9.3.2009
Einn kemur þá annar fer
Þeir létu alls ekki svo ófriðlega í Fríhöfninni. Reyndar voru þeir mjög rólegir og kurteisir. Það sást langar leiðir hvaðan þeir komu, hvert þeir ætluðu og hvað þeir ætluðu að gera hér á landi. Þeim hafði verið boðið til veislu. Þær ætluðu að skemmta sér ærlega. Mjög vel var fylgst með þeim. Óþægilega vel. Suðandi myndavélar, vopnaðir lögregluþjónar; 2:1. Ríkisstarfsmenn tilbúnir með lagakróka og reglugerðargildrur. Þeim var að sjálfsögðu vísað úr landi enda ógnuðu þeir þjóðaröryggi að sögn. Sjálfsagt mál. Gætu verið hér í glæpsamlegum tilgangi. Gæti vel verið. Sendir heim með næstu vél.
Gamall kunningi minn var í móttökuhópnum, sem aldrei sá gestina. Krúnurakaður, í leðurvesti, löngu hættur að drekka. Tattó. Hann hefur aldrei verið til vandræða. Var laminn í skóla en nú lemur hann enginn lengur. Hann hefur fundið sér griðastað meðal þeirra sterku og huguðu. Hann hefur fundið sér skjól. Hann fylgdist vongóður með komufarþegum. Kannski kæmust þeir inn? Kannski.
Loks sá hann einhvern sem hann þekkti. Gamlan skólafélaga. Hjartað sló hraðar. Hann svitnaði í lófunum. Gömul viðbrögð. Skilyrt áreiti, skilyrt viðbragð. Komumaðurinn var í gráum jakkafötum með skjalatösku. Hann var í að koma úr viðskiptaferð. Leit ekki í kring um sig. Enginn leit á hann. Honum var hleypt möglunarlaust inn í landið. Enginn veit í raun hvaðan hann var að koma, hvert hann var að fara eða hvað hann er nú að gera. Enginn fylgist með honum enda hverfur hann í fjöldann. engin ástæða til að hafa áhyggjur. Hann var bara með pappír í töskunni.
Athugasemdir
Það gæti verið ástæða til að menn kynntu sér kringumstæður þess fólks sem sumir vilja kalla "áhugamenn um bifhjól" eða eitthvað í þá veru. Það hangir fleira í spýtunni. Innganga í hópa eins og Banditos og Vítisenglar er háð fleiri skilyrðum en því að eiga mótorhjól. Menn þurfa að vinna ýmiss konar afrek, og ekki öll geðsleg.
Flosi Kristjánsson, 9.3.2009 kl. 22:43
Góður!
Ragnhildur Jónsdóttir, 9.3.2009 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.