Hvaðan kemur kvikasilfrið í Þingvallavatni?

Salmo_trutta_400

 

Mikið magn kvikasilfurs mældist nýlega í stórum urriða í Þingvallavatni. Urriðinn, sem er ránfiskur er mjög ofarlega í fæðukeðju vatnsins og því útsettur fyrir þeim eiturefnum, sem gjarnan safnast fyrir í fituvef fiska.  Ekki er fulljóst, hvers vegna mikið magn kvikasilfurs er í Þingvallavatni en hugsanleg skýring er sú, að frárennsli Nesjavallavirkjunar sé um að kenna en það ku innihalda kvikasilfur og e.t.v. fleiri þungmálma og eiturefni.

 Urriði - Salmo Trutta


Af einhverjum orsökum hefur frárennsli virkjunarinnar verð beint í Þingvallavatn líklega vegna þess að vatnið er þarna til staðar og það er þægilegt fyrir virkjunina.  Einnig er möguleiki á öðrum skýringum vegna þess að Ísland er eldfjallaeyja og einnig getur ákveðin tegund kvikasilfurs safnast fyrir í uppistöðulónums, sem síðan getur mælst hátt í lífverum.

Kvikasilfur er frumefni (Hg) og í náttúrunni kemur það einkum fyrir sem steintegundin sinnóber (HgS — kvikasilfurssúlfíð, e. cinnabar).

Kvikasilfur er eitur. Kvikasilfur er ekki bara eitrað, það er baneitrað. Bannvænn skammtur kvikasilfursalts er um 1 g. Kvikasilfurmálmurinn sem slíkur er ekki eitraður þó hann sé gleyptur þar sem hann frásogast ekki úr meltingarvegi.
Kvikasilfur er í raun vökvi en telst til þungmálma. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, sbr. eituráhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.

Það kvikasilfur, sem finnst í náttúrunni er að miklu leyti bundið seti, og lífrænum ögnum sem salt og því ekki aðgengilegt æðri lífverum. Örverur geta hins vegar breytt bundnu kvikasilfri í metýl-kvikasilfur, sem er baneitrað og lægri lífverur eiga auðvelt með að taka upp. Vegna rokgirni kvikasilfurs berst það auðveldlega langar vegalengdir í andrúmslofti. Þetta hefur valdið því, að mikið magn kvikasilfurs hefur fundist fjarri uppsprettum þess. Almennt hefur verið talið varasamt að magn kvikasilfurssambanda (methyl mercury) sé meiri en 0,5mg/kg og að neysla kvikasilfurs megi ekki fara yfir 0,5mg/viku. Lægri gildi eru fyrir barnshafandi konur. Kvikasilfrið hamlar starfsemi efnahvata í frumum líkamans með því að bindast sulfhydryl hópum (-SH) í frumunum. Þetta veldur því, að kvikasilfur er eitrað öllum frumum líkamans.

Helstu eituráhrif kvikasilfurs eru:

1) Bráð eituráhrif kvikasilfurs:
a) Eftir neyslu kvikasilfurssalta: Málmbragð, kviðverkir, blóðugur niðurgangur jafnvel í nokkrar vikur. Minnkaður þvagútskilnaður. Nýrnabilun, sem veldur dauða.
b) Eftir innöndun kvikasilfurgufu: Bólgur í munnslímhúð, aukin munnvatnsframleiðsla, málmbragð, niðurgangur, lungnabólga, nýrnaskemmdir, svimi, klaufska, taltruflanir og banvænir krampar.
c) Aklylsambönd kvikasilfurs  safnast fyrir í miðtaugakerfinu og valda truflun á samhæfingu hreyfinga (ataxia), rykkjasótt (chorea), og krömpum. Yfirleitt er um að ræða varanlegar skemmdir á miðtaugakerfinu.

2) Langvinn eituráhrif kvikasilfurs
a) Ofsakláði (urticaria), húðeksem, bólgur í slímhúðum, aukin munnvatnsframleiðsla, niðurgangur, blóðleysi, fækkun hvítra blóðkorna, lifrarskemmdir og nýrnabilun. Hárlos. Einnig truflanir á andlegri starfsemi, ekki síst hjá börnum.

Frægt dæmi um kvikasilfureitrun er frá Japan er íbúar Minamata veiktust eftir að hafa borðað kvikasilfursmengaðan fisk. Nú ættu yfirvöld skilyrðislaust að rannsaka nánar lífríki Þingvallavatns og afla upplýsinga um áhrif Nesjavallavirkjunar. Menn ættu ekki að borða stóran urriða úr vatninu. Spurning vaknar, hvort hin hreina orka er eins hrein og haldið er fram? mercury_minamata

 

 

 

 

 

 

 

Frá því þessar mælingarniðurstöður voru birtar um haustið 2007 hafa Náttúrufræðistofnun Kópavogs, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Veiðimálastofnun tvívegis sótt um styrk til Orkusjóðs til að rannsaka uppruna kvikasilfursins í Þingvallavatni en í bæði skiptin verið neitað!! 

Nú er aldeilis týra á tíkarskottinu! Almenningur í landinu hefur fullan rétt á að vita, hvaðan þessi lífshættulega  mengun kemur, og það strax! Eru menn hreinlega gengnir af göflunum í Orkuhellinum?

Nýlega kom upp alvarleg blýmengun í drykkjarvatni á tilraunastöðinni að Keldum. Hvar er það mál statt í kerfinu? Hvers vegna berast engar fréttir af þvi máli? 

Heimildir:

24 Stundir 23. febrúar 2008 

Mbl. 6. október 2007

Vefur Umhverfisstofnunar


Wikipedia.org


Vísindavefurinn

eMedicine.com


http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/12/hitamengun_i_lindum_vid_thingvallavatn/


Robert H. Dreisbach
Handbook of Poisoning - Lange


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sammála þér þetta verður að rannsaka og það annaðhvort núna eða strax. Ja mér allavega dettur í huga að einhverjir af þeim sem hafa fengið umsóknir um styrki, vilji ekki að það sé um þetta talað, hvað þá rannsakað.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.2.2008 kl. 15:06

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er stórmál sem verður að rannsaka. Eiginlega hálf hrollvekjandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.2.2008 kl. 01:09

3 identicon

Þetta er hrollvekjandi lesning. Og núna, ég meina strax, verður að athuga hvaðan þetta kemur. Ekki stofna nefnd og sv. frv. Heldur bara að hefjast handa, strax.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 11:30

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Skyldi Össur okkar vita þetta?

Nú er að bregðast við og það hratt. Kvikasilfur er afar torleyst og þrávirkt efni, sem nánast er ómögulegt að losna við.

Svo legg ég til, að Blý í kúlur skoðveiðimanna verði alfarið bannaðar hér í náttúrunni og einungis leyft að brúka svoleiðis skot, á svæðum, þar sem hagt er, að hreinsa Blýið upp, svo sem innanhúss.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 26.2.2008 kl. 16:01

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta gætu auðvitað verið högl. Mér finnst fráleitt að leyfa þessa langvinnu mengun í nálægðp við vara vatnsforðabúr höfuðborgarinnar.

Sigurður Þórðarson, 2.3.2008 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband