Var innleiðing 3. orkupakka ESB brot á stjórnarskrá Íslands?

Með samþykkt orkupakka 3 afsalaði Ísland sér þeirri skilgreiningu sem orkupakki 2 hafði tryggt okkur, að við værum lokaður og einangraður markaður. Þar með vorum við búin að missa endanleg ráð yfir orkunni okkar. Með þriðja orkupakka ESB var alger grundvallarbreyting á orkustefnu ESB og EES. Sett var á laggirnar sérstök stofnun, ACER, en hennar hlutverk er m.a. að sjá um að allir fari eftir orkustefnu ESB m.a. hvað varðar flutning orku milli landa. Þriðji orkupakki ESB var innleiddur í norsk lög 25. maí 2018. Stuttu áður hafði embætti landsreglara ESB í Noregi verið stofnað sem sjálfstæð deild í norsku vatns- og orkumálastofnuninni (NVE) - sem er eftirlitsstofnun á sviði orkumála (RME). Þriðji orkupakki ESB var samþykktur af Alþingi Íslendinga 3. október 2019 og varð þar með bindandi skv. alþjóðalögum fyrir Ísland og Noreg.

stefanmar_1
Stefán Már var ómyrkur í máli 2018

Flestir landsmenn þekkja þá hörmungar sem dunið hafa yfir frændur okkar Norðmenn með tilkomu sæstrengja til ESB. Vegna ákvæða EES-samningsins eru raforkusvæði í Noregi sem tengjast orkusambandi ESB með sæstrengjum algjörlega háð markaðsverði ESB, þ.e. uppboðsverði á raforku sem gildir á hverjum tíma innan ESB. Það er undarlegt í landi sem hefur næga raforku, margfalt meiri en t.d. Ísland. 

Acer+demo
Mótmæli Norðanna gegn ACER

Þann 31. október 2023 féll dómur í Hæstarétti Noregs í máli sem samtökin Nei til EU höfðuðu til þess að fá úr því skorið hvort þurft hefði aukinn meirihluta (3/4) fyrir innleiðingu orkupakka þrjú, samkvæmt 115. gr. norsku stjórnarskrárinnar.

Ákvæði 115. greinar norsku stjórnarskrárinnar segir eftirfarandi:

„Með það að markmiði að tryggja alþjóðlegan frið og öryggi eða stuðla að alþjóðlegri réttarreglu og samvinnu getur norska Stórþingið, með þremur fjórðu hluta meirihluta atkvæða, veitt samþykki alþjóðlegrar stofnunar sem Noregur er aðili að, eða er að gerast aðili að, innan afmarkaðs lögfræðilegs sviðs, þann ákvörðunarrétt sem að öðru leyti hvílir á landsstjórninni samkvæmt þessari stjórnarskrá, en er um leið ekki veitt vald til þess að breyta þessari stjórnarskrá. Þegar Stórþingið þarf að veita slíkt samþykki þurfa að minnsta kosti tveir þriðju hlutar þingmanna að vera viðstaddir, líkt og þegar verið er að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga ekki við um þátttöku í alþjóðasamningi þar sem ákvarðanir hafa eingöngu þjóðréttaráhrif fyrir Noreg.“ (þýðing undirritaðs)

Høyesterett
Norges Høyesterett

Furðu vekur að hæstiréttur Noregs skuli byggja dóm sinn á þeirri heimatilbúnu lögskýringu sinni að „einungis ef fullveldisafsal telst „meiriháttar“ þurfi aukinn meirihluta í norska Stórþinginu. Sé fullveldisafsalið „minniháttar“ nægir einfaldur meirihluti“.

Þegar 115. grein norsku stjórnarskrárinnar er skoðuð kemur í ljós, að ekki er minnst einu orði á þann möguleika að framsal fullveldis Noregs sé hægt að flokka á þennan hátt þ.e. í „meira- eða minniháttar“ framsal. Hæstiréttur Noregs treystir sér greinilega ekki til að „rugga bátnum“ enda liggja þar undir sæstrengir til annarra Evrópuríkja og miklir fjárhagslegir hagsmunir. Niðurstaða hæstaréttar Noregs er því sú að 3. orkupakkinn hafi falið í sér „minniháttar“ framsal á fullveldi Noregs og því hafi ekki verið þörf á auknum meirihluta í Stórþinginu. Ekki verður þó annað séð en að Stórþingið hafi brotið á stjórnarskrá Noregs með innleiðingu þriðja orkupakkans.

orkan okkar
Alþingi er stöðugt að sneiða af fullveldi Íslands til ESB

Hvað þýðir þetta fyrir Ísland? Það stendur eftir sú staðreynd að hæstiréttur Noregs hefur kveðið upp þann dóm, að innleiðing 3 .orkupakkans hafi í raun verið framsal á fullveldi Noregs til ESB.  Norsk lög gilda að sjálfsögðu ekki á Íslandi. Af dómi hæstaréttar Noregs má þó draga þá beinu ályktun, að innleiðing orkupakkans í íslensk lög hafi einnig falið í sér framsal á fullveldi Íslands til ESB þar sem enginn munur er á þeim gjörningum hvað varðar Noreg og Ísland skv. EES-samningnum. Íslenska stjórnarskráin hefur mun skýrari og strangari ákvæði um slíkt framsal. Stjórnarskrá Íslands leyfir nefnilega alls ekkert framsal á fullveldi Íslands til yfirþjóðlegs valds, sama hvað ESB-sinnar á Íslandi segja um málið. 

orkupakki

ref.

https://lovdata.no/dokument/NL/lov/1814-05-17-nn
https://noldrarinn.blog.is/blog/noldrarinn/day/2023/12/17/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband