Saknar einhver Þjóðminjasafnsins?

 

thjodminjasafn  
  

Það var samkomulag um það á sínum tíma að "endurbæta" gamla Þjóðminjasafnið. Það tók reyndar fleiri ár að eyðileggja gamla safnið, sem hafði verið mjög haganlega og í raun mjög hugvitsamlega sett upp af ýmsum merkismönnum svo sem Kristjáni Eldjárn. Það hlýtur að hafa kostað fleiri milljarða. Í gamla Þjóðminjasafninu hafði saga þjóðarinnar og þjóðarsálin fundið sér sameiginlegan griðarstað. Það var ómetanlegt lífsreynsla að ganga hljóðlega um salina, helst seinni part dags í miðri viku, þegar fáir voru á ferli. Heyra fótatakið bergmála á hvítmáluðum veggjunum. Skoða beinagrindurnar, ryðguð víkingasverð, gömlu askana, merkileg manntöfl, hurðina, öxina og öll hin verkfærin, gamla peninga og skraut frá víkingatímanum og flotta stiftamtmannsbúninginn með beittum korða. Þar var einnig herbergi Jóns Sigurðssonar og taflborð Fischers og Spasskís. Heil stofa broddborgara frá 19. öld í dönskun stíl. Það vantaði bara skrifborð Davíðs.

Maður gekk ávallt sama hringinn, réttsælis. Annað var ómark. Byrjað var á því að heilsa kunnuglegum andlitunum á málverkum Sigurðar Guðmundssonar listmálara í anddyrinu. Dularfullar mannverur, sem klæddar voru eins og munkar frá miðöldum, sátu teinréttar á fíngerðum stólum og þóttust vera að vinna að hannyrðum en voru í raun að fylgjast náið með þeim fáu krakkaormum, sem slæddust inn á safnið á daginn. Þetta var fyrir daga gæslumyndavélanna. Maður reyndi stundum viljandi á athygli og þolinmæði þessara dularfullu vera með því að færa sig smám saman nær og nær safngripunum þar til verurnar stóðu skyndilega á fætur og gáfu út stuttar en hnitmiðaðar yfirlýsingar um rétta hegðun ungra safngesta. Stundum liðu þær hljóðlaust um safnið, að þvi er virtist án þess að hreyfa fæturna og birtust skyndilega fyrir aftan mann og maður skynjaði návist þeirra fremur en að sjá þær beinlínis eða heyra. E.t.v. var þar ein og ein vitsuga á ferðinni? Ekki andaði þó frá þeim köldu, nema stundum.

Það sem einkenndi Þjóðminjasafnið (a.m.k. í minningunni) var fyrst og fremst lyktin. Það var mjög sérstök lykt í aðalsalnum. Ekta Þjóðminjasafnslykt.  Gömul lykt en góð lykt. Lykt, eins og lykt á að vera. Eins og hjá afa. Lykt eins og í hlöðu eða á gömlu trésmíðaverkstæði. Þú getur farið á svona stað með bundið fyrir augun, en áttar þig samt strax hvar þú ert staddur, á lyktinni. "Aha! Ég veit hvar ég er! Á Þjóðminjasafninu! Gast ekki platað mig!"

Lyktin var ekkert sérstök í Bogasalnum nema þegar ný olíumálverk héngu þar á veggjunum, t.d. málverk eftir Kristján Davíðsson. Þau málverk lyktuðu vel. Nýmálaðar og óræðar. Litasymfoníur. Í Bogasalnum sá maður stundum tilsýndar frægt fólk skála fyrir listamönnum. Þá breyttist lyktin í Bogasalnum. 

Það var einhver virðuleg lykt á efstu hæð Þjóðminjasafnsins þar sem Listasafn Íslands var til húsa. Gömul málverkalykt eins og hjá heldri, ríkum frænkum í Vesturbænum. Vottur af þungu ilmvatni, koníak og smá vindill. Jafnvel konfekt. Kjarval, Jón Stefánsson, Scheving, Blöndal, Karl Kvaran, Jóhann Briem, allir mættir. 

Besta lyktin var þó í kjallaranum. Þar voru skipin. Þar var sjórinn, særokið, eldstæði járnsmiðsins. Sviti og tár. Þar var tjörulykt eins og er oft af gömlum rússneskum rifflum. Sjófær sexæringur. Skutlar til að drepa hákarla og sæskrímsli. Ýmis gömul tól og tæki fyrir landbúnað og sjósókn. Manni varð hugsað til aðbúnaðar tómthúsamanna fyrr á öldum. Baldur Hermannson* hefur eflaust einhvern tímann staldrað þarna við og fengið innblástur. Hellingur af ýmsum fróðlegum græjum meira að segja gamlir söðlar. Leðurlykt. 

Maður endaði alltaf heimsóknina í kjallaranum. Þar niðri gekk maður auðvitað einnig réttsælis og skoðaði vel í hvern krók og kima.  Á leiðinni út kastaði maður að sjálfsögðu kveðju á konurnar í afgreiðslunni, sem seldu rándýr Þórslíkneski úr silfri. Þær virtust dauðfegnar að losna við krakkaormana úr safninu, svo þær gætu haldið áfram að masa.  Stundum buðu þær okkur póstkort eða bækling. 

Svo gekk maður út í sólina endurnærður á sál og líkama (á líkama, eftir að hafa hlaupið nokkrm sinnum upp og niður stóru tröppurnar, svo bergmálaði í stigahúsinu). Stundum kíkti maður á gluggann hjá Dr. Kristjáni á jarðhæðinni. Hann lét sér ekki bregða. Ég sakna hans líka.

Við hornið á Gamla kirkjugarðinum var reykjarlykt. Einhver reykti sígarettur í logninu. Alfreð Flóki smeygði sér inn um eitt garðshliðið og ungar tvær konur, sem virtust tala dönsku komu fast á hæla honum. Á leiðinni niður Tjarnargötuna varð manni hugsað til Listamannaskálans sáluga. Mikið væri nú gaman að geta farið á enn eina málverkasýninguna í gamla Listamannaskálanum! Eða tombólu! Maður lifandi! Man einhver lyktina í Listamannaskálanum? Hverjar verða minningar okkar frá vorinu 2007?

 *Baldur gerði á sínum tíma sjónvarpsþættina frábæru: "Þjóð í hlekkjum hugarfars"

"Keep it simple!"
B.B.King
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Fornleifur er sammála. Eitthvað hefur þú verið þarna á undan mér enda eldri en ég. Lyktin var stór hluti safnsins. Hún er farin. Í staðinn er kominn lykt af hættulegu lakki, gólflími og kaffiteríu.

Dularfullu verurnar, voru afar góðar gamlar konur sem ég ræddi mikið við á ótal mörgum ferðum mínu á safnið sem byrjuðu þegar á 7. aldri.

FORNLEIFUR, 17.10.2013 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband