RVK-borg þjarmar að litla kaupmanninum á horninu.

Nýjar reglur Reykjavíkurborgar, sem tóku gildi þ. 1. október 2023 kveða á gjald­skyldu í bíla­stæði miðsvæðis í Reykja­vík til klukk­an níu á kvöld­in, alla daga vik­unn­ar. Nú þurfa eigendur fjölskyldubíla og vinnubíla í fyrsta sinn að greiða fyrir bílastæði á sunnu­dög­um.

kjotborg_mbl
Kristján og Gunnar Jónassynir Mynd Mbl. 

Bræðurnir Gunn­ar Hall­dór og Kristján Aðal­björn Jónas­synir hafa rekið versl­un­ina Kjöt­borg í um hálfa öld að Ásvallagötu 19. Þeir bræður hafa ávallt rekið verslunina sem samfélagsþjónustu og segja það lyk­il­at­riði að hafa meiri áhuga á fólki held­ur en há­um laun­um eða arð­greiðsl­um. Þeir eru fyrir löngu orðnir að lifandi goðsögnum enda er verslunin ein af elstu og í raun síðustu vígstöðvum lítilla matvöruverslana í borginni. Þar er boðið upp á hlýja, vinalega og persónulega þjónustu og verslunin hefur ávallt verið eins konar samfélags- og félagsmiðstöð í Vesturbænum ekki síst fyrir íbúa á Grund og nágrenni. Fyrir litla verslun er líka ótrúlegt að sjá allar þær mismunandi vörur sem þeir bjóða upp á. Ef þeir eiga það ekki til, þá panta þeir það örugglega og ef maður kemst ekki inn í búðina bjóða bræðurnir upp á að koma með vörurnar heim til þín.

Fyrir skömmu hófst gjaldskylda í Vesturbænum þar sem verslun bræðranna er staðsett þegar gjaldskyld svæði bíla­stæða í miðborg­inni voru víkkuð út. Þetta veldur því að bræðurnir geta ekki mætt til vinnu eða notað bifreið sem er þeim nauðsynleg til að viðhalda rekstrinum án þess að greiða í bílastæðamæli eða eiga á hættu að fá sekt. Upphæðirnar eru því fljótar að safnast upp.

Við þurfum nú að borga a.m.k. kr. 107.000.- á mánuði (kr. 1.284.000.-) fyrir bílastæði fyrir framan verslunina og ef ekki þá er sektin 4.500.- krónur. Þetta dregur mjög úr viljanum til að vera með einhverja þjónustu fyrir viðskiptavini, ég veit hreinlega ekki hvað þeir gerðu ef að búðin myndi hætta.“ sagði Gunnar kaupmaður í viðtali við Mbl í byrjun október 2023.

Hann seg­ir að þetta gæti leitt til þess að þeir stytti opn­un­ar­tíma versl­un­ar­inn­ar og seg­ir að jafn­vel komi til greina að loka búðinni á sunnu­dög­um vegna gjald­skyldunnar. Hann seg­ir ýmsa íbúa í hverf­inu sýna þeim stuðning til að mynda var birt færsla í Face­book-hóp íbúa Vest­ur­bæj­ar þar sem er biðlað til borg­ar­stjórn­ar að koma til móts við bræðurna. 

Gunnar_DSCF5640_1040
Gunnar Jónasson kaupmaður Mynd: J.V.

Kristján harm­ar það í sama viðtali að gjald­skyldu á svæðinu hafi verið breytt án þess að sam­ráð var haft við íbúa á svæðinu. „Eng­in kynn­ing um að þetta væri að koma, allt í einu komu bara ein­hverj­ir menn að setja upp staura.“

Gunnar_DSCF5643_1040
Gunnar við hið rándýra bílastæði RVK-borgar Mynd: J.V.

Þeir bræður búa ekki í hverfinu og geti því ekki fengið íbúakort til sleppa við það að borga í stæði þó þeir eigi og reki verslun sem er íbúum mjög mikilvæg. Hann segist vona að Reykjavíkurborg komi til móts við þá með einhvers konar rekstrarkorti eða verslunarkorti fyrir gjaldskyldu stæðin en kveðst ekki vongóður um að það gerist.

Þeir segja það einnig sorglegt að þessi gjaldskylda komi mögulega til með að fólk fari sjaldnar í heimsókn á elliheimilið Grund sem er rétt hjá Kjötborg. „Fólk hætt­ir að fara í heim­sókn á Grund. Fólk nennir ekkert að borga í einn, tvo tíma í stæði og fara í heimsókn í Grund eða eiga í hættu að fá sekt. Ef við lokum á sunnudögum þá geta þeir sem eru að fara í heimsókn á Grund ekki keypt nammi eða gos fyrir sitt fólk.“

Gunnar_DSCF5641_1040
Gunnar Jónasson í Kjötborg Mynd: J.V.

Í viðtali við undirritaðan í dag kom fram að þeir Kjötborgarbræður fóru á fund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Dóru Bjartar Guðjónsdóttur formanns umhverfis- og skipulagsráðs þ. 26. nóvember s.l. og ætluðu þau að "athuga málið". Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu málsins hjá Reykjavíkurborg en þess má geta að Pétursbúð á Ránargötunni er með einkastæði á sinni lóð og að ekki er gjaldskylda hjá Melabúðinni frekar en á öðrum stæðum sunnan við Hringbraut. 

Gunnar_DSCF5648_1040
Gunnar veifar hér til að ná athygli Dags og Dóru. Mynd: J.V.

Þess má geta að gerð var frábær heimildarmynd um verslunina og samfélag hennar sem heitir einfaldlega Kjötborg. Hún hefur hlotið frábæra dóma, var valin besta myndin á Patreksfirði heimildarmyndahátíðar á Vestfjörðum og hlaut hin árlegu Edduverðlaun sem besta heimildarmyndin. Sjá nánar hér að neðan...

ref.

Vildarvinir Kjötborgar á Facebook
Umfjöllun í Mbl. 1. október 2023
Um kvikmyndina Kjötborg í Guide to iceland.is
Kjötborg á Kvikmyndir.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Þeir bræður Gunnar og Kristján hafa rekið verslun og félagsmiðstöð í Vesturbænum öll þessi 50 ár.

Félagmiðstöðin hefur verið rekin með krafti kærleikans á þeirra eigin kostnað og ekki hefur mikill hagnaður verið af versluninni, þar sem meirihluti íbúa hverfisins versla ódýrar í Bónus.

Ég hef búið í næstu götu við Kjötborg síðustu 40 ár og notið þjónustu þeirra öll þau ár. Keypt af þeim einstaka sinnum vörur þegar mig hefur vantað skyndilega t.d. mjólk í kaffið eða kaffið sjálft.

Sonur minn er fatlaður og býr einnig nálægt Kjötborg, hann hefur síðan hann flutti í hverfið sóst eftir að versla við Kjötborgarbræður vegna þeirrar sérstaklega hlýju móttöku sem hann fær hjá þeim, í hvert sinn sem hann kemur í heimsókn.

Þegar þeir afgreiða hann spjalla þeir við hann og uppörva hann og það gera þeir reyndar við alla viðskiptavini og er ég sjálfur meðtalinn.

Ég er sannfærður um að þeir inna af hendi betri félagsþjónustu en margir háskólamenntaðir  félagsfræðingar.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 10.12.2023 kl. 22:23

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Algjörlega sammála þér Goðmundur Örn. Flestir Reykvíkingar og einkum þeir sem stjórna borginni hafa ekki hugmund um hvaða dýrgripur Kjötborg er Vesturbænum. Ég ætti að þekkja það. Fjölskylda mín bjó í þessu húsi í yfir hálfa öld og þar til nýlega. Það yrði skelfilegt ef Dagur og Dóra flæma þá burt af eintómu fálæti.

Júlíus Valsson, 10.12.2023 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband