Færsluflokkur: Dægurmál

Nýtt litróf - Breytt viðhorf?

Ársins 2008 verður lengi minnst sem ársins þar sem allt breyttist. Ársins, þegar allt fór fjandans til. Ársins, sem einnig var upphaf nýrra tíma og breytinga.
Menn hafa lengi tengt rauða litinn og rauða fána við vinstri stefnu stjórnmálanna, öfgar, kommúnisma og byltingar.
Rauði liturinn var allt fram til ársins 2000 litur Demokrata í Bandaríkjunum og blái liturinn var frá upphafi litur Republikanaflokksins, sem gjarnan er nefndur "Grand Old Party". Þessi hefð breyttist af einhverju orsökum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000 er allar sjóvarpsstöðvarnar þar í landi einkenndu þau fylki þar sem Bush hafði sigur með rauðum lit en þau fylki þar sem Al Gore vann sigur voru táknuð með bláum lit. (red=R, blue=D)  
Í dag eru það vonsviknir menn, sem veifa rauðum fánum. Blái liturinn er nú orðið tákn breytinga og nýrra vona. Viðhorfin hafa breyst hraðar en nokkur átti von á. Blái drengurinn sigraði.
Eftir nokkrar vikur verður Barack Obama 44. forseti Bandaríkjanna. Hann verður fyrsti svarti forsetinn í Hvíta húsinu. Þar mun hann draga að húni marglitan fána, hvítan, rauðan og bláan. Fána í litum frelsis, jafnréttis og bræðralags. Heimurinn er ekki lengur svart-hvítur. Nýtt litróf vekur nýjar vonir.    
white-house.jpg
"I happen temporarily to occupy this big White House. I am living witness that any one of your children may look to come here as my father's child has." The Collected Works of Abraham Lincoln edited by Roy P. Basler, Volume VII, "Speech to One Hundred Sixty-sixth Ohio Regiment (August 22, 1864), p. 512

Blái drengurinn

Saman saumaður
bláum þræði hagsældar
sumarið góða

Rakinn upp og rekinn út,
rekinn út og rakinn upp

blueboy.jpg


Greiningardeildin

Greiningardeildin
spáir auknum hárvexti
á þessum vetri

Rakvélablöðin eru
dýrari en deigari

 greining_717372.jpg


Rafræn rök bítils

Fáir tónlistarmenn hafa notið eins mikillar velgegni og virðingar og gamli bítillinn Paul McCartney. Fáir hafa valdið eins miklum vonbrigðum. Wingsævintýri hans flugu bókstaflega út um gluggann. Hann er nú aftur mættur á svæðið eftir langt hlé.  Það er greinilegt að kvennamálin hafa ekki alveg gert út af við sköpunargáfuna hjá karlinum, þótt Sæmundi gamla hafi þar verið slengt hættulega langt fram á rúmstokkinn.

Nýja platan hans nefnist "Electric Arguments" og er hún gefin út af hljómsveit hans The Fireman. Platan kemur væntanlega út þ. 17. nóvember n.k. (þ. 25. nóvember í USA). Mér skilst að þetta sé 3. plata hljómsveitarinnar. Hún er að sjálfsögðu tekin upp í Abbey Road hljóðverinu. Hvert lag var að sögn samið og tekið upp á einum og sama degi. það er stundum eins og Jeff Lynn hafi kíkt smávegis inn í  hljóðverið.  

fireman_electric.jpgPaul kemur mjög skemmtilega á óvart á þessari plötu. Hann er þarna í samvinnu með bassaleikara hljómsveitarinnar The Killing Joke, Martin "Youth" Glover. Á plötunni eru 13. mjög ólík lög en þau falla þó öll vel inn í heildarmyndina. Mörg lögin eru með grípandi laglínum, sem minnir á gömlu góðu dagana (Universal Here, Everlasting Now).
Einnig bregður fyrir þjóðlagaáhrifum, danstakti og jafnvel hörðu rokki ("Nothing Too Much Just Out of Sight"), sem slúðurblöðin í U.K. segja að sé sneið til fyrrverandi eiginkonu bítilsins, Heather Mills. Sum lögin á plötunni minna um margt á Hvíta albúm Bítlanna. Þetta er þó engin Bítlaplata og alls ekki nein Wingsplata. Hvert lag fer sína eigin leiðir og kveikir nýja elda. Lögin kafna ekki í moðreik þar er jafnvel að finna blús og gospel.

Electric Arguments sýnir að Paul er alls ekki af baki dottinn. Hann getur enn komið okkur á óvart og hann getur aðlagað sig að nýjum tímum. Það er ánægjulegt að heyra, hve einföld hugmynd getur leitt til heillar tónsmíðar og það er engu líkara en að menn séu að djamma í hljóðverinu og leika sér eins og á Abbey Road plötunni. Menningarvitar kalla þessa plötu "póstmóderníska Bítlaplötu". Akkúrat. Hún er á köflum dálítið dularfull, sérstaklega um miðbikið en lögunum er haldið saman í rafrænu, rökrænu samhengi með smá Bítlalími. Sum lögin gætu verið úr nýjustu Harry Pottermyndinni en önnur úr James Bond. Platan leynir á sér og það þarf að hlusta á hana aftur og aftur. 
Mæli eindregið með þessari nýju plötu Pauls. Hún á eftir að heyrast víða. Þetta er besta plata hans síðan hann gerði sína fyrstu sólóplötu sem hét einfaldlega "Paul McCartney". Sá gamli kann enn að rokka.     

Lagalisti:

1. Nothing Too Much Just Out Of Sight
2. Two Magpies
3. Sing The Changes
4. Traveling Light
5. Highway
6. Light From Your Lighthouse
7. Sun Is Shining
8. Dance ‘Til We’re High
9. Lifelong Passion
10. Is This Love?
11. Lovers In A Dream
12. Universal Here, Everlasting Now
13. Don't Stop Running

paul-live.jpg

 


Stafr lifir einn

glitnir.jpg
 Stafr lifir einn,
þar er inniunnfúrs viðir brunnu, 
synir ollu því snjallir 

   úr Brennu-Njáls sögu
 
 

 
 
International Architectural Competition
Project for a local plan for Kirkjusandur 2 and Borgartun 41
new headquarters for Glitnir Bank, Reykjavik, Iceland

 
Keep it Simple
BB King



Ísrael og Palestína. Hver grípur til sópsins?

Tvær þjóðir, margir guðir, eitt markmið: Að útrýma hvor annarri með öllum tiltækum ráðum. Deilur þeirra minna einna helst á eilíf slagsmál Tomma og Jenna. Mikill hraði og æsingur. Annar lemur hinn, hinn slær til baka. Öllum brögðum beitt. Hvorugur sigrar. Allt dettur í dúna logn. Aftur á byrjunarreit. Nýr þáttur í næstu viku. Hvað á að gera við svona kjána? Þarf ekki að grípa til sópsins?

Flóknar deilur - einfaldur ásetningur?
Það er erfitt að ímynda sér deilu sem er jafn hatrömm, erfið og margslungin og deila Ísraela og Palestínumanna. Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um landsvæði. Annars vegar eru Palestínumenn, þ.e arabar, sem eru að heyja sjálfstæðisbaráttu til að mynda eigið ríki á landi sem þeir telja að hafi verið tekið frá þeim með valdi af Ísraelsmönnum. Hins vegar er Ísraelsríki, stofnsett af gyðingum, sem vill halda sínum hlut enda álíta þeir að þeir eigi sögulegan og trúarlegan rétt á þessu umdeilda landi. Það sem gerir þessa deilu sérstæða er að hún er ekki einskorðuð við þessa tvo aðila. Landið, sem er oft nefnt „Landið helga”, er miðlægt í þremur mikilvægum trúarbrögðum, Kristindómi, Íslam og Gyðingdómi. Þar af leiðandi er fylgst með þessum átökum af meiri áhuga um allan heim en sambærilegum deilum í öðrum heimshlutum.

israel-flag






Ísrael

Tilvist Ísraelsríkis byggist að miklu leyti á langri leit hinna ofsóttu og útskúfuðu að eigin griðastað. Leit að eigin heimalandi. Svipaða drauma hafa aðra dreymt svo sem Serba, Króata, Tékka og jafnvel Pólverja, svo Ísraelar eru ekki einir á báti hvað það varðar. Vandi Ísraelsmanna byggist hins vegar á því, að ríki þeirra var stofnað á landi annarra (deila má þó um hver átti landið upphaflega), fyrst og fremst af trúarlegum ástæðum fremur en pólitískum eða landfræðilegum. Landfræðilega hefði e.t.v. verið hentugra eftir að seinni heimstyrjöldin lauk að koma þeim fyrir annars staðar þar sem landrými var nægjanlegt t.d í Kanada. Alþjóðasamfélagið hefur lengi fordæmt hersetu þeirra á Vesturbankanum og á Gazasvæðinu, sem brýtur í bága við alþjóðalög. Hersetan er einnig í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ísraelsríki var stofnað þ. 14. maí 1948 þegar Ísraelsmenn lýstu yfir sjálfstæði sínu. Sameinuðu þjóðirnar höfðu árið 1947 samþykkt skiptingu þáverandi landsvæði Palestínu, sem Bretar höfðu stjórnað, í tvö ríki: Ísrael og Palestínu. Íbúar landsins eru nú um 7,28 milljón flestir Gyðingar en þar búa einnig arabar og kristnir. Ísrael er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ófriður hefur verið um Ísraelsrík allt frá stofnun þess. Deilur hafa aðallega staðið um þau landsvæði Palestínumanna, sem Ísraelar hernumdu í stríði árið 1967 en þau eru Gólanhæðir, Vesturbakkinn og Gazaströndin.

palestine_flag





Hvað með Palestínu?

Vandamál Palestínu eru í raun annars eðlis, nefnilega þau, að Palestínuríki hefur til skamms tíma alls ekki verið til sem raunverulegt sjálfstætt ríki. (innskot:
Palestínuþjóð var á öndverðri 20. öld ekki til sem raunveruleg þjóð). Það er erfiðleikum bundið í alþjóðlegu samhengi að taka þjóð alvarlega, sem hefur í raun ekki verið til nema í hugum þeirra sjálfra. Palestínumenn hafa að mörgu leyti verið mjög seinheppnir og ekki nýtt vel þau tækifæri, sem þeim hafa gefist. Stundum er sagt í gríni að þeir nýti hvert tækifæri til að nýta ekki tækifærið. Á síðustu árum hafa orðið róttækar breytingar á stjórnmálaviðhorfi margra araba, sem m.a. hefur leitt af sér stofnun samtaka svo sem Hamas og Hizballah.

Þessi þróun er í raun skiljanleg hjá þjóð, sem sér ekki fram úr vanda sínum. Þjóð, sem er komin á vonarvöl og orðin vonlaus um úrbætur. Þjóð, sem hefur verið hrakin í flóttamannabúðir og niðurlægð á allan hátt. Hörðustu andstæðingar Ísraelríkis hafa á undanförnum árum breytt baráttuaðferðum sínum. Hinn máttugi her Ísraelsmanna, sem áður vann hverja hefðbundnu orrustuna á fætur annarri, má sér nú í raun lítils gegn borgarskæruliðum, sem felast gjarnan meðal óbreyttra borgara. Ísrael hefur lengi reynt að "þvinga" Palestínumenn til hlýðni, sem einnig beita sínum aðferðum til að lækka rostann í Ísraelsmönnum. 

Ariel_SharonAriel Sharon, hin forna stríðskempa Ísraelsmanna, viðurkenndi á sínum tíma að réttast væri að Ísrael dragi hernám sitt til baka og léti Palestínu eftir þau landsvæði, sem hernumin hafa verið allt frá árinu 1967.

  
 
shimon_peresShimon Peres forseti Ísrael sagði fyrir allmörgum árum að leysa þyrfti deiluna á diplómatískan hátt. Báðir höfðu rétt fyrir sér þó svo sá síðarnefndi hafi seinna skipt um skoðun.

 

   nablus-gate-jerusalem-wall

Jerúsalem
Á margan hátt er Jerúsalem táknræn fyrir ástandið. Örfá og oft ósýnileg lína skilur að trúarbrögð, menningu og stjórnmálaviðhorf gyðinga, araba og kristinna manna. Þessir trúarhópar tengjast þó á ýmsan hátt innbyrðis ekki síst með verslun og viðskiptum. Líkja má þjóðunum tveimur við síamstvíbura, sem ekki koma sér saman um neitt en sem tæknilega er ekki hægt að skilja í sundur. Mikill munur er þó á lífsgæðum araba og gyðinga, sem þéna að meðaltali fimmfalt meira á ári en arabarnir. 

jerusalem_wall

 

Nú er verið að reisa nýjan „Berlínarmúr“ í Jerúsalem! Þetta eru skýr merki um algjört hugmyndaþrot í lausn deilunnar.  Öll skynsemi mælir á móti slíkum aðferðum, sama hver á í hlut. Þetta vita menn, en virða það að vettugi. Slíkur múr eykur einungis á vandamál arabanna og skapar ný vandamál fyrir alla aðila.

  ben1 

David Ben-Gurion fyrrum forsætisráðherra Ísraels hélt því fram í fullri alvöru árið 1919 (sic), að engin lausn væri til á deilu gyðinga og araba. Í rauninni hefur lítið sem ekkert þokast í samkomulagsátt í deilu þessara þjóða í þá sjö áratugi, sem liðnir eru síðan. E.t.v. hafði hann rétt fyrir sér? Margir meiri háttar spámen á alþjóða vettvangi svo sem Henry Kissinger, Zbigniew Brzezinski, James Baker, Madeleine Albright og Bill Clinton hafa reynt til hins ýtrasta að miðla málum en án árangurs. Er samkomulag þá borin von?  

Hvað er þá til ráða?

*   Það ætti öllum að vera orðið ljóst, að Ísraelsmenn og Palestínumenn geta ekki leyst deilur sínar upp á eigin spýtur. Sagan og trúarbrögðin hafa í tímans rás náð að kaffæra Palestínu, sem í raun er harla lítið landsvæði, með langvinnum og illleysanlegum deilum. Það eru þó til lausnir á öllum vandamálum ef vilji er til að leysa þau. Það er auðvelt að halda þessu fram í orði, framkvæmdin er erfiðari. Vandamál Palestínu og Ísraels eru gífurlega flókin og erfið. Því verður ekki neitað.

*   Voldugasta ríki heims, Bandaríkin er helsti bandamaður Ísraelsríkis. Það er yfirlýst stefna Bandaríkjanna að "tryggja öryggi" Ísraels. Bandarísk stjórnvöld eru því í góðu sambandi við Ísrael og í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á og móta afstöðu Ísraelsmanna. Lausn deilunnar er því í raun óhugsandi án afskipta Bandaríkjanna.

*   Einn helsti hvatinn að starfsemi hryðjuverkasamtaka í Miðausturlöndum er að þeirra eigin sögn deila Ísraels og Palestínu. Leysist sú deila ættu slík öfgasamtök að hafa minni fótfestu í arabaheiminum.

*   Palestínumenn þurfa alfarið að láta af skæruhernaði og hryðjuverkum gegn Ísrael. Alla stríðsfanga þarf að leysa úr haldi.

*   Nýr „Berlínarmúr“ í Jerúsalem leysir engan vanda heldur skapar nýjan. Byggingu hans ætti því að stöðva strax. Bil Clinton var á sínum tíma með flóknar tillögur um skiptingu borgarinnar, sem voru algjörlega óraunhæfar. 

*   Leysa þarf vandamál Palestínskra flóttamanna með því að leyfa þeim að snúa aftur heim til herteknu svæðanna. Öllu sem var stolið, þarf að einfaldlega að skila aftur. Þetta gildir einnig um landsvæði.

*   Aðgangur að vatni er eitt helsta bitbeinið í deilu ísraelsmanna og Palestínumana. Tryggja þarf jafnan og frjálsan aðgang allra að fersku vatni.

*   Fylgja þarf eftir ályktunum Sameinuðu þjóðanna (hvað annað?). Fjölþjóðasamfélagið á ekki að líða mannréttindabrot. 

*   Koma þarf á stöðugleika í Líbanon. Þetta er mjög mikilvægt skref, ekki síst í ljósi nýlegra atburða og vaxandi spennu í Beirut, þar sem her Hizballah ræður nú ríkjum. Margir kenna Bandaríkjunum um þetta ástand. Óróleikinn eykur vægi Írans fyrir botni Miðjarðarhafsins. Bandaríkjamenn hafa einmitt sakað Íran um stuðning við Hizballah. Þetta eykur aftur þrýsting á Ísrael um að skila aftur herteknu svæðunum til að draga vígtennurnar úr Hizballah. Rétt er þó að nefna, að margir háttsettir aðilar jafnvel trúarleiðtogar í Íran vilja aukna samvinnu við Bandaríkin.    

*   Og þá er það Írak. Dettur ekkert í hug. Allar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar.

*   Palstínumenn þurfa sárlega nýjan talsmann svo hlustað sé á þá
á alþjóðlegum vettvangi. Dalai Lama væri tilvalinn en hann er upptekinn við annað. 

Að lokum

Það þarf að grípa til sópsins. Í þáttunum um Tomma og Jenna er það heldri kona, sem í lok þáttanna ofbýður hamagangurinn, grípur sópinn og lúskrar á Tomma af því að hann er stærri og sterkari en Jenni. Ekki veit ég hver kom á undan í húsið, Tommi eða Jenni. Skiptir það í  raun máli? Sá, sem veldur stóra sópnum í dag ætti að grípa til hans og a.m.k. að fara að sveifla honum.   

Ref:

http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dsrael
http://en.wikipedia.org/wiki/Israel
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2295
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1828
http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,1214968,00.html
http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,1218058,00.html
Time, 3. desember 2007
Time, 26. maí 2008
http://edition.cnn.com/2007/WORLD/meast/02/21/btsc.iran.amanpour/
http://www.passia.org/publications/research_studies/Water-Book/Water-forward.htm

 

 


Erum við að verða þurrausin?

desert

Fyrir örfáum árum áttum við erfitt með að ímynda okkur vatnsskort, a.m.k. hér á landi í nær stöðugu votviðri. Við höfum verið hálf "vatnsósa". Nú er öldin önnur. Þjóðfélög nútímans þurfa gífurlega mikið vatn til daglegs brúks og vatnsnotkunin og þar með vatnsþörfin fer stöðugt vaxandi. Fólkinu fjölgar og hitastig á jörðinni fer hækkandi að sögn. Menn hafa oft farið illa með vatn og það er víða mengað. Aukin velmegun kallar á aukna vatnsnotkun. Þótt vatnsskortur virðist almennt ekki yfirvofandi hér á landi þurfa stjórnvöld samt sem áður að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ekki komi til skorts á vatni. Menn eru stöðugt að leita nýrra leiða til þess að endurvinna neysluvatn á vistvænan hátt og vinna vatn úr sjó. Í sumum stórborgum heimsins er þegar farið að skammta vatn. Eftirspurnin er orðin meiri en framboðið. Þau svæði jarðar, sem eru í mestri hættu af að þjást af skorti á vatni eru hluti Mið-Austurlanda, sunnanverð Afríka, Bandaríkin, Suður Ameríka og miðjarðarhafslönd. Á sumum svæðum þar sem jöklar eru litlir, gætu þeir verið alveg horfnir eftir 30 til 50 ár og þar með er mikilvæg vatnsuppspretta, sérstaklega á sumrin, í raun farin.
drinkingwtrtap
Hve mikið er til af vatni? Hvað þurfum við mikið?
Til að koma í veg fyrir vandamál þarf fyrst að gera sér grein fyrir staðreyndum. Talið er, að hver einstaklingur þurfi um 1,000 rúmmetra (m3) vatns á ári. (Þetta samsvarar um fimmtungi af vatninu í keppnissundlaug á Ólympíuleikunum). Grunnþörf mannsins eru um 5 lítrar vatns á sólarhring þ.e. til neyslu, hreinlætis og eldunar. Tiltækt vatn á hvern íbúa er mikið hér á landi miðað við önnur Evrópulönd. Mjög erfitt er að mæla nákvæmlega vatnsbirgðir landssvæða og enn erfiðara er að áætla notkunina nákvæmlega. Meginhluti grunnvatnsins er að finna í holum og sprungum í bergi og jafnvel milli sandkornanna í sandsteini. Grunnvatnið er því sjaldnast að finna sem neðanjarðastöðuvötn eða ár, eins og margir halda. Blautur leirkenndur jarðvegur getur einnig verið heldinn á vatnið og lætur það ekki auðveldlega frá sér. Hreyfing grunnvatns þ.e. grunnvatnsflæðið fylgir ákveðnum lögmálum, sem tengist vatnshalla og gegndræpi jarðlaga. Tæplega 98% af vatnsbirgðum jarðar er saltvatn. Einungis um 2% er því ferskvatn og um 2/3 hlutar ferskvatnsins eru bundnir sem ís í jöklum og á heimsskautasvæðunum.

Til forna höfðu menn ákveðnar hugmyndir um eðli grunnvatnsins. Í Prologus Snorra-Eddu er þess getið að mönnum var náttúra jarðarinnar hugleikin.
Þat var eitt eðli, at jörðin var grafin í hám fjallatindum ok spratt þar vatn upp ok þurfti þar eigi lengra at grafa til vatns en í djúpum dölum; svá er ok dýr ok fuglar at jamlangt er til blóðs í höfði ok fótum“. Mönnum var því snemma ljóst samhengi hlutanna og er vistfræðin engin ný bóla. 

water_measureAuðveldar virðist vera að mæla breytingar á vatnsmagni en vatnsmagnið í heild. Á 19. öld var lagður grunnur að nútímavatnafræði, hreyfingum grunnvatnsins og eðli. Franskur verkfræðingur og vatnsveitustjóri í Dijon, Henry Darcy (1803-1858) að nafni, rannsakaði streymi gegn um sand og fann sambandið milli þrýstimunar og vökvastreymis í gropnu efni. Þetta samband er kallað Darcys lögmál. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem byggir á athugunum frá árunum 1750-1760, er íslensku vatni skipt í eftirfarandi flokka: Jökulvatn, mýravatn, bergvatn, uppsprettu-lindavatn, kaldavermsl og hveravatn. Þessi nálega 250 ára gamla flokkun Eggerts og Bjarna á vatninu hefur að mestu staðist tímans tönn. Hún er grundvöllurinn að þeirri flokkun sem við höldum enn í dag. Elliðaárnar voru t.d. mældar 1894. Reglulegar vatnamælingar hófust 1919. Síritandi vatnshæðarmælar komu til sögunnar um 1950 og nú munu á þriðja hundrað síritandi mæla vera í ám, vötnum og borholum um allt land. 

Hvað þurfum við að gera?

Vatnið er mikilvæg auðlind.  Verðmæti vatnsins eru ekki einungis fjárhagsleg heldur einnig líffræðileg. Líkami okkar getur ekki án þess verið. Íslendingar hafa enn ekki lært að umgangast auðlindir með skynsömum hætti. Óheft aðgengi að hreinu vatni eru mannréttindi (obs!, missti þetta út úr lyklaborðinu). Meginverkefnin eru að tryggja jafnt aðgengi þegnanna að auðlindinni og varðveisla hennar þ.e. að tryggja framboð, skynsamlega nýtingu og gæði. Íslenska vatnið er þó í víðum skilningi auðlind fyrir fleiri en Íslendinga eina. Erum við reiðubúin til að stórauka fjárfestingar til þess að vernda og auka gæði vatnsins og nýta það betur? Erum við reiðubúin til að umbuna þeim, sem fara vel með vatnið? Það eru tískusveiflur í þessarri umræðu sem annarri. Hver talar nú t.d. um "súrt regn"? Ekki er ýkja langt síðan Svíar dembdu ógrynni af kalki í stöðuvötn til að hækka sýrustig þeirra.

 gata


Blikur á lofti?

Koma þarf í veg fyrir alvarlegar deilur um vatnsréttindi. Almenningur þarf að veita stjórnmálamönnum aðhald og gera þá kröfu að þeir sinni málefnum sem lúta að vatninu á skynsaman hátt. Allar ráðstafanir stjórnvalda þurfa að byggja á vísindalegum grunni, taka mið af hagsmunum heildarinnar og horfa til framtíðar. Mjög fáir vísindamenn rannsaka vatnafræði fjalla (e. mountain hydrology). Þessi vitneskja verður æ mikilvægari með hopun jökla.
  
  
 Mynd: JV 

*Við þurfum að leggja stóraukið fé í rannsóknir á vatnafræði. *Rannsaka þarf gæði neysluvatns, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu. Slíkar rannsóknir þarf að framkvæma af óháðum aðilum.  Hvað áhrif hafa t.d. gufuaflsvirkjanir á grunnvatnið?
dry
*Draga þarf úr vatnsnotkun heimila og fyrirtækja. Þetta er oft hægt að gera með einföldum búnaði.
   *Draga þar úr mengun neysluvatns með öllum tiltækum ráðum. Þessu hefur ekki verið sinnt sem skyldi hér á landi. Hver man t.d. eftir blýmengun drykkjarvatns að Keldum á síðasta ári? Hvaðan kemur kvikasilfrið í urriðanum í Þingvallavatni?
   *Auka þarf sjálfbæra vatnsnotkun þ.e. að endurnýta vatnið þ.e. frárennsli þar sem því verður við komið t.d. í iðnaði og landbúnaði.

 Verndun vatnasvæða
   *Vernda þarf og friða vatna- og votlendissvæði, Því fyrr, því betra. Því meira, því betra.
   *Takmarka þar alla umferð og starfsemi á vatnsverndarsvæðum.
  
 
  
 Mynd: JV 

*Vistkerfi Íslands er mjög viðkvæmt. Gífurlegar breytingar geta orðið á skömmum tíma t.d. af völdum jarðhræringa, eins og reynslan hefur sýnt. Við þurfum að eiga "plan-B". 
*Stórauka þarf upplýsingaflæði til almennings um mikilvægi vatnsins og hvetja einstaklinginn til aðgerða.
*Styðja þarf rækilega við bakið á þeim, sem vilja nýta vatnið á skynsaman hátt og auka verðmæti þess innanlands, sem utanlands.

Við þurfum að vera viðbúin aukinni ásókn í vatnið okkar. Getum við varið okkur? Við þurfum einnig að vera viðbúin að geta miðlað öðrum af þekkingu okkar á vatninu og jafnvel að veita öðrum af vatnsbirgðum okkar í framtíðinni. Öll hugsun þarf að teygja sig út fyrir vatnsglasið. Við þurfum fleiri "vatnshausa", þ.e. fólk sem hugsar um vatnið öllum stundum. Fólk, sem er með vatn á heilanum.

Hér á landi erum við enn ekki orðin þurrausin en gætum orðið það. A.m.k þurrausin af hugmyndum að verndum og betri nýtingu vatnsins. water_01












ref:
http://www.sciam.com/article.cfm?id=facing-the-freshwater-crisis
http://www.waterandlivelihoods.org/measuring_gw.pdf          
http://is.wikipedia.org/wiki/Vatnafr%C3%A6%C3%B0i
http://www.vb.is/index.php?gluggi=frett&flokkur=14&id=41804
reports.eea.europa.eu/water_assmnt07/is/water_assmnt07is.pdf
http://en.wikipedia.org/wiki/Water_resources
http://www.africanwater.org/basic_needs.htm


Örvæntingarfull leit að verðmætum

Mannkindin er dularfull skepna. Ein helsta blekking nútímans er þróunin. Við höfum ekkert breyst, ekkert þróast í tímans rás og eigum enn við sömu vandamál að etja og "frummaðurinn", sem málaði hellamyndir sínar í iðrum Frakklands. Hugarfar mannsins og tíðarandi speglast á hverjum tima í ýmsu, þó einkum í listsköpun okkar. Sem betur fer er smekkur manna misjafn. Margir myndu eflaust kjósa hellaristur framan á peningaskápnum, aðrir Andy Warhol. Á síðari tímum hefur einföld list verið móðins. Fáir áttu von á því að Björk yrði heimsfræg. Kristján bróðir minn keypti af henni litabók fyrir 100 kall. Nú kostar þessi sama bók nokkur hundruð þúsund á eBay. Enginn bjóst við því að íslenskur álfasöngur yrði heimsfrægur en nú syngur Sigurrós í eyrum stríðsmanna í Írak til að þeir haldi sönsum í æsingnum. Nú safna menn Stefáni frá Möðrudal og Ísleifi Konráðssyni. Menn leita örvæntingarfullir að nýrri stjörnu. Einfaldri stjörnu. Ekta stjörnu, ekki gervistjörnu. Menn eru að leita til upprunans og gefa skít í þróunina.

Nú er ný stjarna fundin. Það er ekki Cortez, það er ekki í Hollý og ekki í helli. Það er á Sólheimum í Grímsnesi. Myndir bernska málarans Einars Baldurssonar seljast þar eins og heitar lummur og biðlisti er eftir myndum hans. Til hamingju Einar! Menn eins og þú gefa lífinu gildi og sýna okur að mannkindin er ekki svo vonlaust fyrirbæri. Menn leita of oft langt yfir skammt að sönnum verðmætum. Við þurfum stundum að líta okkur nær í þeirri leit.
  einar

Einar og umboðamaðurinn
Mynd: Mbl/Rax 
     

Höfundur síðasta fyrirlestursins allur

Hann var vel metinn prófessor. Greindist með krabbamein í briskirtli í september 2006. Ári seinna hélt hann fyrirlestur um æskudrauma sína, fyrirlestur sem hann hafði raun ætlað börnum sínum en sá fyrirlestur (Randy Pausch's Last Lecture) varð heimsfrægur. Dauðvona kenndi hann öðrum að lifa lífinu, sem þeim var úthlutað. TIME valdi hann einn af áhrfamestu mönnum heims nýverið. 

Randy Pausch lést þ. 25. júlí s.l. aðeins 47 ára gamall. Hægt er að horfa á hinn fræga fyrirlestur hans á YouTube

Heimasíða Randy Pausch. 

Hér er fjallað um Randy á heimasíðu Carnegie Mellon University.

pausch

 

 

 


Kvikuhólf - draumsýn ein?

Nýleg grein í New Scientist dregur í efa tilvist kvikuhólfa undir jarðskorpunni, sem menn hafa lengi ímyndað sér að séu til staðar í eldfjöllum einkum þar sem er að finna "heita reiti" (e:hot spots) eins og á Íslandi og á Havaíeyjum.  Eins og kunnugt er, hefur Ísland þá sérstöðu að þar fer saman heitur reitur og landrek. Er þetta einstakt í heiminum.  Vitnar tímaritið í niðurstöður jarðskjálftamælinga á Íslandi (seismic imaging), sem bendi til þess, að kvikan geti stigið á mjög óreglulegan hátt upp á yfirborð jarðar og þurfi alls ekki að fylgja neinu þekktu mynstri eða safnast í kvikuhólf a.m.k ekki í því formi sem áður var talið.  Í þessu skyni hafa þeir búið til líkan úr misþykku sýrópi, sem hitað er upp til að líkja eftir kvikuhreyfingum í iðrum jarðar og í gegn um jarðskorpuna. Skv. þessari kenningu á kvikan að geta sullað og bullað í jarðskorpunni líkt og heitt síróp í potti. Slíkar hreyfingar (kvikukraum?) geta eflaust verið orsök jarðskjálfta í vissum tilvikum. Áhugavert ekki satt?

hekla_800

Hekla í júlí 2008

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband