Færsluflokkur: Dægurmál
20.3.2008
Garðfuglarnir á Blúshátíð
Garðfuglar eru farfuglar og nú hafa þeir snúið aftur. Síðasta koma þeirra til landsins var árið 2001 er þeir spiluðu á Broadway. Um 45 manns voru þá í salnum og reyndum við að skipta sem oftast um sæti svo fjöldinn sýndist meiri. Nú spiluðu þeir fyrir fullu húsi á Blúshátiðinni á Reykjavík Hilton í gærkvöldi. Þeir slóu rækilega í gegn og var frábært að fylgjast með þeim ekki síst hinum frábæra unga gítarleikara Ben King. Maðurinn er þvílíkur snillingur að annað eins hefur ekki sést hér á landi frá því vinur hans Jimmy Page spilaði í Laugardalshöllinni árið 1970. Hann á þó enn langt í land til að ná snilld Gumma Pjé og Bjögga Gísla...
Dægurmál | Breytt 21.3.2008 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2008
Mikið fjör á Blúshátíð!
í gærkvöldi spiluðu m.a. Norðulandaliðið í blústónlist;
Nordic all star's blues band; KK, Björgvin Gíslason, Pétur Östlund, Krister Palais , Jolly Jumper & Big Moe frá Noregi, o.fl
Þessir tónleikar verða ógleymanlegir þeim fjölmörgu blúsaðdáendum, sem sáu þá og heyrðu. Þvílíkt fjör og lífsgleði!
í kvöld verður 5 ára afmælistónleikar Blúshátíðar þar sem fram koma m.a. blúsdívan Deitra Farr, Vinir Dóra, KK, Blúsmenn Andreu, Maggi Eiríks, Björgvin Gíslason, Davíð Þór Jónsson (á Hammond), Bergþór Smári, Tena Palmer frá Kanada & Gras o.fl.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008
Magic Slim á Blúshátíð
Blúshátíð Reykjavíkur hófst í gær með því að Ásgeir Óskarsson yfirtrymbill og Stuðmaður var kosinn blúsmaður ársins 2008 og heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur. Trommarinn vill stundum gleymast enda felur hann sig gjarnan a bak við settið. Geiri er þó einn af okkar traustustu tónlistarmönnum og hefur verið óþreytandi við að þenja húðirnar á blústónleikum í áratugi. Titillinn er því mjög verðskuldaður. Til hamingju Geiri!
Hann spilaði síðan nokkur lög með dóttur sinni Margrét, Bjögga Gísla og Tomma og saman mynduðu þau "Bandið hans Pabba". Margrét er ekki bara efnilegur blúsari, hún og er frábær söngkona.
Þá tóku við tveir hressir blúsarar frá Norge; Jolly Jumper & Big Moe frá Noregi.
Að lokum kom hinn sjötugi blúsari frá Chicago, Magic Slim ásamt hjómsveit, The Teardrops. Sá gamli skapaði rífandi stemmningu í Chicago stíl og var bandið mjög þétt og kraftmikið. Karlinn spilaði mest með tveimur puttum og spilaði í dúr þegar hinir spiluðu í moll en var mjög skemmtilegur. Tónleikarnir enduðu með blúsjammi þar sem þátt tóku m.a. Dóri, Deitra Farr og Jolly Jumper ásamt Magic Slim o.fl.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikið magn kvikasilfurs mældist nýlega í stórum urriða í Þingvallavatni. Urriðinn, sem er ránfiskur er mjög ofarlega í fæðukeðju vatnsins og því útsettur fyrir þeim eiturefnum, sem gjarnan safnast fyrir í fituvef fiska. Ekki er fulljóst, hvers vegna mikið magn kvikasilfurs er í Þingvallavatni en hugsanleg skýring er sú, að frárennsli Nesjavallavirkjunar sé um að kenna en það ku innihalda kvikasilfur og e.t.v. fleiri þungmálma og eiturefni.
Urriði - Salmo Trutta
Af einhverjum orsökum hefur frárennsli virkjunarinnar verð beint í Þingvallavatn líklega vegna þess að vatnið er þarna til staðar og það er þægilegt fyrir virkjunina. Einnig er möguleiki á öðrum skýringum vegna þess að Ísland er eldfjallaeyja og einnig getur ákveðin tegund kvikasilfurs safnast fyrir í uppistöðulónums, sem síðan getur mælst hátt í lífverum.
Kvikasilfur er frumefni (Hg) og í náttúrunni kemur það einkum fyrir sem steintegundin sinnóber (HgS kvikasilfurssúlfíð, e. cinnabar).
Kvikasilfur er eitur. Kvikasilfur er ekki bara eitrað, það er baneitrað. Bannvænn skammtur kvikasilfursalts er um 1 g. Kvikasilfurmálmurinn sem slíkur er ekki eitraður þó hann sé gleyptur þar sem hann frásogast ekki úr meltingarvegi.
Kvikasilfur er í raun vökvi en telst til þungmálma. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, sbr. eituráhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.
Það kvikasilfur, sem finnst í náttúrunni er að miklu leyti bundið seti, og lífrænum ögnum sem salt og því ekki aðgengilegt æðri lífverum. Örverur geta hins vegar breytt bundnu kvikasilfri í metýl-kvikasilfur, sem er baneitrað og lægri lífverur eiga auðvelt með að taka upp. Vegna rokgirni kvikasilfurs berst það auðveldlega langar vegalengdir í andrúmslofti. Þetta hefur valdið því, að mikið magn kvikasilfurs hefur fundist fjarri uppsprettum þess. Almennt hefur verið talið varasamt að magn kvikasilfurssambanda (methyl mercury) sé meiri en 0,5mg/kg og að neysla kvikasilfurs megi ekki fara yfir 0,5mg/viku. Lægri gildi eru fyrir barnshafandi konur. Kvikasilfrið hamlar starfsemi efnahvata í frumum líkamans með því að bindast sulfhydryl hópum (-SH) í frumunum. Þetta veldur því, að kvikasilfur er eitrað öllum frumum líkamans.
Helstu eituráhrif kvikasilfurs eru:
1) Bráð eituráhrif kvikasilfurs:
a) Eftir neyslu kvikasilfurssalta: Málmbragð, kviðverkir, blóðugur niðurgangur jafnvel í nokkrar vikur. Minnkaður þvagútskilnaður. Nýrnabilun, sem veldur dauða.
b) Eftir innöndun kvikasilfurgufu: Bólgur í munnslímhúð, aukin munnvatnsframleiðsla, málmbragð, niðurgangur, lungnabólga, nýrnaskemmdir, svimi, klaufska, taltruflanir og banvænir krampar.
c) Aklylsambönd kvikasilfurs safnast fyrir í miðtaugakerfinu og valda truflun á samhæfingu hreyfinga (ataxia), rykkjasótt (chorea), og krömpum. Yfirleitt er um að ræða varanlegar skemmdir á miðtaugakerfinu.
2) Langvinn eituráhrif kvikasilfurs:
a) Ofsakláði (urticaria), húðeksem, bólgur í slímhúðum, aukin munnvatnsframleiðsla, niðurgangur, blóðleysi, fækkun hvítra blóðkorna, lifrarskemmdir og nýrnabilun. Hárlos. Einnig truflanir á andlegri starfsemi, ekki síst hjá börnum.
Frægt dæmi um kvikasilfureitrun er frá Japan er íbúar Minamata veiktust eftir að hafa borðað kvikasilfursmengaðan fisk. Nú ættu yfirvöld skilyrðislaust að rannsaka nánar lífríki Þingvallavatns og afla upplýsinga um áhrif Nesjavallavirkjunar. Menn ættu ekki að borða stóran urriða úr vatninu. Spurning vaknar, hvort hin hreina orka er eins hrein og haldið er fram?
Frá því þessar mælingarniðurstöður voru birtar um haustið 2007 hafa Náttúrufræðistofnun Kópavogs, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Veiðimálastofnun tvívegis sótt um styrk til Orkusjóðs til að rannsaka uppruna kvikasilfursins í Þingvallavatni en í bæði skiptin verið neitað!!
Nú er aldeilis týra á tíkarskottinu! Almenningur í landinu hefur fullan rétt á að vita, hvaðan þessi lífshættulega mengun kemur, og það strax! Eru menn hreinlega gengnir af göflunum í Orkuhellinum?
Nýlega kom upp alvarleg blýmengun í drykkjarvatni á tilraunastöðinni að Keldum. Hvar er það mál statt í kerfinu? Hvers vegna berast engar fréttir af þvi máli?
24 Stundir 23. febrúar 2008
Mbl. 6. október 2007
Vefur Umhverfisstofnunar
Wikipedia.org
Vísindavefurinn
eMedicine.com
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/12/hitamengun_i_lindum_vid_thingvallavatn/
Robert H. Dreisbach
Handbook of Poisoning - Lange
Dægurmál | Breytt 12.4.2013 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2008
Býr menningin í húsi?
Skv. Orðabók Menningarsjóðs er menning sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum).... rótgróinn háttur, siður
Árið 1849 flykktust þúsundir manna til bæjarins Yerba Buena í Kaliforníu eftir að þar hafði fundist gull í jörðu. Bærinn var fljótlega skírður San Francisco af þeim fjölmörgu kaþólikkum sem komu til bæjarins, til heiðurs trúarreglu Frans frá Assisi, sem hafði aðsetur sitt aðeins steinsnar frá höfninni og veitti hjálparhönd þeim sem komu allslausir til bæjarins. Þann 18. apríl 1906 riðu miklir jarðskjálftar yfir San Francisco og í kjölfarið brutust út gífurlegir eldar sem m.a. eyðilögðu alla innviði kirkju heilags Frans. Útveggirnir og kirkjuturnarnir héldust þó heilir og eftir mikil fundarhöld ákváðu menn að endurbyggja kirkjuna og var því verki lokið í mars 1919. Þar tókst að bjarga ómetanlegum menningarverðmætum.
Í dag geta menn heimsótt þessa kirkju sem er nú höfuðvígi Franciskureglunnar í Bandaríkjunum og virt fyrir sér fegurð hennar bæði að utan og innan.
Þann 26. september 1997 riðu miklir jarðskjálftar yfir norðurhluta Ítalíu með þeim afleiðingum að fæðingarkapella Frans frá Assisi hrundi og tveir munkar reglunnar létu lífið. Þessi kapella var upphaflega reist á 13. öld og var alþjóðlegt tákn fyrir frið í heiminum og fordómalaus samskipti hinna ýmsu trúarbragða. Hornsteinn hennar hafði verið lagður þ. 17. júlí 1228. Á veggjum hennar og innan á þaki voru ævifornar lágmyndir, sem eyðilögðust gjörsamlega í þessum jarðhræringum.
Þar fóru ómetanleg menningarverðmæti forgörðum.
Þann 4. janúar 1998 kom Jóhannes Páll II páfi til Assisi og ræddi þar við munkana. Sjónvarpsfréttamenn ræddu við einn munkinn og spurðu auðvitað hvernig honum liði eftir þessar hörmungar. Hann leit rólega á fréttamanninn og sagði fremur glaðlega:
"Hún hefði hrunið hvort sem er, fyrr eða síðar!".
Þetta viðtal m.a. var birt í frettatíma sjónvarpsins hér á landi og er mörgum ógleymanlegt.
Páfinn hélt ræðu og sagði að þrátt fyrir að jarðskjálftarnir hefðu eyðilagt dýrmætan trúar- og menningararf þá hefðu þeir ekki náð að eyða hinum einu sönnu innri verðmætum hvers manns, sem hefði lífsgildi Frans frá Assisi að leiðarljósi og fylgdi fordæmi hans.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2008
Hunang gegn hósta?
Menn hafa löngum verið fremur latir við að sanna eða afsanna vísindalega áhrifamátt gamalla húsráða við sjúkdómum og kvillum enda eru slíkar rannsóknir oft flóknar og kostnaðarsamar.
Þann 3. desember 2007 birtist grein í tímaritinu Archives of Pediatrics & Adolescent Medicine þar sem fjallað var um niðurstöður rannsókna á áhrifum hunangs við hósta í sýkingum í efri öndunarvegum barna.
Rannsóknin, sem var að hluta tvíblind og gerð á slembiúrtaki (partially double-blinded, randomized study) beindist að því að bera saman áhrif: 1) hunangs, 2) hóstamixtúru með hunangsbragði sem innihélt virka efnið dextromethorphan (sambærilegt við Dexomet mixtúru) og 3) engrar meðferðar hjá 105 börnum og unglingum á aldrinum 2ja til 18 ára en öll þjáðust þau af hósta vegna sýkingar í efri öndunarvegum. Hunangið og hóstamixtúran voru gefin um 30 mín fyrir svefn en þriðji hópurinn fékk enga meðferð. Í ljós kom, að mest dró úr hósta og óþægindum frá öndunarfærum hjá þeim hópi sem fengið hafði hunangið fyrir svefn. Fram kemur í greininni að notað var dökkt afbrigði af hunangi (buckwheat honey) og að einungis var gefinn einn skammtur (líklega er hér átt við eina teskeið eða svo) af hunanginu. Hunangið reyndist betur en hóstamixtúran og mun betur en engin meðferð. Almennt er talið óhætt að gefa börnum eldri en 12 mánaða hunang ef ekkert annað mælir gegn því. Börn geta hins vegar fengið talsverðar aukaverkanir af dextromethorphani.
Dægurmál | Breytt 13.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2008
Um bábiljur í læknisfræði
Tímarit breskra lækna, British Medical Journal -BMJ, hefur það fyrir árlegan sið að tileinka síðasta tölublað ársins sniðugheitum í læknisfræði. Í ár er blaðið að venju svo sneisafullt af læknaskopi og bágbyljum (veikindagríni)
(Innskot: Einu alvöru íslensku læknabrandararnir er að finna í bók Ólafs Halldórssonar á Akureyri, sem heitir "Læknabrandarar" og sem gefin var út af Skjaldborg árið 1984 með teikningum eftir Kristinn G. Jóhannsson. Þeir læknabrandarar, sem ekki fengu að birtast í þessari klassísku bók eru bara hreint ekkert fyndnir).
Í þessu fyrrnefnda hefti BMJ er að finna áhugaverða grein um ýmsar þekktar bábiljur í læknisfræði:
1) Menn eigi að drekka a.m.k. 8 glös af vatni á dag.
Sumir hafa haldi því fram, að menn eigi að drekka um 2-2,5 lítra af vatni á dag og er þetta almennt viðhorf. Sannleikurinn er sá að vatnsþamb getur verið varasamt, ekki síst fyrir þá sem eru með hjartabilun og bjúgsöfnun. Almennt má miða við 1ml af vatni á hverja kaloríu, sem neytt er af fæði. Meginhluti þess vatns, sem menn þurfa yfir daginn er að finna í almennum neysluvörum og tilbúinni fæðu og þeim drykkjum, sem menn neyta yfir daginn, jafnvel kaffi (hjúkk!). Þess ber þó að geta, að hjá gömlu fólki minnkar oft þorstatilfinningin með aldrinum og menn eiga það til að þorna upp á gamalsaldri. Grein í CNN
2) Við notum einungis um 10% af heilanum.
Þetta kann að vera rétt varðandi vissa stjórnmálamenn, lækna og fjölmiðlafólk en rannsóknir benda til þess að hjá venjulegu fólki er ALLUR heilinn virkur. Þetta kemur vist mörgum á óvart.
3) Hár og neglur vaxa fram yfir dauða og gröf
Johnny Carson sagði eitt sinn: "Hár og neglur halda áfram að vaxa í þrjá daga eftir dauðann en rafhlaðan í símanum deyr út". Hann hafði rétt fyrir hvað varðar rafhlöðuna. Hins vegar veldur þurrkur í húðinni umhverfis neglur og hár eftir dauðann oft þeirri sjónhverfingu að hár og neglur virðast lengjast. Slíkur raunverulegur vöxtur þarfnast hins vegar flókins samspils hormóna líkamans sem ekki er lengur til staðar í dauðum líkama.
4) Lestur í rökkri skemmir sjónina
Það getur verið erfitt að sjá skýrt þ.e. "fókusera" í lélegri birtu og menn blikka sjaldnar augunum sem aftur getur leitt til þurrkstilfinningar og ónota í augunum. Það er hins vegar ákaflega ólíklegt að léleg birtuskilyrði geti skaðað sjónina.
5) Rakstur eykur hárvöxt og gerir hárin grófari og dekkri.
Þessi bágbylja hefur selt mörg tonn af ýmiss konar háreyðingarkremum. Það var ljóst árið 1928 að þetta er hrein vitleysa. Konur geta því haldið áfram að raka á sér fótleggina (ef þær svo óska) með góðri samvisku. Rakstur fjarlægir einungis þann hluta hársins sem er þegar dauður og hefur þannig á engan hátt áhrif á hárrótina sjálfa eða hárvöxtinn.
6) Kalkúnaát veldur syfju.
Menn halda að kalkúnakjöt innihaldi óvenju mikið af amínósýrunni tryptophani, sem aftur getur valdið mikilli syfju. Þetta er ekki rétt, því ekki er óvenju mikið af þessari amínósýru í kalkúnakjöti. Kalkúnaát veldur því ekki meiri syfju en annar matur. Hins vegar getur þungur matur almennt dregið úr blóðflæði til heilans og þannig valdið syfju, sérstaklega ef neytt er víns með matnum.
GLEÐILEGT ÁR 2008!
Dægurmál | Breytt 16.5.2008 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Reiknað er með, að þegar allt kemur til alls þá minnki losun gróðurhúsalofttegunda um helming við notkun vetnisbíla, sem er mun meira en við notkun t.d. rafbíla þar sem meiri hluti rafmagns í USA er framleitt með því að brenna kolum. Sagt er að vélin í þessum bíl samsvari 2400 CC bensínvél, sem er alls ekki svo slæmt. Eini gallinn við bílinn er skortur á vetnisstöðvum þar sem menn geta "tekið" vetni. Er það ekki framtíðarverkefni fyrir okkur Íslendinga? Ljóst er að vetnisbílarnir eru þegar komnir á markaðinn og í fjöldaframleiðslu og þeir bíða nú bara eftir áfyllingum af hreinu íslensku vetni!
Dægurmál | Breytt 31.12.2007 kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.12.2007
Kínalífselixírinn í bókarformi
Ég veit hins vegar nákvæmlega hvernig mér leið, eftir að hafa lesið bókina "Himnaríki og Helvíti" eftir Jón Kalman Sefánsson. Lesturinn var á við góðan skammt af Kínalífselixír!
Mikil forréttindi er að fá vera vitni að því þegar stór rithöfundur verður til og fróðlegt verður að fylgjast með honum þróast og þroskast enn frekar og rísa jafnhátt þeim vestfirsku fjöllum, sem hann lýsir í bókinni sinni. Hvort hann kemst hærra læt ég ósagt því ekki er víst að hann stefni sjálfur ofar þeim. Svona bókmenntir eiga að fá að vera í friði, það væri glapræði að reyna að gera kvikmynd eftir þessari bók. Sögusviðið er það magnað og margar persónur bókarinnar eru það sterkar að lesandinn verður að fá að eiga þær með sjálfum sér og móta og geyma eftir eigin höfði. Þetta kann að hljóma gamaldags en hver gæti svo sem túlkað Geirþrúði? ..eða leikið Kolbein kaftein. Ég bara spyr....
Sumsé, hér á vel við hið fornkveðna "Eigi skal filma!".
Stundum þurfa bækur að fá að vera bækur og þetta er ein af þeim. Hins vegar skal haldið á að skrifa og við bíðum spennt eftir næstu bók. Þessi bók er sem betur fer ekki fullkomin en kemst ansi nálægt því. Til hamingju Jón Kalman!
Dægurmál | Breytt 27.12.2007 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2007
Jólaglögg Kjötborgar 2007
Kaupmennirnir í Kjötborg við Ásvallagötu, þeir Gunnar og Kristján hafa í allmörg ár boðið vðskiptavinum sínum upp á hressandi jólaglögg og lifandi jólatónlist á Þorláksmessu.
Þeir eru öngvir "smákaupmenn" bræðurnir og að venju leystu þeir gesti og gangandi út með jólagjöfum: CD-plötu með sérvöldum Kjötborgar-jólalögum bæði fyrir börn og fullorðna.
Venjan er að heimsækja þá bræður á þessum degi og fá sér heitt jólaglögg og athuga um leið verðið á pakkasúpunum. Það virtist vera í lagi...
Jólaglögg er annars vandfundið í Reykjavík dag.
Hér var áður verslun Péturs Kristjánssonar og ég sjálfur bjó í þessu húsi sem unglingur og þar búa foreldrar mínir enn uppi á lofti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)