Nýja inflúensan A/H1N1

Margt er enn á huldu varðandi flensuna, sem nú herjar á heimsbyggðina. Um er að ræða nýja veiru, sem smitast hratt á milli manna og nefnd hefur verið Inflúensa A H1N1 þ.e. inflúensa af A stofni, sem er algengasta inflúensa hjá mönnum. (Bókstafirnir H og N í (H1N1) vísa til próteina á yfirborði vírusins, haemagglutinins og neuraminidase.)

Nýjar veirur eru ávallt mjög varasamar þar sem þær geta stökkbreyst mjög hratt. Athygli hefur vakið, hve veikin breiðist út hratt á milli manna (menn eru þó að eitthvað draga úr varðandi það). Einnig er merkilegt að allir þeir sem hafa látist úr veikinni eru ungir og hraustir einstaklingar, sem að öllu jöfnu ættu að hafa mestu mótstöðu gegn slíku smiti. Þar að auki hafa flestir, sem  látist hafa vegna veikinnar hingað til verið búsettir í Mexíkó og höfðu smitast þar. Meðalaldur þeirra sem hafa veikst eru 17 ár. Mjög fáir yfir fimmtugt hafa veikst. Þeir, sem veiktust alvarlega í fyrstu, bjuggu flestir úti á landi. Veikin hefur verið mjög væg utan Mexíkó, jafnvel mun vægari en venjuleg inflúensa.

Það  vekur upp margar spurningar.

swineflu-cp-rtxei3d.jpg

 Rafeindasmásjármynd af A/H1N1 veirunni

 

 

 

 

 

Mögulegt er, að einungis sé um að ræða toppinn á ísjakanum þ.e. að veikin hafi verið lengi að hreiðra um sig í fátækrakverfum Mexíkó án þess að það hafi vakið neina sérstaka athygli þar til nokkrir bandaríkir unglinga komu smitaðir heim til NY úr ferðalagi til Mexíkó. Þetta gæti þýtt,i að mun fleiri eru í raun smitaðir en vitað er um og að mikið sé um væg tilfelli, sem enginn hefur veitt neina sérstaka athygli hingað til.

Skýringar á hárri tíðni dauðsfalla í Mexíkógeta geta verið æði margar:

1) Sérstök erfðasamsetning íbúanna þar
2) Lyfjanotkun t.d. notkun náttúrulyfja og/eða töfralyfja
3) Aðrir sjúkdómar og sýkingar
4) Enn óþekktir umhverfisþættir
5) Lélegt næringarástand og almennt bágborið heilsufar þeirra sem smitast
6) Lélegt aðgengi að læknismenntuðum sérfræðingum og að heilsutengdum upplýsingum
7) Lélegt heilbrigðiskerfi og illa búin sjúkrahús
8) Gífurlegur fjöldi smitaðra (í "venjulegum" flensufaröldrum deyja um 1% þeirra sem veikjast alvarlega) 
9) Um gæti verið að ræða tvö mishættuleg afbrigði af vírusnum annars vegnar hættulegt afbrigði, sem sýkir öll lungun og vægara afbrigði, sem einungis sýkir efri hluta loftveganna.


Þar sem hér er um að ræða nýja veiru getur það eitt og sér valdið hærri dánartíðni þar sem menn hafa enn ekki myndað ónæmi gegn henni. Slíkar veirur geta stökkbreyst mjög hratt og þarf því að fylgjast vel með þróun þeirra.  Smit af slíkri veiru getur leitt til vissrar ofvirkni ónæmiskerfisins "cytokine storm" þar sem líkaminn reynir með öllum tiltækum ráðum að vinna bug á henni. Þetta getur haft ýmsar auka- og hliðarverkanir í för með sér. Algengast er að mikil bólga myndast í lungunum, sem leiðir til vökvasöfnunar og í verstu tilvikum jafnvel til öndunarbilunar (acute respiratory distress syndrome, sem m.a. hefur lengi verið vel þekkt fyrirbæri hjá fyrirburum). Vírusinn virðist vera blanda af veirustofnum; þ.e. blanda af  fugla-, svína- og mannaflensustofnum. Hann virðist ekki bera með sér þau gen, sem gerði vísusinn sem olli heimsfaraldrinum 1918 svo hættulegan. Menn vita þó ekki gjörla hvað var þar á seyði og bíða spenntir eftir að sjá hvað gerist þegar og ef A/H1N1 vírusinn blandast "venjulegri" inflúensaveiru t.d.  næsta haust. Hann gæti einnig blandast fuglaflensuvírusnum H5N1 með ófyrirséðum afleiðingum. Nýjar influensuveirur hafa tilhneigingu til að byrja hægt en koma fram síðar með fullum krafti og gæti það gerst næsta haust.

