Færsluflokkur: Dægurmál

Hræðilegt klúður - Ólistrænn háskóli?

Nú liggja fyrir tillögur að nýbyggingu Listaháskólans við Laugaveg.  Gerir þær ráð fyrir því að öll gömlu timburhúsin á reitnum hverfi, utan eitt. Í málefnasamningi núverandi meirihluta borgarstjórnar stendur hins vegar að leitað verði leiða til að "varðveita 19. aldar götumynd Laugavegarins og miðborgarinnar eins og kostur er".
Dæmi hver fyrir sig. Af myndum af dæma eru hér komnar sömu hugmyndir og arkitektar höfðu er þeir teiknuðu á sínum tíma húsin á horni Ármúla og Háaleitisbrautar í Reykjavík. Þessi hús á nú að rífa vegna ljótleika þeirra. Að mínu mati eru þetta hreint skelfilegar tillögur og slá jafnvel út verðlaunatillögurnar að framtíðarskipulagi Vatnsmýrarinnar. Voru þær þó slæmar.

 

 

 

 

 



 

 

 

 

 

 

 

ps

Set hér inn eina nýlega mynd frá náttúru Íslands til að menn geti hvílt augun og endurstillt þau eftir að hafa horft á þessa hörmung hér að ofan.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

..og önnur í sama tilgangi: 

landmannal_a_picasa


Búddismi á grafarbakkanum?

Þó Japanska þjóðfélagið sé í okkar augum fremur kreddufast og að mörgu leyti stirðbusalegt hafa menn þar í landi ávallt verið mjög frjálslegir, þegar kemur að trúmálum. Eða kannski bara ráðvilltir. Þannig hafa menn kvatt gamla árið í Búddamusterum en fagnað því nýja í Shintóskríni nokkrum klst. síðar. Brúðkaup geta jafnt verið upp á Shintó eða Kristni. Dauður Japani er þó nær ávallt skyndilega orðinn Búddisti a.m.k. eru jarðarfarir í Japan langoftast að hætti Búddista. Stundum er því talað í gríni um "jarðarfarabúddisma" í Japan þar sem Búddistar hafa hingað til nær einokað þann síðasta þátt mannlífsins.
funeral_japan

 

 

 

 

 

 

 


Þar í landi virðist Búddisminn því að mati sumra fremur fullnægja þörf hinna dauðu fremur en andlegri þörf hinna sem eftir lifa. Sterk tengls Búddista í Japan við japanska herinn í seinni heimstyrjöldinni svipti Búddismann að einhverju leyti helgiljómanum þar í landi. Búddisminn er jú þekktur fyrir að stuðla að friði fremur en að skipta sér að stríðsrekstri. Menn hallast því orðið fremur að Kristni eða jafnvel Íslam. Búddistarnir eru því að missa tökin á jarðarförunum því fleiri og fleiri Japanir halda jarðarfarir á útfararstofum eða hafa alls enga formlega jarðarfararathöfn. Einungis einfalda bálför án prests. Jarðarförum fer einnig fækkandi með hækkandi meðalaldri og fækkun fæðinga (og vaxandi náttúruleysi). Búddamusterum hefur fækkað á síðustu 6 árum um ríflega 10.000. Það er því ekki vænlegur bísness að gerast Búddamunkur í Japan þessa dagana enda skiptir það líklega litlu máli fyrir sanna Búddista. Hins vegar má geta þess að hagtölur sýna að meðalkostnaður við jarðarför í Japan er um $21,500.- (f.u. kostnað við grafreitinn) og þar af fer um $5,100 til prestsins (þ.e. Búddamúnksins). Fyrir nokkrum árum stofnaði búddamunkur nokkur, Kazuma Hayashi sitt eigið fyrirtæki til að sporna við þessari þróun m.a. með því að fækka milliliðum. Hefur honum tekist að lækka kostnaðinn við jarðarfarir um þriðjung. Fer Búddisminn endanlega í gröfina eða fara menn í Japan e.t.v. aftur að standa á grafarbakkanum em Búddistar. Hver veit?         

japan

 

ref:
In Japan, Buddhism May Be Dying Out


Úr Kjöti í Kaffi

Eitt sinn var sagt um ágætan frönskukennara í M.R. að hann væri eins og nýkominn úr baði á leið í sturtu. Hvað um það. Nýkominn úr Kjötborg beint í Sunnlenska bókarkaffið á Selfossi. Þar er alltaf heitt á könnunni og góð stemning. Ekki síst fyrir sanna Framsóknarmenn og bókaorma. Sunnlenska er í raun þrískipt; Kaffistofa, nýjar bækur og fornbókaverslun. Þar má oft gera reifarakaup. Fékk t.d. "The portable Hawthorne" á hundraðkall. Útsöluprís. Mæli með þessari menningarvin í annars fremur daufum bæ. Þar má stundum hitta fyrir Bjarna Harðar og frú, hana Guðbjörgu frá Flúðum, sem þekkir alla (og þig líka). Túrista með fartölvur að nýta sér ókeypis Internettengingu og ýmsa merka Sunnlendinga. Og jafnvel Egil Helga að grúska fyrir Kiljuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

Og þar má finna bók eftir sjálfan Torbjörn Egner, áritaða af honum sjálfum. Hann Stjáni Babú minnir dálítið á Bastían bæjarfógeta. Enda báðir sannir Framsóknarmenn. Þar má einnig finna ýmsar bækur um Sunnlensk málefni og jafnvel bækur úr hinu merka bókasafni Kristjáns frá Djúpalæk.

sunnlenska_1

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo óska ég Hafþóri til hamingju með bakfallslykkjuna. Hún verður endurtekin á Selfossi á morgun kl. 15:00 ef mér förlast ekki. 

Bakfallslykkja Hafþórs 


Sjóarinn síkáti - Grindavík

Skemmtanir gærdagsins fóru fram í blíðskaparveðri og var dagskráin mjög fjölbreytt, Grindavíkurblús í  gamla Kvennó var hreint magnaður. Á þessum tónleikum var tekið magnaðasta trommusóló síðan John Bonham sálugi spilaði með Led Zeppelin í Laugardalshöllinni árið 1970. 

Fleiri myndir frá Grindavík í myndaalbúmi hér neðar á síðunni.

IMG_4430_web

 

 Sumar myndir segja ekki alla söguna


Hver á sér sína Herðubreið

Á þessu merkisári hefði listamaðurinn Stefán Jónsson frá Möðrudal - Stórval - orðið 100 ára en hann var fæddur árið 1908. Stefán var sérstakur persónuleiki og setti svip sinn á miðbæ Reykjavíkur þar sem hann lék gjarnan á harmónikku og seldi málverkin sín, sem fáir sýndu áhuga. Í New York hefði hann eflaust orðið frægur, en þar er engin Herðubreið. Á sumrin vann hann við garðyrkjustörf og m.a sló gras með orfi og ljá í Gamla kirkjugarðinum. Stefán flutti heyið á gamaldags sendisveinahjóli, sem við dáðumst að. Hann var alltaf til í að spjalla við okkur krakkana og gauka að okkur sögum, vísum og rímum sem hann sönglaði með sinni sérstöku hásu en háu röddu. Röddina hafði hann misst er hann varð úti á Mývatnsöræfum og kól á raddböndunum. Honum tókst þó að bjarga lífi sínu með því að grafa sig í fönn. Til að sofna ekki söng hann vð raust í fönninni "Ó Blessuð vertu sumarsól". Hann var mikill sögumaður.
storval

  "Allt fer einhvern veginn
   enginn veit hvað er best. ´
   Tvisvar verður sá feginn
   sem á steininn sest."

Hér er hægt að heyra Stefán syngja smávegis.

Frægastur er hann líklega fyrir myndina "Vorleikur", sem hann sýndi á Lækjartorgi en sem Lögreglan gerði upptæka þar sem hún þótti á þeim tíma of djörf en hún sýndi stóðhest og meri í fjölgunarstellingum. Þætti fremur sakleysisleg í dag. Stefán var ávallt stoltur af þessari mynd og gaman væri að vita hvar hún er nú niðurkomin. Ekki er hún stór.

Mig langar til að vekja athygli á frábærri bók um myndlist Stefáns, sem kom út á síðasta ári og nefnist "Herðubreið at Home, The Herðubreið paintings of Stefán V. Jónsson aka STÓRVAL" og er eftir Roni Horn, sem er kannski þýskur túristi og Íslandsvinur en sem ólst upp í New York. (Nafnið á bókinni er spunnið út frá einu kvæði Emily Dickinson er þar er kemur fyrir hugtakið "Vesuvius at Home", líklega í annari merkingu, og þó..).

Í þessari bók eru fjölmargar ljósmyndir af málverkum Stefáns sem flest eru frá Herðubreið. Það sem gerir þessa bók sérstaka er að allar ljósmyndirnar eru teknar heima hjá eigendum málverkanna og sýna þau í sínu "náttúrulega" umhverfi. Bókin er mjög skemmtileg og sýnir hve Stefán var sannur í list sinni og hve margir kunna nú til dags að meta myndirnar hans, sem er vel. Stefán var heill og sannur maður og hélt ávallt tryggð við stóru ástina í lífi sínu, fjallið Herðubreið. Menn mættu vel taka hann sér til fyrirmyndar. Myndir hans af drottningu fjallanna eru einstakar í listasögu heimsins. Bók Roni litlu er svona.. Mikið ég vildi að ég hefði fengið þessa hugmynd sjálfur-bók.

storval

 

 

 

 

 

 

 

 

  

ps

Pjétur Hafstein Lárusson skáld og rithöfundur gaf árið 1980 út samtalsbók þar sem hann ræddi við Stefán. Bókin heitir "Fjallakúnstner", útgefandi Örn og Örlygur 1980 

Egill Eðvarðsson gerði frábæra heimildarmynd um síðustu mánuðina í lífi Stefáns og ætti RÚV að endursýna þessa mynd í tilefni aldarafmælis hans (eða þeir verði að öðrum kosti algjörlega einkavæddir).   


Af kartöflum og fiski

Kartöflugarðurinn var algjör plága. Bæði vor og haust. Um leið og prófunum lauk þá tók fjandans kartöflugarðurinn við. Okkur var kennt að velja útsæðið, láta kartöflur spíra hæfilega mikið, moka götur, setja niður útsæðið, velja réttar tegundir. Gullauga, Rauðar íslenskar, Bintje og Premier. Heppinn að hafa ekki fæðst meðal Aymara-indíána, sem búa við Titicacavatnið en þeir rækta meira en 800 mismunandi kartöflutegundir. Einhver sagði að Pólverjar elskuðu kartöflur en því trúði ekki nokkur sála. Moka yfir, þjappa moldina, þó ekki of mikið. Þetta voru trúarbrögð. Svo kom einhver illa lyktandi ábætir; hrossatað eða skarni.   potatis_1

 

 

 

 

 

 

Maður vissi brátt allt um kartöflumyglu, arfaeitur, og snigla. Fjandans arfinn.  Það þurfti að útrýma honum en líklega hefur hann ekki gert mikinn skaða. En hann er lífseigur. Einhvern tíma verður gert úr honum töfralyf. Þeir lengra komnu breiddu svart plast með gægjugötum yfir beðin. Við reittum arfa þar til okkur krakkana langaði helst til að reita á okkur hárið. Hjá heldri borgurum fylgdi kartöflugarðinum lítill kaffiskúr. Þar sátu menn og drukku kaffi og Egils appelsín og röbbuðu um kartöflur, kosti og galla hinna ýmsu tegunda. Hvað menn spöruðu mikið yfir árið með því að rækta sinn eigin garð. Sumir gengu jafnvel svo langt að setja niður kál og gulrætur. Þeir þóttu sérvitir.


koloni

Svo leið sumarið og menn fylgdust reglulega með uppskerunni. Sátu jafnvel heilan laugardagseftirmiðdag í skúrnum og horfðu á kartöflugrösin vaxa og bölvuðu um leið skæruliðaforingjunum; Hr. Arfa og Hr. Njóla, sem voru stráfelldir ef til þeirra sást. Svo hófst fjandans uppskerutíminn. Það varð að taka upp áður en næturfrostið eyðilagði uppskeruna. Maður púlaði allan sólarhringinn með skóflu eða alltof stóran gaffal, sem maður réði vart við. Stakk upp grösin og snéri þeim. Tíndi kartöflur í fötur. Gras eftir gras, götu eftir götu.

  Mikið var maður feginn potatisþegar þetta var búið og öll uppskeran var komin í strigapokana og í myrka, dimma kartöflujarðhýsið þar sem Bintje draugurinn réði ríkjum. Verkir og strengir í handleggjum, fótum og baki gleymdust þó þegar fyrsta uppskeran var étin með soðinni ýsu. Mikið er ný kartafla annars góð á bragðið beint úr garðinum. Maður vandaði henni þó ekki alltaf orðbragðið.

Kartaflan kenndi okkur margt. Hún hélt fjölskyldunni saman, varðveitti dýrmæta þekkingu og reynslu á milli kynslóða. Það má hún eiga.
Sá, sem átti kartöflugarð var sinn eigin herra, hann var frjáls, en um leið mikilvægur hlekkur í lífskeðjunni. 
"Gullauga", töff nafn, var það ekki annars heiti á James Bond mynd?                 

  

 potatis_2
Kartöflumóðir
eftir Þórarinn Eldjárn

Ég er kartöflumóðir sem þraukaði í Þykkvabænum
og þjónaði bændum.

Dóttir mín gullauga fetar í fótspor mín.

Mella, segja yngri dæturnar
sem eru rauðar íslenskar.

 

verbud


Verbúiðn
var dimm, köld og blaut. Þar var alltaf rökkur þó það væri glaðasólskin úti. Þar var klukkan alltaf annað hvort 07:00 eða 23:30. Ekkert þar á milli nema e.t.v. hálftími í sólinni í hádeginu. Maður roðnaði ekki einu sinni á nefinu á þessum hálftíma. Fiskifýlan loddi við vinnufötin á morgnana sérstaklega skyrtuermarnar svo maður hafði varla lyst á hafragrautnum. Á kvöldin var maður svo þreyttur að maður gat vart lyft höndunum til að bursta tennurnar. Í verbúðinni voru karlar sem þekktu ekkert annað en vinnu, ekkert nema þrælavinnu.

Þeir áttu aldrei frí og þeir tóku sjaldan til máls að fyrra bragði. Ef þeir sögðu eitthvað, var það eitthvað tengt fiski, veiðarfærum eða vinnulagi. Stundum var þó talað um vinnuvettlinga og gúmmíhanska, sérstaklega ef þeir voru nýir. Aldrei var rætt um mat. Matartíminn var bara tímaeyðsla og beindi athyglinni frá vinnunni. Þó komu stundir, þegar merkismenn litu inn í verbúðina. Þá breyttist andrúmsloftið skyndilega. Menn tóku af sér gúmmíhanskana. Settust niður og fengu sér kaffi og kleinur. Þá var rætt um afla, gróða og pólitík. Það var jafnvel kveikt í vindli. Fiskilyktin hvarf í nokkrar mínútur. Það var eins og að stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu hefði snúist um 90 gráður og nýr leikkafli væri hafinn með nýju sviði og nýjum leikurum. Svo snérist sviðið aftur og fiskurinn tók við, endalaus andskoti.saltfisk

Djöfulsins þorskurinn, alltof stór og þungur. Gott á hann að hann endaði sitt ömurlega líf útflattur, krossfestur í illa lyktandi salthrúgu. Hann fékk þó sína uppreisn seinna. Endar kannski sem dýrlingur síðar meir?

Verbúðin kenndi okkur að vinna og gefast ekki upp. Hún kenndi okkur viðhorf hinnar vinnandi stéttar. Hún kenni okkur líka gildi fjármagnsins og menntunar. Hún kenndi okkur að það var betra að stjórna en að láta stjórna sér. Verbúðin hélt fjölskyldunni saman. Þar unnu samhentar kynslóðir myrkranna á milli. Þar varðveittist þekkingin á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sem fluttist á milli kynslóða. Sá sem átti verbúð var konungur í eigin ríki. Fiskur og kartöflur, kartöflur og fiskur. Hvað er í raun merkilegra en það? Oft bölvaði maður í hljóði en það var hluti af heila mambóinu. 

Þó ekki væri mikið rætt eða skrafað í verbúðinni þá er það ekki þögnin sem er eftirminnilegust, heldur hljóðið í vekjaraklukkunni kl. 06:15 að morgni.    

kartfish


Hallargarðurinn

Ég man þá tíð, er Hallargarðurinn var samkomustaður borgarbúa líkt og Hljómskálagarðurinn. Í Hallargarðinum var gosbrunnur þar sem við krakkarnir gátum buslað og þar var listilega fallegur söluturn sem seldi ís, gos og sælgæti. Þar lágu mæður okkar í sólbaði og krakkarnir tipluðu berfætt á nýslegnu grasinu. Á sumarkvöldum söfnuðust þar saman, þeir sem voru of ungir til að komast inn í Glaumbæ sáluga. Undanfarin ár og jafnvel áratugi hefur almenningur ekki haft nokkurn áhuga á því að nýta sér þennan fallega garð og þar hefur ekki sést nokkur lifandi sála, nema kannski örfáir rónar.
Fyrr en núna.

 hallargardur

 


Skarfur gleypir urriða

..eða næstum því.
Rétt er að benda öllum áhugamönnum um fugla og náttúru landsins á frábærar ljósmyndir eftir Óskar Andra.
Á heimasíðu hans eru m.a. óborganlega myndir af dílaskarfi við veiðar á stórum urriða, sem hann reynir að gleypa í heilu lagi.

dilaskarfur

 


Samdi Hannes Hólmsteinn upphafsstefið?

Nei, svo var reyndar ekki. Maður gæti þó haldið það eftir að hafa horft á hinn frábæra sjónvarpsþátt Egils Helgasonar, Kiljuna. Nafn þáttarins er reyndar skemmtilegur orðaleikur.
Kynningarstef þáttarins er hins vegar skemmtilegur tónaleikur, því þar er komið hvorki meira né minna en hið fræga bítlastef úr laginu "Paperback Writer". Snjall tónaleikur og orðaleikur í senn þar sem þátturinn fjallar jú m.a um kiljuskrif. Stefið er aðlagað og staðfært að íslenskum aðstæðum að því er virðist með sömu aðferðum og Hannes Hólmsteinn Gissurarson beytti á texta Nóbelskáldssins og fékk bágt fyrir. Svo skemmtilega vill til, að sá sem skrifar sig sem höfund stefsins heitir Jón Ólafsson. Sá hinn sami virðist hafa gleymt að geta hinna raunverulegu höfunda stefsins, þ.e Bítlanna. Honum hefur þótt það óþarfi, stefið þekkja allir. Og allir hlusta á Bítlana, og allri þekkja Bítlalögin og allir þekkja stefið úr Paperback Writer, meira að segja Hannes. Og Jón líka. Þetta vita menn, en svona getur þetta allt verið undarlegt...

...hvað gerir Útvarpsstjóri nú?
Michael Jackson?
Sony?


"If you really like it you can have the rights
It could make a milion for you overnight
If you must return it you can send it here"

úr paperback Writer eftir Lennon/McCartney
birt án góðfúslegs leyfis höfunda

PaperbackWriter


Garðfuglarnir á Blúshátíð

Garðfuglar eru farfuglar og nú hafa þeir snúið aftur. Síðasta koma þeirra til landsins var árið 2001 er þeir spiluðu á Broadway. Um 45 manns voru þá í salnum og reyndum við að skipta sem oftast um sæti svo fjöldinn sýndist meiri. Nú spiluðu þeir fyrir fullu húsi á Blúshátiðinni á Reykjavík Hilton í gærkvöldi. Þeir slóu rækilega í gegn og var frábært að fylgjast með þeim ekki síst hinum frábæra unga gítarleikara Ben King. Maðurinn er þvílíkur snillingur að annað eins hefur ekki sést hér á landi frá því vinur hans Jimmy Page spilaði í Laugardalshöllinni árið 1970. Hann á þó enn langt í land til að ná snilld Gumma Pjé og Bjögga Gísla...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband