5.4.2009
Tunglið, tunglið, taka tvö
Tunglið, sem gárungarnir kalla stundum mána* hefur nú aftur komist í sviðsljóðið. Frá lokum Apollo geimferðaráætlunarinnar fyrir rúmum þremur áratugum hefur tunglið fengið litla athygli. Menn hafa verið uppteknir af fjarlægari plánetum og öðrum meira spennandi tunglum. Tunglsljósið drukknar gjarnan í rafljósaflóði stórborganna. Varúlfar og vampírur sjást varla lengur. Nema til sveita, kannski, og í mjög dimmum bakherbergjum. Tunglsýki er að mestu læknuð.
Þrátt fyrir þetta, hafa jarðbundnir vísindamenn haldið áfram að vinna úr upplýsingum frá tunglgrjóti og mælingarniðurstöðum sem m.a. gervihnettirnir Clementine (sem er reyndar í útliti eins og klementína og dregur nafn sitt af því) og Lunar Prospector (sem lítur út eins og dæmigerður tunglkanni og dregur nafn sitt af því) hafa aflað á síðustu árum. Þessir svifrótsveinar (robots) hafa verið ötulir í því að safna ýmiss konar upplýsingum um tunglið okkar ekki síst pólana og fjarhlið tunglsins, sem löngum hefur þótt dularfull og spennandi. Nákvæmar upplýsingar hafa þannig fengist um bergtegundir, yfirborðseiginleka, efnasamsetningu og þyngdarafl o.fl. Æði margt er þó enn á huldu um uppruna tulngsins.
Clementine |
Möntulhalli tunglsins er einungis um 1,5 gráða (til samanburðar þá er möntulhalli jarðar um 23,5 gráður) sem m.a. veldur því að pólarnir hafa mikla sérstöðu og eru harla ólíkir þar sem sumir staðir þeirra eru stöðugt baðaðir sólarljósi meðan aðrir eru ávallt í fimbulkulda. Þar er að finna miklar gígaraðir. Vetni það, sem gæti hafa borist til tunglssins við árekstur loftsteina gæti hafa safnast saman í slíkum kuldapollum. Þetta vetni getur hugsanlega verið hluti af því vatni eða eldsneyti sem geimstöðvar framtíðarinnar munu nýta.
Ýmsar þjóðir keppast nú við að rannsaka tunglið nánar m.a. Kínverjar, Japanir, Indverjar og Bandaríkjamenn. Þau jarðvegssýni sem Apolló geimförin komu með til jarðar á sínum tíma benda til þess að þau hafi myndast fyrir 3,8 billjónum ára. Telja margir að á þeim tíma hafi mikið loftsteinaregn dunið á jörðinni og líf kviknað fyrst um svipað leyti, sem hlýtur að teljast athyglisvert.
Talsvert er af járni og mangan og öðrum nýtanlegum málmum á tunglinu. Einnig er talsvert af rokgjörnum efnum á yfirborði tunglsins en ekki er þó vitað nákvæmlega hvernig þessi efni eru tilkomin eða hvaða tilgangi þau þjóna. Clementine hefur tekist að finna merki um ís á dimmu hliðinni með mælingum á örbylgjukliðnum. Vetnið getur verð merki um ís eða hafa myndast úr róteindum frá sólarvindinum.
Talið er að tunglskorpan sé um 20 km að þykkt og mikið magn plagioklass bendir til þess að yfirborðið hafi myndast úr fljótandi kviku. Þyngri steintegundir svo sem pyroxene og olivine hafa þá sokkið til botns. Þegar yfirborðið stoknaði myndaðist mikið magn af hörðu efni, sem ekki er að finna í þeim kristöllum sem áður höfðu myndast. Þetta efni hefur fengið nafnið "KREEP"; (K = potassium, REE = rare-earth elements og P = phosphorus). Þetta efni er að finna í miklu magni á tunglinu. Þó er það sérstaklega áberandi á vesturhluta þeirrar hliðar, sem snýr að jörðunni á svæði sem nefnist Oceanus Procellarum (Stormahafið).
Segja má, að tunglið sé nú aftur komið í sviðsljósið eftir nokkurt hlé. Google hefur boðið því einkafyrirtæki, sem fyrst verður til þess að senda geimfar til tunglsins og senda þaðan myndir og ferðast 500 m eftir yfirborði tunglsins 20 milljón dollara í verðlaun og eru þegar nokkur fyrirtæki komin í kapphlaup til að hneppa þessi verðlaun (Google X-price). E.t.v. eitthvað fyrir hugvitsama Íslendinga?
ref: Nature Geoscience apríl 2009
* máni er fremur bjánalegt orð og beygist því eins og orðið bjáni.
Hálfmáni er hálf bjánalegt orð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.