10.11.2008
Pirahã - að lifa fyrir lifandi stund
Seint á átunda áratugnum hélt Bandaríkjamaðurinn Daniel Everett djúpt inn í regnskóga Amazon til að breiða út út kristna trú meðal Pirahã ættbálksins (sjálfir kalla þeir sig "hina beinu" - the straight ones). Í stað að eyða tímanum í kristniboð hóf Everett af kappi að læra tungumál hinna innfæddu. Ættbálkurinn, sem telur nú um 350 manns hefur þróað með sér mjög sérstakt tungumál óskylt öllum öðrum, en í því er ekki að finna nein óþarfa kurteisisorð svo sem "sæll", "bless" eða "afsakið". Þar er ekki heldur að finna orð yfir mismunandi liti, tölur eða hugtök yfir atburði sem, gerðust áður en viðkomandi einstaklingur fæddist. Þeir nota einungis þrjá sérhljóða og átta samhljóða og túlka mismunandi merkingu orða með hljómfallinu líkt og Kínverjar gera. Everett er nú eini einstaklingurinn utan ættbálksins, sem getur talað tungumálið reiprennandi. Gárungarnir hafa sagt, að það hljómi eins og að tveir kjúklingar séu að tala saman. Tungumálið er að uppbyggingu eitt það einfaldasta sem fyrirfinnst. Sjálfum finnst þeim öll önnur tungumál en þeirra eigið vera afar heimskuleg og þeir gera stólpagrín að okkur hinum.
Saga Everetts er mjög skrautleg en hann þótt ódæll á sínum yngri árum. Í stutt máli, þá gekk Everett af trúnni og hætti við allt kristniboð. Hann kynnti fyrst niðurstöður rannsókna sinna í grein, sem hann birti árið 2005. Tungumál Pirahã ættbálksins er afar einfalt að allri uppbyggingu en í það vantar ýmis hugtök, sem okkur finnst við ekki geta verið án svo sem "allir", "flestir", "margir" og "fáir", svo eitthvað sé nefnt. Einnig vantar innri tilvísanir eða innskot (recursions) í málið.
"Maðurinn, sem gengur niður Bankastræti er með rauðan hatt á höfði" verður: "Maðurinn gengur niður Bankastræti. Maðurinn er með rauðan hatt á höfðinu". Þessi innskot eða tilvísanir voru áður talin vera hornsteinar málfræði tungumála mannkynsins. Uppgötvanir Everetts ollu því talsverðu uppnámi meðal málfræðinga og annarra fræðimanna á sínum tíma.
Pirahã men lifa algjörlega í núinu. Fortíðin og framtíðin er ekki til í þeirra hugarheimi. Lífsmáli þeirra hefur mótað tungumálið. Þeir eiga t.d. mjög erfitt með að skilja, þegar menn kvarta yfir ásókn skordýra. "Skordýr eru jú hluti af tilverunni og eru því ekkert til umræðu hér".
Þeir hafa ekki viljað tileinka sér ræktun og landbúnað, listsköpun eða trúarbrögð en lifa á einföldum veiðum. Everett telur rangt að reyna að breyta frumstæðum ættbálkum. Þeir eiga að fá að lifa sínu einfalda lífi í friði.
Ljósm: Haukur Snorrason
Endur fyrir löngu lifðu Íslendingar einföldu lífi í jafnvægi við náttúruna. Það voru útlendingar, sem uppgötvuðu að landsmenn voru óhamingjusamir.
Ekkert er minnst á eldfjöll í neinum af Íslendingasögunum, sem verður að teljast harla merkilegt. Líklega voru þau bara hluti af tilverunni líkt og skordýrin í frumskógum Amazon.
E.t.v. förum við aftur að lifa fyrir hverja lifandi stund en ekki líða fyrir fortíð eða framtíð?
Hér er hægt að heyra sungið á tungumali Pirahã ættbálksins.
Nánar má lesa um þennan merkilega ættbálk hér og einnig hér
Umfjöllun a NPR
"Keep it simple"
BB King
Athugasemdir
Gaman að þessu. Takk fyrir.
Greta Björg Úlfsdóttir, 10.11.2008 kl. 13:29
Einhver listsköpun er í gangi hjá þeim fyrst þeir syngja lag
Ef maður hugsar um það að bara með því að segja orðið "óhamingjusemi" þá fer "óhamingjuhugsun" í gegnum hugann. Betra að hugsa jákvætt á meðan maður "dílar" við það sem er ekki eins jákvætt
Hafðu það gott
Ragnhildur Jónsdóttir, 10.11.2008 kl. 14:32
Ef ég skil þessa frændur okkar rétt, þá söngla þeir gjarnan eða hvísla (við veiðar) þegar þeir "tala" sín á milli. Söngurinn er þeim þvi eðlilegt tjáningarform en ekki uppskrúfað listform eins og hjá okkur.
E.t.v er listin einungis gerð fyrir þá döpru og lífsleiðu?
Júlíus Valsson, 10.11.2008 kl. 14:39
Ekkert handverk af neinu tagi? Þeir hljóta að gera sér verkfæri?
(Er ekki búin að lesa greinina á ensku).
Greta Björg Úlfsdóttir, 10.11.2008 kl. 14:42
Mjög athyglisverð og skemmtileg grein. Takk fyrir.
kveðja Rafn
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 21:10
Fróðleg og skemmtileg grein, þakka fyrir.
Sigríður Sigurðardóttir, 10.11.2008 kl. 23:29
Takk fyrir þessa skemmtilegu samantekt Júlíus. Hér er líka myndband um fólkið.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.11.2008 kl. 05:41
Skemmtileg grein að lesa ,
Aprílrós, 12.11.2008 kl. 07:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.