Nýtt veirulyf - Peramivir

Obama forseti Bandaríkjanna lýsti yfir neyðarástandi s.l. föstudag þ. 23. október vegna svínaflensunnar. Hér er fyrst og fremst um að ræða fyrirbyggjandi ráðstöfun fremur en að breyting hafi orðið á útbreiðslu eða eðli veikinnar.  Svínaflensan svokallaða er nú orðin útbreidd í í 46 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Þessi yfirlýsing Obama auðveldar heilbrigðisyfirvöldum þar í landi að glíma við sjúkdóminn og afleiðingar hans. Viss hætta er fyrir hendi að veikin breiðist út með slíkum hraða og þunga, að hún hreinlega kaffæri starfsemi heilbrigðisstofnana. Um er að ræða svipaðar raðstafanir og menn hafa gripið til þegar fellibylir hafa riðið yfir. Svínaflensan leggst harðast á unga einstaklinga öfugt við "hefðbundnar" flensur sem koma harðast niður á eldri og lasburða einstaklingum. Um 1.000 einstaklingar hafa nú látist úr veikinni í Bandaríkjunum en til samanburðar má geta þess, að um 36.000 einstaklingar látast þar á hverju ári úr "venjulegri" flensu.    

Sama dag og Obama birti yfirlýsingu sína gaf FDA (Lyfjastofnun USA) þarlendum læknum formlegt leyfi til að nota nýtt veirulyf, sem enn er á tilraunastigi og sem nefnist Peramivir, sem framleitt er af Biocryst Pharmaceuticals Inc. Þetta þýðir m.a. að læknar á sjúkrahúsumgeta gefið þeim sjúklingum, sem ekki af einhverjum ástæðum hafa ekki gagn af veirulyfjunum Tamiflu og Relenza, þetta nýja lyf í æð.

Peramivir
er svokallaður neuraminidase inhibitor, sem hefur hamlandi áhrif á ensýmið  neuraminidase og hindrar þannig að nýir inflúensuvírusar dreifi sér út frá sýktum frumum líkamans. Góðu fréttirnar eru þær að nýja lyfið virðist vera enn kröftugra en eldri veirulyf í sama flokki og gagnast jafnvel við fuglaflensunni hættulegu, a.m.k. í tilraunaglösum.  

Nú er bara að panta slatta af Peramivir fyrir landsmenn!

peramivir.jpg

 

 

 

Keep it simple!

BB King

Icelandic Airwaves - FaMR

Hér er hægt að sjá myndir frá frábærum tónleikum íslensku hljómsveitarinnar
For a Minor Reflection í Iðnó í gærkveldi, 17. október 2009. Nýja platan þeirra kom út í fyrradag.
Sjá nánar: FaMR

img_0567.jpg


Vöggudauði

Vöggudauði er hörmulegur atburður. Nýleg bresk rannsókn frá háskólunum í Bristol og Warwick leiddi í ljós, að yfir helming tilvika vöggudauða mátti rekja til þess, að ungabarn svaf í rúmi foreldra sinna. Hættan á vöggudauða er enn meiri ef foreldrar eru undir áhrifum áfengis og/eða slævandi lyfja. 

Rannsóknin náði til barna á nýburaaldri til 2ja ára aldurs og stóð yfir í fjögur ár á suðvesturhluta Englands.  Öruggasti svefnstaðurinn fyrir ungabörn er í vöggu við rúmstokk foreldra sinna.  Foreldrum er nú ráðlagt að láta ungabörn sofa á bakinu í vöggunni og mikilvægt er að láta þau aftur í vögguna eftir að þeim hefur verið gefið að næturlagi í stað þess að foreldri sofni með þau á sófa eða í stól. 

Nánar er hægt að lesa um þessa rannsókn hér.

preventing_cot_death.jpg
Önnur orsök vöggudauða er m.a. talin vera truflun á heilastarfsemi ungbarna, sem veldur því að líkami þeirra skynjar ekki súrefnisskort með eðlilegum hætti. Um það má lesa hér.


Fréttir af A(H1N1)v-veirunni

Ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta (President's Council of Advisors) gerir ráð fyrir að helmingur íbúa Bandaríkjanna smitist af 2009 H1N1 inflúensuveirunni. Gert er ráð fyrir að um 1.8 milljón manna þurfi að dveljast á sjúkrahúsin vegna veikinnar og að um 30,000-90,000 muni látast vegna hennar.  

h1n1a.jpg

Séu þessar tölur yfirfærðar á Ísland þá má reikna með að um 1.800 manns þurfi á sjúkrahúsvist að halda hér á landi og að veikin muni leiða til um 30 til 90 dauðsfalla.  Taka verður þessum tölum með miklum fyrirvara þar sem aðstæður eru ekki sambærilegar hér á landi og í Bandaríkjunum. 

Áhættuhópar/áhættuþættir hér á landi, þ.e. þeir sem af einhverjum undirliggjandi ástæðum geta veikst alvarlega eru eftirfarandi:

Alvarlegir hjartasjúkdómar einkum hjartabilun, alvarlegir kransæðasjúkdómar og alvarlegir meðfæddir hjartagallar með vinstra til hægra flæði.
Alvarlegir lungnasjúkdómar þ.á.m astmi sem þarfnast stöðugrar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar.
Alvarlegir efnaskiptasjúkdómar einkum insúlínháð sykursýki og barksteraskortur.
Tauga- og vöðvasjúkdómar sem valda truflun á öndunarhæfni.
Alvarleg nýrnabilun.
Alvarlegir lifrarsjúkdómar sem valda skorpulifur og/eða lifrarbilun.
Alvarlegir ónæmisbrestir
Fjölskyldur barna yngri en 6 mánaða sem eru með ofangreinda sjúkdóma
Þungaðar konur en rannsóknir hafa sýnt að þær eru í aukinni áhættu að sýkjast alvarlega af völdum inflúensunnar.
Offita (>40 BMI).

Fólk með ofangreinda áhættuþætti ættu skilyrðislaust að láta bólusetja sig ef ekkert annað mælir gegn því.

Bólusetning gegn A(H1N1)v leggst ofan á þá árlegu inflúensubólusetningu, sem hefst í október. Bólusetningin er að því leyti sérstök, að hún fer einungis fram á heilsugæslustöðvum, á Landspítalanum og á F.S.A. Bóluefnið er vandmeðfarið og líklega þarf að bólusetja hvern einstakling tvisvar á 3- 4 fjórum vikum til að tryggja hámarksónæmi eða vernd gegn inflúensunni.  Bóluefnið kemur í 10 skammta glösum og þarf að halda því kældu.  Það kemur í tvennu lagi, mótefnavakinn er sér og þarf að blanda honum saman við ónæmisglæðinn þannig að umfangið við bólusetninguna er talsvert og kallar á góða skipulagningu og fjölda starfsfólks.   

Ekki er ástæða til annars en að reikna með því að veirulyf (Tamiflu og Relenza) verki á veiruna sé meðferð hafin innan 48 tíma frá því einkenna veikinnar verður vart. Búast má við, að flest alvarleg tilvik vegna veikinnar verði vegna bakteríusýkinga (f.o.f. í lungum), sem yfirleitt er hægt að ráða við með sýklalyfjum.   

 h1n1b.jpg

Heimildir:
(President's Council of Advisors on Science and Technology. U.S. Preparations for 2009-H1N1 Influenza. August 7, 2009. Available at: http://www.whitehouse.gov/assets/documents/PCAST_H1N1_Report.pdf Accessed September 16, 2009.)
Lyfjatíðindi, 4.tbl. 16. árg. 2009

"Keep it simple!"
BB King

 


Sameiningartákn

Undanfarið hafa þær raddir gerst háværari sem halda því fram að íslensku þjóðina skorti sárlega sameiningartákn. Skorti nú leiðtoga, sem er fyrirmynd annarra, vekur von í brjósti og sem leiðir okkur áfram að sameiginlegu takmarki. Að okkur skorti leiðtoga, sem með eigin athöfnum og æði, sýni í verki hvers við erum megnug, þegar við stöndum saman sem þjóðarheild og að þegar á reynir geti bröltið upp pýramída valds og græðgi vikið um stund fyrir þjóðarhagsmunum. 

Slík stund var í gærkveldi.

Þjóðin sameinaðist um eitt markmið. Að bæta hag þeirra, sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma og slysa. Þar kom fram nýtt sameiningartákn þjóðarinnar en úr þeirri átt þangað sem fáir þora að líta, nema þegar þeir neyðast til þess. Úr þeim skika mannlífsins þar sem lífið snýst ekki um hæstu launin eða glæsilegasta bústaðinn eða fínustu veislurnar. Þar sem lífið snýst frekar um að geta stigið í fæturna, með reisn.

Edda Heiðrún Bachmann leikkona sýndi okkur á sannfærandi hátt hvaða eiginleikum leiðtogi og sameiningartákn þjóðarinnar þarf að vera gæddur. Góð og þörf lexía hjá þér Edda Heiðrún! Um stund reis þjóðin upp og stóð saman vegna þín.
Til hamingju!  

fotlun.jpg

Að hætta

Mönnum reynist oft erfitt að hætta, þrátt fyrir fögur fyrirheit og einbeittan vilja. Að hætta við að hætta er ekki óalgengur kvilli. Ótrúlega margir hafa hætt að reykja og drekka. Í alvöru.

Og síðan hætt við að hætta.

Nú hóta sumir því að hætta að lesa Moggann. Stíga á stokk og strengja þess heit.

Sannleikurinn er sá að ALLIR munu lesa Moggann og blaðið á morgun (eða hinn) verður líklega mest lesna dagblaðið í Evrópu (miðað við fjölda lesenda að sjálfsögðu).

Nú VERÐA allir að lesa Moggann. Hvort sem menn eru með eða á móti.

Spurningin er bara: Hvar og hvernig?

quit.jpg

"Það er engin leið að hætta"...
Stuðmenn

 

Keep it simple!
BB King


Formúla Dan Brown fundin!

Það er vtað mál að Dan Brow notar ákveðna formúli í uppbyggingu spennusagna sinna. Hann byrjar á því að velja einhverja stórborg sem sögusvið og síðan velur hann vondu karlana, þ.e. einhvern hóp dulspekiterrorista. Nýjasta bók hans "Týnda táknið" er engin undnatekning frá þessari formúlu. Þar er sögusviðið Washington DC, höfuðborg Bandaríkjana. Langdon prófessor á þar í höggi við einn eftirminnilegasa skúrk spennusagnanna; Mal'akh.

freem_911305.jpg

Bókin er mjög spennandi eins og aðrar bækur Browns og er óhætt að mæla með henni. Spurningin er bara: Hver getur leikið SATO? (yfirmanninn hjá CIA). Ljóst er, að Brown kann að skrifa spennusögur, kann að fá lesandann til að fletta blaðsíðum, eins og einhver sagði. Hann hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir klaufalegar samræður í bókum sínu, en það er líklega bara eintóm örundsýki?  

Nú geta menn sjálfir sett saman sína eigin spennusögu í anda Dan Brown. Það eina sem þarf til er Dan Brown formúlivélin. Einungis þarf að velja stórborg og einhvern hóp illmenna og sagan skrifar sig sjálf.Enn vantar þó Reykjavík á listann.

  George Washington sem Zeuszeus.jpg


Sönn saga af útrásarvíkingum

Eftirfarandi sögu fékk ég frá starfsbróður mínum í Noregi (nöfnum og staðháttum breytt):

"Það er gríðarlegur sparnaður hjá okkur hér í Noregi og í raun í öllu heilbrigðiskerfinu. Það gríðarlegur halli 1,3 miljarðar Nkr á Oslo Universitetssykehus eins og fyrirbærið heitir núna en þetta er í raun langstærsta sjúkrahús Norðurlanda með um 23.000 starfsmönnum (Ullevål, Rikshospitalet, Radiumhospitalet, Aker sykehus). Kreppan kom aldrei hingað og í raun er farið að aflýsa henni en það er ekki eins og smjör drjúpi af hverju strái hér í Noregi eins og ætla mætti þegar maður les fréttir frá Íslandi. 
...
Það er farið að bera á miklum fólksflutningi íslendinga hingað.  Það eru nú um 6.700 Íslendingar í Noregi.  Álagið á íslenska prestinum hér er þvílíkt.  Safnaðarstjórinn og tveir aðrir tóku upp á því að hafa vaktsíma og skiptast á viku í senn til að taka álagið af prestinum sem er kona sem á sjálf lítil börn sjálf. Þetta er  vegna fólks sem kemur frá Íslandi nánast alslaust og illa undirbúið. Hann var segja mér frá fölskyldu íslenskri ung hjón með tvö börn 3ja og 8 mánaða sem var búið að hafast við í tjaldi síðustu 3-4vikur hérna fyrir utan Ósló þeas í Drammen og var alveg peningalaust.  Það kom á sinni bifreið sem það flutti út til Danmerkur þar sem það ætlaði upphaflega og hafði sent peninga á undan sér til einhverjar íslenskrar konu þar sem sveik þau og bara stal þessu.  Í Danmörku var ekkert neina vinnu að fá og síðan komu þau hingað þar sem enga hjálp var þar að fá.  Þessi vesalings fjölskilda kom náttúrulega að lokuðum dyrum í sendiráðum Íslands í bæði Danmörku og Noregi þar sem sendiráðin hafa nánast ekkert fé og eru í söluferli að mér hefur skilist.  Sendiráðin fá fjárveitingar í íslenskum peningum og ná rétt að hokra og geta ekki hjálpað neitt geta rétt haldið sér uppi með að borga rafmagn og laun.
Kunningi minn er búinn að vera hér í Noregi lengi og hefur góð sambönd við marga útgerðaraðila hér í Noregi hann gat sem betur fer greitt götu þeirra. Komið þeim í húsaskjól og fór með þau á félagsmálastofnunina hér sem lét þeim í hendur  peninga  fyrir mat, gistingu og bensíni á leið þeirra norður til Norður Noregs, þar sem hann hafði komið heimilisföðurnum í vinnu á togara hjá kunningja sínum norskum sem einnig hafði skaffað gott húsnæði fyrir þau.  Já þau héldu norður núna á laugardaginn og þökkuðu honum hjálpina með tárin í augunum.   Já þetta er ein sagan af því miður ótrúlega mörgum hörmungarsögum sem maður hefur heyrt síðustu vikur.  Kunningi minn var meira að segja búinn að ræða við nokkra vinnuveitendur í Norður og Vesturhluta Noregs þar sem vantar vinnufúsar hendur til að geta sent Íslendinga sem lenda á vergangi hér á Óslóarsvæðinu.

Ég sá í íslensku fréttunum að það á að fara að skera niður þjónustuna á Landspítalanum með ráðningabanni og uppsögnum á lausráðnu starfsfólki, því miður held ég að þetta sé aðeins byrjunin á niðurskurðinum sem er varanlegur en ekki neitt tímabundið fyrirbæri á Íslandi.

....Held að fólk þurfi nánast að fá viðvörun. 
Þessi síðasta útrás Íslendinga virðist oft bæði lítt hugsuð og byggist á fyrirhyggjuleysi og innistæðulausri bjartsýni.  Það eru ótal dæmi um að fólk fari úr öskunni í eldinn.
Einn smiður sem ég þekki vel, Íslendingur l búsettur hér í nokkuð mörg ár, duglegur og framtaksamur og auglýsti fyrir skömmu eftir smiðum frá Íslndi, það voru margir sem hringdu en þeir voru fæstir ánægðir með launin enda er hér borgaður skattur og grunnlaun smiða eru ekkert hærri á Norgi en á Íslandi núna eftir hrunið.  Þau voru svo mikið hærri fyrir hrunið.  Það fór svo að af þessum stóra hópi sem hafði samband við hann, hélt að það hefði verið milli 100 og 200 manns var enginn sem kom.  Menn létu liggja að þvi að það væri betra á Íslandi á atvinnuleysistryggingum og að vinna á svörtu skattlaust en að vinna og borga skatt hér í Noregi.

Kveðjur...."


oslo.jpg



Ný bókabúð

Mál og Menning er flutt þ.e bækurnar og fólkið en nafnið var skilið eftir. Húsið á Skólavörðustígnum hýsti áður banka og auðvitað stóran peningaskáp.

Hvernig er best að lýsa nýrri bókabúð? Þar er að finna bækur, blöð, tímarit, ritföng, endalausar hillur, starfsfólk, viðskiptavini, kaffistofu, allt þetta venjulega og hefðbundna, sem tilheyrir bókabúð. Það voru margar nýjar bækur í hillunum, sem ég hafið ekki séð áður. Framsæknar og metnaðarfullar bækur. Óþekktar bækur. Einnig eldri og betur þekktar bækur. Sumar jafnvel orðnar klassískar. Djarfar bækur, feimnar bækur. Bækur um fugla og bækur um steina. Undir einum staflanum fundust jafnvel gamlir vinir, sígildar listaverkabækur, sem alltaf er gaman að rekast á og sem maður hefur vanrækt. En sem gaman væri að kynna sér aftur. 

Mál og Menning heitir nú Penninn eða  Eymundsson. Penninn heitir áfram Penninn eða Eymundsson en glænýja bókabúðin á Laugaveginum þar sem Mál og Menning var áður til húsa heitir nú Mál og Menning.

Eitthvað dularfullt og dálítið svona Kaupthinking...

Ég óska eigendum og starfsfólkinu til hamingju með nýju bókabúðina!  Og bestu kveðjur til hinna

books_sculpture.jpg
Books as sculpture
     

Alheimur eða fjölheimar?

"Hvert orð er atvik"
             Þorsteinn frá Hamri

Árið 2003 var haldin alþjóðleg ráðstefna á vegum Stanford háskólans í Bandaríkjunum, sem nefndist Universe or Multiverse? (Alheimur eða fjölheimar?). Þar leiddu saman hesta sína og hugvit helstu sérfræðingar á sviði stjarnfræði, stjarneðlisfræði og alheimsfræði (cosmology). Aðrar stórar ráðstefnur þar sem svipað efni bar á góma hafa reyndar verið haldnar árið 2001 og 2005. Meðal þátttakenda var hinn heimsfrægi eðlisfræðingur Stewen W. Hawking og margir samstarfsmenn hans.

Umræðuefnið var: "Er einungis til einn heimur, Alheimur  eða eru e.t.v. til margir heimar?"

milkyway.jpg  Vetrarbrautin okkar

Menn hafa hingað til almennt verið þeirrar skoðunar, að við búum í einum stórum alheimi og að allar umræður um fjölheima séu á mörkum vísindalegrar hugsunar og jafnvel út í hött.

milky-way.jpg Vetrarbrautin að næturlagi

Öll umræða og umhugsun hlýtur þó að vera til einhvers gagns. Við eigum þó erfitt með að ímynda okkur að það fyrirfinnast ókunnir heimar, aðskildir okkar eigin "Alheimi" þar sem önnur, óþekkt náttúru- og eðlisfræðilögmál ráða ríkjum. Mörgum þykja slíkar vangaveltur  vera harla fjarstæðukenndar. Deilur hafa auðvitað sprottið upp um nafngiftir og hugtök í þessu sambandi og menn hafa jafnvel deilt um hvort nota beri lítinn eða stóran staf t.d í orðinu alheimur. (Ungfrú Alheimur er þó væntanlega ekki í neinum vafa).  

Ein af ástæðunum fyrir auknum áhuga á hugsanlegri tilvist fjölheima er sú, að slíkar hugmyndir og tilheyrandi tilgátur gefa vissa möguleika á að útskýra tilkomu og myndun alheimsins þ.e. okkar nú þekkta heims. Flestir eðlisfræðingar líta hins vegar alheimsfræðina hornauga og telja hana óvísindalega. Þar taki trúarbrögðin við.

andromedagalaxy_840836.jpg

Andromeda-
nágrannar okkar

Margir frægir skríbentar og mannvitsbrekkur hafa tjáð sig um þetta efni og má þar nefna kunna höfunda svo sem Sheldon Glashow (Nóbelshafi í eðlisfræði og höfund GUT kenningarinnar), Martin Gardner (stærðfræðingurinn ágæti úr Scientific American), George F.R. Ellis (eins konar heimsmeistari í alheimsfræðum) og Paul Davies (eðlisfræðingur og þekktur rithöfundur, sem skrifaði m.a. bókina "Mind of God"). Þessir ágætu menn hafa bent á, að til að skilja umhverfi okkar til fulls í stóru samhengi þurfum við að líta út fyrir hefðbundinn hugmyndaheim okkar og ekki sé hægt að beita hefðbundnum vísindalegum tilraunum við rannsóknir á sviði alheimsfræðinnar. Reynslan sýnir þó, að væntanlega er þess ekki langt að bíða að svo geti orðið. 

mindofgod.jpg

Í þessu samhengi er þó athyglisvert að minnast orða franska heimspekingsins Auguste Comte (höfundur framstefnunnar - positivisma), sem árið 1859 mælti eitthvað á þá leið að:
"Maðurinn mun aldrei nokkurn tímann verða fær um að rannsaka efnasamsetningu fjarlægra stjarna. Framtíðin (framstefnunnar) liggur eingöngu í rannsóknum innan okkar eigin sólkerfis. Alheimurinn verður aldrei rannsakaður með neinum vísindalegum aðferðum."

anthrosophy.jpg

Vissulega má segja, að anthrópósófistar þ.e. þeir sem aðhyllast rök út frá fínstillingu náttúrulögmála alheimsins, sem gerir lífið mögulegt (sbr. The Anthropic Principle) þvælist fyrir kenningum alheimssinna. Skoðanir eru þó almennt mjög umdeildar um þessi efni eða allt frá því að menn trúa því að alheimurinn, hinn eini og sanni, hafi í upphafi, þ.e. fyrir Stóra-Hvell rúmast í einni appelsínu, sem síðan hafi sprungið með látum, upp í það að Guð hafi skapað himinn og jörð á einni viku og svo manninn í sinni mynd. 

What is it that breathes fire into the equations and makes a universe for them to describe?...Why does the universe go to all the bother of existing?
                                                                         Stephen W. Hawking


Margar mikilvægar uppgötvanir hafa nýlega verið gerðar á sviði eðlisfræðinnar, ekki síst á sviði kjarneðlisfræðinnar. Þannig sameinar strengjafræðikenningin lýsingu á öllum þekktum öreindum og víxlverkunum náttúrunnar í einni kenningu. Þessi kenning byggir á grunni skammtafræði og skammtasviðsfræði, sem lýsa hinu örsmáa, en hún á sér einnig rætur í almennu afstæðiskenningunni. Hún er seinni hlutinn í afstæðiskenningu Einsteins og lýsir þyngdinni sem er ráðandi afl í mjög stórum kerfum eins og vetrarbrautum eða alheiminum í heild sinni. 

string.jpg

Ekki er litið á minnstu einingar efnisheimsins, öreindirnar, sem punktlaga agnir í strengjafræði, heldur er þeim lýst sem örsmáum einvíðum strengjum, sem eru svo stuttir að jafnvel með öflugustu mælitækjum nútíma öreindafræði, svonefndum agnahröðlum, er ekki hægt að greina lengd þeirra og því koma þeir fram í tilraunum eins og punktlaga agnir.

Ofurstrengjafræðinni hefur svo aftur tekist að troða þyngdarlögmálinu með í súpuna. Einstein lýsti á sínum tíma yfir andstöðu sinni við kenningum skammtafræðinnar en entist því miður ekki aldur til að betrumbæta þær.

m-theory.jpg

Menn hafa m.a. verið að velta fyrir sér líkönum, sem fela í sér að nýir alheimar séu sífellt að verða til og aðrir að hverfa. En það er ekki auðvelt að sýna fram á þetta með vísindalegum rökum. Sumir telja að slíkir heimar þenjist út í rúmi, aðrir að þeir þenjist út í tíma og enn aðrir að þeir þenjist út bæði í tíma og rúmi. Hinn kunni eðlisfræðingur Stephen Hawking hefur andmælt því að heimurinn getir þanist út í hið óendanlega, því það samrýmist ekki lögmálum skammtafræðinnar. Það þýddi að alheimurinn eigi sér ekkert (þ.e. óendanlegt) upphaf og brjóti einnig í bága við Hartle–Hawking kenninguna um uppruna alheimsins.

galaxies.jpg
Þyrping fjarlægra stjörnuþoka


Þetta hefur leitt til smíði M-kenningarinnar (M-Theory). Þessi kenning á að geta sameinað alla frumkraftana (þyngdarkraftinn, segulkraftinn og veika og sterka rafkraftinn) í einn kraft og svarað öllum spurningum um forsögu og framtíð alheimsins. Það virðist þó borin von, að hægt sé að sameina öll lögmál eðlisfræðinnar undir einum hatti.  Fram hafa þó komið hugmyndir um svokallað "strengjalandslag" (string landscape scenario - sem  mætti e.t.v. fremur kalla "strengjaatburði).

string_theory_a.png

Nú er alheimurinn í augum sumra eðlisfræðinga í raun ekkert annað en samband á milli atburða og fátt, sem hægt er að stóla á. Allt í þessum heimi sé einungis samband milli atburða, og við öll þar með talin, ég og þú. Þetta gefur möguleika á hugsanlegum fjölheimum, þar sem hver heimur stjórnast af sínum eigin lögmálum. Mörkin á milli anda og efnis, lífs og dauða, framtíðar og fortíðar, eins heims og annars eru smá saman að þurrkast úr.   

string_landscape.jpg

Það eitt, að færustu sérfræðingar á sviði eðlisfræði og stjörnufræði skuli eyða miklum tíma og fyrirhöfn í að ræða möguleika á tilvist fjölheima gefur til kynna, að slíkar hugmyndir hafi vakið talsverða athygli vísindamanna. Ekkert er þó enn fast í hendi á þessu svið i og því er ljóst að "besta mamma í heimi" verður áfram besta mamman í öllum heiminum, a.m.k. enn um sinn.
Þar til annað sannast.   


Keep it Simple!
BB King

 

 

 

 

 

 

ref.
http://thesciencenetwork.org/programs/origins-symposium/panel-1-how-far-back-can-we-go
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=171
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=5953
http://web.uvic.ca/~jtwong/Hartle-Hawking.htm

ttp://susy06.physics.uci.edu/talks/p/linde.pdf
http://www.stanford.edu/~alinde/PowerPoint/Paris2008.ppt


Áhugaverður hlekkur:
Cassiopeiaproject.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband