Færsluflokkur: Dægurmál
9.2.2008
Býr menningin í húsi?
Skv. Orðabók Menningarsjóðs er menning sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum).... rótgróinn háttur, siður
Árið 1849 flykktust þúsundir manna til bæjarins Yerba Buena í Kaliforníu eftir að þar hafði fundist gull í jörðu. Bærinn var fljótlega skírður San Francisco af þeim fjölmörgu kaþólikkum sem komu til bæjarins, til heiðurs trúarreglu Frans frá Assisi, sem hafði aðsetur sitt aðeins steinsnar frá höfninni og veitti hjálparhönd þeim sem komu allslausir til bæjarins. Þann 18. apríl 1906 riðu miklir jarðskjálftar yfir San Francisco og í kjölfarið brutust út gífurlegir eldar sem m.a. eyðilögðu alla innviði kirkju heilags Frans. Útveggirnir og kirkjuturnarnir héldust þó heilir og eftir mikil fundarhöld ákváðu menn að endurbyggja kirkjuna og var því verki lokið í mars 1919. Þar tókst að bjarga ómetanlegum menningarverðmætum.
Í dag geta menn heimsótt þessa kirkju sem er nú höfuðvígi Franciskureglunnar í Bandaríkjunum og virt fyrir sér fegurð hennar bæði að utan og innan.
Þann 26. september 1997 riðu miklir jarðskjálftar yfir norðurhluta Ítalíu með þeim afleiðingum að fæðingarkapella Frans frá Assisi hrundi og tveir munkar reglunnar létu lífið. Þessi kapella var upphaflega reist á 13. öld og var alþjóðlegt tákn fyrir frið í heiminum og fordómalaus samskipti hinna ýmsu trúarbragða. Hornsteinn hennar hafði verið lagður þ. 17. júlí 1228. Á veggjum hennar og innan á þaki voru ævifornar lágmyndir, sem eyðilögðust gjörsamlega í þessum jarðhræringum.
Þar fóru ómetanleg menningarverðmæti forgörðum.
Þann 4. janúar 1998 kom Jóhannes Páll II páfi til Assisi og ræddi þar við munkana. Sjónvarpsfréttamenn ræddu við einn munkinn og spurðu auðvitað hvernig honum liði eftir þessar hörmungar. Hann leit rólega á fréttamanninn og sagði fremur glaðlega:
"Hún hefði hrunið hvort sem er, fyrr eða síðar!".
Þetta viðtal m.a. var birt í frettatíma sjónvarpsins hér á landi og er mörgum ógleymanlegt.
Páfinn hélt ræðu og sagði að þrátt fyrir að jarðskjálftarnir hefðu eyðilagt dýrmætan trúar- og menningararf þá hefðu þeir ekki náð að eyða hinum einu sönnu innri verðmætum hvers manns, sem hefði lífsgildi Frans frá Assisi að leiðarljósi og fylgdi fordæmi hans.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2008
Hunang gegn hósta?
Menn hafa löngum verið fremur latir við að sanna eða afsanna vísindalega áhrifamátt gamalla húsráða við sjúkdómum og kvillum enda eru slíkar rannsóknir oft flóknar og kostnaðarsamar.
Þann 3. desember 2007 birtist grein í tímaritinu Archives of Pediatrics & Adolescent Medicine þar sem fjallað var um niðurstöður rannsókna á áhrifum hunangs við hósta í sýkingum í efri öndunarvegum barna.
Rannsóknin, sem var að hluta tvíblind og gerð á slembiúrtaki (partially double-blinded, randomized study) beindist að því að bera saman áhrif: 1) hunangs, 2) hóstamixtúru með hunangsbragði sem innihélt virka efnið dextromethorphan (sambærilegt við Dexomet mixtúru) og 3) engrar meðferðar hjá 105 börnum og unglingum á aldrinum 2ja til 18 ára en öll þjáðust þau af hósta vegna sýkingar í efri öndunarvegum. Hunangið og hóstamixtúran voru gefin um 30 mín fyrir svefn en þriðji hópurinn fékk enga meðferð. Í ljós kom, að mest dró úr hósta og óþægindum frá öndunarfærum hjá þeim hópi sem fengið hafði hunangið fyrir svefn. Fram kemur í greininni að notað var dökkt afbrigði af hunangi (buckwheat honey) og að einungis var gefinn einn skammtur (líklega er hér átt við eina teskeið eða svo) af hunanginu. Hunangið reyndist betur en hóstamixtúran og mun betur en engin meðferð. Almennt er talið óhætt að gefa börnum eldri en 12 mánaða hunang ef ekkert annað mælir gegn því. Börn geta hins vegar fengið talsverðar aukaverkanir af dextromethorphani.
Dægurmál | Breytt 13.1.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2008
Um bábiljur í læknisfræði
Tímarit breskra lækna, British Medical Journal -BMJ, hefur það fyrir árlegan sið að tileinka síðasta tölublað ársins sniðugheitum í læknisfræði. Í ár er blaðið að venju svo sneisafullt af læknaskopi og bágbyljum (veikindagríni)
(Innskot: Einu alvöru íslensku læknabrandararnir er að finna í bók Ólafs Halldórssonar á Akureyri, sem heitir "Læknabrandarar" og sem gefin var út af Skjaldborg árið 1984 með teikningum eftir Kristinn G. Jóhannsson. Þeir læknabrandarar, sem ekki fengu að birtast í þessari klassísku bók eru bara hreint ekkert fyndnir).
Í þessu fyrrnefnda hefti BMJ er að finna áhugaverða grein um ýmsar þekktar bábiljur í læknisfræði:
1) Menn eigi að drekka a.m.k. 8 glös af vatni á dag.
Sumir hafa haldi því fram, að menn eigi að drekka um 2-2,5 lítra af vatni á dag og er þetta almennt viðhorf. Sannleikurinn er sá að vatnsþamb getur verið varasamt, ekki síst fyrir þá sem eru með hjartabilun og bjúgsöfnun. Almennt má miða við 1ml af vatni á hverja kaloríu, sem neytt er af fæði. Meginhluti þess vatns, sem menn þurfa yfir daginn er að finna í almennum neysluvörum og tilbúinni fæðu og þeim drykkjum, sem menn neyta yfir daginn, jafnvel kaffi (hjúkk!). Þess ber þó að geta, að hjá gömlu fólki minnkar oft þorstatilfinningin með aldrinum og menn eiga það til að þorna upp á gamalsaldri. Grein í CNN2) Við notum einungis um 10% af heilanum.
Þetta kann að vera rétt varðandi vissa stjórnmálamenn, lækna og fjölmiðlafólk en rannsóknir benda til þess að hjá venjulegu fólki er ALLUR heilinn virkur. Þetta kemur vist mörgum á óvart.
3) Hár og neglur vaxa fram yfir dauða og gröf
Johnny Carson sagði eitt sinn: "Hár og neglur halda áfram að vaxa í þrjá daga eftir dauðann en rafhlaðan í símanum deyr út". Hann hafði rétt fyrir hvað varðar rafhlöðuna. Hins vegar veldur þurrkur í húðinni umhverfis neglur og hár eftir dauðann oft þeirri sjónhverfingu að hár og neglur virðast lengjast. Slíkur raunverulegur vöxtur þarfnast hins vegar flókins samspils hormóna líkamans sem ekki er lengur til staðar í dauðum líkama.
4) Lestur í rökkri skemmir sjónina
Það getur verið erfitt að sjá skýrt þ.e. "fókusera" í lélegri birtu og menn blikka sjaldnar augunum sem aftur getur leitt til þurrkstilfinningar og ónota í augunum. Það er hins vegar ákaflega ólíklegt að léleg birtuskilyrði geti skaðað sjónina. 5) Rakstur eykur hárvöxt og gerir hárin grófari og dekkri.
Þessi bágbylja hefur selt mörg tonn af ýmiss konar háreyðingarkremum. Það var ljóst árið 1928 að þetta er hrein vitleysa. Konur geta því haldið áfram að raka á sér fótleggina (ef þær svo óska) með góðri samvisku. Rakstur fjarlægir einungis þann hluta hársins sem er þegar dauður og hefur þannig á engan hátt áhrif á hárrótina sjálfa eða hárvöxtinn.
6) Kalkúnaát veldur syfju.
Menn halda að kalkúnakjöt innihaldi óvenju mikið af amínósýrunni tryptophani, sem aftur getur valdið mikilli syfju. Þetta er ekki rétt, því ekki er óvenju mikið af þessari amínósýru í kalkúnakjöti. Kalkúnaát veldur því ekki meiri syfju en annar matur. Hins vegar getur þungur matur almennt dregið úr blóðflæði til heilans og þannig valdið syfju, sérstaklega ef neytt er víns með matnum.
GLEÐILEGT ÁR 2008!
Dægurmál | Breytt 16.5.2008 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Reiknað er með, að þegar allt kemur til alls þá minnki losun gróðurhúsalofttegunda um helming við notkun vetnisbíla, sem er mun meira en við notkun t.d. rafbíla þar sem meiri hluti rafmagns í USA er framleitt með því að brenna kolum. Sagt er að vélin í þessum bíl samsvari 2400 CC bensínvél, sem er alls ekki svo slæmt. Eini gallinn við bílinn er skortur á vetnisstöðvum þar sem menn geta "tekið" vetni. Er það ekki framtíðarverkefni fyrir okkur Íslendinga? Ljóst er að vetnisbílarnir eru þegar komnir á markaðinn og í fjöldaframleiðslu og þeir bíða nú bara eftir áfyllingum af hreinu íslensku vetni!

Dægurmál | Breytt 31.12.2007 kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.12.2007
Kínalífselixírinn í bókarformi
Ég veit hins vegar nákvæmlega hvernig mér leið, eftir að hafa lesið bókina "Himnaríki og Helvíti" eftir Jón Kalman Sefánsson. Lesturinn var á við góðan skammt af Kínalífselixír!
Mikil forréttindi er að fá vera vitni að því þegar stór rithöfundur verður til og fróðlegt verður að fylgjast með honum þróast og þroskast enn frekar og rísa jafnhátt þeim vestfirsku fjöllum, sem hann lýsir í bókinni sinni. Hvort hann kemst hærra læt ég ósagt því ekki er víst að hann stefni sjálfur ofar þeim. Svona bókmenntir eiga að fá að vera í friði, það væri glapræði að reyna að gera kvikmynd eftir þessari bók. Sögusviðið er það magnað og margar persónur bókarinnar eru það sterkar að lesandinn verður að fá að eiga þær með sjálfum sér og móta og geyma eftir eigin höfði. Þetta kann að hljóma gamaldags en hver gæti svo sem túlkað Geirþrúði? ..eða leikið Kolbein kaftein. Ég bara spyr....
Sumsé, hér á vel við hið fornkveðna "Eigi skal filma!".
Stundum þurfa bækur að fá að vera bækur og þetta er ein af þeim. Hins vegar skal haldið á að skrifa og við bíðum spennt eftir næstu bók. Þessi bók er sem betur fer ekki fullkomin en kemst ansi nálægt því. Til hamingju Jón Kalman!

Dægurmál | Breytt 27.12.2007 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2007
Jólaglögg Kjötborgar 2007
Kaupmennirnir í Kjötborg við Ásvallagötu, þeir Gunnar og Kristján hafa í allmörg ár boðið vðskiptavinum sínum upp á hressandi jólaglögg og lifandi jólatónlist á Þorláksmessu.
Þeir eru öngvir "smákaupmenn" bræðurnir og að venju leystu þeir gesti og gangandi út með jólagjöfum: CD-plötu með sérvöldum Kjötborgar-jólalögum bæði fyrir börn og fullorðna.
Venjan er að heimsækja þá bræður á þessum degi og fá sér heitt jólaglögg og athuga um leið verðið á pakkasúpunum. Það virtist vera í lagi...
Jólaglögg er annars vandfundið í Reykjavík dag.
Hér var áður verslun Péturs Kristjánssonar og ég sjálfur bjó í þessu húsi sem unglingur og þar búa foreldrar mínir enn uppi á lofti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.12.2007
Jólatónleikar í Skálholti
Laugardaginn þ. 8. desember 2007 voru haldnir Aðventutónleikar í Skálholtsdómkirkju á vegum Sálholtskórsins. Einsöngvarar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir og Egill Árni Pálsson. Barna- og unglingakór Biskupstungna söng einnig nokkur lög og stóðu krakkarnir sig frábærlega. Hjörleifur Valsson fiðluleikari stjórnaði Kammersveit. Organisti var Douglas A. Brotchie. Stjórnandi Skálholtskórsins er Hilmar Örn Agnarsson.
Séra Guðmundur Óli Ólafsson sóknarprestur Skálholtssóknar í rúmlega fjóra áratugi lést síðastliðið vor. Í minningu hans voru fluttir tveir jólasálmar eftir hann á tónleikunum.
Hið árlega jólalag Skálholtkórsins er samið af Hildigunni Rúnarsdóttur en það hljómaði í mínum eyrum eins og tilvalið lag fyrir Hrekkjarvöku til að hræða óþæga krakka. Einnig var frumflut nýtt jólalag eftir Ragnar Kristinn Kristjánsson frá Flúðum, sem er frábært lag og Ave María eftir Sigurð Bragason tónskáld, sem heyra má hér á myndbandinu sungið af Rannveigu Bragasóttur og talar sínu máli. (Á tónleikunum var lag Sigurðar flutt frábærlega af Henríettu Ósk Gunnarsdóttur söngkonu).
Dægurmál | Breytt 12.12.2007 kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það er að minnsta kosti niðurstaða nýrrar rannsóknar, sem birtist í nóvemberhefti tímarits bandarískra barnalækna, Pediatrics.
Það voru læknar á fimm barnaspítölum í Bandaríkjunum, sem rannsökuðu alls 785 börn í 3. og 6. bekk grunnskóla m.t.t. þess hvort etthvað samband væri á milli þyngdar barna og svefnvenja þeirra. Í ljós kom, að 22% þeirra barna, sem sváfu að jafnaði skemur en 9 klst. á hverri nóttu áttu við offitu að stríða. Offita var mun sjaldgæfara vandamál hjá þeim börnum, sem sváfu að jafnaði í 10 til 12 klst. á nóttu hverri eða hjá um 11% barnanna í þeim hópi. Höfundar greinarinnar vita ekki hvers vegna vansvefta börn fitna meira en þau sem fá nægan svefn. Hugsanleg skýring er sú, að syfjuðu börnin séu hreinega of þreytt á daginn til að fara út að leika sér. Einnig er talið að svefnleysi örvi viss boðefni líkamans og jafnvel hormón sem geta framkallað hungurtilfinningu. Svo virðist að þeir sem eru stöðugt syfjaðir neyti frekar orkuríkrar fæðu og fæðu sem inniheldur meira af kolvetnum. Þetta kann að vera arfleið frá þeim tíma, er maðurinn borðaði meira á sumrin þegar nóg var af fæðu til að safna forða fyrir veturinn og þegar nóttin var styttri en á veturna þegar fæða var af skornum skammti.
Ef börnin eru of feit ættu foreldrar e.t.v. að byrja á þvi að fjarlægja sjónvarpstæki, tölvur og önnur leiktæki úr barnaherbergjunum!
ps
Líklega gildir margt af þessu einnig fyrir fullorðna. Einng vaknar sú spurning, hvort offitan geti valdið svefntruflunum hjá börnum eins og hjá fullorðnum t.d. kæfisvefni?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2007
Síþreyta – Hvað er það?
Síþreyta (e. Chronic Fatique Syndrome eða Chronic Fatique Disease) er langvinnur sjúkdómur, sem getur herjað á fólk af báðum kynjum og á öllum aldri. Þreyta sem slík er algengt sjúkdómseinkenni við marga bráða og langvinna sjúkdóma. Þannig er mikil þreyta ekki óalgeng eftir ýmsar veirusýkingar t.d. eftir inflúensu. Yfirleitt ganga þreytueinkenni eftir sýkingar og önnur bráð veikindi yfir á nokkrum dögum eða vikum. Hvað er hins vegar á seyði þegar mikil og yfirþyrmandi þreyta er til staðar í marga mánuði eða jafnvel í mörg ár?
Skilgreining.
Allir þekkja þreytu en erfitt er að skilgreina hana nákvæmlega líkt og verki. Síþreyta er nú skilgreind sem: Mikil þreyta, sem staðið hefur samfellt í sex mánuði eða lengur.
Sjúkdómurinn er fjórum sinnum algengari hjá konum en hjá körlum og á aldursbilinu 40 til 50 ára. Ekkert bendir til þess, að sjúkdómurinn sé afgengur. Stundum kemur skyndileg síþreyta fram hjá mjög virkum og dugmiklum einstaklingum, sem lýsa því eins og að batteríin hafi skyndilega verið búin.
Greining.
Við greiningu á síþreytu er mjög mikilvægt að útiloka aðra undirliggjandi sjúkdóma og aðrar mögulegar ástæður mikillar þreytu svo sem sýkingar, þunglyndi og aðra geðsjúkdóma, vanstarfsemi á skjaldkirtli, blóðleysi, langvinna bólgusjúkdóma svo sem liðagigt, Sjögrens sjúkdóm og aðra gigtarsjúkdóma, sykursýki, áfengis- og lyfjafíkn, aukaverkanir lyfja, svefnleysi, kæfisvefn og mikla offitu, taugasjúkdóma svo sem M.S. og illkynja sjúkdóma o.fl.
Önnur algeng einkenni eru til dæmis vöðva- og liðverkir, óeðlileg þreyta og verkir í vöðvum eftir áreynslu, hitaslæðingur, særindi í hálsi, hægari hugsun, lélegt minni, einbeitingarörðugleikar, kvíði, þunglyndi, breytingar á svefnvenjum, aukin viðkvæmni fyrir hita og kulda, hjartsláttarköst, höfuðverkir, ljósfælni, óregla á hægðum, bólgnir og aumir eitlar, dofi í höndum og fótum, munn- og augnþurrkur.
Yfirleitt vaknar grunur um sjúkdóminn í viðtali við sjúklinginn. Flesta sjúkdóma er hægt að greina með ítarlegu viðtali og læknisskoðun. Það gildir einnig um síþreytu. Þegar grunur vaknar um sjúkdóminn beinast rannsóknir að því að útiloka aðra undirliggjandi sjúkdóma. Yfirleitt duga einfaldar blóðrannsóknir en stundum þarf að beita röntgenrannsóknum, ómskoðun og tölvusneiðmyndum og jafnvel segulómun. Þetta er háð því, hvað sjúkrasaga og læknisskoðun leiðir í ljós.
Meðferð.
Meðferð á síþreytu getur verið mjög erfið og flókin. Hún er ávallt einstaklingsbundin. Það er engin ein lausn til á vandamálinu. Yfirleitt þarf sameiginlegt átak ýmissa heilbrigðisstétta svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, iðju- og sjúkraþjálfara. Reynd hafa verið ýmis lyf en með misjöfnum árangri og eru flest þeirra enn á tilraunastigi. Mjög mikilvægt er að lækna undirliggjandi sjúkdóma, sem gætu verið orsök þreytunnar. Merkilegt er þó, að í sumum tilvikum t.d. hjá liðagigtarsjúklingum er þreytan ekki í réttu samhengi við sjúkómsvirknina og virðist lúta eigin lögmálum. Best er að forðast allar öfgar og styðjast við þau ráðs, sem eru sannreynd af læknum og öðrum viðurkenndum meðferðaraðilum. Það getur einnig verið mjög gagnlegt, að taka þátt í stuðningshópum fyrir fólk með síþreytu.
Dægurmál | Breytt 14.10.2007 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.10.2007
Vefjagigt - Fibromyalgia Syndrome
Hvað er til ráða?
Skilgreining
- Vefjagigt er heilkenni (syndrome, þ.e. samsafn sjúkdómseinkenna) sem einkennist af langvarandi útbreiddum verkjum frá stoðkerfi líkamans og aumum blettum á vissum stöðum.
- Ekki finnast nein merki um liðbólgur (synovitis) eða bólgur í vöðvum (myositis).
- Eðlileg læknisskoðun og eðlilegar niðurstöður blóðprófa og röngtenrannsókna.
- 80-90% þeirra sem veikjast eru konur á aldrinum 30-50 ára.
Óleyst gáta
Margir þjást af þrálátum einkennum frá stoðkerfinu án nokkurar sýnilegrar ástæðu. Erfitt hefur reynst að henda reiður á þessi einkenni og koma þeim saman undir eina sjúkdómsgreiningu. Segja má, að vefjagigtin sé ein af mörgum óleystum gátum læknisfræðinnar. Á undanförnum árum hafa menn veitt þessum sjúkdómi eða heilkenni aukinn áhuga. Orðið vefjagigt (í erlendum tímaritum ýmist kallað fibrósitis eða fibromyalgia) hefur verið notað yfir sérstakan gigtarsjúkdóm, sem einkennist af langvarandi dreifðum stoðkerfisverkjum og stirðleika ásamt fjölmörgum aumum blettum víða um líkamann. Ekki eru allir læknar þó sammála um að hér sé um að ræða sérstakan sjúkdóm og margt er enn óljóst varðandi orsakir hans. Vitað er að vefjagigt leggst oftast á konur á barnseignaraldri (80-90%). Hann kemur þó fyrir hjá báðum kynjum og í öllum aldurshópum og hann virðist algengari í sumum fjölskyldum en öðrum. Tíðni sjúkdómsins virðist vera mjög mismunandi. Rannsókn sem gerð var nýlega í Noregi leiddi í ljós að 10.5% kvenna á aldrinum 20 til 40 ára voru haldnar sjúkdómnum.
Orsakaþættir
Yfirleitt er um að ræða samtvinnaða orsakaþætti og ekki hægt að benda á neina einstaka orsök. Þó er vel þekkt að sjúkdómurinn getur byrjað t.d. í kjölfar sýkingar eða slyss. Einkenni vefjagigtar skarast oft við einkenni síþreytu. Athygli vekur, að um þriðjungur sjúklinga með HIV sýkingu hafa einkenni vefjagigtar. Sýkla- og veirulyf hafa þó að jafnaði engin áhrif á sjúkdóminn. Talið er að í flestum tilfellum megi rekja einkennin til langvarandi truflunar á nætursvefni, sem aftur getur haft margvíslegar frumorsakir. Flestir langvinnir gigtarsjúkdómar svo sem liðagigt valda verkjum og stirðleika og almennri þreytu og er vefjagigt stundum hluti af sjúkdómsmyndinni hjá t.d. liðagigtarsjúklingum. Læknar eru ekki á einu máli um hvað það er, sem orsakar hina aumu blettir, hvort það er almennt lækkaður sársaukaþröskuldur eða einungis staðbundin eymsli. Ljóst er þó, að almennt lélegt ástand vöðva (léleg súrefnisupptaka) gerir þá mun viðkvæmari fyrir öllu hnjaski en ella (microtrauma). Sjúklingar með vefjagigt eru að jafnaði ekki þunglyndari en aðrir á sama aldri. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að þeir séu taugaveiklaðir eða séu haldnir ímyndunarveiki. Ljóst er að mikið og langvinnt andlegt álag getur leyst sjúkdóminn úr læðingi og aukið á einkenni. Eins og öðrum langvinnum sjúkdómum fylgir honum stundum þunglyndi.
Rétt greining og fræðsla
Mikilvægt er að útiloka aðra sjúkdóma svo sem langvinna gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, sérstaklega skjaldkirtilssjúkdóma, langvinnar sýkingar (Lyme disease, AIDS ofl.) og jafnvel illkynja sjúkdóma. Fræðsla um sjúkdóminn er mjög mikilvæg. Oft er gagnlegt að sjúklingurinn hitti aðra sjúklinga með vefjagigt (t.d. í umræðuhópum), til að ræða sjúkdóminn og ýmis atriði sem tengjast honum.
Meðferð
Ekki er hægt að segja fyrirfram hvaða meðferð kemur að bestu gagni. Meðferðin er einstaklingsbundin og þarf oft að þreifa sig áfram með hvað hentar hverjum og einum best. Mikilvægt er að reyna að komast að orsökum einkennanna, til dæmis ef þau stafa af slæmum lífsvenjum. Athuga þarf atriði svo sem reykingar, óhóflega áfengis- og kaffidrykkju, of mikið vinnuálag og langar vökur. Oft þarf að bæta samskiptin innan fjölskyldunnar.
Meginmarkmið meðferðar
- Að minnka verki með verkjalyfjum t.d. með parkódíni eða kódimagnýli sem bæði eru mið- og útverkandi (e:periferal and central analgesia).
- Að bæta svefnmynstrið,t.d. með lyfjum svo sem amitriptylini.
- Að draga úr geðsveiflum og minnka andlegt álag t.d. með reglulegri slökun.
- Að auka blóðflæði til vöðva og mjúkvefja með líkamsæfingum.
- Að auka líkamlegt þol.
Lyfjameðferð
Yfirleitt kemur lyfjameðferð t.d. með bólgueyðandi lyfjum að litlu gagni, en rétt er að reyna meðferð með verkjalyfjum og jafnvel stuttverkandi svefnlyfjum ef verkir og svefntruflanir eru mjög áberandi í sjúkdómsmyndinni. Í vissum tilfellum kemur að gagni að sprauta bólgueyðandi og jafnvel deyfandi lyfjum í blettina. Stundum reynist vel að nota ákveðin geðdeyfðarlyf í stuttan tíma t.d. amytriptilinum. Ekki er ástæða til öfgakenndra breytinga á mataræði, en sjálfsagt er að bæta slæmar matarvenjur og mörgum líður betur við að breyta yfir í léttara fæði. Yfirleitt þarf að nota saman líkamsæfingar og slökun. Margir hafa gott af nuddi og hitameðferð á auma bletti og ef um útbreiddar vöðvabólgur er að ræða.
Líkamlegt þrek
Eitt aðalatriðið í meðferð sjúklinga með vefjagigt er að auka almennt líkamlegt þrek þeirra. Oft er um að ræða einstaklinga, sem hafa mjög lítið líkamlegt þrek og eru mjög úthaldslausir. Ekki er ólíklegt að einmitt lélegt líkamlegt þrek stuðli að því að menn fái frekar vefjagigt. Hafa ber þó í huga að of mikil áreynsla, sérstaklega í byrjun meðferðar getur aukið einkenni sjúklinganna, sem virðast þola líkamlega áreynslu misvel. Sjúklingurinn sjálfur getur gert ýmislegt til að bæta líðan sína t.d. með reglulegum gönguferðum, sundi og jafnvel léttri leikfimi. Í flestum tilfellum er ekki ástæða til að hann hætti að vinna. Þótt margir telji vefjagigt vera einkonar ruslakistu fyrir stoðkerfiseinkenni þá er nú almennt viðurkennt í læknaheiminum að hér er um ákveðið heilkenni að ræða og eru þessar niðurstöður studdar af faraldsfræðilegum rannsóknum. Segja má að ef rétt er staðið að málum frá upphafi, þá eru horfur sjúklinga með vefjagigt góðar, en til þess þurfa að koma markviss og samhæfð vinnubrögð þeirra aðila sem starfa að greiningu og meðferð gigtarsjúklinga, svo sem lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa ofl.
Rannsóknir
Rannsóknir á vefjagigt fara nú fram í ýmsum löndum og verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðum þeirra á næstu árum. Í dag þekkjum við ekki nákvæmlega orsakir sjúkdómsins og það veldur einmitt erfiðleikum í meðferð hans.
Æfingar fyrir vefjagigtarsjúklinga:
- Ef ég greinist með vefjagigt, hvað get ég gert til að láta mér líða betur?
Eitt að því mikilvægasta sem þú sjálf(ur) getur gert er að stunda æfingar. Byrjaðu með teygjuæfingar og gerðu síðan mjög léttar æfingar t.d. að ganga eða hjóla. Byrjaðu æfingarnar hægt og rólega því í byrjun þeirra geta verkirnir orðið verri. Ekki er þó óeðlilegt að finna fyrir einhverjum vöðvaverkjum í byrjun æfinganna. Mjög sárir verkir geta hins vegar verið vísbending um að þú sért að ofgera vöðvunum
Eftir því sem þú styrkist meira með æfingum, þeim mun betur kemur líður þér. Til þess að æfingarnar geri sem mest gagn þarft þú að æfa reglulega. Markmiðið er að byrja og geta haldið áfram að æfa til að draga úr verkjum og bæta svefninn.
Gönguæfingar: Byrjaðu hægt með því að ganga í fimm mínútur firstadaginn. Bættu síðan við tveimur mínútum næsta dag við þessar fimm. Halt áfram að bæta við tveimur mínútum þar til þú ert komin(n) upp í 60 mín á dag. Þegar þú hefur náð þessum árangri haltu áfram að ganga a.m.k. í klukkutíma þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ef þér finnst mjög erfitt að ganga í heilan klukkutíma í senn styttu þá þá tímann þannig að þér líði aftur vel á göngunni og haltu þeirri tímalengd í nokkra daga. Bættu þá aftur við tveimur mín eins og áður þar til þú ert aftur komin(n) upp í eina klukkustund. Reyndu að þjálfa þig upp í að ganga í a.m.k. 60 mínútur þrisvar til fjórum sinnum í viku.
Ganga/skokk: Þegar þér finnst orðið þægilegt að ganga þrisvar til fjórum sinnum í viku þá getur þú byrjað að skokka hægt inn á milli. Þú getur t.d. gengið gengið 200 til 500m og skokkað hæægt aðra 500m og síðan koll af kolli. Þú getur lengt æfingarnar ef þær valda þér ekki miklum óþægindum.
Hjólreiðar: Oft er gott að geta gripið til æfingahjóls innandyra t.d. þegar veðrið er vont. Skrifaðu niður vegalengdir og tíma og settu þér það markmið að geta hjólað í a.m.k. 60 mínútur.
Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða æfingar þú velur. Aðalatriðið er að koma sér af stað og halda áfram að æfa. Mikilvægt er að velja æfingar eftir getu og áhuga. Sannað er, að æfingar draga úr verkjum með því að losa endorfin úr taugaendum. Þær bæta einnig svefninn og svefnmynstrið. Sumir losna alfarið við verki með æfingum. Mikilvægt er að finna að maður hefur einhverja stjórn á eigin líkama og heilsu. Regluleg líkamsþjálfun eykur þol og almenna vellíðan en bæta einnig sjálfsímyndina og sjálfstraustið!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)