Færsluflokkur: Dægurmál
1.2.2010
Magnaður Andskoti
..er nafn á félagsskap magnaravarða, sem eru að vinna að hönnun og smíði íslensks lampamagnara fyrir rafmagnsgítara. Hér er um að ræða magnaðan grip, alveg hreint magnaðan andskota.
Hægt er að berja gripinn augum og sjá viðtal við Þröst I. Víðisson rafeindavirkja, frumkvöðul og Yfirmagnaravörð hjá Mögnuðum Andskotum á
ÍNN í kvöld kl. 21:00 í þættinum FRUMKVÖÐLAR.
Í þættinum kemur einnig fram hinn snjalli gítarleikari Gummi Pé. Hann prófar þar nýja lampamagnarann og gefur honum einkunn að hætti hússins.
Þátturinn verður síðan endursýndur á 2ja tíma fresti til og með kl. 17. næsta dag þ.e. þ. 2. febrúar n.k.
Einnig er hægt að horfa á þáttinn á INNTV.is
Keep it Simple!
BB King
Dægurmál | Breytt 2.2.2010 kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2010
Að einfalda hið flókna
"Það er sem er erfiðast við að skrifa, er að láta allt líta út fyrir að vera svo auðvelt", segir Paul Auster í nýlegu viðtali í tilefni af útkomu bókar sinnar "Invisible", sem er hans 13. skáldsaga og sem margir telja vera eina af hans bestu bókum ef ekki þá allra bestu.
Eins og margir óvirkir bókaormar heyrði ég fyrst talað um Auster um haustið 2005 er hann gisti hér á Skáldanótt. Hann svaraði þá fyrirspurnum Torfa Tuliniusar í Norræna húsinu og áritaði bækur sínar í Bókabúð M&M á Laugaveginum og las úr verkum sínum á gömlum leikhúsfjölum við Tjörnina.
Paul Auster er merkilegur rithöfundur. Við fyrstu sýn virðast bækur hans ákaflega óspennandi og hversdagslegar en þegar haldið er á, þá gerist einhver galdur, textinn hverfur og sagan stendur eftir, ein og óstudd. Þegar lestrinum lýkur, átta menn sig á því að einhver brögð eru í tafli og hefja þá lesturinn að nýju til þess að sjá í gegn um galdurinn. Þá opnast nýjar víddir og hliðargötur og menn eru engu nær. Einungis tónn sögunnar verður eftir. Sagan verður því eins og tónlist, sem skapar ákveðna stemningu, þar sem nóturnar þvælast ekki lengur fyrir. Auster lætur ekki góma sig, hann verður ósýnlegur.
Mæli eindregið með þessari nýju bók meistarans sem er þrískipt þ.e. þriggja-sögumanna-bók, sem Auster vefur saman á listilegan hátt. Þar koma fram margir sterkir en afar kynlegir kvistir. Hún er í senn spennandi og djörf og margslungin i einfaldleik sínum.
Hið enifalda er oft of flókið til að hægt sé að flækja það enn meira.
"Keep it Simple"
BB King
Hér er áhugaverð umfjöllun í The New Yorker
Dægurmál | Breytt 22.1.2010 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.1.2010
Icesave í salt?
Miklar vetrarhörkur eru nú á Bretlandseyjum og víðar í Evrópu, Al Gore og fylgismönnum hans til mikillar armæðu. Fréttir berast nú af því, að götusalt sé nú uppurið á Bretlandseyjum og þvi renna bifreiðar þvers og kruss um götur þarlendis. Einnig peningavagnar.
Nú ættu Íslendingar að brjóta odd af oflæti sínu og senda Bretum nokkra skipsfarma af salti. Setja salt í sárin, ef svo má að orði komast. Með þessum söltu sendingum, sem væri framlag okkar til breska heimsveldisins gætum við brætt vetrarísinn þar í landi og eflaust einnig einhver bresk hjörtu í leiðinni.
Svo mætti með vorinu stofna nyja reikninga í Evrópu - SALTSAVE?
Við söltum þetta bara
Keep it Simple!
BB King
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2010
Nú vantar leiðbeiningar
Íslendingar eiga afar erfitt með að standa saman sem ein þjóð. Það er okkar helst veikleiki og það vita menn í útlöndum. Sundurlyndisfjandinn og allt það...
Nýleg grein í Financial Times fjallar ítarlega um Icesave málið. Þar kemur m.a. fram að Bretar og Hollendinga þyrsti í peninga og séu þessi ríki að traðka á öðru ríki þ.e. á Íslandi, sem vill fá aðild að ESB. Lokað hefur verið fyrir viðræður nema Bretar og Hollendingar fái peninga sína. ESB hafi það fyrir reglu að fara illa með lítil ríki. Greinarhöfundur blaðsins veltir fyrir sér hvort útspil forsetans um að skrifa ekki undir muni virka og Íslendingar nái sínu fram en hefur miklar efasemdir þar um. Síðast þegar Ísland hafi reynt slíkt, á tímum þorskastríða, var heimurinn annar en hann er nú. Nú ráði stórar alþjóðlegar stofnanir, ESB og AGS. Það ásamt áhrifum markaðarins gerir það að verkum að staðan sé ekki sérstaklega góð fyrir Ísland. Næstu áratugina munu Íslendingar sjá eftir útrás sinni á alþjóðlega fjármálamarkaði og munu eflaust óska þess að þeir hefðu haldið sig við fiskveiðar.
Greinarhöfundur Wall Street Journal gleymir því, að heimurinn í dag er mikið breyttur frá tímum þorskastríðsins. Það er auðvitað rétt, að stórar alþjóðlegar stofnanir eru nú stærri og sterkari en áður. Þó svo litlar þjóðir eigi í vök að verkjast þá er litli maðurunn sterkari en nokkru sinni fyrr, þökk sé Netinu. Samskipti manna á milli eru nú mun meiri og betri en þau voru fyrir rúmum 30 árum.
Nú þurfa stjórnvöld og í raun allir ritfærir menn, einu sinni, að taka höndum saman til nýta Netið okkur til hagsbóta og málstað Íslands til framdráttar. Mynda þarf öflugan gagnabanka með upplýsingum á ensku, þýsku og frönsku ásamt norðurlandamálunum og koma þeim fyrir á aðgengilegum stað á Netinu þar sem bloggarar og greinarhöfunar geta sótt sér efni.
Menn úti í hinum stóra heimi þurfa að vita nákvæmlega um hvað málið snýst. Það snýst ekki um það hvort Íslendingar vilja eða vilja ekki borga skuldir sínar. Málið snýst um réttlæti og rétt einstaklingsins og smáþjóða í samskiptum við risavaxnar stofnanir og þjóðríki.
Íslendingar þurfa að vanda málstað sinn og standa saman, einu sinni. Fréttamannafundur ríkisstjórnaríslands í gær er líklega eitt mesta pr-flopp Íslandssögunnar.
Svona klúður má bara ekki endurtaka! Ef ríkisstjórnin getur ekki varið okkur, þá verðurm við bara að verja okkur sjálf.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.11.2009
Góður árangur af bólusetningum
Heilbrigðisyfirvöld eiga hrós skilið fyrir skjót og skynsamleg viðbrögð við svínaflensunni. Hvað sem öllu líður þá er hér ekki á ferðinni nein venjuleg inflúensa, þar sem fæst okkar eru með mótefni gegn veirunni A(H1N1). Það er í raun ófyrirsjáanlegt hverjir veikjast alvarlega þótt einstaklingar í áhættuhópum séu auðvitað í meiri hætti (annars væru þeir ekki í áhættuhópum).
Umræðan um að einhver vondir karlar græði á bóluefninu er jafn fáránleg og að gagnrýna að einhver græddi á því að selja reykskynjara eða öryggisbelti.
Rétt er að hvetja ALLA til að láta bólusetja sig við svínó.
Keep it simple!
BB King
11 á Landspítala með H1N1 flensu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.11.2009
Borað í tímasprengju
Hún lítur ekki út eins og eldfjall, a.m.e. séð utanfrá, en er þó stærsta megineldstöð Ítalíu og getur gosið hvenær sem er. Eldfjallið Vesuvius er nánast eins og dvergur við hliðina á þessari risaeldstöð, sem nefnd hefur verið "Campi Flegrei". Borgin Napoli og úthverfi hennar er byggð rétt austan við þessar slóðir. Eldstöðin er talin vera sú varasamasta á Ítalíu. Nú ætla menn að bora sjö djúpar borholur í þessa stóru eldstöð í rannsóknarskyni. Nánar um Campi Flegrei.
Megileldstöðin Campi Flegrei |
Ágúst Guðmundsson jarðfræðiprófessor við Royal Holloway University of London, sem stjórnar borununum, telur að næsta eldgos í Campi Flegrei geti hugsanlega grafið meginhluta Evrópu undir þykku öskulagi, líkt og gerðist reyndar fyrir 39.000 árum en eldstöðin gaus síðast stóru gosi fyrir um 4000 árum. Með borununum vonast menn til að geta kortlagt sprungukerfi neðanjarðar og fundið kvikuhólf og rannsakað jarðlög undir þrýstingsálagi og á þann hátt spáð nákvæmlega fyrir um hvar (og jafnvel hvenær) næsta eldgos brýst upp á yfirborðið. Frá árinu 1960 hefur land á þessu svæði risið um 3 metra (bradyseism), sem er sterk vísbending um að eldgos sé í nánd.
Borholurnar sjö |
| |
Það getur skapað hættu undir vissum kringumstæðum, að borvatn komist í beina snertingu við kviku og/eða ef menn bora niður í kísilrík kvikuhólf þar sem lofttegundir eru undir miklum þrýstingi. Það gæti fræðilega leitt til eldgoss af óþekktri stærð og umfangi að mati sumra vísindamanna. Aðrir telja litlar borholur ekki skipta neinu máli.
Við leikmenn fylgjumst spenntir með. Það er ekki á hverjum degi sem menn bora beint inn í eldfjöll, tifandi, a.m.k. glóandi tímasprengjur...
Ferðatilboð til Campi Flegrei ("Gist á kviku" og "Eldhressir á eldfjalli" -pakkar í boði)
Frá Kröflueldum 1984
Ref. New Scientist
Keep it Simple!
BB King
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2009
Nýtt veirulyf - Peramivir
Obama forseti Bandaríkjanna lýsti yfir neyðarástandi s.l. föstudag þ. 23. október vegna svínaflensunnar. Hér er fyrst og fremst um að ræða fyrirbyggjandi ráðstöfun fremur en að breyting hafi orðið á útbreiðslu eða eðli veikinnar. Svínaflensan svokallaða er nú orðin útbreidd í í 46 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Þessi yfirlýsing Obama auðveldar heilbrigðisyfirvöldum þar í landi að glíma við sjúkdóminn og afleiðingar hans. Viss hætta er fyrir hendi að veikin breiðist út með slíkum hraða og þunga, að hún hreinlega kaffæri starfsemi heilbrigðisstofnana. Um er að ræða svipaðar raðstafanir og menn hafa gripið til þegar fellibylir hafa riðið yfir. Svínaflensan leggst harðast á unga einstaklinga öfugt við "hefðbundnar" flensur sem koma harðast niður á eldri og lasburða einstaklingum. Um 1.000 einstaklingar hafa nú látist úr veikinni í Bandaríkjunum en til samanburðar má geta þess, að um 36.000 einstaklingar látast þar á hverju ári úr "venjulegri" flensu.
Sama dag og Obama birti yfirlýsingu sína gaf FDA (Lyfjastofnun USA) þarlendum læknum formlegt leyfi til að nota nýtt veirulyf, sem enn er á tilraunastigi og sem nefnist Peramivir, sem framleitt er af Biocryst Pharmaceuticals Inc. Þetta þýðir m.a. að læknar á sjúkrahúsumgeta gefið þeim sjúklingum, sem ekki af einhverjum ástæðum hafa ekki gagn af veirulyfjunum Tamiflu og Relenza, þetta nýja lyf í æð.
Peramivir er svokallaður neuraminidase inhibitor, sem hefur hamlandi áhrif á ensýmið neuraminidase og hindrar þannig að nýir inflúensuvírusar dreifi sér út frá sýktum frumum líkamans. Góðu fréttirnar eru þær að nýja lyfið virðist vera enn kröftugra en eldri veirulyf í sama flokki og gagnast jafnvel við fuglaflensunni hættulegu, a.m.k. í tilraunaglösum.
Nú er bara að panta slatta af Peramivir fyrir landsmenn!
Keep it simple!
BB KingDægurmál | Breytt 25.10.2009 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2009
Icelandic Airwaves - FaMR
Hér er hægt að sjá myndir frá frábærum tónleikum íslensku hljómsveitarinnar
For a Minor Reflection í Iðnó í gærkveldi, 17. október 2009. Nýja platan þeirra kom út í fyrradag.
Sjá nánar: FaMR
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2009
Vöggudauði
Vöggudauði er hörmulegur atburður. Nýleg bresk rannsókn frá háskólunum í Bristol og Warwick leiddi í ljós, að yfir helming tilvika vöggudauða mátti rekja til þess, að ungabarn svaf í rúmi foreldra sinna. Hættan á vöggudauða er enn meiri ef foreldrar eru undir áhrifum áfengis og/eða slævandi lyfja.
Rannsóknin náði til barna á nýburaaldri til 2ja ára aldurs og stóð yfir í fjögur ár á suðvesturhluta Englands. Öruggasti svefnstaðurinn fyrir ungabörn er í vöggu við rúmstokk foreldra sinna. Foreldrum er nú ráðlagt að láta ungabörn sofa á bakinu í vöggunni og mikilvægt er að láta þau aftur í vögguna eftir að þeim hefur verið gefið að næturlagi í stað þess að foreldri sofni með þau á sófa eða í stól.
Nánar er hægt að lesa um þessa rannsókn hér.
Önnur orsök vöggudauða er m.a. talin vera truflun á heilastarfsemi ungbarna, sem veldur því að líkami þeirra skynjar ekki súrefnisskort með eðlilegum hætti. Um það má lesa hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2009
Fréttir af A(H1N1)v-veirunni
Ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta (President's Council of Advisors) gerir ráð fyrir að helmingur íbúa Bandaríkjanna smitist af 2009 H1N1 inflúensuveirunni. Gert er ráð fyrir að um 1.8 milljón manna þurfi að dveljast á sjúkrahúsin vegna veikinnar og að um 30,000-90,000 muni látast vegna hennar.
Séu þessar tölur yfirfærðar á Ísland þá má reikna með að um 1.800 manns þurfi á sjúkrahúsvist að halda hér á landi og að veikin muni leiða til um 30 til 90 dauðsfalla. Taka verður þessum tölum með miklum fyrirvara þar sem aðstæður eru ekki sambærilegar hér á landi og í Bandaríkjunum.
Áhættuhópar/áhættuþættir hér á landi, þ.e. þeir sem af einhverjum undirliggjandi ástæðum geta veikst alvarlega eru eftirfarandi:
Alvarlegir hjartasjúkdómar einkum hjartabilun, alvarlegir kransæðasjúkdómar og alvarlegir meðfæddir hjartagallar með vinstra til hægra flæði.
Alvarlegir lungnasjúkdómar þ.á.m astmi sem þarfnast stöðugrar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar.
Alvarlegir efnaskiptasjúkdómar einkum insúlínháð sykursýki og barksteraskortur.
Tauga- og vöðvasjúkdómar sem valda truflun á öndunarhæfni.
Alvarleg nýrnabilun.
Alvarlegir lifrarsjúkdómar sem valda skorpulifur og/eða lifrarbilun.
Alvarlegir ónæmisbrestir
Fjölskyldur barna yngri en 6 mánaða sem eru með ofangreinda sjúkdóma
Þungaðar konur en rannsóknir hafa sýnt að þær eru í aukinni áhættu að sýkjast alvarlega af völdum inflúensunnar.
Offita (>40 BMI).
Fólk með ofangreinda áhættuþætti ættu skilyrðislaust að láta bólusetja sig ef ekkert annað mælir gegn því.
Bólusetning gegn A(H1N1)v leggst ofan á þá árlegu inflúensubólusetningu, sem hefst í október. Bólusetningin er að því leyti sérstök, að hún fer einungis fram á heilsugæslustöðvum, á Landspítalanum og á F.S.A. Bóluefnið er vandmeðfarið og líklega þarf að bólusetja hvern einstakling tvisvar á 3- 4 fjórum vikum til að tryggja hámarksónæmi eða vernd gegn inflúensunni. Bóluefnið kemur í 10 skammta glösum og þarf að halda því kældu. Það kemur í tvennu lagi, mótefnavakinn er sér og þarf að blanda honum saman við ónæmisglæðinn þannig að umfangið við bólusetninguna er talsvert og kallar á góða skipulagningu og fjölda starfsfólks.
Ekki er ástæða til annars en að reikna með því að veirulyf (Tamiflu og Relenza) verki á veiruna sé meðferð hafin innan 48 tíma frá því einkenna veikinnar verður vart. Búast má við, að flest alvarleg tilvik vegna veikinnar verði vegna bakteríusýkinga (f.o.f. í lungum), sem yfirleitt er hægt að ráða við með sýklalyfjum.
Heimildir:
(President's Council of Advisors on Science and Technology. U.S. Preparations for 2009-H1N1 Influenza. August 7, 2009. Available at: http://www.whitehouse.gov/assets/documents/PCAST_H1N1_Report.pdf Accessed September 16, 2009.)
Lyfjatíðindi, 4.tbl. 16. árg. 2009
"Keep it simple!"
BB King
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)