Stokkhólmsheilkennið og stjórnarskráin

Horfði í gær á þátt í sænska sjónvarpinu um hann Jóhann Gustafson frá Smálöndum í Suður Svíþjóð. Duglegur ungur drengur sem fór á mótorhjóli um Afríku ásamt vinum sínum. Í Malí datt þeim í huga að skoða borgina Timbuktu, aðallega til að merkja við hana á ferðakortinu. Þar var honum og félögum hans rænt af al-Qaeda skæruliðum og haldið í gíslingu í rúm fimm ár (þ.e. í rúmt eitt kjörtímabil). Til þess að friðmælast við ræningjana þá tók hann múslimatrú og þá voru honum skyndilega allir vegir færir. Í stað þessa að kúldrast einn í búri í brennheitri Sahara eyðimörkinni á daginn og henni ískaldri á kvöldin drakk hann nú te með mannræningjunum, fékk sama mat og þeir, spjallaði kumpánlega við þá við varðeldinn og gat hreyft sig um að vild. Sem múslimi átti hann það ekki á hættu að vera tekinn af lífi. Honum þótti orðið vænt um ræningjana. Johann þakkar sínum sæla fyrir að hafa lesið um sænska bankaræningjann Jan-Erik Olsson sem „fann upp“ Stokkhólmsheilkennið árið 1973. Allir gíslar hans elskuðu og dáðu „Janne Olson“.

johann_gustafson
Gíslarnir í eyðimörkinni fyrir trúarskiptin

Þingmenn sjálfstæðisflokksins eru nú í sömu aðstæðum Johann hinn sænski í eyðimörkinni og gíslarnir í sænska bankanum við Norrmalmstorg. Þeim hefur verið rænt. Til þess að fá að drekka te með forystunni, spjalla óheft um menn og málefni og eiga það ekki á hættu að vera útskúfaðir þurfa þeir að samþykkja allar tilskipanir ESB, sama hvaða nafni þær nefnast, jafnvel þær sem stangast á við stjórnarskrána, og alla almenna skynsemi. Þeir fá jafnvel að skrifa greinar í Moggann um stefnu Sjálfstæðisflokksins og halda flokkráðsfundi svo lengi sem þeir minnast ekki einu orði á að þeim hafi verið rænt, 3. orkupakkann og alls ekki Bókun 35.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Júlíus, hvaða ár varð bókun 35 skuldbindandi fyrir Ísland skv. íslenskum lögum? Eða er hún það kannski bara ekki?

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 15.9.2023 kl. 14:23

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Íslendingar hafa aldrei samþykkt pólitískt samband við ESB eða pólitisk yfirráð ESB vegna EES-samningsins sem var upphaflega tvíhliða viðskiptasamningur. Menn fela sig gjarnan á bak við frasa svo sem "þjóðréttarlegar skuldbindingar" en mér vitanlega hefur Ísland aldrei skuldbundið sig til að yfirfæra löggjafarvald Alþigis til ESB eða aðra hluta af fullveldi Íslands.Vandamálið er að hagsmunaaðilar og útsmognir ólíkarkar í þessu landi nota EES-samninginn sem hækju til að ná yfirráðum yfir auðlindum Íslands þ.e. þær sem eftir eru. Hafi þeir hinir sömu skömm fyrir! 

Júlíus Valsson, 15.9.2023 kl. 14:30

3 identicon

Það er greinilega þörf að rifja upp staðreyndir. Íslendingar hafa einmitt samþykkt pólitískt samband við ESB með EES-samningnum. Hann var aldrei tvíhliða viðskiptasamningur, heldur milli margra landa, annars vegar, og ESB, hins vegar. EES-samningurinn, þar með bókun 35 var lögfestur 1993. Hann er því miklu meira en þjóðréttarleg skuldbinding.

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 15.9.2023 kl. 15:05

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Það má auðvitað hafa mismundandi skoðanir á því hvað sé „tvíhliða“ samningur og hvað ekki en þegar sá möguleiki er fyrir hendi fyrir EFTA-þjóð að ná fram sérstökum undanþágum þó svo þær séu einungis tímabundnar hvað á þá að kalla slíkan samning? Það er ljóst að í vissum skilningi er EES-samningurinn hrein pólitísk gildra þ.e. hann er mun meira íþyngjandi fyrir okkur en menn hafði grunað. Bókun 35, sem er í raun lögskýringarregla, fjallar einmitt um að staðfesta forgangsreglu Evrópuréttar þ.e. þar er einfaldlega um að ræða íslenskt fullveldisafsal. Evrópska efnahagssvæðið (EES) var stofnað á sínum tíma til þess að færa út ákvæði ESB um innri markað, til ríkja fríverslunarsvæðisins (EFTA), ríkja sem ekki vildu ganga í ESB. Sviss hafði þó vit á því að standa fyrir utan EES, sem við hefðum einnig átt að gera. EES-samningurinn fjallar um fjórfrelsið sem er í raun stjórnarskrá ESB og sem færir réttindi og skyldur innri markaðar ESB yfir til EFTA-ríkjanna sem taka þátt í EES. Íslenska þjóðin hefur aldrei samþykkt þetta pólitíska samband við ESB. Hún hefur einfaldlega aldrei verið spurð!

Júlíus Valsson, 15.9.2023 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband