Seppuku Sjálfstæðisflokksins

Eins og kunnugt er hefur ráðherra Sjálfstæðisflokksins ákveðið að leggja fram lagafrumvarp sem hljómar svo:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

Þetta frumvarp kann að líta sakleysislega út en sannleikurinn er sá, að í því felst grundvallarbreyting á íslensku réttarfari. Skv. því geta þau íslensku lög sem Alþingi Íslendinga samþykkir í framtíðinni reynst algjörlega marklaus, enda þótt þau samrýmist að öllu leyti íslensku stjórnarskránni! Gera menn sér þetta ljóst? Að íslensk lög samin og samþykkt á Alþingi geti í raun talist til villutrúar í augum ESB og gert íslenska ríkið skaðabótaskylt! Eru menn ekki með öllu mjalla á Alþingi Íslendinga?

Aldrei stóð til að framselja löggjafarvald íslenska ríkisins til ESB með EES-samningnum. Engu að síður hefur eftirlitsstofnun EFTA í Brussel gert athugasemd við þá dómaframkvæmd og lögskýringarreglu sem hefur verið í gildi hér á landi frá því EES-samningurinn var lögfestur sem notuð hefur verið til að leysa þann vanda sem upp getur komið vegna árekstra innlendra lagareglna og þeirra reglna sem rekja má til EES-réttar. Þetta brölt Íslendinga samrýmist ekki bókun 35 við EES-samninginnað mati ESB.
 
Fjórfrelsið er í raun stjórnarskrá ESB en dómstóli ESB hefur aldrei tekist að fullu að skilgreina nákvæmlega hvað í því felst og það getur skapað núning við innlendar, þ.e. íslenskar lagareglur svo um munar t.d. varðandi meðalhófsregluna og aðrar greinar stjórnsýslulaga.

Þegar áðurnefnt frumvarp utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur verið samþykkt á Alþingi Íslendinga þá verður hið sama Alþingi gjörsamlega óþarft því Íslendingar geta þá ekki lengur treyst því að lagasetning lýðræðislega kosins Alþingis hafi gildi. Menn þurfa í öllum tilvikum að kynna sér lög og reglugerður ESB og niðurstaðna Evrópudómstólsins.

Er þetta ekki hreint pólitískt sjálfsmorð, harakiri Sjálfstæðisflokksins? 

valholl_harakiri
 Seppuku Sjálfstæðisflokksins er nú staðreynd

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú ert enn að reyna að snúa þessu á haus.

"geta þau íslensku lög sem Alþingi Íslendinga samþykkir í framtíðinni reynst algjörlega marklaus"

Frumvarpið snýst reyndar um að tryggja að lög sem Alþingi Íslendinga setur til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum verði ekki marklaus.

Því ef það gerist, þá verður ríkið skaðabótaskylt.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.4.2023 kl. 13:14

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Hvaða snillingum datt í hug það snjallræði að viðskiptasamband milli sjálfstæðra ríkja gæti leitt til framsals á löggjafarvaldi annars ríkisins til hins? Hvers kyns endemis vitleysa er það? Hafa Íslendingar í alvöru ekki lengur kjark og getu til að semja sín eigin lög sjálfir og standa við þau? Jafnvel á einföldustu málaflokkum? Erum við virkilega orðnir að viljalausum rolum?

Júlíus Valsson, 19.4.2023 kl. 15:03

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvaða "framsal löggjafarvalds" ertu að meina?

Frumvarpið sem pistillinn þinn fjallar um felur ekkert slíkt í sér.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.4.2023 kl. 15:15

4 identicon

Já, það má með sanni segja að þorri íslenskra þingmanna og embættismanns sé orðinn að viljalausum rolum, engum til fjárafla, nema til eigin græðgi.

Allt stjórnkerfið er orðið maðkað og gegnumrotið.  Samþykkt EES, þvert gegn meirihlutavilja þjóðarinnar, hefur leitt af sér hæga en markvissa aðför að þjóðarhag, fullveldi og sjálfstæði lands og þjóðar 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.4.2023 kl. 11:19

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Símon Pétur frá Hákoti Algjörlega þér sammála. Verst er þegar þingmenn og ráðherrar í flokki sem kenna sig við sjálfstæði þjóðarinnar sigla undir fölsku (ESB) flaggi. Það eru svik við allt og alla. 

Júlíus Valsson, 20.4.2023 kl. 12:08

6 identicon

Já, það er vesælt af forystu og þingmönnum Sjálfsstæðisflokksins að sigla, ítrekað, undir fölsku (ESB) flaggi og vanvirðs jafnframt, ítrekað, samþykktir landsfundar og grunnstefnu og gildi sjálfstæðis, frelsi og fullveldis landsmanna og eigin flokksmanna. 

Það er skömm af því, að enginn þingflokkur hefur verið lúsiðnari við innleiða lög og reglugerðir ESB en einmitt hinn svokallaði Sjálfstæðisflokkur. 

Og það tekur yfir allan þjófabálk, þegar nú stefnir í að sá armi flokkur ætli að brjóta Stjórnarskrá Íslands með því að gera lög ESB æðri íslenskum lögum og þar með einnig Stjórnarskrá Íslands.     

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.4.2023 kl. 15:06

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Símon Pétur frá Hákoti.
Fjórfrelsi ESB verður hin nýja stjórnarskrá Íslands. Þá er ekki langt í 4. orkupakkann og sæstrenginn. Íslendingar síðan bíða spenntir eftir því að fá að borga ekta "ESB-verð" fyrir raforkuna eins og frændur okkar í Noregi og Svíþjóð. Þetta ber allt að sama brunni vegna sofandaháttar Íslendinga og þöggunar RÚV, "útvarps allra landsmanna".   

Júlíus Valsson, 20.4.2023 kl. 15:51

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Símon Pétur.

"...gera lög ESB æðri íslenskum lögum og þar með einnig Stjórnarskrá Íslands."

Hvorugt af þessu tvennu er rétt.

ESB-tilskipanir og reglugerðir hafa ekkert lagagildi á Íslandi eins og dómstólar hafa margítrekað staðfest. Einmitt þess vegna þarf að setja íslensk lög til að innleiða slíkar gerðir. Slík lög ganga ekki framar stjórnarskrá og frumvarpið breytir engu þar um, enda gæti það ekki gert það einmitt vegna þess að stjórnarskráin er æðri.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.4.2023 kl. 16:07

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Guðmundur Ásgeirsson Þar sem ég er ekki löglærður byggi ég ofangreindan pistil á áliti 5 hæstaréttarlögmanna, en ég þekki fjóra þeirra mjög vel persónulega og treysti þeirra dómgreind.
Hver sæmilega læs Íslendingur áttar sig á alvarleika málsins og hörð viðbrögð ESB-sinna vekur upp ýmsar spurningar:
Til hvers að leggja fram þetta andlýðræðislega frumvarp ef það hefur engin áhrif hér á landi?
Af því bara?

Júlíus Valsson, 22.4.2023 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband