Færsluflokkur: Dægurmál

Gervigreindin - Sverð þitt og skjöldur?

Vörn borgarans gegn Græna gímaldinu við Álfabakka - Leiðbeiningar

Stjórnvöld víða um heim vara nú við áhrifum gervigreindar og það ekki af ástæðulausu. Hún getur verið afar öflugt tæki í höndum almennings til að berjast gegn ósanngirni, ofríki og valdníðslu stjórnvalda – ef hún er notuð rétt og gerð aðgengileg öllum. Hún getur skapað fólki rödd t.d. með samþættingu og greiningu á undirskriftalistum, samfélagsmiðlum og fréttum en einnig skrifað lagaleg og formleg mótmæli, kærur eða beiðnir. Einnig getur hún hjálpað fólki að beita réttum lagalegu úrræðunum á réttum tíma og sparað þannig bæði kostnað og tíma. 

green_dragon
Græna gímaldið fylgist vel með íbúum við Álfabakka

Hér verður gerð leikmannstilraun til að nýta gervigreind í þágu almennings við gerð kæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Græna gímaldið við Álfabakka

Reykvíkingar búa nú við þann grimma veruleika að stjórnvöld valti yfir þá og taki lítið sem ekkert tillit til skoðana þeirra eða og vilja í mörgum mikilvægum málum. Borgarlínan, stöðugar umferðartafir og þrengingar, umferðarbrú án bíla, þétting byggðar, forljótar byggingar og bílastæðamál eru augljós mál þar sem vilji borgarbúa hefur verið virtur að vettugi.

Nærtækasta dæmið er Græna gímaldið við Álfabakka. Ljóst er að borgaryfirvöld hafi ekki virkjað nægilega íbúa svæðisins í ákvarðanatökuferlinu því mörgum þeirra var ekki kunnugt um framkvæmdina fyrr en hún var langt komin á veg (málið minnir að ýmsu leyti á Coda Terminal í Hafnarfirði), og lýstu þeir mikilli óánægju með skort á gagnsæi. Þetta brýtur í bága við meginreglur um lýðræðislegt samráðsskylduferli í skipulagslögum.

Skipulagsstofnun taldi hins vegar að ekki þyrfti að framkvæma umhverfismat, þrátt fyrir áhyggjur íbúa og umfang verkefnisins (kjötvinnsla í þéttbýlu íbúðahverfi). Þetta hefur verið gagnrýnt sem veikleiki í varúðarreglu náttúruverndarlaga og mat á neikvæðum áhrifum á nærumhverfi. Ekki liggur fyrir að borgaryfirvöld hafi lagt fram sjálfstæða matsskýrslu um áhrif framkvæmda á samfélagið. Áhersla virðist hafa verið lögð á formlegt samþykki framkvæmda, án efnislegrar greiningar á áhrifum þeirra. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur tekið undir þessar áhyggjur og telur að unnt hefði verið að koma í veg fyrir flest vandamál sem tengjast Græna gímaldinu.

Helstu mistök Reykjavíkurborgar má telja meðal annars:

  1. Skortur á íbúasamráði og gagnsærri upplýsingagjöf.
  2. Undanþága frá umhverfismati þrátt fyrir áhyggjur og rök íbúanna.
  3. Óviðeigandi staðsetning iðnaðarstarfsemi í þéttbýli.
  4. Ófullnægjandi gögn og óskýr forsenduvinna.
  5. Vantraust hefur skapast vegna skorts á gagnsæi í ferlum  og breytinga á áður birtum fundargerðum.

Umhverfismat

Framkvæmdir við Álfabakka 2-4 í Reykjavík, þar sem fyrirhuguð er kjötvinnsla í svokölluðu „Græna gímaldi“, eru háðar umhverfismati samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 1. viðauka laganna getur pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum, þar sem gólfflötur bygginga er að minnsta kosti 1.000 m², verið háðar umhverfismati. Í þessu tilviki er gólfflötur kjötvinnslunnar áætlaður um 3.200 m², sem fellur innan þess ramma samkvæmt viðaukanum.

Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefur viðurkennt að mistök hafi átt sér stað við útgáfu byggingarleyfisins, þar sem mat á umhverfisáhrifum var ekki framkvæmt áður en leyfið var veitt. Því var ákveðið að stöðva framkvæmdir við kjötvinnsluna á jarðhæð hússins meðan beðið var niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem barst 8. maí 2025. Í niðurstöðunni kemur fram, að á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sé fyrirhuguð framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. (Í viðauka 2 eru viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B. í 1. viðauka: a. eðli framkvæmda og b. staðsetning framkvæmda).  
Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þrátt fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafa íbúar í nágrenninu lýst yfir áhyggjum sínum vegna mögulegra neikvæðra áhrifa, svo sem skuggavarps og hávaða, sem kjötvinnslan gæti haft á nærumhverfið. Skipulagsstofnun hafi við mat sitt því ekki tekið nægilegt tillit til
a) eðlis framkvæmdarinnar og
b) staðsetningar framkvæmdarinnar, eins og stofnuninni ber skv. lögum.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur tekið undir þessar áhyggjur og telur að unnt sé að koma í veg fyrir flest þau vandamál sem tengjast Græna gímaldinu.

Kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 30. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana má kæra ákvörðunina til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 9. júní 2025.

Hvers vegna ætti ég að kæra?

Græna gímaldið snertir hagsmuni okkar allra. Þar er með alvarlegum hætti vegið að andlegri og líkamlegri líðan, sem og almennum lífsgæðum íbúa við Álfabakka. Græna gímaldið er dæmi um alvarleg skipulagsmistök að hálfu Reykjavíkurborgar og ætti að þjóna sem víti til varnaðar. Allir íbúar Reykjavíkur og í raun allir Íslendingar eru hagsmunaaðilar í þessu máli. Hér gefst tækifæri til að koma á framfæri ábendingum og krefjast úrbóta. Kæra þarf ekki að vera fullkomin. Aðal atriðið er að mótmæla úrskurðinum með einföldum rökum. Allir eru því hvattir til að senda inn kæru.
(sjá slóð á uppkast að kæru með Word sniði (.doc) hér að neðan


Hvernig á að kæra?

Hér eru stuttar leiðbeiningar um hvernig skuli kæra mál til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála:

Kæran skal vera skrifleg og má senda hana með því að skrá sig á
Mínar síður á Island.is 
undir liðnum „Umsóknir“ sem er einfaldasta aðferðin.
Einnig er hægt að senda kæruna með tölvupósti á
 
uua@uua.is 
en þá þarf hún að vera undirrituð með eigin hendi. 

Hvernig lítur kæra út?

Hér að neðan er slóð á dæmi um hvernig kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála gæti litið út. Skjalinu má breyta að vild og að smekk. Birt með þeim fyrirvara að undirritaður er ekki löglærður og hefur ekki sérfræðiþekkingu í lögfræði.


Hægt er að hlaða niður uppkasti að kæru sem .doc (Word) skjal hér


Nánari leiðbeiningar er að finna á þessari slóð:

Hvernig á að kæra? - Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Við gerð þessa skjals er m.a. nýtt þjónusta gervigreindar, ChatGPT 

ref.
Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana 2021 nr. 111 25. júní

Skipulagsstofnun: Um umhverfismat framkvæmda 

Úrskurður Skipulagsstofnunar: Kjötvinnsla í húsnæði að Álfabakka 2a Ákvörðun um matsskyldu

ps

orðaskýringar: 

gervigreind (AI) = þeir að handan


Er starfsemi Climeworks á Íslandi hreint loftslagsklám?

Kjartan Kjartansson blaðamaður á Visir.is, einn ötulasti talsmaður ríku kolefniskrakkanna á Íslandi ritar nú lofgrein um starfsemi Climeworks á Hellisheiði, sem reist var fyrir milljarða til að bjarga jörðinni frá hamfarahlýnun og gera alla ríka í nafni "loftslagsmála" í leiðinni. Þar reynir hann af veikum mætti að varpa efasemdum á mjög svo ítarlega og um leið faglega gagnrýni Heimildarinnar á starfsemi Climeworks á Íslandi, starfsemi sem hefði sómt sér vel í vísindaskáldsögu frá 8. áratug síðustu aldar eða sem þema í glæpasögu eftir Kötu Jak. (þó án hreinskriftar Ragnars Jónassonar).

CO2_Machine_dead_trees copy
Loftlagsvél (kolefnissuga) í íslenskri sveit

Það hafa komið fram ýmsar sterkar gagnrýnisraddir og efasemdir bæði hérlendis og þá sérstaklega erlendis um starfsemi Climeworks á Íslandi og skemmst er að minnast áðurnefndar umfjöllunar Heimildarinnar þar sem fram komu ýmis vafasöm atriði þó ekki sé um að ræða beinar ásakanir um svindl. The Guardian fjallaði um Climeworks þ. 17. maí s.l. þar sem fram kemur, að að föngun væri langt undir öllum markmiðum og hafi þurft að segja upp um 10% af starsmönnum sínum.  

Hér eru helstu atriði sem hafa vakið athygli:

Mjög takmörkuð geta til kolefnisföngunar

Nýleg rannsókn sýndi að flaggskipið, Mammoth-verksmiðjan, sem opnaði árið 2024 með áætlaða árlega getu til að fanga 36.000 tonn af CO2 (á ári) hafði aðeins náð að fanga 750 tonn, þar af 105 tonn nettó, frá opnun sinni. Orca-verksmiðjan, sem hóf starfsemi árið 2021, hefur aldrei náð að fanga meira en 1.000 tonn á ári af þeim 3.000 tonnum sem lofað hafði verið. Climeworks er þó búið að selja 380 þúsund tonn af kolefniskvóta þótt þeir hafi ekki getað afhent nema rétt rúmlega 1 þúsund tonn. 

Hár rekstrarkostnaður og gífurleg orkunotkun

Tæknin sem Climeworks notar krefst mjög mikillar orku. Til dæmis þarf Orca-verksmiðjan um 8 milljónir kWh af varmaorku og 2,6 milljónir kWh af rafmagni árlega til að fanga 4.000 tonn af CO2. Til samanburðar nota öll heimilin í landinu samanlagt um 1,99 milljón kWh af raforku á ári.
Skv. grein K.K. á visir.is þurfa Climeworks-stöðvarnar á Íslandi um 4.300 kílóvött af varmaorku og um af 700 kílóvött raforku til þess að binda nettótonn af koltvísýringi úr andrúmslofti. Er það réttlætanlegt að íslensk heimili og t.d. garðyrkjubændur þurfi að keppa um raforkuverð við þessa ævintýrastarfssemi sem hefur ekki hefur hin minnstu áhrif á "loftslagið" eða hitastig jarðar?   

Gagnrýni á áhrif og áherslur

Sumir sérfræðingar vara við því að of mikil áhersla á kolefnisföngun geti dregið athyglina frá nauðsynlegum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir benda á að tæknin sé enn á frumstigi og geti orðið til þess að fyrirtæki fresti raunverulegum loftslagsaðgerðum.

Skortur á gagnsæi og gagnrýni á fjármögnun

Climeworks hefur safnað verulegum fjármunum frá stórfyrirtækjum eins og Microsoft, H&M Group, Morgan Stanley, TikTok og British Airways o.fl. Sumir gagnrýnendur telja að þetta geti verið dæmi um grænþvott, "greenwashing", þar sem fyrirtæki fjárfesta í slíkum lausnum til að bæta ímynd sína án þess að gera raunverulegar breytingar á starfsemi sinni.

Niðurstaða

Þó að Climeworks hafi ekki beinlínis verið staðið að svindli, þá eru til staðar efasemdir um og gagnrýni á áhrif og árangur starfsemi þeirra á Íslandi. Tæknin er enn í þróun og krefst mikillar orku og fjárfestinga, og því er mikilvægt að halda áfram að fylgjast með framvindu hennar og meta raunveruleg áhrif hennar á loftslagsmál. Mun hún bjarga heiminum frá hamfarahlýnun eða eru þetta hreinir draumórar glóbalistanna? Starfsemi Climeworks á Íslandi skuldar nú um fimm milljarða. Hver er tilbúinn að borga og til hvers? Kannski Orkuveita Reykjavíkur sem á CarbFix og sem virðist vera til í hvaða vitleysu sem er á kostnað skattborgaranna að sjálfsögðu. Svo er veðrinu á Íslandi kennt um ófarirnar (og Trump auðvitað). Þess má geta að Time Magazine útnefndi árið 2024 Climeworks eitt merkilegasta framlag mannkynsins til "loftslagsmála". Sama tímarit gaf reyndar kolefniskrökkunum í Running Tide sömu einkun fyrir að varpa trékurli með steinsteypuídýfu í hafið. Þessu trékurli er nú brennt í ofnum járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.  

[1]: Grein Kjartans Kjartanssonar um Climeworks á visir.is
[2]: Upphafleg grein Heimildarinnar um Climeworks á Íslandi
[3]: Umfjöllun The Guardian
[4]: Grein í Geoengineeringmonitor.org um CarbFix og Climeworks
[5]: Grein um "kolefnissuguna" í Architecturaldigest.com
[6]: The World’s Biggest Carbon Removal Plant Just Turned 2. So, Uh, Is It Working?




Vítissótinn og páfi kaþólskra. Fær Umhverfisstofnun sömu sporslur og Hafró?

Vek athygli á afar áhugaverðri grein: Vítissótinn og páfi kaþólskra, sem Finnbogi Rögnvaldsson skrifaði nýlega í blaðið Skessuhorn. Þar segir hann m.a. um þær hugmyndir að varpa tugum tonna af vítissóda í Hvalfjörðinn til að "bjarga loftslaginu":

"Í efnafræði er notast við eininguna mól til að mæla efnismagn. Þegar eitt mól af NaOH (vítissóta eða natríumhydroxíð) er framleitt þarf til þess orku sem er u.þ.b. 330 kJ (ACS energy letters: Caustic Soda Production, Energy Efficiency, and Electrolyzers | ACS Energy Letters). Við bruna á 1 móli af C (kolefni) fæst orka sem er u.þ.b. 390 kJ, litlu meira en þarf til að framleiða vítissótann. Lengra þarf ekki að fara í rannsóknum á vítissóta og bindingu koldíoxíðs til þess að sjá að slíkt er einfaldlega ekki gerlegt. Ekki er hægt að binda koldíoxíð með vítissóta! Nettóútkoman verður aldrei í plús. Svo má vissulega halda áfram, rita efnaformúlur og gera grein fyrir umfangi viðfangsefnisins til þess að sjá þetta enn betur, hugmyndin er einfaldlega andvana fædd og ætti ekki að vera til umfjöllunar hjá virðulegum stofnunum ríkisins. Hvað þá að hljóta þar meðmæli. Þá er eitthvað skrítið á seyði." 

Umhverfisstofnun mælir með því að leyfi verði veitt fyrir tilraun með basa í botni Hvalfjarðar í sumar. Rannsóknin sé líkleg til að veita mikilvægar upplýsingar um möguleika á kolefnisbindingu án þess að hafa neikvæð áhrif á hafið.

Hér erum að ræða sömu kolefniskrakka og sem tókst að heilla þrjá ráðherra XD til að samþykkja og vegsama hryllingsgjörninginn "Running Tide", vitleysuna sem fékk þrátt fyrir allt nær 300 milljónir frá íslenska ríkinu í "skattaafslátt".

vitissodi

Nú hafa sömu krakkar "styrkt" Hafró um tæpar 100 milljónir og boðið starfsmann Hafró velkominn í "matsteymi" fyrirtækisins. Enginn skilur hvað er í gangi eða til hvers en spurningar hafa auðvitað vaknað hjá starfsmönnum Umhverfisstofnunar og þau spyrja kolefniskrakkana á fjölmenningarmáli:

"What´s in it for us?"

Hvet alla til að lesa grein Finnboga Rögnvaldssonar hér:

https://skessuhorn.is/adsendar-greinar/vitissotinn-og-pafi-katholskra

Umfjöllun um Running Tide í Heimildinni

Frétt RÚV um málið

Vörpum einhverju í sjóinn við Ísland til að bjarga loftslaginu.
Upplýsingar frá 
móðurfélagi Rastar sjávarrannsókna ehf.
Carbon to Sea Initiative á YouTube

 


Athugasemdir í Skipulagsgátt vegna vindorkugarðs við Dyraveg í Sveitarfélaginu Ölfusi

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur kynnt áform um byggingu og rekstur vindorkuþyrpingar við Dyraveg á Mosfellsheiði. Áform OR felast í uppbyggingu allt að 108 MW vindorkuþyrpingu á 7,2 km2 svæði við Dyraveg á Mosfellsheiði. Gert er ráð fyrir að reisa 15 vindtúrbínur á framkvæmdasvæðinu og að afl hverrar verði 7,2 MW. Hæð vindtúrbínanna verður mest 210 m, með vélarhús í 125 m hæð og spaðalengd 87,5 m. Við hverja vindtúrbínu þarf steypta undirstöðu (allt að 30 m í þvermál og 3-4 m á þykkt), 1.500 m2 kranaplan og 5.000 m geymslusvæði. Leggja þarf 1,3-4,5 km aðkomuveg að svæðinu frá Nesjavallaleið eða Þjóðvegi 1. Einnig þarf þjónustuvegi að hverri vindmyllu, alls um 8-12 km að lengd og 4-4,5 m breiðir.


Dyravegur

Dyravegur er forn þjóðleið sem liggur um Hengilssvæðið á Suðvesturlandi, milli Mosfellsheiðar og Grímsness. Leiðin liggur um Dyrafjöll, sem eru móbergshryggir norðan Hengils, og er nafnið dregið af náttúrulegum „dyrum“ eða þröngum skarði milli tveggja þverhníptra hamra sem vegurinn liggur í gegnum. Í dag er Dyravegur vinsæl gönguleið fyrir útivistarfólk en þar liggur einnig gömul friðlýst reiðgata sem liggur í gegnum fyrirhugað framkvæmdasvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Hengilssvæðið austur af framkvæmdasvæðinu er á náttúruminjaskrá.

Leiðin er um 20,4 km löng og tekur um 8 klukkustundir að ganga. Hún hefst við Elliðakot í Mosfellsdal og liggur um Dyrafjöll að Dyradal. Dyravegur er bæði söguleg og náttúrufarslega áhugaverð leið sem býður upp á einstaka gönguferð um móbergsfjöll, jarðhitasvæði og sögulegar slóðir. Leiðin hentar vel fyrir þá sem hafa áhuga á útivist, jarðfræði og sögu Íslands.

Víðátta og óröskuð náttúra Íslands er dýrgripur

Víðátta, óröskuð náttúra og óbyrgt útsýni, eru ekki bara einkenni íslensks landslags – þetta eru einnig djúpstæð íslensk gildi sem hafa mikil áhrif á menningu, sjálfsmynd og upplifun fólks á Íslandi. Víðáttan skapar sterka tilfinningu fyrir frelsi og ró. Þú horfir yfir opið land þar sem ekkert þrengir að sjónsviði, og það hefur djúp áhrif á andlega líðan þína. Hún er líka hluti af menningarlegri sjálfsmynd Íslendinga – hugmyndin um að geta ferðast óhindrað um landið, án mikilla ummerkja manna. Í ferðaþjónustu er víðáttan eitt af því sem ferðamenn dást mest að – þessi „óendanlegi“ opni heimur.

Orkuveita Reykjavíkur hyggst reisa 15 vindtúrbínur á Dyravegi og mun hver þeirra verða 210 metrar á hæð. Svo stórar vindmyllur munu sjást mjög víða frá. Þær verða áberandi í sjónlínu, jafnvel á stórum svæðum. Þær brjóta upp náttúrulega sjónlínu – fólk missir möguleikann á að horfa yfir ósnortin fjöll, heiðar og dali. Það dylst engum að vindtúrbínuþyrpingar með svo stórum mannvirkjum og á þessu svæði, sem er í 280 m hæð yfir sjávarmáli mun verða mjög áberandi lýti í náttúrunni og raska því náttúrulega umhverfi og víðsýni sem þar ríkir í dag. Ímynd landsvæðisins breytist frá því að vera í hugum fólks óröskuð náttúra og ákjósanlegt svæði til útivistar í að verða forljótt og truflandi iðnaðarsvæði sem vekur upp ótta meðal viðkvæmra. Svona skrímsli eiga einfaldlega ekki heima í íslenskri náttúru.  

Vatnsvernd

Framkvæmdasvæði Orkuveitu Reykjavíkur er innan fjarsvæðis vatnsverndar, sem þýðir að framkvæmdir eru háðar reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Gera þarf sérstakt áhættumat vegna mögulegra mengunaráhrifa á grunnvatn áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessu sambandi verður sérstaklega að gæta að ákvæðum Vatnaáætlunar Íslands 2022 – 2027,  Vatnalaga nr. 15 20. júní 1923 og reglugerðar 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Grunnvatns- og yfirborðsmengun frá vindtúrbínuþyrpingum er sterkur áhættuþáttur. T.d. geta vegagerð og undirstöður raskað yfirborði og gróðri, sem getur leitt til jarðvegsrofs. Þegar óvarinn jarðvegur skolast út í ár, læki eða vötn getur hann valdið: Drullu- og leirmengun í vatni, sem getur skaðað fisk og vatnalíf og tæmingu torf- og mýrlendis, sem hefur áhrif á náttúrulegan vatnsbúskap svæðisins.
Þungavélar sem notaðar eru við framkvæmdir nota smurolíu, dísil og önnur efni. Ef leki verður eða eldsneyti kemst í jarðveg eða grunnvatn getur það mengað vatnsból og skaðað vistkerfi sem treysta á hreint yfirborðs- eða grunnvatn eins og er raunin á þessu svæði.

Skv. upplýsingum Orkuveitu Reykjavíkur mun hver vindtúrbína þurfa steinsteypta, (járnbenta) undirstöðu sem er 30m að ummáli og um 4m að þykkt. Hver undirstaða þarf því um 2.827 rúmmetra af steypu (ef reiknað er með þéttleika (eðlismassa) venjulegrar steypu: ≈ 2400–2500 kg/m³). Hver vindtúrbína mun því þurfa 7.215 tonn af steypu (283 steypubílar!). Þessar tölur má svo margfalda fyrir 15 vindtúrbínur.

Undirstaða hverrar vindtúrbínu mun innihalda sement og önnur efni sem geta haft áhrif á sýrustig (pH) og samsetningu grunnvatnsins og á framkvæmdatíma getur úrkoma skolað efnasamböndum úr steypusvæðum og breytt vatnsjafnvægi á viðkvæmum svæðum.
Rask á votlendi getur leitt til þess að vatnsflæði breytist eða hverfi og mýrar þorni upp eða breytist í rennandi vatn, sem hefur áhrif á vatnalíf og koldíoxíðlosun. Þetta getur einnig haft óbein áhrif á grunnvatn, þar sem endurnýjun þess fer oft fram í mýrum og ám.

Nýlega ákvað Orkuveita Reykjavíkur að banna umferð bifreiða á vatnsverndarsvæði Reykjavíkur í Heiðmörk. Það skýtur því skökku við að leyfa gífurlega umferð steypubíla og jarðvegstækja á vatnsverndarsvæðinu á Dyravegi, þó svo það sé jaðarsvæði.

Kolefnisfótspor

Ljóst er að sú risaframkvæmd sem Orkuveita Reykjavíkur áætlar á Dyravegi mun skilja eftir sig risastórt kolefnisfótspor. Uppreiknað heildarkolefnisfótspor fyrir eina vindtúrbínu gæti litið svona út:

  • Framleiðsla vindtúrbínu: 1.25–1.5 tonn CO2.
  • Flutningur og uppsetning: 300–600 tonn CO2.
  • Bygging undirstöðu (steypa og járn): 9,000–11,000 tonn CO2.

Heildarkolefnisfótspor fyrir eina 210 metra háa vindtúrbínu með undirstöðu og flutningi til Íslands eru áætlað að vera: 10,600−12,100 tonn CO2.

Eru vindtúrbínur góð fjárfesting?

Reykvískir skattgreiðendur hafa ekki við að hrista hausinn yfir heimskulegum áhættufjárfestinum Orkuveitu Reykjavíkur, sem sumar hverjar samrýmast alls ekki kjarnastarfsemi fyrirtækisins, en sem óþarft er að rekja nánar hér. Ljóst er að það útheimtir gífurlegt fjármagn að reisa vindtúrbínuþyrpingu eins og þá sem hér um ræðir og að orkuframleiðsla sú sem ætlað er að þar fari fram muni þurfa á að halda stöðugri og aðgengilegri viðbótarvaraorku t.d. frá vatnsafls- eða varmaaflsvirkjun, sem ekki er þó enn í sjónmáli og með öllu óljóst hver verður. Hæpið er að bygging slíkrar þyrpingar sem hér um ræðir verði arðbær við núverandi raforkuverð og stóla verður því á framtíðar verðhækkanir raforkunnar og/eða lagningu sæstrengs til ESB.  Einnig verður væntanlega að ganga út frá því að ETS-kerfi ESB verði við haldið að mestu óbreyttu á komandi árum sem alls ekki er þó öruggt hvað þá verðið á losunarheimildum.

Nýlega hélt sænskur hagfræðingur, Christian Steinbeck fyrirlestur í sænska þinginu (Riksdagen) um arðsemi vindtúrbínuþyrpinga þar í landi. (sjá slóð á YouTube myndband hans hér að neðan).
Í fyrirlestri sínum segir hann frá ítarlegri greiningu á arðsemi og framtíð vindorku í Svíþjóð og lætur þar í ljós verulegar áhyggjur af þróun kostnaðar og arðsemi. Hann ræðir þar um ýmis fjármálagögn sem safnað var úr gagnagrunni þar sem fylgist með 90% sænskra vindorkuvera á árunum 2017 til 2023 þar sem í ljós kemur stöðuga hækkun framleiðslukostnaðar þrátt fyrir vaxandi tekjur, sem hefur leitt til umtalsverðs fjárhagslegs taps. Steinbeck leggur áherslu á að núverandi fjárfestingar í vindorku séu óskilvirkar til lengri tíma og bendir á að í framtíðinni sé líklegt að grípa þurfi til ríkisafskipta til að bjarga vindtúrbínuverkefnum í rekstrarvanda. Fram kemur einnig að talsverð lækkun hefur orðið á fasteignaverði á svæðum með vindtúrbínuþyrpingum og í nágrenni þeirra.

Vindtúrbínuþyrpingar – Lagaumhverfi

Skv. Upplýsingum á heimasíðu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins „verða sérstök lög sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Ráðuneytið telur afar mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit verði tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Vinnu við frumvarp og þingsályktun um stefnu stjórnvalda um nýtingu vindorku á landi er lokið og hefur hvoru tveggja verið lagt fram á Alþingi en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þeirra fyrir þinglok.“ 

Ljóst er því að enn liggur ekki fyrir heildarlöggjöf um vindtúrbínur á Íslandi. Ekki að furða þótt margir rembist eins og rjúpa við staur að koma sinni ár fyrir borð á meðan Vilta-Vestrið ræður ríkjum í vindorkumálum hér á landi. Hverjum er Alþingi annars að hygla með þessum slóðahætti?  

Niðurlag

Víðátta, óröskuð náttúra og óbyrgt útsýni eru ekki bara fagurfræðilegir þættir – þau eru menningarleg, umhverfisleg og andleg gildi sem móta bæði upplifun einstaklinga og sjálfsmynd þjóðarinnar. Þau eru líka verðmæti sem þarf að standa vörð um í skipulagi, ferðamennsku og náttúruvernd.

Stórar vindtúrbínur hafa djúpstæð neikvæð áhrif á íslenska náttúru:

  • Þær breyta útliti landsins og skerða ósnortið útsýni,
  • Þær raska vistkerfum og náttúrulegri upplifun,
  • Þær grafa undan því sem margir telja helsta auðlind Íslands: óbyggðir, víðáttu og friðhelga náttúru.

Ég mótmæli þessum áformum Orkuveitu Reykjavíkur aðallega vegna þess náttúrurasks og sjónmengunar sem fylgja fyrirhuguðum vindtúrbínum. Þær verða eins og risavaxin aðskotadýr úr fornöld í íslenskri náttúru og Íslendingar hafa fjölmarga aðra mun hagstæðari valkosti til orkuöflunar. 
Ég mótmæli því einnig harðlega að verið sé að skipuleggja og hefja vinnu við vindtúrbínuþyrpingu við Dyraveg í Sveitarfélaginu Ölfusi (á grænu máli "vindorkugarð") áður en heildarlöggjöf um vindorku hefur endanlega verið samin og samþykkt af Alþingi Íslendinga. Annað eru svik við íbúa Reykjavíkur og nágrennis og í raun alla Íslendinga. Nær væri að flýta setningu laga um nýtingu vindorkunnar og að menn virði þau lög. Orkuveita Reykjavíkur ætti að einbeita sér að öðrum þarfari, skynsamari og mun arðbærari verkefnum en því sem hér er til umræðu.


Heimildir:

Skipulagsgátt:

https://skipulagsgatt.is/issues/2025/454

Vindkraftens gigantiska förluster - Christian Steinbecks föredrag i Riksdagen

https://youtu.be/Yqg6TFSfc8c

Vatnalög nr. 15 20. júní 1923

https://www.althingi.is/lagas/nuna/1923015.html

Reglugerð 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

https://island.is/reglugerdir/nr/0796-1999

Vatnaáætlun Íslands 2022 - 2027

https://www.ust.is/library/sida/haf-og-vatn/Vatna%C3%A1%C3%A6tlun%202022-2027%20-%20Copy%20(1).pdf

Hrakfarir sænskra vintúrbínuverkefna
https://finance.yahoo.com/news/investors-learn-brutal-lesson-swedens-050008371.html 

 


Er Torfajökull að rumska?

Torfa­jök­ull gaus síðast árið 1480 en það sama ár fæddist landkönnuðurin Ferdinand Magellan og Domenico Ghirlandajo málaði þá heilagan Jeremías með gleraugu, (en hann hefur síðan verið verndardýrlingur gleraugnasmiða)Jökullinn er nefndur eftir Torfa Jónssyni frá Klofa á Landi í Rangárvallasýslu, sem átti í stríði við marga og vann sér það m.a. til frægðar að taka Lénharð fógeta af lífi. Vegna drepsóttar sem upp kom flutist hann búferlum frá Klofa og upp á Landmannaafrétt rétt við Tofajökul.  

Ari Trausti jarðfræðingur segir þetta um Torfajökulsvæðið:

"Ein­kenni Torfa­jök­uls­meg­in­eld­stöðv­ar­inn­ar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar mynd­anir úr kís­il­ríku (súru) bergi. Sprungu­kerfi Bárða­bungu og norð­ur­hluti öskju Torfa­jök­uls skar­ast og gliðn­un­ar­hrinur í því fyrr­nefnda kalla fram óróa og jafn­vel eld­gos í því síð­ar­nefnda. Þannig var með jarð­eldana í kringum árið 100 og 877. Einnig 1477 en þá gaus hressi­lega þar sem nú eru Veiði­vötn (í Bárð­ar­bungu­kerf­inu) og í litlum mæli á Torfa­jök­uls­svæð­inu (m.a. rann þá Lauga­hraun). All­tíðar jarð­skjálfta­hrinur ganga yfir Torfa­jök­uls­svæðið og vísa til þess að við verðum að gera þar ráð fyrir eldsum­brotum fyrr eða síð­ar."

Torfajökulseldstöðin er um margt merkileg.  Askjan, sem er stærsta askja landsins nær yfir 200 fer­kíló­metra! og er miðja hennar við Hrafntinnu­sker. Merki eru um gríð­ar­lega öflug þeytigos í kerf­inu sem hafa skilað allt að 20 km3 af gos­efnum. Angi úr Bárð­ar­bungu­kerf­inu teygir sig inn í Torfa­jök­uls­kerfið og hefur valdið end­ur­teknum kvikuinn­skotum í það. Kvika getur einnig borist úr vestri, úr Vatnafjallakerfinu, sem hugsanlega tengist Heklu. Atburðarrásin virð­ist endurtaka sig nokkuð reglu­lega á 6–700 ára fresti, fyrst um árið 100, síðan árið 870 og  síð­ast árið 1480 og ætti því að vera farið að stytt­ast í nýtt gos.
Hugsanlegt er, að aukinn óróleiki í Bárð­ar­bungu und­an­farna tvo áratugi geti á end­anum leitt til öflugrar gos– og rek­hrinu á þessum slóðum. Mun Torfarisinn nú vera að vakna til lífsins öllum að óvörum? Það gæti vissulega orðið sögulegt...

torfi

heimildir:

http://www.eldgos.is/torfajokull
https://kjarninn.is/skodun/eldgos-og-jardskjalftar

Þeim sem hafa áhuga á jarðfræði Torfajökulssvæðinu skal bent á ítarlega skýrslu Orkustofnunar frá 2001: Í Torfajökli 


Bókun 35 ruglingsleg? Nei, lausnin felst í blóðflokkunum

Frumvarp ESB-sinna um innleiðingu Bókunar 35 við EES:

„4. gr. laganna orðast svo:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.“

Íslendingar geta að sjálfsögðu áfram sett sín eigin lög en Hæstiréttur mun þó dæma eftir bókstaf ESB nema Alþingi hafi ákveðið annað, sem hefur þó engin áhrif því Hæstiréttur mun samt sem áður dæma ESB í vil þar sem reglur ESB hafa forgang fram yfir íslensk lög og dómarar Hæstaréttar hafa ekki lesið stjórnarskrá íslenska lýðveldisins síðan í menntaskóla.
Flókið?

Nei alls ekki.

u4634335535_create_a_photo_of_a_person_recieving_blood_infusi_5e9ba8a1-dec6-45d7-a8f4-4c5668614311_2

ESB-sinnar á Íslandi hafa leyst þetta vandamál með blóðflokkunum:
1) Ef viðkomandi er í blóðflokki A þá gilda íslensk lög, nema Alþingi ákveði annað sem gildir þó ekki. 
2) Ef viðkomandi er í blóðflokki B, þá gilda reglur ESB framar íslenskum lögum. Alltaf!
3) AB blóðflokkur: Hæstiréttur varpar hlutkesti um það hvort reglur ESB eða hvort íslensk lög gilda. ESB-reglur gilda þó framar samt sem áður.
4) O blóðflokkur: Hræðilegt ástand! Algjör lögleysa og kaos. Hlutaðeigendur heygja einvígi enda O blóðflokkur algengasti blóðflokkurinn og nóg blóð til í Blóðbankanum. Nóg frammi.

Sigurvegarinn fær fría ferð til Brussel þar sem Selenskí og Maccarón taka vel á móti honum. Ef særður má hann ekki þvo af sér blóðbletti fyrir myndatöku. ESB reglur gilda, sama hvor vinnur einvígið. Sá dauði fær ESB-heiðursmerki fyrir að hafa staðið tryggan vörð um herðvæðingu ESB og baráttuna fyrir fullveldi Ùkraínu, réttlæti og friði í heiminum og fyrir það að sporna gegn hamfarahlýnun.
Ekkert er minnst á fullveldi Íslands. Hverjum er ekki sama um það? 


Embættismenn ráðuneyta gera ekki samninga við erlend ríki

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins:

"21. gr.
Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til."

"Varnarsammningur embættismanns utanríkisráðuneytisins við Bandaríkin hefur ekkert laga stjórnskipulagt gildi. Hann er ógildur og ráðuneytinu til skammar.

Skyldi Gulli muna eftir 3. orkupakkanum?


Höldum yngri þingmönnum aðskildum frá hinum eldri!

Allir þeir sem setið hafa inni á Litla-Hrauni þekkja vel þann raunveruleika, sem þar blasir við nýjum vistmönnum. Eins og í öðrum fangelsum fá menn fljótlega verklega kennslu í þeim lögmálum sem þar gilda og þeim aðferðum sem menn kunna og beita. Yngri fangar læra af hinum eldri og forhertu. Gildir þar einu hvort menn hafa áhuga á að kynna sér bankarán, fjár- og umboðssvik eða bara venjuleg rán, dópsmygl og þess háttar föndur. Menn læra mjög fljótt að þú svíkur einfaldlega ekki þá sem komu þér þarna inn og bíða þolinmóðir eftir þér fyrir utan girðinguna. Allir vita hvað þá gerist. Þú ert því trúr þínum lífsgildum, glæpakóða og þínum glæpflokki. Reynt er þó af megni af yfirvöldum að halda byrjendum í afbrotum aðskildum frá hinum eldri svo vistin innan veggja fangelsisins verði þeim til betrunar.

Litla_Hraun
Fallegt bæjarstæði að Litla-Hrauni

Nýir alþingismenn fá hins vegar að valsa um innan veggja Alþingis og þeim er ekki markvisst haldið frá hinum eldri, reynslumeiri og forhertari. Þeir læra því fljótt hvernig nýta má dvölina þar í eigin þágu, vina sinna og fjölskyldu. Haldin eru námskeið og farið í fræðsluferðir til „vinveittra“ ríkja þar sem menn læra að ræna banka og sjóði og selja landið og auðlindir þess með lagasetningum og reglugerðum og drita niður vindmyllum og smávirkjunum, spæna upp landið og leggja sæstreng og gefa vildarvinum sínum milljarða allt í því heilaga nafni „loftslagsmál“. Vinsælt er að hagnast á innherjaupplýsingum t.d. frá orkufyrirtækjum og með því að greiða götu þeirra innlendra og erlendra aðila sem vilja selja landið og/eða menga það með innfluttri iðnaðarmengun, vítissóda eða viðarkurli sem er dælt í jörðina ("í þéttbýli" nota bene) eða varpað hafið. Oft dugar að múta innlendum eftirlitsstofnunum svo sem Hafró.

Althingi2raed-1024x610
Alþingi Íslendinga (mynd dv.is)

Menn læra þar að auki af eldri þingmönnum á Alþingi hvernig á brjóta lög landsins jafnvel stjórnarskrána og svíkja stefnu síns eigin flokks, samflokksmenn og sannfæringu nánast án þess að nokkur taki eftir því. Þeir sem komu þér þarna inn munu ekki bíða eftir þér á Austurvelli þegar þú sleppur út. Þú getur því andað rólega.
Margt hefur áunnist með þessu hugarfari og er landið og auðlindir þess nú að miklu leyti nú komnar í eigu alvöru erlendra glæpaflokka þar sem gilda sömu lögmál og á Litla-Hrauni: Þú kjaftar ekki frá og stelur ekki frá okkur.  

...eða eins og ungi þingmaðurinn, nýkjörinn til setu á Alþingi, sagði nýlega við fréttamann RÚV af því tilefni að hann vann drengskapareið að stjórnarskránni:

"Ég veit ekki hvað ég er að gera hér? Er eitthvað eftir á þessu landi til að ræna."

Tökum Litla-Hraun til fyrirmyndar og höldum ungum þingmönnum aðskildum frá hinum eldri!


Fjárplæging hreinleikans

"Sofandahætti og aumingjaskap íslenskra ráðamanna í umhverfismálum er viðbrugðið. Ísland er tiltölulega hreint og óspjallað land en regluverk varðandi umhverfismál, einkum hvað varðar innflutta mengun, er algjörlega í molum og fer versnandi."

Vítissódi (NaOH) er rammur basi og þegar hann er leystur upp í vatni myndast mikill hiti. Vítissódi er afar ætandi og hættulegt efni og þekkja margir hann sem öflugan stíflueyði. Kolefnisspor efnisins er 1.12kg CO2e/kg.

Vítissóda varpað í hafið við Cape Cod

Yfirvöld í Massachusetts í Bandaríkjunum stöðvuðu í ágúst 2024 áætlanir „vísindamanna“ um að varpa yfir 130 tonnum af vítissóda ásamt litarefni í hafið umhverfis Cape Cod vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á lífríkið á þessu svæði einkum á svifið og aðrar smærri lífverur, bæði á eggja- og lifrustigi. Tilraunin gekk út á að kanna hvort hafið fangaði meira af CO2 ef vítissóda væri varpað í sjóinn til að hækka sýrustig sjávar (Ph), allt í nafni „loftslagsmála“ og „hamfarahlýnunar“.

running tide_2
Vítissóda og litarefni varpað í hafið

Ísland, ruslahaugur Norðursins

Sofandahætti og aumingjaskap íslenskra ráðamanna í umhverfismálum er viðbrugðið. Ísland er tiltölulega hreint og óspjallað land en regluverk varðandi umhverfismál, einkum hvað varðar innflutta mengun, er algjörlega í molum og fer versnandi. T.d. er ekki langt síðan að Alþingi samþykkti lög sem leyfa innflutning á eitursulli frá útlöndum til niðurdælingar „í þéttbýli“, Já þú last rétt, í þéttbýli! Kolefniskrakkarnir leita því gjarnan til Íslands með tilraunir sínar í „loftslagsmálum“ sem ekki er hægt að framkvæma í öðrum siðmenntuðum löndum.

running tide_1
20.000 tonn af viðarkurli á Grundartanga bíða eftir brennslu

Skemmst er að minnast gjörsamlega galinnar tilraunastarfsemi Running Tide sem varpaði tugþúsundum tonna af kanadísku viðarkurli með steypuídýfu í hafið umhverfis Ísland. Um 20.000 tonn af viðarkurlinu enduðu reyndar að lokum sem eldsmatur í brennsluofni járnbrennslunnar á Grundartanga þar sem því er brennt í nafni „loftslagsmála og orkuskipta“. Enginn spyr um kolefnissporið af því ævintýri, sem ekki virðist enn hafa haft áhrif á hitastig jarðar. Sem betur fer!

running_tide

Nú hafa sömu kolefniskrakkarnir og sem sannfærðu a.m.k. þrjá íslenska ráðherra um snilld sína í loftslagsmálum með viðarkurlinu, ákveðið að nurla saman nýjum fjárstyrkjum í því skyni að varpa í hafið í Hvalfirði 30 tonnum (200 tonnum útþynnt) af vítissóda. Krakkarnir hafa þegar greitt Hafrannsóknarstofnum „styrk“ upp á um 100 milljónir. Skýringin er líklega sú að starfsmaður Hafró er í ráðgjafaráði fyrirtækisins Rastar, sem stendur fyrir tilrauninni. Málið er reyndar nú á borði utanríkisráðuneytisins en miðað við fyrri reynslu af slíkum málum m.a. Coda Terminal tilrauninni á Hafnfirðingum, er einsýnt að ráðuneytin líta á Ísland sem ruslahaug Norðursins þar sem kolefniskrakkarnir fá að leika sér að vild gegn ríflegum greiðslum í styrkjaformi og skattaafslætti vegna „rannsókna og nýsköpunar“. Ekki er verra ef ríflegur styrkur frá ESB fylgir með í bakpokanum. 

Hreint land. Fagurt land!   

Ref.
https://is.wikipedia.org/wiki/Vítissódi
https://phys.org/news/2024-08-cape-cod-scientists-delay-controversial.html
https://www.mvtimes.com/2024/07/18/climate-change-lye-possible-solution-near-vineyard/
https://news.mongabay.com/2024/10/controversial-us-marine-geoengineering-test-delayed-until-next-year/


Landsvirkjun Svíþjóðar, Vattenfall, hættir við kolefnis föngun og -förgun (CCS).

Vattenfall, sem er í eigu sænska ríkisins, hefur hætt við áform sín um mikla kolefnis föngun og -förgun.

Aðalástæðan fyrir því að að stöðva þessar framkvæmdir, sem áttu að hefjast árið 2028, er „óþroskaður“ markaður fyrir kolefnisföngun. Verkefnið miðaði að því að fanga allt að 150.000 tonn af CO2 árlega frá lífmassaorkuveri í Jordbro, sem er smábær suður af Stokkhólmi, til förgunar í Norðursjó.

Innan við ári eftir að umhverfisleyfisumsókn var lögð fram tilkynnti Vattenfall stöðvun á þessu stórkostlega BECCS verkefni (bioenergy with carbon capture and storage.

Skv. upplýsingum Vattenfall var upphaflega ætlunin að fanga CO2 frá orkuverinu í Jordbro, en í ljós kom að núverandi markaðsaðstæður eru ekki hagstæðar til þess vegna verulegrar óvissu og skorts á efnahagslegri hagkvæmni. Til að ná markmiðum sínum um hlutleysi í loftslagsmálum, ákvað fyrirtækið í staðinn að losa sig við kolaorkuver sín og seldi Nordjyllandsværket árið 2015 og þýsku verksmiðjurnar árið eftir.

Á undanförnum árum hafa ESB og aðildarríki þess lagt auknar áherslur á CCS tækni með auknum stuðningi. Danmörk eyrnamerkti t.d. nýlega 4,1 milljarði dollara og sænska ríkisstjórnin samþykkti nýlega 3,2 milljarða dollara styrk til kolefnisfangaverkefna.

Skärmavbild-2022-06-28-kl.-07.29.37-e1656394246168-1024x678
Lífmassaverksmiðnan í Jordbro

Þrátt fyrir þessa þróun hefur Vattenfall komist að þeirri niðurstöðu að markaður fyrir CCS sé enn ekki nógu þroskaður til að verkefnið í Jordbro verði fram haldið. Fyrirtækið hafði upphaflega áformað að geyma koltvísýringinn sem var fangaður, líklega á sjó í Norðursjó eða hugsanlega á landi í Danmörku en slík áform um niðurdælingu CO2 þar í landi eru nú úr sögunni vegna mikillar mótstöðu íbúanna. 

Á síðustu vikum hafa nokkrir af stærstu bönkum Bandaríkjanna og Kanada dregið sig út úr Net Zero Banking Alliance (NZBA). 
Þessir risabankar í USA og Kanada hafa greint stöðuna og eru nú að forða sér frá fyrirséðu tapi ef ekki hruni á hlutabréfum í græna orkugeiranum. Lágt verð á koltvísýringi er einnig merki um að græna bólan sé um það bil að springa.

Ref.
https://www.svd.se/a/RzEGlW/vattenfall-stoppar-koldioxidinfangning
https://swedenherald.com/article/vattenfall-stops-carbon-dioxide-capture
https://energywatch.com/EnergyNews/Cleantech/article17691839.ece


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband