Færsluflokkur: Dægurmál
8.5.2007
Lagerinn - Að vinna á lager
Nú eru þeir víst farnir að brugga fyrir norðan. Sum störf í þjóðfélaginu eru vanmetin. Gæði vinnunnar verða ekki metin af kaupinu eingöngu. Huga verður að fleiri atriðum. Best er að vinna í góðri prentsmiðju. Næst best er að vinna á lager. Góður lager er góður lager. Maður hlakkar til að mæta þar til vinnu að morgni. Fá sér kaffi, spjalla saman. Gera grín. Hefjast handa, svara í símann og taka til pantanir. Fylla út pappíra. Keyra út vörur, sækja vörur. Meiri pappír, fleiri vörur. Meiri vinna. Taka upp vörur, opna pakka, pakka inn, loka pökkum. Senda pakka. Fara í fyrirtæki og stofnanir. Spjalla við viðskiptavini. Svara í síma. Raða vörum í hillur. Telja vörur. Spjalla saman. Hlusta á tónlist, hlusta á fréttir. Kaffi, matur, meira kaffi. Horfa á hillur, horfa á pakka. Horfa á stelpur. Hugsa. Þetta getur tekið allan daginn. Svo er dagurinn búinn og menn halda heim. Sumir með trega. Hvað skilja menn eftir? Tóman lager? Betri lager?
"Keep it simple"
B.B.King
Dægurmál | Breytt 23.5.2007 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ástæður örorku eru taldar vera margvíslega en atvinnuleysi hafði aukist umtalsvert frá 2002 til 2004, og tíðni örorku með, en á árinu 2005 dró úr atvinnuleysi og þá hægði einnig á fjölgun öryrkja. Aðrir þættir sem taldir eru stuðla að fjölgun öryrkja er hækkun meðalaldurs og auknar kröfur á vinnumarkaði. Athygli vekur, að meðal þeirra kvenna sem eru á örorku hjá T.R., eru 35,1% þeirra á örorku vegna stoðkerfisraskanir en 17,3% karla.
Almennt má segja að stoðkerfisraskanir þ.m.t. gigtarsjúkdómar eru mun algengari hjá konum en körlum. Einn algengasti gigtarsjúkdómurinn, sem orsakar örorku hjá ungum konum er svokölluð vefjagigt eða fibromyalgia syndrome. Nýleg rannsókn, sem gerð var á um 35.000 opinberum starfsmönnum í Finnlandi á aldrinum 17 til 65 ára leiddi í ljós, að 644 þeirra voru með sjúkdóminn vefjagigt. Þessir vefjagigtarsjúklingar misstu samtals yfir 20.000 daga úr vinnu vegna einkenna sem rekja mátti til sjúkdómsins á tímabilinu 2000 til 2002. Tvöfalt meiri líkur eru á því að vefjagigtarsjúklingur missi úr vinnu vegna veikinda en einstaklingar sem ekki eru með vefjagigt. Líkurnar á veikindaleyfi hjá vefjagigtarsjúklingum eru jafnvel hærri en hjá einstaklingum með aðra langvinna sjúkdóma svo sem slitgigt eða þunglyndi. Hér er því um að ræða marktækan áhættuþátt fyrir óvinnufærni og örorku. Vefjagigt er í raun heilkenni (syndrome) þ.e. samsafn sjúkdómseinkenna, sem einkennist af langvarandi útbreiddum verkjum frá stoðkerfi líkamans, almennri þreytu og stirðleika og aumum blettum á dæmigerðum stöðum fyrir sjúkdóminn. Ekki finnast nein merki um liðbólgur (synovitis) eða bólgur í vöðvum (myositis). Læknisskoðun og yfirleitt eðlileg (f.u. auma bletti) svo og niðurstöður blóðprófa og röntgenrannsókna. Um 80-90% þeirra sem veikjast eru konur á aldrinum 30-50 ára. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á óvinnufærni fólks á vinnumarkaði vegna vefjagigtar hér á landi og er það því tímabært. Skv. rannsókn Sigurðar Thorlacius, Sigurjóns Stefánssonar, Mohammed I. Ranavaya og Robert Walker reyndist algengi örorku hjá T.R. vegna vefjagigtar vera 11,4% hjá konum og 1,2% hjá körlum.
Eins og bent hefur verið á, eru úrræði til starfsendurhæfingar og virkniaukandi aðgerða fyrir jaðarhópa á vinnumarkaði færri hér á landi en í grannríkjunum. Ein meginforsenda fyrir lækningu og endurhæfingu vegna sjúkdóma er skjót sjúkdómsgreining og rétt meðferð. Mjög mikilvægt er því, að þeir sem veikjast hafi greiðan og óheftan aðgang að sérfræðingum í viðkomandi sérgreinum læknisfræðinnar. Þetta á jafnt við geðraskanir sem stoðkerfisvandamál sem og aðra alvarlega og ekki síst langvinna sjúkdóma. Það er því mjög mikilvægt að stjórn heilbrigðiskerfisins sé á höndum þeirra fagaðila, sem hafa sem besta yfirsýn yfir þau heilbrigðisvandamál, sem við er að glíma hverju sinni og hafa á þeim sérþekkingu og reynslu í lausn þeirra. Vara ber við þeim hættum, sem skapast geta af aukinni miðstýringu heilbrigðismála og skyndilausnum. Markvisst er nú reynt að draga úr áhrifum fagstétta í heilbrigðiskerfinu og er það miður. Skammsýni og skortur á yfirsýn er einkennandi í stjórnkerfinu. Stórauka þarf rannsóknir á orsökum örorku vegna geð- og stoðkerfisraskana. Stoðkerfisvandamál fara ört vaxandi hér á landi og benda nýlegar rannsóknir til þess að vefjagigt sé algeng örsök óvinnufærni og örorku. Skjótra og raunhæfra aðgerða er því þörf í þessum málum, ef ekki á að stefna í óefni.
Greinin birtist í Mbl. Þ 18. janúar 2007. Hér birt aftur lítillega breytt.
Heimildir:
1) Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S. Algengi örorku á Íslandi þ. 1. desember 2005. Læknablaðið 1.tbl. 93 árg. 2007;11-14
2) M. Kivimäki et al. Increased absence due to sickness among employees with fibromyalgia. Ann Rheum Dis 2007; 66:65-69.
3) Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Mohammed I. Ranavaya, Robert Walker. Vefjagigt og kvíðaröskun. Læknablaðið 2002; 88: 815-818.
4) Thorlacius S, Ranavaya MI, Stefánsson SB, Walker R. Classifying Fibromyalgia: Taxonomic lessons from the Icelandic disability registry.Disability Medicine 2002; 2: 39-44.
Dægurmál | Breytt 21.1.2007 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)