swine_846952.jpg

Mikilvægt er þó að benda á, að þessi nýja veira er EKKI sama veiran og fuglaflensuveiran H5N1, sem berst til manna úr fuglum (ekki á milli manna) og er mjög hættuleg mönnum.  


Fuglaflensan er hættuleg mönnum


Sumir telja möguleika á því, að flensan sé ekki komin frá Mexíkó heldur upprunnin frá Kaliforníu. Þar hafi hún ekki vakið neina sérstaka athygli og verið meðhöndluð sem venjuleg flensa. Nýja flensan fannst þar fyrst fyrir tilviljun hjá 10 ára dreng þ. 30. mars er tekið var hjá honum hálsstroksýni vegna flensueinkenna. Aðrir telja mögulegt að hún hafi borist til Mexíkó með innflytjendum frá Asíu þ.e. Pakistan eða Bangladesh. Mjög líklegt er, að svínainflúensuvírus hafi stökkbreyst einhvers staðar í heiminum og borist í og smitað menn. 

fluvirus_846817.gif

Margt er enn óljóst varðandi þennan nýja sjúkdóm. Hins vegar er einnig ljóst, að hann hefur þegar vakið upp mikinn ugg meðal almennings. Ekki er þó ástæða til mikils ótta enn sem komið er. Skv. upplýsingum WHO er þessi nýja flensa í raun ekki frábrugðin venjulegum flensum. Einkennin geta verið mjög mild og í einstaka tilvikum mjög alvarleg. Það má telja víst, að H1N1 flensan berist til landsins fyrr en síðar. Íslenska heilbrigðiskerfið er þó mjög vel í stakk búið til að taka á þessum vanda. Svo virðist sem veirulyfin Tamiflu og Relenza gagnist vel gegn veirunni og miklar byrgðir slíkra veirulyfja eru til í landinu. Einnig er heilbrigðis- -næringar og menntunarástand landsmanna gott sem hefur mikið að segja ekki síst þegar samhæfa þarf allar aðgerðir. Ekki er til sértækt bóluefni gegn flensunni fyrir menn en ekki líður þó á löngu þar til slíkt bóluefni verður framleitt. Það verður þó líklega ekki fyrr en með haustinu.

Reynslan af fyrri  inflúensufaröldrum sýnir, að búast má við að um helmingur alls mannkyns muni væntanlega smitast af nýju veirunni. Af þeim sem smitast mun væntanlega um þriðjungur (1/3) ekki verða varir við smitið og fá engin einkenni. Af þeim sem veikjast mun einungis um 4% verða svo veikir að þeir þurfi að leggjast á sjúkrahús. 

Fuglaflensan (H5N1), sem er mun skæðari veiki en svínaflensan, og sem olli talsverðum skaða árið 2003, hefur þrátt fyrir alt kennt okkur margt og aukið á möguleikana að ráða við veirusýkingar. Við erum þó ekki alveg berskjölduð en í rauninni enn almennt mjög vanmáttug þegar veirur eiga í hlut. Fyrir um áratug síðan benti ýmislegt til þess að skæður faraldur af svínainflúensu væri í aðsigi en menn hafa virt það að vettugi að verulegu leyti. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að fimmtungur svínaræktenda í USA eru með mótefni gegn veirunni, sem bendir til þess að þeir hafi sýkst einhvern tímann af henni. Þa eitt hefði átt að hringja einhverjum aðvörunarbjöllum.    

 bolusetning_3.jpg

Besta vörnin gegn veirusýkingum er bólusetning. Ekki er ólíklegt að þau inflúensubóluefni, sem þegar hafa verið notuð hér á landi geti varið menn gegn þessari nýju veiru að einhverju leyti (þar sem þau gagnast almennt gegn H1N1 veirum í mönnum) en það er þó ekki enn vitað með vissu. Vírusinn gæti  þó hafa breytt sér hratt áður en menn ná að búa til bóluefni. Vísindamenn hafa þegar ákveðið hvernig inflúensubóluefnið fyrir veturinn 2009/2010 á að vera, en það þarf að gera með minnst 6 mánaða fyrirvara og er því erfitt að breyta því núna. Framleiðsla veirubóluefnis er mjög seinleg þar sem veiran er ræktuð í eggjum; eitt egg þarf fyrir einn skammt. Menn eru því að leita annarra leiða, til að herða á framleiðslunni. Hafa ber í huga, að mannkynið telur nú um 7 milljarða manna. Mjög fáar þjóðir framleiða bóluefni og raunar eru flestar þeirra í Evrópu og gætu þær verið tregar til útflutnings. Skynsamlegt virðist að framleiða bóluefni gegn þeim hluta veirunnar, sem ekki getur stökkbreyst. 

A.m.k. fjögur lyfjafyrirtæki eru nú í startholunum til að hefja framleiðsju bóluefnis gegna H1N1 um leið og ræktun veirunnar er lokið. Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa nú gert samning við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline um kaup á 300.000 skömmtum af nýja bóluefninu.

Nú vinna vísindamenn hörðum höndum við að framleiða eitt "allsherjar" bóluefni gegn flensuvírusum í líkingu við þau bóluefni, sem notuð eru gegn mislingum og mænusótt. Slíkt bóluefni gæti í besta falli gefið ævilanga vernd gegn öllum stofnum inflúensunnar. Það myndi einnig sórlega hefta útbreiðslu veirunnar en árlega deyja um 36.000 manns af völdum inflúensu í USA.

bolusetning_2.jpg   
bolusetning_1.jpg

Þess bera að geta, að þegar svínainflúensufarandur gekk yfir Bandaríkin árið 1976 var gripið til fjöldabólusetninga til að hefta dreifingu veikinnar. Einn einstaklingur dó úr flensunni en 25 dóu  vegna aukaverkana af völdum bólusetningarinnar.  

Veirulyfin Tamiflu og Relensa virka á þann hátt að þau hefta ákveðið prótein á yfirborði vírussins, sem nefnist "neuraminidase" og kemur þannig í veg fyrir að vírusinn geti dreift sér um líkamann. Lyfin virka vel gegn H1N1 enn sem komið er a.m.k en hugsanlega gæti vírusinnmeð tímanum myndað ónæmi gegn þessum lyfjum, sem tekur um 8 mánuði að framleiða.

Hvað er hægt að gera til að forðast smit?

1) Halda höndunum frá andlitinu þ.e. augunum, munni og nefi, það minnkar hættuna á smiti.
2) Þvoðu þér reglulega um hendurnar með sápu og naglabursta, a.m.k. 20 - 30 sek í senn.
3) Notaðu handspritt, sérstaklega þar sem þú hefur ekki aðgang að vatni (gildi þó varla hér á landi)
4) Haltu þig í a.m.k. 1 m fjarlægð frá smituðum einstaklingum
5) Notaðu maska ef þú er innan um smitaða einstaklinga (N95 maskar duga vel, venjulegir maskar duga ekki eða illa).

 hand_washing.jpg

 Hvað eiga menn að gera ef þeir veikjast?

1) Hafa samband við lækni ef alvarleg einkenni gera vart við sig hjá sjúklingi með flensu svo sem mæði, brjóstverkir eða ruglástand.
2) Haltu þig heima (í 7 daga), ekki taka þá áhættu að smita aðra
3) Ekki senda veik börn í skólann
4) Ef menn fá háan hita, taka þá veirulyf innan 2ja sólarhringa
5) Nota maska til að draga úr dreifingu veirunnar (virðast þó ekki verja menn smiti, nema sérstakir sérhannaðir veirumaskar).
6) Halda fyrir vitin (nef og munn) þegar menn hósta og þvo sér reglulega vel um hendurnar (eftir HVERN hnerra og hósta), sem virðist lang áhrifamesta vörnin til að draga úr smiti. 
7) Almennt hreinlæti, nota sprittsótthreinsun fyrir hendur og t.d. eldhúsborð.
8) Hvíldu þig vel og borðaðu fjölbreytt og hollt fæði
9) Sumar rannsóknir benda til gagnsemi C-vítamíns við flensusmiti

Við höfum þegar séð mjög heimskuleg viðbrögð við flensunni t.d. þegar Egyptar ákváðu að slátra öllum svínum í landinu og þegar eitt barn með flensueinkenni leiddi til lokunar á öllu skólakerfinu í Texas. Rússar og Kínverjar hafa nú bannað allan influttning á svínakjöti frá Mexíkó án þess þó að slíkt bann sé hæg að rökstyðja með neinum skynsömum hætti. Inflúensan A/H1N1 virðist eins og er, einungis vera venjuleg flensa og hagar sér sem slík. Ekki er hægt að bera aðstæður nú saman við þær aðstæður sem ríktu þegar Spánska veikin geysaði fyrir tæpum 100 árum. Í dag væri hægt að bjarga flestum sem veikjast alvarlega t.d. með sýklalyfjagjöf við slæmum bakteríusýkingum sem geta fylgt kjölfar veirusýkinga.     

"We are constantly told that pork is not dangerous. But at the same time, nobody has proved that it is safe"
   Nikolai Vlasov
   Russian chief veterinary inspector

Um 300 hótelgestir voru nýlega settir í algjöra einangrun á hóteli í Hong Kong. Þar hafði einn hótelgestur greinst með smit. Gestirnir voru orðnir mjög leiðir, og þá sérstaklega á einhæfu (hrísgrjóna-)fæði að sögn.

Þrátt fyrir allt hefur nýja flensan virkað sem vítamínsprauta á ýmiss konar viðskipti með lyf og lækningavörur, bóluefni og jafnvel tölvuforrit o.fl., sem vegur e.t.v. eitthvað upp á móti þeim skaða sem hún veldur með fækkun flugferða og minnkuðum samskiptum manna á milli. Fækkun ferðalaga og aukið atvinnuleysi dregur hins vegar eitthvað úr úrbreiðslu veikinnar.

 E.t.v. gerir nýja flensan út af við kreppuna? Það er ávallt von.

Benda má á insflúensuvef Landlæknis varðandi frekari upplýsingar

surgical-mask.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

fín samantekt.. ég tel að þetta sé bara venjuleg flensa og dauðsföllin í mexicó frekar útskýrð með öðrum þáttum en þessari felsnu.. en ég veit svo sem ekkert :)

Óskar Þorkelsson, 1.5.2009 kl. 17:27

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég held því miður að menn séu ekki að leika sér að því að setja viðbúnaðarstigið í 5 af 6 af alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Maður vonar það besta og vonandi verðum við ekki með andlitsgrímur niðri í bæ þegar túristarnir koma frá USA/Mexikó.

Guðmundur St Ragnarsson, 2.5.2009 kl. 01:00

3 Smámynd: Ellert Júlíusson

Menn eru kannski ekki að leika sér að því að setja viðbúnaðarstig 5 en spyrja má hvers vegna það er gert við jafn litlar sakir og komið er.

Berklar eru mun stærra vandamál í USA en ekkert er fjallað um það. Sú veiki er bara ekki jafn spennandi, og ekki jafn líkleg til að valda þeirri ofsahræðslu sem fjölmiðlar og stjórnvöld vilja ná fram. Það örvar jú ekkert smásöluna jafn vel og góður hræðsluáróður en það er nú á þeim vettvangi sem Ameríkanar eru orðnir sérfræðingar.

Þetta er góð samantekt, og undirstrikar og sýnir hvað klikkunin er orðin mikil hjá sumum þjóðum. Hver man ekki eftir HIV? Veiran sem átti að eyða heiminum, síðan kom SARS sem átti nú aldeilis að ganga frá mannkyninu. Á eftir fylgdi fuglaflensan sem var sú hræðilegasta sem hafði sést en ekkert heyrist af í dag og nú er það "svína"flensan sem ríður húsum. 

Já það er margt skrítið í henni veröld og nákvæmlega svona hlutir valda því að maður spyr sig, hvað er að og hvað býr undir?

 Góðar stundir.

Ellert Júlíusson, 3.5.2009 kl. 12:00

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Það eru einungis nokkur ár síðan að Íslendingar slátruðu öllum fuglunum í Húsdýragarðinum vegna hræðslu við fulgaflensu!

Júlíus Valsson, 3.5.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband