Færsluflokkur: Dægurmál

Salinger 90 ára, dauður eða lifandi

"You either die a hero or you live long enough to see yourself become the villain."
Harvey Dent
(The Dark Knight)

JD Salinger er 90 ára í dag. Enginn veit hvar hann er og fáir vita hver hann er. Allir vita þó hvað hann hefur skrifað eða a.m.k. telja sig vita það. Haft er eftir honum, að þvi minna sem vitað er um höfundinn því meira vægi fái skrif hans. Enginn efast um að gamli maðurinn gat skrifað en margir velta því fyrir sér ástæðunni fyrir þeirri athygli, sem hann hefur notið. JD Salinger en enn í dag ofarlega á metsölulistum t.d.hjá Amazon.com, sem hlýtur að teljast merkilegt fyrir rithöfund, sem ekki hefur sent frá sé bók í yfir 50 ár, svo vitað sé.
(ein ástæðan fyrir metsölu kann að vera sú að flestir nemendur í framhaldsskólum eru skyldaðir til að lesa Bjargvættinn - hvað veit ég?)

salinger_pic.jpg

Úr Skrudda.is: 13. apr. 2005
Bjargvætturinn á metsölulistann

Bjargvætturinn í grasinu eftir J. D. Salinger er kominn í 7. sæti á metsölulista Pennans – Eymundsson og 3. sæti á kiljulistanum. Bók Ian Rankins, Með köldu blóði er í 8. sæti á kiljulistanum.

 

 

Fyrir nokkrum áratugum þótti það merki um gáfur og þekkingu að hafa bækur hans með í farteskinu (fávitinn Mark David Chapman er einn þeirra). Nokkrir höfundar hafa veitt okkur innsýn í líf og störf Salingers. Þar á meðal er dóttir hans Margaret (Peggy) Salinger ("Dream Catcher"), rithöfundurinn Mary McCarthy og Joyce Maynar ("At Home in the World"), sem bjó með meistaranum í tæpt ár. Honum hefur verið lýst sem sérvitrum og dómhörðum einstaklingi. Hann barðist sem hermaður í seinni heimstyrjöldinni og tók þátt í innrásinni í Normandy þar sem yfir 70% hermanna bandamanna fellu og kann það að hafa sett mark sitt á persónuleika hans. Sagan "Til Esmé - með ástarkveðju, eymd og volæði" sem segir frá hermanni á dögum innrásarinnar, er af mörgum talin sýna hans bestu hliðar. Egill Helgason (bókaormur m.m.) mælir einmit með þessari smásögu á blogginu sínu í dag.

Sumir telja Franny (The New Yorker, January 29, 1955) og Zooey (The New Yorker, May 4, 1957) vera bestu ritverk Salingers þó svo móttökurnar hafi verið blendnar í fyrstu.

Höfundar eins og Salinger skrifa af því að þeir geta ekki, látið það vera að skrifa. Þeir skrifa þvi fram í rauðan dauðann. Hvað hann hefur gert við skrif sín, er önnur saga. 

salinger.jpg


Rit J D Salingers er hægt að nálgast hér

(lesendur nálgst höfuninn þó á eigin ábyrgð)  

Gleðilegt lestarár 2009!

 

 


ps
óhætt er að mæla með:
"Sögur - Með ástarkveðju, eymd og volæði" sem er safn smásagna eftir J.D Salinger í meistaralegri þýðingu Ásgeirs Ásgeirssonar (UGLAN - íslenski kiljuklúbburinn 1997)


Bloggið - Enn einn dauði höfundar?

"Bloggið er misvel skrifað og mér sýnist í svipinn að það sé bara huglægnisvíma sem rennur óhindruð inn í sýndarveruleikann. Það er engin ögun í þessum skrifum. Bloggið er veita fyrir skjótfengnar skoðanir, það er allt látið vaða enda er allt jafn gilt. En þetta er auðvitað það hættulegasta sem maður gerir, að gagnrýna bloggara sem skipta þúsundum og hafa vökult auga með fjölmiðlum. Maður á sennilega von á aftöku í Netheimum."

-------------

"En það fylgir kannski þessum upplausnartímum að vandvirknin er ekki upphafin, heldur eiga menn að kýla á það, segja það sem þeim finnst. Að því leyti getur bloggið verið enn einn dauði höfundarins. Bloggarar geta líka haft miklu meiri áhrif á fólk en rithöfundar. Þeir ná til jafnmargra lesenda á einum mánuði og rithöfundur alla ævi."

pistill dagsins er fenginn að láni frá Steinari Braga
viðtal í Lesbók Mbl, 7. desember 2002 (tilvitnun frá Binna)

Undirritaður mælir eindregið með "Konur", nýjustu bók Steinars Braga til að afsanna kenningu hans og þar með sanna um leið, að hann hefur í rauninni rétt fyrir sér.
(Þversagnir þurfa ekki endilega alltaf að vera mjög mótsagnerkenndar, er það nokkuð?)

mask.jpg


Hinir Óbetranlegu

"Ef einhverjum verða á mistök í starfi sínu, þá á afstaða kommúnista til hans að vera sú að sannfæra hann til þess að hjálpa honum að breyta til og hefjast handa á nýjan leik. Hins vegar eiga þeir ekki að víkja honum frá, nema hann sé óbetranlegur."

pistill dagsins er fenginn að láni frá Mao Tse-Tung formanni úr bók hans "Rauða kverið"

mao.jpg
Mao eftir Andy Warhol


Fagra land - pistill dagsins

"Þriðjudagur 30. júní 1959
Það er mikil náttúrufegurð í Reykjavík. Bara ef menn hafa opin augun. Skúlagatan og Ægissíðan eru frjálsir dýragarðar. Þær skipta tugum fuglategundirnar, sem að sumarlagi er að sjá í fjörunni og skerjunum undan Ægissíðu.  Og niðrí á Kolbeinshaus getur að líta ekki hversdaglegri sýn en stærðar skarf, sem sem hefur hreykt sér þar langtímum sama í sumar, og svo bráðlifandi sel, sem nú spókar sig þar daglega."


pistill dagsins er eftir Birgi Kjaran og er fenginn að láni úr bók hans Fagra land. Það er fróðlegt að hverfa c:a 50 ár aftur í tímann.


DV - Bold or the Beautiful?

Það er engu líkara en maður sé að horfa á uppáhaldsþáttinn minn, Bold and the Beautiful, þegar maður fylgist með fjölmiðlaumræðunni hér á landi. Íslenska þjóðin er nákvæmlega eins og Brook Logan. Eina stundina elskar hún og dáir ríka karlinn en það má lítið út af bregða til að hún fari að hata hann. Stundum er hún tilbúin að deila með honum sæng en oft er hún í fýlu og skilur ríka karlinn eftir úti í kuldanum. Fjölmiðlar eru henni nauðsynlegir en eru oftast þó oftast til armæðu.

DV hefur lengi verið umdeilt blað. Það hefur hins vegar verrið skána mikið undanfarin misseri og er bara orðin ágætis gul pressa. Þeir taka oft á málum, sem hinir fjölmiðlarnir forðast að fjalla um.
Brook veit innst inni að það eru peningar sem stjórna gjörðum Ritch en hún er þó alltaf að vona að það sé ástin, sem tengir þau saman. Það eru þó svikararnir sem hleypa lífi í þættina og gera þá spennandi. Allir svíkja alla, hvort sem þeir eru Bold eða bara Beautiful. 

Brook þarf því stöðugt að vera á varðbergi.

bold_751361.jpg

Í miðju Vetrarbrautarinnar er svarthol

Margir heilluðust á sínum tíma af kenningum danska eðlisfræðingsins Niel Bohr um atómið. Hann setti fram þá kenningu að rafeindir atómsins væru á tilteknum hvolfum í kringum kjarnann. Skv. kenningunni getur hvert hvolf hýst ákveðinn fjölda rafeinda. Menn sáu í kenningum hans vissa samsvörun við gang himitunglanna. "As above so below", macrocosmos = microcosmos o.s.frv. Sumir töldu jafnvel sólkerfið okkar vera atóm í borðfæti eldhúsborðs einhvers risa.

bohr.png

Það er "langseilni krafturinn", sem heldur bæði atóminu og himintunglunum saman í kerfi. Þyngdarkrafturinn frá sólinni veikist með fjarlægðinni frá henni í öðru veldi. Ef fjarlægð hlutar frá sólu tvöfaldast þá verður krafturinn frá henni einn fjórði af upphaflegum krafti. Þetta má tengja við rúmfræði; yfirborð kúlu fjórfaldast þegar geisli hennar tvöfaldast. Kraftar sem haga sér á þennan hátt eru kallaðir langseilnir, því að til eru annars konar kraftar sem veikjast miklu hraðar með fjarlægð. Rafkrafturinn á rafeind í atómi frá kjarnanum er háður fjarlægðinni á sama hátt; hann er semsagt líka langseilinn. En þar með er upptalið það sem sameiginlegt er þessum kerfum.

Eftir 16 ára þrotlausa vinnu hafa nú þýskir stjárnfræðinga við Max-Planck stofnunina uppgötvað risastórt svarthol í miðju Vetrarbrautarinnar, sem sólkerfi okkar tilheyrir. Þetta svarthol mun vera um fjórum milljón sinnum þyngra en sólin og er það í 27 þúsund ljósára fjarlægð frá okkur. Nýlega birtust ótrúlegar myndir af þessu svartholi á heimasíðu ESO, þ.e. European Organisation for Astronomical Research in the Southern Hemisphere.
Á þessum myndum má greina hreyfingar stjarna í kring um svartholið. Þessar hreyfingar stjarnanna minna óneitanlega á hreyfingar rafeinda í kring um atómið í líkani Bohrs þó svo sú samlíking sé í raun dálítið ævintýraleg. Dæmi nú hver fyrir sig. Niels gamli Bohr hefði eflaust verið hrifinn af þessu sjónarspili. Kannski er þetta bara borðfótur?

Þessar frábæru (hreyfi-) myndir má sjá hér.

Heimildir:
Vísindavefurinn
Efnafræði, Bláa bókin eftir Þóri Ólafsson
www.eso.org


Ein stök nóta

Hver tónn, hver nóta býr yfir miklum töframætti. Þennan mátt fær nótan þó ekki úr engu og alls ekki frá sjálfri sér. Ein stök nóta er í rauninni ekkert merkileg. Það er samhengið sem skiptir öllu máli, samhengið við aðrar nótur. Mikilvægastar eru þær nótur, sem næst henni standa.
Ein nóta breytir dúri í moll. Ein nóta breytir einni tónaröð (tónskala) í aðra, sem hljómar allt öðruvísi en sú upprunarlega og hefur í för með sér allt annan hugblæ. En það er ekki þessi eina nóta sem skiptir máli, heldur samhengið. Án samhengisins og án nálægðarinnar við aðrar nótur verður engin breyting. Það er samhengið og nálægðin, sem skiptir máli.

Eitt orð, ein setning skiptir litlu. Það er samhengið sem skiptir öllu máli. Og nálægðin.    


Pirahã - að lifa fyrir lifandi stund

Seint á átunda áratugnum hélt Bandaríkjamaðurinn Daniel Everett djúpt inn í regnskóga Amazon til að breiða út út kristna trú meðal Pirahã ættbálksins (sjálfir kalla þeir sig "hina beinu" - the straight ones). Í stað að eyða tímanum í kristniboð hóf Everett af kappi að læra tungumál hinna innfæddu. Ættbálkurinn, sem telur nú um 350 manns hefur þróað með sér mjög sérstakt tungumál óskylt öllum öðrum, en í því er ekki að finna nein óþarfa kurteisisorð svo sem "sæll", "bless" eða "afsakið". Þar er ekki heldur að finna orð yfir mismunandi liti, tölur eða hugtök yfir atburði sem, gerðust áður en viðkomandi einstaklingur fæddist. Þeir nota einungis þrjá sérhljóða og átta samhljóða og túlka mismunandi merkingu orða með hljómfallinu líkt og Kínverjar gera. Everett er nú eini einstaklingurinn utan ættbálksins, sem getur talað tungumálið reiprennandi. Gárungarnir hafa sagt, að það hljómi eins og að tveir kjúklingar séu að tala saman. Tungumálið er að uppbyggingu eitt það einfaldasta sem fyrirfinnst. Sjálfum finnst þeim öll önnur tungumál en þeirra eigið vera afar heimskuleg og þeir gera stólpagrín að okkur hinum.

Saga Everetts er mjög skrautleg en hann þótt ódæll á sínum yngri árum. Í stutt máli, þá gekk Everett af trúnni og hætti við allt kristniboð. Hann kynnti fyrst niðurstöður rannsókna sinna í grein, sem hann birti árið 2005. Tungumál Pirahã ættbálksins er afar einfalt að allri uppbyggingu en í það vantar ýmis hugtök, sem okkur finnst við ekki geta verið án svo sem "allir", "flestir", "margir" og "fáir", svo eitthvað sé nefnt. Einnig vantar innri tilvísanir eða innskot (recursions) í málið.
"Maðurinn, sem gengur niður Bankastræti er með rauðan hatt á höfði" verður: "Maðurinn gengur niður Bankastræti. Maðurinn er með rauðan hatt á höfðinu". Þessi innskot eða tilvísanir voru áður talin vera hornsteinar málfræði tungumála mannkynsins. Uppgötvanir Everetts ollu því talsverðu uppnámi meðal málfræðinga og annarra fræðimanna á sínum tíma. 

Pirahã men lifa algjörlega í núinu. Fortíðin og framtíðin er ekki til í þeirra hugarheimi. Lífsmáli þeirra hefur mótað tungumálið. Þeir eiga t.d. mjög erfitt með að skilja, þegar menn kvarta yfir ásókn skordýra. "Skordýr eru jú hluti af tilverunni og eru því ekkert til umræðu hér".
Þeir hafa ekki viljað tileinka sér ræktun og landbúnað, listsköpun eða trúarbrögð en lifa á einföldum veiðum. Everett telur rangt að reyna að breyta frumstæðum ættbálkum. Þeir eiga að fá að lifa sínu einfalda lífi í friði.
vikingar.jpg
Ljósm: Haukur Snorrason

Endur fyrir löngu lifðu Íslendingar einföldu lífi í jafnvægi við náttúruna. Það voru útlendingar, sem uppgötvuðu að landsmenn voru óhamingjusamir.
Ekkert er minnst á eldfjöll í neinum af Íslendingasögunum, sem verður að teljast harla merkilegt. Líklega voru þau bara hluti af tilverunni líkt og skordýrin í frumskógum Amazon.

E.t.v. förum við aftur að lifa fyrir hverja lifandi stund en ekki líða fyrir fortíð eða framtíð?        

Hér er hægt að heyra sungið á tungumali Pirahã ættbálksins.

Nánar má lesa um þennan merkilega ættbálk hér og einnig hér

Umfjöllun a NPR

"Keep it simple"
BB King


Hvetur bloggið til stjórnleysis?

Ráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns, Hazel Blairs heldur því fram í fullri alvöru, að bloggarar séu að grafa undan lýðræðinu í landinu skv. grein eftir blaðamanninn Ed Howker, sem var birt í netútgáfu breska dagblaðsins The Indipendent þann 6. nóvember 2008. Frú Blairs heldur því fram, að þeir sem skrifi (les:bloggi) um pólitísk málefni á Netinu séu upp til hópa einstaklingar, sem hafi mikla andúð á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Bloggið sé einungis til þess fallið að vekja upp almenna andúð og örvæntingu. Ráðherrann virðist halda þvi fram, að það séu fyrst og fremst hægri öfgamenn sem nú blogga um stjórnmál í Bretlandi.
blears.jpg

 

"Hættið að blogga, bjánarnir ykkar!"

 


Blaðamaðurinn bendir hins vegar réttilega á, að margir stjórnmálamenn haldi sjálfir úti vinsælum bloggsíðum svo sem John Redwood MP, Nadine Dorries MP og jafnvel sjálfur utanríkisráðherra Breta, David Milliband. Einnig bendir hann á þá staðreynd, að bloggið hefur einungis verið við lýði þann tíma sem vinstri stjórnir hafi setið við völd í landinu. Velta megi því fyrir sér hvernig bloggheimurinn hefði tekið á málunum hefði hægri stjórn setið við völd á síðustu árum. 

Hvernig er þessu háttað hér á landi? Stuðla bloggarar að stjórnleysi eða veita þeir stjórnmálamönnum nauðsynlegt aðhald? Ljóst er, að blogg sem og önnur tjáningarform geta verið skoðanamyndandi. Bloggið er ein af birtingarmyndum lýðræðisins og tjáningarfrelsis. Margir halda því fram, að Barack Obama hefði ekki orðið forseti Bandaríkjanna án aðstoðar Netsins og að hin mikla kjörsókn þar í landi sýni áhuga almennings á stjórnmálum og þar með á lýðræðinu.

Hér á landi þar sem hefðbundnir fjölmiðlar eru komnir í eigu fárra eða jafnvel eins og sama aðila, er eðlilegt að menn spyrji sig að þessu. Flestir eru fyrir löngu farnir að átta sig á því að frétt í fjölmiðlum er ekki bara frétt, heldur eitthvað annað og meira. Frjálsir og óháðri fjölmiðlar heyra nú sögunni til. Það er helst Útvarp Saga og blogg Egils Helgasonar, sem halda nú uppi merki og skoðunum litla mannsins.
Bloggið er óhjákvæmilegt afsprengi lýðræðisins og viðheldur því með frjálsri umræðu og eðlilegum skoðanaskiptum. Það má auðvitað misnota sem önnur tjáningarform.
Ráðherrar Breta mega hafa sína eingin skoðanir á blogginu, þeir ná ekki að grafa undan lýðræðinu með því, þó svo skoðanir þeirra séu öfgakenndar. Svo einfalt er það

"Keep it simple"
BB King 


2015 - Árið skuldlausa?

Fróðlegt er að skoða nú þessar ágætu en ævafornu reglur varðandi fjármál manna:

Sjöunda árið: Uppgjöf skulda
Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir. Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum. Hann skal ekki ganga eftir greiðslu hjá náunga sínum og meðbróður því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins. Þú mátt ganga hart að útlendingi en þú skalt gefa bróður þínum það eftir sem þú átt hjá honum.
Raunar á enginn þín á meðal að vera fátækur því að í landinu, sem Drottinn, Guð þinn, fær þér sem erfðaland og þú tekur til eignar, mun Drottinn blessa þig ríkulega ef þú aðeins hlýðir Drottni, Guði þínum, og gætir þess að halda öll ákvæðin sem ég set þér í dag. Því að Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig eins og hann hét þér. Þá munt þú lána mörgum þjóðum en sjálfur ekki þurfa að taka lán og þú munt ríkja yfir mörgum þjóðum en engin mun ríkja yfir þér.

Fimmta Mósebók 15, 1-6

"Keep it simple"

BB King


bible-king-james-i.jpg

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband