Færsluflokkur: Dægurmál
13.10.2007
Vefjagigt - Fibromyalgia Syndrome
Hvað er til ráða?
Skilgreining
- Vefjagigt er heilkenni (syndrome, þ.e. samsafn sjúkdómseinkenna) sem einkennist af langvarandi útbreiddum verkjum frá stoðkerfi líkamans og aumum blettum á vissum stöðum.
- Ekki finnast nein merki um liðbólgur (synovitis) eða bólgur í vöðvum (myositis).
- Eðlileg læknisskoðun og eðlilegar niðurstöður blóðprófa og röngtenrannsókna.
- 80-90% þeirra sem veikjast eru konur á aldrinum 30-50 ára.
Óleyst gáta
Margir þjást af þrálátum einkennum frá stoðkerfinu án nokkurar sýnilegrar ástæðu. Erfitt hefur reynst að henda reiður á þessi einkenni og koma þeim saman undir eina sjúkdómsgreiningu. Segja má, að vefjagigtin sé ein af mörgum óleystum gátum læknisfræðinnar. Á undanförnum árum hafa menn veitt þessum sjúkdómi eða heilkenni aukinn áhuga. Orðið vefjagigt (í erlendum tímaritum ýmist kallað fibrósitis eða fibromyalgia) hefur verið notað yfir sérstakan gigtarsjúkdóm, sem einkennist af langvarandi dreifðum stoðkerfisverkjum og stirðleika ásamt fjölmörgum aumum blettum víða um líkamann. Ekki eru allir læknar þó sammála um að hér sé um að ræða sérstakan sjúkdóm og margt er enn óljóst varðandi orsakir hans. Vitað er að vefjagigt leggst oftast á konur á barnseignaraldri (80-90%). Hann kemur þó fyrir hjá báðum kynjum og í öllum aldurshópum og hann virðist algengari í sumum fjölskyldum en öðrum. Tíðni sjúkdómsins virðist vera mjög mismunandi. Rannsókn sem gerð var nýlega í Noregi leiddi í ljós að 10.5% kvenna á aldrinum 20 til 40 ára voru haldnar sjúkdómnum.
Orsakaþættir
Yfirleitt er um að ræða samtvinnaða orsakaþætti og ekki hægt að benda á neina einstaka orsök. Þó er vel þekkt að sjúkdómurinn getur byrjað t.d. í kjölfar sýkingar eða slyss. Einkenni vefjagigtar skarast oft við einkenni síþreytu. Athygli vekur, að um þriðjungur sjúklinga með HIV sýkingu hafa einkenni vefjagigtar. Sýkla- og veirulyf hafa þó að jafnaði engin áhrif á sjúkdóminn. Talið er að í flestum tilfellum megi rekja einkennin til langvarandi truflunar á nætursvefni, sem aftur getur haft margvíslegar frumorsakir. Flestir langvinnir gigtarsjúkdómar svo sem liðagigt valda verkjum og stirðleika og almennri þreytu og er vefjagigt stundum hluti af sjúkdómsmyndinni hjá t.d. liðagigtarsjúklingum. Læknar eru ekki á einu máli um hvað það er, sem orsakar hina aumu blettir, hvort það er almennt lækkaður sársaukaþröskuldur eða einungis staðbundin eymsli. Ljóst er þó, að almennt lélegt ástand vöðva (léleg súrefnisupptaka) gerir þá mun viðkvæmari fyrir öllu hnjaski en ella (microtrauma). Sjúklingar með vefjagigt eru að jafnaði ekki þunglyndari en aðrir á sama aldri. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að þeir séu taugaveiklaðir eða séu haldnir ímyndunarveiki. Ljóst er að mikið og langvinnt andlegt álag getur leyst sjúkdóminn úr læðingi og aukið á einkenni. Eins og öðrum langvinnum sjúkdómum fylgir honum stundum þunglyndi.
Rétt greining og fræðsla
Mikilvægt er að útiloka aðra sjúkdóma svo sem langvinna gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, sérstaklega skjaldkirtilssjúkdóma, langvinnar sýkingar (Lyme disease, AIDS ofl.) og jafnvel illkynja sjúkdóma. Fræðsla um sjúkdóminn er mjög mikilvæg. Oft er gagnlegt að sjúklingurinn hitti aðra sjúklinga með vefjagigt (t.d. í umræðuhópum), til að ræða sjúkdóminn og ýmis atriði sem tengjast honum.
Meðferð
Ekki er hægt að segja fyrirfram hvaða meðferð kemur að bestu gagni. Meðferðin er einstaklingsbundin og þarf oft að þreifa sig áfram með hvað hentar hverjum og einum best. Mikilvægt er að reyna að komast að orsökum einkennanna, til dæmis ef þau stafa af slæmum lífsvenjum. Athuga þarf atriði svo sem reykingar, óhóflega áfengis- og kaffidrykkju, of mikið vinnuálag og langar vökur. Oft þarf að bæta samskiptin innan fjölskyldunnar.
Meginmarkmið meðferðar
- Að minnka verki með verkjalyfjum t.d. með parkódíni eða kódimagnýli sem bæði eru mið- og útverkandi (e:periferal and central analgesia).
- Að bæta svefnmynstrið,t.d. með lyfjum svo sem amitriptylini.
- Að draga úr geðsveiflum og minnka andlegt álag t.d. með reglulegri slökun.
- Að auka blóðflæði til vöðva og mjúkvefja með líkamsæfingum.
- Að auka líkamlegt þol.
Lyfjameðferð
Yfirleitt kemur lyfjameðferð t.d. með bólgueyðandi lyfjum að litlu gagni, en rétt er að reyna meðferð með verkjalyfjum og jafnvel stuttverkandi svefnlyfjum ef verkir og svefntruflanir eru mjög áberandi í sjúkdómsmyndinni. Í vissum tilfellum kemur að gagni að sprauta bólgueyðandi og jafnvel deyfandi lyfjum í blettina. Stundum reynist vel að nota ákveðin geðdeyfðarlyf í stuttan tíma t.d. amytriptilinum. Ekki er ástæða til öfgakenndra breytinga á mataræði, en sjálfsagt er að bæta slæmar matarvenjur og mörgum líður betur við að breyta yfir í léttara fæði. Yfirleitt þarf að nota saman líkamsæfingar og slökun. Margir hafa gott af nuddi og hitameðferð á auma bletti og ef um útbreiddar vöðvabólgur er að ræða.
Líkamlegt þrek
Eitt aðalatriðið í meðferð sjúklinga með vefjagigt er að auka almennt líkamlegt þrek þeirra. Oft er um að ræða einstaklinga, sem hafa mjög lítið líkamlegt þrek og eru mjög úthaldslausir. Ekki er ólíklegt að einmitt lélegt líkamlegt þrek stuðli að því að menn fái frekar vefjagigt. Hafa ber þó í huga að of mikil áreynsla, sérstaklega í byrjun meðferðar getur aukið einkenni sjúklinganna, sem virðast þola líkamlega áreynslu misvel. Sjúklingurinn sjálfur getur gert ýmislegt til að bæta líðan sína t.d. með reglulegum gönguferðum, sundi og jafnvel léttri leikfimi. Í flestum tilfellum er ekki ástæða til að hann hætti að vinna. Þótt margir telji vefjagigt vera einkonar ruslakistu fyrir stoðkerfiseinkenni þá er nú almennt viðurkennt í læknaheiminum að hér er um ákveðið heilkenni að ræða og eru þessar niðurstöður studdar af faraldsfræðilegum rannsóknum. Segja má að ef rétt er staðið að málum frá upphafi, þá eru horfur sjúklinga með vefjagigt góðar, en til þess þurfa að koma markviss og samhæfð vinnubrögð þeirra aðila sem starfa að greiningu og meðferð gigtarsjúklinga, svo sem lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa ofl.
Rannsóknir
Rannsóknir á vefjagigt fara nú fram í ýmsum löndum og verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðum þeirra á næstu árum. Í dag þekkjum við ekki nákvæmlega orsakir sjúkdómsins og það veldur einmitt erfiðleikum í meðferð hans.
Æfingar fyrir vefjagigtarsjúklinga:
- Ef ég greinist með vefjagigt, hvað get ég gert til að láta mér líða betur?
Eitt að því mikilvægasta sem þú sjálf(ur) getur gert er að stunda æfingar. Byrjaðu með teygjuæfingar og gerðu síðan mjög léttar æfingar t.d. að ganga eða hjóla. Byrjaðu æfingarnar hægt og rólega því í byrjun þeirra geta verkirnir orðið verri. Ekki er þó óeðlilegt að finna fyrir einhverjum vöðvaverkjum í byrjun æfinganna. Mjög sárir verkir geta hins vegar verið vísbending um að þú sért að ofgera vöðvunum
Eftir því sem þú styrkist meira með æfingum, þeim mun betur kemur líður þér. Til þess að æfingarnar geri sem mest gagn þarft þú að æfa reglulega. Markmiðið er að byrja og geta haldið áfram að æfa til að draga úr verkjum og bæta svefninn.
Gönguæfingar: Byrjaðu hægt með því að ganga í fimm mínútur firstadaginn. Bættu síðan við tveimur mínútum næsta dag við þessar fimm. Halt áfram að bæta við tveimur mínútum þar til þú ert komin(n) upp í 60 mín á dag. Þegar þú hefur náð þessum árangri haltu áfram að ganga a.m.k. í klukkutíma þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ef þér finnst mjög erfitt að ganga í heilan klukkutíma í senn styttu þá þá tímann þannig að þér líði aftur vel á göngunni og haltu þeirri tímalengd í nokkra daga. Bættu þá aftur við tveimur mín eins og áður þar til þú ert aftur komin(n) upp í eina klukkustund. Reyndu að þjálfa þig upp í að ganga í a.m.k. 60 mínútur þrisvar til fjórum sinnum í viku.
Ganga/skokk: Þegar þér finnst orðið þægilegt að ganga þrisvar til fjórum sinnum í viku þá getur þú byrjað að skokka hægt inn á milli. Þú getur t.d. gengið gengið 200 til 500m og skokkað hæægt aðra 500m og síðan koll af kolli. Þú getur lengt æfingarnar ef þær valda þér ekki miklum óþægindum.
Hjólreiðar: Oft er gott að geta gripið til æfingahjóls innandyra t.d. þegar veðrið er vont. Skrifaðu niður vegalengdir og tíma og settu þér það markmið að geta hjólað í a.m.k. 60 mínútur.
Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða æfingar þú velur. Aðalatriðið er að koma sér af stað og halda áfram að æfa. Mikilvægt er að velja æfingar eftir getu og áhuga. Sannað er, að æfingar draga úr verkjum með því að losa endorfin úr taugaendum. Þær bæta einnig svefninn og svefnmynstrið. Sumir losna alfarið við verki með æfingum. Mikilvægt er að finna að maður hefur einhverja stjórn á eigin líkama og heilsu. Regluleg líkamsþjálfun eykur þol og almenna vellíðan en bæta einnig sjálfsímyndina og sjálfstraustið!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2007
Höfuðverkur -Veldur hver á heldur?
Geta lyf, sem tekin eru við höfuðverk valdið enn meiri höfuðverk? Já, það gera þau skv. bandaríska taugalækninum Stepen D Silberstein, sem manna mest hefur rannsakað þrálátan höfuðverk. Um 4% Bandaríkjamanna búa við daglega höfuðverki og má búast við svipaðri tíðni hér á landi.
Menn hafa lengi talið að meginþorra höfuðverkja megi rekja til sjúkdóma í tönnum, andlegrar spennu, vöðvabólgu og erfðaþátta. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós, að um 50% langvinns migrenis og um 25% allra höfuðverkja eru í raun eins konar timburmenn eftir verkjalyfjanotkun. Menn taka verkjalyf við höfuðverk og vakan síðan upp við enn meiri höfuðverk og þá skapast vítahringur meiri verkja og aukinnar verkjalyfjanotkunar. Þeir sem eru með migrene eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þessu.
Helstu hættumerki og mikillar verkjalyfjanotkunar eru:
1) Tíður höðurverkur (í meira en 15 daga í hverjum mánuði), og sem fara versnandi.
2) Mikil verkjalyfjanotkun í a.m.k. 3 mánuði.
3) Ofnotkun verkjalyfja er skilgreind sem notkun þeirra í 15 daga eða oftar í hverjum mánuði þ.e. að jafnaði annan hvern dag eða oftar.
Eina raunhæfa leiðin til að komast að því, hvort það eru verkjalyf, sem valda höfuðverknum er að hætta að taka þau og athuga hvað gerist.
Bara timburmenn?
Oft getur það verið höfuðverkur að greina orsakirnar.
Painkiller headache
Silberstein and Welch
Neurology.2002; 59: 972-974
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007
Eituráhrif kvikasilfurs
Mikið magn kvikasilfurs í urriða í Þingvallavatni
Urriði - Salmo Trutta
Mikið magn kvikasilfurs mældist nýlega í stórum urriða í Þingvallavatni. Urriðinn, sem er ránfiskur er mjög ofarlega í fæðukeðju vatnsins og því útsettur fyrir þeim eiturefnum, sem gjarnan safnast fyrir í fituvef fiska. Ekki er fulljóst, hvers vegna mikið magn kvikasilfurs er í Þingvallavatni en hugsanleg skýring er sú, að frárennsli Nesjavallavirkjunar sé um að kenna en það ku innihalda kvikasilfur og e.t.v. fleiri þungmálma og eiturefni.
Af einhverjum orsökum hefur frárennsli virkjunarinnar verð beint í Þingvallavatn líklega vegna þess að vatnið er þarna og það er þægilegt.
Kvikasilfur er frumefni (Hg) og í náttúrunni kemur það einkum fyrir sem steintegundin sinnóber (HgS kvikasilfurssúlfíð, e. cinnabar).
Kvikasilfur er eitur. Kvikasilfur er ekki bara eitrað, það er baneitrað. Bannvænn skammtur kvikasilfursalts er um 1 g. Kvikasilfurmálmurinn sem slíkur er ekki eitraður þó hann sé gleyptur þar sem hann frásogast ekki úr meltingarvegi.
Kvikasilfur er í raun vökvi en telst til þungmálma. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, sbr. eituráhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.
Það kvikasilfur, sem finnst í náttúrunni er að miklu leyti bundið seti, og lífrænum ögnum sem salt og því ekki aðgengilegt æðri lífverum. Örverur geta hins vegar breytt bundnu kvikasilfri í metýl-kvikasilfur, sem er baneitrað og lægri lífverur eiga auðvelt með að taka upp. Vegna rokgirni kvikasilfurs berst það auðveldlega langar vegalengdir í andrúmslofti. Þetta hefur valdið því, að mikið magn kvikasilfurs hefur fundist fjarri uppsprettum þess. Almennt hefur verið talið varasamt að magn kvikasilfurssambanda (methyl mercury) sé meiri en 0,5mg/kg og að neysla kvikasilfurs megi ekki fara yfir 0,5mg/viku. Lægri gildi eru fyrir barnshafandi konur. Kvikasilfrið hamlar starfsemi efnahvata í frumum líkamans með því að bindast sulfhydryl hópum (-SH) í frumunum. Þetta veldur því, að kvikasilfur er eitrað öllum frumum líkamans.
Helstu eituráhrif kvikasilfurs eru:
1) Bráð eituráhrif kvikasilfurs:
a) Eftir neyslu kvikasilfurssalta: Málmbragð, kviðverkir, blóðugur niðurgangur jafnvel í nokkrar vikur. Minnkaður þvagútskilnaður. Nýrnabilun, sem veldur dauða.
b) Eftir innöndun kvikasilfurgufu: Bólgur í munnslímhúð, aukin munnvatnsframleiðsla, málmbragð, niðurgangur, lungnabólga, nýrnaskemmdir, svimi, klaufska, taltruflanir og banvænir krampar.
c) Aklylsambönd kvikasilfurs safnast fyrir í miðtaugakerfinu og valda truflun á samhæfingu hreyfinga (ataxia), rykkjasótt (chorea), og krömpum. Yfirleitt er um að ræða varanlegar skemmdir á miðtaugakerfinu.
2) Langvinn eituráhrif kvikasilfurs:
a) Ofsakláði (urticaria), húðeksem, bólgur í slímhúðum, aukin munnvatnsframleiðsla, niðurgangur, blóðleysi, fækkun hvítra blóðkorna, lifrarskemmdir og nýrnabilun. Hárlos. Einnig truflanir á andlegri starfsemi, ekki síst hjá börnum.
Frægt dæmi um kvikasilfureitrun er frá Japan er íbúar Minamata veiktust eftir að hafa borðað kvikasilfursmengaðan fisk. Nú ættu yfirvöld skilyrðislaust að rannsaka nánar lífríki Þingvallavatns og afla upplýsinga um áhrif Nesjavallavirkjunar. Menn ættu ekki að borða stóran urriða úr vatninu. Spurning vaknar, hvort hin hreina orka er eins hrein og haldið er fram?
Heimildir:
Mbl. 6. október 2007
Vefur Umhverfisstofnunar
Wikipedia.org
Vísindavefurinn
eMedicine.com
Robert H. Dreisbach
Handbook of Poisoning - Lange
Markabókin.
Innst í réttinni
vindurinn feykir blöðum;
Sjö auðum síðum.
Dægurmál | Breytt 11.10.2007 kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.10.2007
Þegar hitnar í kolunum
Önnur möguleg áhrif hýnunar jarðar á heilsufar:
* Aukin tíðni smitsjúkdóma, sem berast með skordýrum svo sem malaríu, dengue fever, heilabólgu, Lyme sjúkdóms o.fl. Hætta er á aukinni útbreiðslu moskítóflugunnar.
* Búast má við aukinni tíðni sjúkdóma af völdum sníkjudýra og vegna sýktra matvæla t.d. kóleru.
* Aukning á tíðni slysa af völdum náttúruhamfara svo sem fellibylja og flóða.
* Vannæring og vatnsskortur (menn muna væntanlega hvernig ástandið var í New Orleans eftir fellibylinn Katrínu haustið 2005). Aðrar raskanir á vistkerfinu. Nú er rauðátan t.d horfin.
* Ófyrirséðar afleiðingar aukinna fólksflutininga og fólksfjölgunar á ákveðnum svæðum.
Hugsanlegt er, að Ísland verði eftirsótt til búsetu með hækkandi hitastigi. Hvað geta Íslendingar gert? Aðal atriðið er að gera sér grein fyrir því að breytingarnar eru óumflýanlegar. Vísindaheimurinn virðist almennt sammála um það, að maðurinn hafi orsakað hlýnun jarðar. Ekki skal ég dæma um það en eins og allir vita, hafa skipst á hita- og kuldaskeið á jörðinni. Hér er gert ráð fyrir, að vísindamennirnir hafi rétt fyrir sér. Það gæti reynst fara á annan veg.
Hlýnun jarðar er hins vegar staðreynd og líkega er of seint að snúa þeirri þróun við. Það eina sem vit er í, er að gera sér grein fyrir þeim breytingum, sem í vændum eru og undirbúa sig vel fyrir komandi röskun á umhverfi og heilsufari. Aukin fræðsla til almennings er liður í því.
Jákvæðar afleiðngar hlýnunar jarðar væru efni í aðra grein. E.t.v. er hér útrásartækifæri fyrir okkur eða einhver svöl viðskiptatækifæri?
Fimm ára í dag
Fer út í skóginn
að skoða haustlitina.
Brakar í laufi.
Hef fimm ára bonsai
tré á borðinu mínu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007
Hvað býr í þér Óli minn?
Fyrir langa löngu fór æskuvinur minn í skóla erlendis. Þetta var í fjarlægu landi, þar sem foreldrar hans stunduðu nám um tíma. Ég fékk frá honum bréf, sem var nokkrar vikur að berast mér í sjópósti. Fyrsti dagurinn í skólanum kom honum mjög á óvart. Skólinn var nefnilega allt öðru vísi en hann átti að venjast. Kennarinn tók honum opnum örmum og bauð honum inn í skólastofuna. Þar biðu væntanlegir bekkjarfélagar hans og Óli tók eftir, að andlit þeirra ljómuðu af gleði og eftirvæntingu. Óli kynnti sig og kennarinn spurði hann spjörunum úr um Ísland, krökkunum til mikillar ánægju. Óli hefur nú alltaf verið fremur málglaður og hafði bara gaman af þessari óvæntu athygli. Hann vissi þó að brátt myndi hann falla inn í hópinn og athyglin minnka. Það fór þó á annan veg. Kennarinn og krakkarnir héldu áfram að spyrja hann um allt það sem þeim datt í hug. Svona hélt þetta áfram í nokkra daga. Óla fannst hann vera kominn í Forvitnaland. Hann var orðinn þreyttur á þessu umstangi og vildi fara að læra eitthvað, öfugt við það sem hann var vanur á Íslandi. Hann spurði kennarann um námsefnið. "Námsefnið? Jú, námsefnið það erum við!" svaraði kennarinn að bragði. "En ert þú ekki kennarinn?", spurði Óli forviða. "Við erum öll nemendur, Óli minn, og stundum erum við kennarar. Nú er komið að þér að kenna okkur hinum. Við viljum vita allt um þig og þína hæfileika. Við viljum vita, hvað í þér býr, hvaða eiginleika þína á að rækta, hvað þú getur gefið og miðlað okkur hinum".
Þetta fannst Óla vera skrýtinn skóli. Smám saman varð hann einn af hópnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2007
Síðasta lag fyrir fréttir
Ég hef ávallt borið mikla virðingu fyrir sérvitringum, sérstaklega þeim skemmtilegu. Sérviskan getur birst í ýmsum myndum. Safnararnir eru alveg sér á parti. Ég held að söfnunaráráttan sé rík í eðli okkar flestra, að safna forða og geyma til hörðu áranna. Þessi árátta kemur fram á margvíslegan hátt og menn geta safnað hinum ótrúlegustu hlutum. Fyrir skömmu var viðtal í Fréttablaðinu við konu, sem safnað hefur fílum í 29 ár! Hún á 300 fíla og þann dýrasta keypti hún með afborgunum. Hún kallar sig "Fílakonuna í fílahúsinu". Túrhestar og krakkar fíla þetta víst í botn og staldra oft við gluggann hennar í miðbænum til að skoða safnið. Fyrir nokkrum árum var viðtal í sjónvarpinu við afar sérvitra bræður uppi í sveit, sem söfnuðu veðurfréttum! Gott ef það var ekki Ómar formaður, sem tók viðtalið við þá. Þeir skiptust á að vakna á nóttunni til að kveikja á segulbandinu til að missa ekki af veðurfréttunum kl. 04:30. Myndavélin sýndi okkur ótrúlegt safn af segulbandskasettum, sem allar geymdu upptökur af veðurfréttum síðustu áratuga. Þær fylltu heilt herbergi. Ekki veit ég hvort þeir eru enn að. Minnir að þeir hafi búið einhvers staðar í Borgarfirðinum. Það gæti verið áhugavert að taka sér frí í eina viku og hlusta hjá þeim á veðurfréttir t.d. frá árinu 1965. Maður yrði allavega vel veðraður eftir þá hlustun. Gæti verið góð afslöppun eða ný hugleiðsluaðferð. Í minningunni var alltaf sólskin og gott veður það ár.
Nokkrir vinir mínir hafa nú stofnað klúbb, sem safnar "Síðasta laginu fyrir fréttir", S.Á.S.L.F.F. - Samtök áhugamanna um síðasta lag fyrir fréttir. Markmið félagsins er að afla allra tiltækra upplýsinga um þessi lög en einnig að semja lag, sem síðar verði leikið í hádeginu einhvern daginn sem síðasta lag fyrir fréttir. Þetta er heilmikil vinna sem fer í þetta hjá þeim og minnir mest á undirbúning Evróvisíon. Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað þennan sið varðar en þeir sem hafa búið í Búlgaríu segja mér að þetta hafi tíðkast þar í landi á stríðsárunum. Klúbburinn á nú í safni sínu nánast öll þau lög, sem leikin hafa verið fyrir hádegisfréttir síðustu árin og hafa gert nákvæma úttekt á ýmsum smáatriðum í þessu sambandi svo sem höfundum laganna, kyni, aldri, flytjanda, texta, innihaldi texta, hve oft flutt o.s.frv. Mörg lögin í safni félagsins hljóma mjög kunnuglega. Umræðuefnin í klúbbnum eru þó femur einhæf verð ég að segja. Þó hafa ýmsar góðar hugmyndir komið fram. t.d. að "thema" lagsins eigi ávallt að tengjast á einhver hátt aðalfrétt dagsins. Næst þegar gos hefst í Heklu þá verði t.d. spilað lagið "Þú stóðst á tindi Heklu hám" með Elísabetu Einarsdóttur og þegar utanríkisráðherra fer næst til Ísrael þá mætti spila "Í fjarlægð" með Erlingi Ólafssyni. Þegar skipt er um ráðherra á að sjálfsögðu að spila á undan fréttinni lagið "Kveðjustund" (Auf Wiedersehen), sem Alfreð Clausen söng inn á plötu með undirleik Björns. R. Einarssonar árið 1952 og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf út. Auðvitað á að spila "Söng villiandarinnar" með Jakobi Hafstein á undan öllum fréttum, sem tengjast skotveiði og fuglalífi. Þegar vinkona okkar, Paris Hilton losnar úr fangelsinu mætti leika "Ég er frjáls" með Facon og Jóni Kr. Ólafssyni stórsöngvara frá Bíldudal. Platan var gefin út á 45 snúninga vínilplötu af SG-Hljómplötum árið 1969. (Jón Kr. er sjálfur mikill safnari og hefur opnað tónlistarsafn á Bíldudal, sem heitir "Melódíur minninganna".)
Svona má lengi telja. Öllum er frjálst að ganga í félagið.
Því miður fer svona ástríðusöfnurum og sérvitringum fækkandi. E.t.v. er það vegna aukinnar geðlyfjanotkunar landans, hver veit?
"Keep it simple"
B.B.King
Dægurmál | Breytt 14.6.2007 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.6.2007
Fuglaskoðun á Djúpavogi
Hótel Framtíð, Djúpavogi
Það var kærkomin hvíld að hverfa smá stund frá bókunum og skreppa austur á Djúpavog í nokkra daga. Í förinni var gamall vinur, Dr. Peter Hudlestone prófessor í jarðfræði við Minnesotaháskóla og Íslandsvinur. Hann er mikill fuglaáhugamaður og mjög fróður um alla fugla og lifnaðarhætti þeirra. Einnig er hann hafsjór af fróðleik um jarðfræði og ákaflega skemmtilegur maður. Það er frábært að ferðast með honum, raunar hvar sem er í heiminum. Ekki er verra, að hann var skólafélagi Noel Reddng bassaleikara Jimi Hendrix á uppvaxtarárum sínum á Englandi. Noel var víst fremur hlédrægur unglingur.
Heimamenn á Djúpavogi hafa undir forystu Þóris Stefánssonar hótelhaldara á Hótel Framtíð ásamt Kristjáni Ingimarssyni og fleirum hafa komið upp frábærri aðstöðu til fuglaskoðunar þar á staðnum. Hótel Framtíð er mjög fallegt og þægilegt hótel.
Djúpivogur er mjög áhugaverður staður fyrir áhugafólk um fugla og fuglaskoðun. Þar er mikil náttúrufegurð, eins og víða á Austfjörðum og þar er óvenju gott aðgengi að óspilltri náttúru þar sem hægt er að sjá flestar íslenskar fuglategundir í sínu náttúrulega umhverfi, án þess að þurfa að leggja á sig mikið erfiði. Nokkur svæði í hreppnum hafa alþjóðlega þýðingu og hafa verið vernduð.
Fuglalíf í Djúpavogi og nágrenni er mjög fjölbreytt. Milljónir farfugla koma í hópum til Austurlands á ári hverju en margar tegundir eru þar staðfuglar. Í Djúpavogi og nágrenni er að finna fjölmargar andartegundir og heiðarfugla, gæsir, álftir, sjávarfugla og vaðfugla. En sú fuglategund sem laðar að sér flesta ferðamenn á Íslandi er án efa Lundinn og er hann einnig að finna á Austurlandi t.d. í Papey en stutt er út í Papey frá Djúpavogi. Þær fuglategundir, sem eru hvað algengastar við strendurnar eru Teista, Álka, Lundi, Rita, Fýll og Hafsúla. Á Austurlandi er að finna fleiri ákjósanlega staði til fuglaskoðunar t.d. Hafnarhóma í Borgarfirði Eystri þar sem hægt er að komst mjög nálægt Lundanum.og fylgjast með hreiðurgerð hans. Hólmanes í Reyðarfirði, Skrúður við Fáskrúðsfjörð, Papey við Djúpavog, Friðland í óslandi Hornafirði og margir aðrir staðir eru frábærir fyrir þá sem hafa áhuga á fuglaskoðun.
Prof. Peter Hudlestone og Kristján Ingimarsson
Jarðfræðin á Austfjörðum er ekki síður áhugaverð en fuglalífið!
Ingimar Sveinsson kennari við flikrubergið í Berufirði (ignimbrite)
Á fuglaslóðum í Djúpavogi sáum við m.a. Stokkönd, Brandönd, Skúfönd, Urtönd, Skeiðönd, Rauðhöfðaönd, Duggönd, Toppönd, Grafönd, Æðarfugl, Flórgoða, Álft, Grágæs, Hrossagauk, Lóm, Jaðrakan, Stelk, Lóuþræl, Heiðlóu, Óðinshana, Hettumáf, Spóa, Kríu, Hrafn, Svartbak, Maríuerlu og Langvíu. Einhverja fleir fugla sáum við, sem ég man ekki nöfnin á. Á leiðinn sáum við Svölu (þ.e. fuglinn) en það var í Skaftafelli.
Ingimar Sveinsson búfræðingur, bóndi og kennari, sem verður áttræður á þessu ári slóst með í förina til Stöðvarfjarðar. Við nutum góðrar leiðsagnar hans á leiðinni og fengum okkur hressingu á Kaffi Margareta í Breiðdalsvík, þar sem þýskar konur reka stórglæsilegt kaffihús í þýskum stíl.
Hann man tímana tvenna hann Ingimar og kann margar góðar sögur úr sveitinni af fólkinu og náttúrunni. Við þökkum honum kærlega fyrir samfylgdina og fræðsluna. Það var verst, að missa af Hammondhátíðinni Á Djúpavogi, sem halda átti helgina eftir. Eða eins og Ingimar Sveinsson sagði: "Hann er víst snillingur á Hammondið þessi Davíð Þór!". "Og Bjöggi Gísla er alveg frábær á gítarinn!". Hann fylgist vel með sá gamli.
Viðbót þ. 5. júní 2007:
Skv. fuglavefnum Birds.is sást Grálóa á Djúpavogi fyrir nokkrum dögum en hún er mjög sjaldgæfur fugl á Íslandi.
"Keep it simple"
B.B.King
Dægurmál | Breytt 5.6.2007 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.5.2007
Lagerinn - Að vinna á lager
Nú eru þeir víst farnir að brugga fyrir norðan. Sum störf í þjóðfélaginu eru vanmetin. Gæði vinnunnar verða ekki metin af kaupinu eingöngu. Huga verður að fleiri atriðum. Best er að vinna í góðri prentsmiðju. Næst best er að vinna á lager. Góður lager er góður lager. Maður hlakkar til að mæta þar til vinnu að morgni. Fá sér kaffi, spjalla saman. Gera grín. Hefjast handa, svara í símann og taka til pantanir. Fylla út pappíra. Keyra út vörur, sækja vörur. Meiri pappír, fleiri vörur. Meiri vinna. Taka upp vörur, opna pakka, pakka inn, loka pökkum. Senda pakka. Fara í fyrirtæki og stofnanir. Spjalla við viðskiptavini. Svara í síma. Raða vörum í hillur. Telja vörur. Spjalla saman. Hlusta á tónlist, hlusta á fréttir. Kaffi, matur, meira kaffi. Horfa á hillur, horfa á pakka. Horfa á stelpur. Hugsa. Þetta getur tekið allan daginn. Svo er dagurinn búinn og menn halda heim. Sumir með trega. Hvað skilja menn eftir? Tóman lager? Betri lager?
"Keep it simple"
B.B.King
Dægurmál | Breytt 23.5.2007 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ástæður örorku eru taldar vera margvíslega en atvinnuleysi hafði aukist umtalsvert frá 2002 til 2004, og tíðni örorku með, en á árinu 2005 dró úr atvinnuleysi og þá hægði einnig á fjölgun öryrkja. Aðrir þættir sem taldir eru stuðla að fjölgun öryrkja er hækkun meðalaldurs og auknar kröfur á vinnumarkaði. Athygli vekur, að meðal þeirra kvenna sem eru á örorku hjá T.R., eru 35,1% þeirra á örorku vegna stoðkerfisraskanir en 17,3% karla.
Almennt má segja að stoðkerfisraskanir þ.m.t. gigtarsjúkdómar eru mun algengari hjá konum en körlum. Einn algengasti gigtarsjúkdómurinn, sem orsakar örorku hjá ungum konum er svokölluð vefjagigt eða fibromyalgia syndrome. Nýleg rannsókn, sem gerð var á um 35.000 opinberum starfsmönnum í Finnlandi á aldrinum 17 til 65 ára leiddi í ljós, að 644 þeirra voru með sjúkdóminn vefjagigt. Þessir vefjagigtarsjúklingar misstu samtals yfir 20.000 daga úr vinnu vegna einkenna sem rekja mátti til sjúkdómsins á tímabilinu 2000 til 2002. Tvöfalt meiri líkur eru á því að vefjagigtarsjúklingur missi úr vinnu vegna veikinda en einstaklingar sem ekki eru með vefjagigt. Líkurnar á veikindaleyfi hjá vefjagigtarsjúklingum eru jafnvel hærri en hjá einstaklingum með aðra langvinna sjúkdóma svo sem slitgigt eða þunglyndi. Hér er því um að ræða marktækan áhættuþátt fyrir óvinnufærni og örorku. Vefjagigt er í raun heilkenni (syndrome) þ.e. samsafn sjúkdómseinkenna, sem einkennist af langvarandi útbreiddum verkjum frá stoðkerfi líkamans, almennri þreytu og stirðleika og aumum blettum á dæmigerðum stöðum fyrir sjúkdóminn. Ekki finnast nein merki um liðbólgur (synovitis) eða bólgur í vöðvum (myositis). Læknisskoðun og yfirleitt eðlileg (f.u. auma bletti) svo og niðurstöður blóðprófa og röntgenrannsókna. Um 80-90% þeirra sem veikjast eru konur á aldrinum 30-50 ára. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á óvinnufærni fólks á vinnumarkaði vegna vefjagigtar hér á landi og er það því tímabært. Skv. rannsókn Sigurðar Thorlacius, Sigurjóns Stefánssonar, Mohammed I. Ranavaya og Robert Walker reyndist algengi örorku hjá T.R. vegna vefjagigtar vera 11,4% hjá konum og 1,2% hjá körlum.
Eins og bent hefur verið á, eru úrræði til starfsendurhæfingar og virkniaukandi aðgerða fyrir jaðarhópa á vinnumarkaði færri hér á landi en í grannríkjunum. Ein meginforsenda fyrir lækningu og endurhæfingu vegna sjúkdóma er skjót sjúkdómsgreining og rétt meðferð. Mjög mikilvægt er því, að þeir sem veikjast hafi greiðan og óheftan aðgang að sérfræðingum í viðkomandi sérgreinum læknisfræðinnar. Þetta á jafnt við geðraskanir sem stoðkerfisvandamál sem og aðra alvarlega og ekki síst langvinna sjúkdóma. Það er því mjög mikilvægt að stjórn heilbrigðiskerfisins sé á höndum þeirra fagaðila, sem hafa sem besta yfirsýn yfir þau heilbrigðisvandamál, sem við er að glíma hverju sinni og hafa á þeim sérþekkingu og reynslu í lausn þeirra. Vara ber við þeim hættum, sem skapast geta af aukinni miðstýringu heilbrigðismála og skyndilausnum. Markvisst er nú reynt að draga úr áhrifum fagstétta í heilbrigðiskerfinu og er það miður. Skammsýni og skortur á yfirsýn er einkennandi í stjórnkerfinu. Stórauka þarf rannsóknir á orsökum örorku vegna geð- og stoðkerfisraskana. Stoðkerfisvandamál fara ört vaxandi hér á landi og benda nýlegar rannsóknir til þess að vefjagigt sé algeng örsök óvinnufærni og örorku. Skjótra og raunhæfra aðgerða er því þörf í þessum málum, ef ekki á að stefna í óefni.
Greinin birtist í Mbl. Þ 18. janúar 2007. Hér birt aftur lítillega breytt.
Heimildir:
1) Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S. Algengi örorku á Íslandi þ. 1. desember 2005. Læknablaðið 1.tbl. 93 árg. 2007;11-14
2) M. Kivimäki et al. Increased absence due to sickness among employees with fibromyalgia. Ann Rheum Dis 2007; 66:65-69.
3) Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Mohammed I. Ranavaya, Robert Walker. Vefjagigt og kvíðaröskun. Læknablaðið 2002; 88: 815-818.
4) Thorlacius S, Ranavaya MI, Stefánsson SB, Walker R. Classifying Fibromyalgia: Taxonomic lessons from the Icelandic disability registry.Disability Medicine 2002; 2: 39-44.
Dægurmál | Breytt 21.1.2007 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)