að alþjóðasamfélagið geri eitthvað?
Kári Gautason, 2.8.2008 kl. 18:28
Kári. Ég reyndi að skrifa um þetta mál á eins hlutlausan hátt og mér var unnt (sem reyndar er mjög erfitt) og forðast upphrópanir (sem alls ekki er auðvelt). Meginniðurstaðan er hins vegar nokkuð augljós í mínum huga.
Júlíus Valsson, 2.8.2008 kl. 18:53
Frábær pistill!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.8.2008 kl. 00:00
Er ekki bara málið að gefa þeim öllum öflug vopn og þá leysist þetta af sjálfu sér?
Maggi V (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 01:31
Þessi tilraun þín til að skoða þetta mikla deilumál er virðingarverð. Nokkur atriði þarf þó að hafa í huga í upphafi; gyðingar eru trúflokkur en ekki einn kynþáttur. Hreyfingin að baki Ísrael er Síonismi og það er ekki nema hluti gyðinga sem fylgir þeirri stefnu. Palestínumenn eru hluti arabaþjóða. Þegar hrikta tók í stoðum nýlendustenunnar og undirokaðar þjóðir um allan heim tóku að berjast fyrir fullu frelsi þá voru það hin illu örlög þeirra að missa af lestinni. Þeir náðu ekki, öfugt við Egypta, Líbani ofl., að stofna sitt þjóðríki á sínu landi. Aðalástæða þess var sú afstaða bresku nýlenduherranna að í Palestínu skyldi stofna þjóðarheimili gyðinga (Balfouryfirlýsingin). Stofnun Ísraelsríkis á landi Palestínumanna er síðan afleiðing þessarar stefnu Breta og baráttu Síonista.
Þú skrifar: „Leysa þarf vandamál Palestínskra flóttamanna með því að leyfa þeim að snúa aftur heim til herteknu svæðanna. Öllu sem var stolið, þarf að einfaldlega að skila aftur. Þetta gildir einnig um landsvæði.“ Hér er eitt kjarnaatriði málsins. Burthraktir Palestínumenn eru um 5 milljónir núna. Þeir eru réttlausir og það hefur verið ein höfuðkrafa Palestínumanna að leysa þeirra vandamál. En ef það á að leysa þetta vandamál þá er eina leiðin að Síonistar láti af þeirri ætlun sinni að ná yfirráðum yfir allri Palestínu.
Hjálmtýr V Heiðdal, 3.8.2008 kl. 09:06
Hjálmtýr. Kærar þakkir fyrir þitt innlegg. Ég er enginn sérfræðingur í þessi málefni en skrifaði þennan pistil til að læra af honum.
Það er annars merkilegt hve íslenskir stjórnmálamenn sýna þessu málefni lítinn áhuga. Það vantar greinilega fleiri hugsjónarmenn.
Júlíus Valsson, 3.8.2008 kl. 12:28
Sæll aftur
Það er líka stórt atriði í þessu máli að Ísrael er ekki lýðræðisríki. Það er ekki nein stjórnarskrá í gildi en s.k. grunnlög koma í staðinn. Þar er fólki mismunað eftir trú og uppruna og slík gengur ekki í lýðræðisríki. Carter fyrrv. Bandaríkjaforseti hefur komið auga á það að í Ísrael er ríkjandi aðskilnaðarstefna, apartheit, og hefur hann skrifað bókina Palestine, peace not Apartheit. Ég sendi þér grein sem ég skrifaði í Lesbók Mbl. þar sem reyni að skilgreina ástandið.
Hjálmtýr V Heiðdal, 3.8.2008 kl. 15:41
Takk aftur Hjálmtýr.
Þetta eru kaldranalegar staðreyndir, ekki síst í ljósi sögunnar
Júlíus Valsson, 3.8.2008 kl. 15:46
Góð samantekt hjá þér Júlíus, þó svo að alltaf sé hægt að deila um mismunandi sjónarhorn. Ekki hef ég neinar lausnir í málefnum Ísrael og Palestínu en vil þó benda í tilefni göngu samkynhneigðra á morgun að mannréttindi samkynhneigðra eru virt í Ísrael, og hafa þeir m.a. sent transgenderinn hana Dönu á Eurovision. Ekki er staða samkynhneigðra einstaklinga jafngóð í nágrannaríkjum Ísrael.
Guðrún Sæmundsdóttir, 8.8.2008 kl. 21:22
Takk Guðrún. Fæstar göngur fyrir botni Miðjarðarhafsins eru gleðigöngur en Dana var krúttkynslóðarleg.
Júlíus Valsson, 9.8.2008 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.